29 nóvember, 2011

Kominn tími til að hætta.

"Egocentric," eftir Tyler Philips.
Nú er rétt að boða til kosninga af þessum tveim ástæðum:

a. Sjálfshyggjan er of mikil til að vinstri stjórn fái starfað í þessu landi.

b. Sjálfstæðisflokkurinn þráir svo að sýna þjóðinni hvað hann er góður, eftir allt sem á undan er gengið, að "þjóðin öll" mun fá allt sem hún vill.

Koma svo!

27 nóvember, 2011

Tollbúðin: Hrófatildur eða lítillátur minnisvarði

Það sem hér birtist á sér þá sögu, að frá því var sagt í vefmiðli nokkrum að forstjóri Skipulagsstofnunar teldi byggingaleyfi sem gefið var út vegna svokallaðrar Þorláksbúðar í Skálholti, sé ólöglegt. Mér finnst nú ótrúlegt hvernig hægt er að bera á borð fyrir þá, sem á annað borð nenna að fylgjast með þessum farsa, svo misvísandi skilaboð sem raun ber vitni. Því var það að ég skellti eftirfarandi inn á fésbókarsíðu mína, ásamt tilvísun í söguna í vefmiðlinum:
Þetta er afskaplega einkennilegt mál. Hvernig í ósköpunum má það vera að þetta hrófatildur skuli vera komið svo langt sem raun ber vitni? Það vantar svar við því. Menn geta ekki þeytt yfir landslýð bara hverju sem er, beðist svo fyrir, fyrir áeggjan einhverra ótilgreindra bænda í Biskupstungum.
Þá virðist þetta benda til þess, að þau kerfi sem halda utan um bygginga- og skipulagsmál séu heldur betur að klikka. USS
Hvaða hagsmunum er verið að þjóna með þessari taktlausu tollbúð við kirkjuvegginn? Hefur hún tilgang, annan en sem einhverskonar sýnidæmi um það hvernig við Íslendingar byggðum áður fyrr?
Það er kominn tími til að fá alla tilurð þessa upp á borðið svo ekki verði véfengt.
Viti menn, ég fékk viðbrögð þar sem það var rifjað upp fyrir mér að ég hafi átt sæti í sveitarstjórn Biskupstungnahrepps þegar deiliskipulagið sem um er að ræða var samþykkt (í minnihluta reyndar, en held ekki að deilur hafi verið uppi um skipulagsmál). Gat það verið að ég væri þarna búinn að hlaupa heldur betur á mig með kröfum mínum um að sannleikurinn komi nú í ljós í málinu?
Drífa Kristjánsdóttir Man ekki betur en að þú hafir sjálfur verið í sveitarstjórn þegar hreppsnefnd Biskupstungna samþykkti deiliskipulagið sem er í gildi fyrir Skálholt og nú er verið að vinna eftir. Samþykktin var gerð sumarið 1996 fyrir 15 árum og á að vera í gildi skv. skipulagslögum þótt fyrrverandi skipulagsstjóri og núverandi forstjóri Skipulagsstofnunar beri brigður á eigin verk og lög.
Ég tók mér heila nótt til að leita viðeigandi svara við þessu og niðurstaðan varð þessi: 
Nú, nú, hvurslags er þetta?! Hafi ég lagt blessun mína yfir byggingu þessa lágreista og lítilláta minnisvarða um fyrri dýrðartíma í Skálholti, þá horfir málið auðvitað öðruvísi við, og þá ég veit hvað er rétt og rangt í þessu máli. Það er það sem skiptir máli. Það gengur auðvitað ekki að stjórnsýslan/stjórnvöld/áhugamannanefndir sendi frá sér svo misvísandi skilaboð sem raun ber vitni, þar sem sannleikurinn hlýtur að vera til, undirritaður með pomp og pragt. Það er nú ekki lítið ferli sem deiliskipulag þarf að fara í gegnum. Það sem enn vefst fyrir mér er (eða ég man ekk): var það deiliskipulagstillaga Péturs eða Reynis sem varð ofan á. Annar var nefnilega fenginn til að skipuleggja, man ég, og þá kom hinn og kvaðst eiga tilkall til að skipuleggja í Skálholti.
 Málið lét mig ekki í friði svo ég fór að leita á vefnnum í von um að finna téð deiliskipulag í skálholti. Það næsta sem ég komst því var á vefsjá Skipulagsstofnunar. Þar var að ekki að finna neitt deiliskipulag fyrir Skálholt, en það þarf svosem ekki að vera neitt undarlegt. 
Þetta er að finna í RUV um málið frá 25. nóvember og því skellti ég á fésbók mína:
‎"Deiliskipulag fyrir Skálholt var unnið 1996, sem sveitarstjórn vísar í, sé ekki í gildi, því það hafi ekki fengið þá málsmeðferð sem þurfti. Þá sé Þorláksbúð sýnd á skipulaginu sem rúst en ekki sem byggingarreitur. Ef byggt verði yfir Þorláksbúð, sé það breyting, og þá þurfi að breyta deiliskipulagi, og gera grein fyrir hæð byggingarinnar og fleiru." 
Þrátt fyrir að ég hafi setið í sveitarstjórn 1996, er enn óljóst hvernig va farið með deiliskipulag í Skálholti. Er það yfirleitt til? Ef svo er, er þá ekki hægt að skoða það bara? Vantar kannski einhverja stilmpla á það?  Hvað þýðir þetta sem haft er eftir forstjóra Skipulagsstofnunar: "..það hafi ekki fengið þá málsmeðferð sem þurfti".  Hvar fórst sú málsmeðferð fyrir - hjá sveitarstjórn Biskupstungnahrepps? - Skipulagi ríkisins?
Hvað sem því líður þá bætti ég þessu við á fésbók minni:
Nú er það spurningin: Samþykkti ég byggingu þarna, eða staðfesti að þarna væri rúst? Mér finnst ótrúlegt að heimild til byggingar sé að finna í deiliskipulagi frá 1996, þó ekki væri nema vegna þess, að á þeim tíma var hreint allt bannað sem hugsanlega gæti breytt ásýnd Skálholtsstaðar. Ég yrði ekki ósáttur við að fá þetta á hreint.

Það á nú ekki að vera erfitt að fá botn í þetta mál - eða hvað?  Er ekki best að gera það og halda svo áfram, hvort sem torfkofinn síðan telst vera hrófatildur eða lítillátur minnisvarði, annað hvort um dýrðardaga Skálholts meðal þjóðarinnar, nú, eða um eitthvað annað og síður viðeigandi á þessum helga stað.

24 nóvember, 2011

Frekjuþjóð sem býr við félagslegt réttlæti.

Reiðilestur eftir lognmollu að undanförnu.

Við erum dálítið eins og illa uppalinn og óhemju frekur krakki, þessi þjóð. Það er eins og það sé búið að taka af okkur tölvuleikinn, taka af okkur snjallsímann, taka af okkur íspinnann, eða hvað það nú er, skammvinnra gleðigjafa sem við höfum leitað og leitum í. Við erum tækjaóð, nýjungaóð, og réttindaóð. Við þolum ekki þegar eitthvert apparat er að setja okkur einhverjar skorður. Við gerum öfgakenndari kröfur um félagsleg réttindi en flestar aðrar þjóðir. 

Það er einkenni á frekjudósum, að þær sjá ekkert nema naflann á sjálfum sér. Ég á rétt á að fá niðurfellingu, ég á rétt á að geta keypt mér einbýlishús, ég á rétt á að geta farið til útlanda þrisvar á ári. Ef við fáum ekki það sem við teljum okkur eiga rétt á, förum við í fýlu, út í bara einhvern annan en okkur sjálf.

Kannski eigum við að fara að taka mið af því í lífi okkar að hér á landi er félagslegt réttlæti meira en í öðrum löndum. Enn og aftur að einhver útlendingur að segja okkur hvað við höfum það í rauninni gott.  Við erum ótrúlega upptekina af að vorkenna sjálfum okkur og kenna öðrum um hvernig komið er. Við blásum á það hvernig aftur og aftur einhverjir útlendingsvitleysingar þykjast geta sagt okkur hvað við erum heppin að búa hér.

Æ, þessi freka þjóð!

22 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 þar sem Harpa er


Þá er best að ljúka þessum greinaflokki með því að gera lítillega upp einn megintilgang ferðar okkar fD til höfuðborgarinnar um síðustu helgi.

Tónlistarhúsið Harpa er margrætt á ýmsum vettvangi. Við komum inn í það hús, enda nauðsynlegt þar sem þar er sýnd þessa dagana Töfraflautan eftir hann Mozart. Við fyrstu sýn virkar þessi bygging ágætlega á mig, að innanverðu þó mér finnist rýmið fyrir utan salina vera ógnarstórt og undirlagt tröppum sem síðan reynast varla duga til að flytja fólksfjöldann sem er að koma af sýningu. Það var allavega talsverður tappi þegar leið lá niður af þriðju hæð.
Eldborgarsalurinn er ógurlega fínn og öll var þessi óperureynsla ágæt. 
Tenórar sýningarinnar áttu þó aldrei séns. Það vissi ég nú fyrirfram. Hér á bæ er bara um að ræða einn tenór sem telst sæmilega boðlegur. Ég reyndi að vísu að taka framlagi tenóranna opnum huga, en þeir náðu ekki því flugi sem ég hefði viljað sjá. 
Aría næturdrottningarinnar var afar glæsileg hjá Diddú. 
Bassinn, Sarastro,  fannst mér eiga í nokkru braski með dýpstu tónana - kannski voru þeir fyrir neðan það tíðnisvið sem heyrn mín ræður orðið við. 
Papageno var nokkurn veginn eins og hann á að vera - hæfilega kómískur. 
Þóra Einarsdóttir hefur afskaplega fallega rödd, en hún var Pamina. 
Sviðsetningin var mjög skemmtilega útfærð. 

Ég er með þessum skrifum ekki að þykjast vera einhver gagnrýnandi - það er nóg af þeim. Ég er bara svona að dufla við að vera gagnrýnandi.

21 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101 pöbbana

Það er ekki svo sjaldan sem maður heyrir fólk tala um að það hafi farið á pöbbarölt og þá yfirleitt sem eitthvað jákvætt að mikilvægt þegar fólk heimsækir 101 um helgar.
Það var eitt markmið heimsóknar okkar fD að fara á svokallað pöbbrölt, allavega eins og okkar skilningur var á því orði: rölta á milli pöbba, kíkja inn hér og þar, renna úr bjór og halda síðan áfram. Þetta hljómar afskaplega skemmtilega eitthvað.

Þegar Töfraflautunni var lokið hafði veður breyst þó nokkuð: það var komið hvassviðri og rigningarhraglandi. Þar með var hugmyndin um rölt fyrir bí, nú snérist þetta meira um að drífa sig á milli pöbba (PÖBBADRÍF), eða réttara sagt, að drífa sig á milli pöbba sem fD tók í mál að fara á. T.d. vildi hún ekkert með Monte Carlo, taldi sig hafa heyrt eitthvað misjafnt um þann stað. 
Hún vildi ekki heldur fara inn á einhvern stað sem er á efstu hæð strætóhússins fyrrverandi á Lækjartorgi, hún vildi heldur sem minnst vita af því sem kynni að vera að finna í nýuppgerðum brunarústunum á sama torgi.
  Það var hún sem hafði frumkvæði að því að fyrsti pöbbinn sem ráðist var inn í ber nafnið B5 (frumlegt nokk) sem er á Bankastræti 5. Staður þessi var ekki fjölsóttur. Þarna inni, í frekur kuldalegum húsakynnum, þar sem var óþægilega hátt til lofts, innréttingarnar voru óaðlaðandi og engin tónlist, var eitthvað sem virtist vera samstarfsmannahópur ca. 8 manns, 8 StarWarsnördalegir karlmenn um þrítugt, og síðan einhver 3-4 pör fákunnandi útlendinga. Í stórmennsku minni bauð ég fD  upp á bjór, sem var þegið, ég pantaði, fékk og greiddi - hálfur lítri á mann. Þarna varð strax ljóst að úr þessu yrði ekki um að ræða neitt sem héti pöbbarölt - eða pöbbadríf - kannski pöbbaslag eða pöbbaskríð (æ, þetta er nú bull). Það tók langan tíma að ljúka þessu bjórglasi, ekki síst þar sem ég get ekki drukkið þennan vökva svo vel sé. Það er með engu móti hægt að halda því fram að þessi staður hafi hentað okkar aldri - hefðum getað verið foreldrar allra sem þarna voru.  Sá tími sem við eyddum þarna inni var ekki nýttur í neitt annað en að ljúka við bévítans bjórinn, sem tók nú tímann sinn. Tókst þó og ég uppþembdur.

Ekki taldist rétt að drífa sig á næsta pöbb fyrr en að lokinni hvíld í lúxusíbúðinni. Hvíldin gekk vel. Aftur héldum við fD út á lífið. Nú lá leiðin á pöbb sem kallast Ölstofa Kormáks og Skjaldar. Á þessari ölstofu eru ekki gluggar þannig að ekki vissum við hvað tæki við þegar inn var komið. Ég gekk ákveðnum skrefuð að útdyrunum og opnaði. Þarna var ekkert anddyri, maður var umsvifalaust kominn inn þar sem all var sem var. Þarna var mikll fólksfjöldi miðað við stærð húsnæðisins, sem er þannig hannað að á miðju gólfi er bar, sem er ótrúlega stór í hlutfalli við annað. Við veggina voru síaðn stólar og einhverjar borðnefnur og stólar. Milli útveggja og bars eru svona um það bil 1,5 metrar. Það getur verið að þarna sé eitthvað meir, en við fD gengum þarna einn hring í kringum barinn í gegnum kraðak fólks sem, enn og aftur hefði getað verið börnin okkar. Þarna eyddum við um það bil 5 mínútum. Þarna lauk pöbbaröltinu/drífinu.

Niðurstaða mín þessi eftir þessa reynslu:
Pöbbarölt er ofmetið - í það minnsta fyrir það fólk og aðstæður allar, sem hér var um að ræða.

20 nóvember, 2011

Kvisthyltingar heimsækja 101

Á meðan helbláir fréttamenn lögðu útvarp allra landsmanna undir frásagnir af hverju einasta prumpi skoðanabræðra og systra sinna í Laugardalshöllinni, héldum við fD í höfuðborgina í þeim tilgangi að slá fimm flugur í einu höggi:
1. Dvelja á hóteli eina nótt.
2. Finna góðan veitingastað og snæða þar.
3. Fara á pöbbarölt
4. Líta augum innviði nýja tónlistarhússins okkar.
5. Sjá "Töfraflautuna"
Hver og einn þeirra þátta sem þarna er nefndur verðskuldar sannarlega, a.m.k. eins og eina færslu á þessu svæði, en ég reikna ekki með að ég nenni að standa í því. Þar fyrir utan var sumt það sem þarna gerðist ekki þess eðlis að það eigi erindi inn á svo víðlesið svæði og hér er um að ræða.

Ætli sé ekki svona rúm vika síðan ég fann íbúðahótel í miðborginni sem borgaði nánast með sér. Mér fannst að það hlyti að vera maðkur í mysunni. Um leið og ég var búinn að bóka og borga fór ég að ímynda mér allskyns hrylling um þetta hótel, sem ber nafnið "Room with a view". Bara það, að hótel skuli ekki bera íslenskt nafn, er í sjálfu sér ávísun á að eitthvað spúkí sé í gangi. Var kannski ekkert salerni í íbúðunum? Snéru herbergisgluggarnir út að aðaldyrum skemmtistaðar? Ætli vantaði kannski dýnur í rúmið?
Ég lét auðvitað ekkert á neinum svona pælingum bera við fD. Hún  vissi bara um glæsilegt íbúðahótel í sama húsi og Mál og Menning í hjarta höfuðborgarinnar, neðarlega á Laugavegi, í göngufæri frá Hörpunni.
Í gær var síðan brunað í bæinn. Niður Laugaveginn var ekið á eins til tveggja kílómetra hraða á klukkustund og þegar við loks komumst á hornið hjá M&M, þar sem átti að beygja upp til vinstri upp Vegamótastíg, þá ætlaði það nú varla að ganga vegna fólksfjöldans  Ég þarf nú ekki að taka það fram að það var ekkert um að ræða, að leggja bíl við Laugaveginn. Hótelið lofaði hinsvegar á síðunni sinni, að íbúð fylgdi frítt bílastæði. Bakvið hús M&M fann ég bílastæði hótelsins, sem gaf nú ekki beinlínis fyrirheit um glæsileika. Þetta var svona svæði á bakvið, eins og slík svæði eru. Þarna voru ruslatunnur, moldarhrúgur, hellubrot, stillansar, veggjakrot og fleira óaðlaðandi og pláss fyrir 5-6 bíla, eftir því hvernig lagt var. Og, viti menn, þarna var laust stæði, sem ég renndi inn í. Þarna bakvið húsið voru engin önnur merki um íbúðahótelið en lítið skilti þar sem þess var getið að þetta væri bílastæði þess. Því hófst  leit að "Room with a view". Við fD gengum niður á Laugaveg og inn í verslun M&M til að spyrjast fyrir um hvar væri helst að leita að dyrum. Búðin var, eins og aðrir hlutar Laugavegs, í kreppunni, full af fólki að skoða og kaupa bækur. Allir starfsmenn uppteknir og ég vildi ekki vera að ryðjast inn í spekingslegar umræðurnar með spurningu hvernig ég gæti fundið hótel sem var í þessu sama húsi.
Þar kom þó að mér tókst að ná sambandi við starfsmann á milli kúnna. Hann sagði að þegar við kæmum úr færum við til hægri þar til við kæmum að dyrum sem væru merktar hótelinu. Fyrir innan þær væri hægt að sjá möttökuna, en það þyrfti kóða til að komast inn. 
KÓÐA til að komast inn á hótel!!?? Mér var nú að verða hætt að lítast á blikuna.


Út fórum við og til hægri. Sviplaus framhlið húsanna þarna gaf lítið til kynna um að þarna væri hótelinngangur. Við nánari athugun gat ég greint nafn hótelsins í glerinu á dyrum þess. Þegar við rýndum í gegnum glervegginn mátti sjá möttökuna, langt inni í iðrum hússins. Við hliðina á dyrunum var síðan takkaborð, væntanlega til að slá inn áðurnefndan kóða. Þar mátt ennfremur sjá spjald þar sem bent var á að það þyrfti að slá inn töluna 11 til að ná sambandi við móttökuna. Það gerði ég og umsvifalaust opnuðust rennidyrnar og við gengum inn í 2007-lega móttökuna, sem reyndist svo forsmekkurinn að því sem beið okkar í íbúð 512. (slatti af myndum úr henni) 


Það reyndust ekki vera neitt afskaplega miklar ýkjur  sem segir á vefsíðunni:

Luxury Apartment Hotel in Reykjavik city center


Íbúðin reyndist hin flottasta og þegar við bætist síðan verðið sem við greiddum fyrir herlegheitin var þetta bara nánast stórfenglegt. Gluggar snéru frá Laugavegi, þannig að ekki urðum við vör að hliðarverkanir skemmtanalífsins. Við blöstu bæði Hallgríms- og Landakotskirkja auk ýmissa minnismerkja um bóluna.
Nú ættu þeir hjá "Room with a view" að huga að nafnbreytingu. Mér finnst t.d. nafnið. 
"Íbúð með útsýni" 
koma vel til greina. 

17 nóvember, 2011

Andans auður í athugasemdunum

Sagði ég það?


Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert annað enn skipulögð glæpasamtök.
 Mun meiri ástæða til að fjarlæga hyskið úr alþingishúsinu sem er til lítilsvirðingar fyrir þjóðina.
 Ef að það var eina leiðin til að stöðva gerræðisleg vinnubrögð Steingríms, í máli sem hefur fengið sömu baktjaldamakks og bakherbergja afreiðslu og HRUNASTJÓRNIRNAR stunduðu. Þá er ég samþykkur þeim. Þetta hefur jú Steingrímur sjálfur oft stundað. Og enginn sagði neitt þá
 Þeir þingmenn sem voga sér að samþykkja svona vinnubrögð og þora ekki að standa í lappirnar og á sannfæringu sinni, gegn foringja og flokksræðinu eiga ekki heima á Alþingi.
Höfum við Íslendingar ekkert lært frá hruni?
Er skýrsla rannsóknarnefndar endanlega gleymd?
Ætlum við að halda áfram að láta fámennan hóp eiginhagsmunapotara og pólitíkusa, ráðskast með öll fjármál okkar án þess að málin fái EÐLILEGA og LÝÐRÆÐISLEGA umfjöllun.
Og það á ALÞINGI

Hvernig fórum við Íslendingar eiginlega að áður en við fengum í hendur möguleikana sem nú bjóðast, á að tjá okkur opinberlega þannig, að hver sem er getur lesið og dáðst að frumleika okkar, sköpunarkrafti, stórmennsku, og hvaða öðrum jákvæðum eiginleikum sem birtast með spekinni sem út úr okkur flæðir.

Þetta er yndislegra en orð fá lýst. Þarna höfum tækifæri til að stuðla að jákvæðum breytingum á samfélaginu, getum hvatt áfram þá sem setja fram efnilegar hugmyndir, sem miða að því að byggja upp landið okkar og skapa því glæsta framtíð.

Þarna blasir við magnað tækifæri til að gera gott fyrir land og þjóð.

Ég tók af handahófi 5 dæmi úr athugasemdakerfi fréttamiðils - þau eru hér fyrir ofan.

Eftir lestur svona texta líður mér alltaf jafn vel. Það er sensasjón sem ég vil. Ég finn fyrir fullnægingartilfinnigu, og þakka Guði fyrir að það skuli vera til fólk sem getur komið skoðunum mínum svo vel á framfæri fyrir mig. Ég nýt þess að lesa þetta og fæ miklu skýrari sýn að þjóðfélagsmálin. Þarna er á ferðinni gott fólk sem talar með hag okkar allra að leiðarsljósi. Það er nákvæmlega svona fólk sem ég vil að taki við stjórn landsins. Þá myndi sannarlega ekki væsa um okkur, eða.....................................................................................
....................................................................




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...