27 nóvember, 2011

Tollbúðin: Hrófatildur eða lítillátur minnisvarði

Það sem hér birtist á sér þá sögu, að frá því var sagt í vefmiðli nokkrum að forstjóri Skipulagsstofnunar teldi byggingaleyfi sem gefið var út vegna svokallaðrar Þorláksbúðar í Skálholti, sé ólöglegt. Mér finnst nú ótrúlegt hvernig hægt er að bera á borð fyrir þá, sem á annað borð nenna að fylgjast með þessum farsa, svo misvísandi skilaboð sem raun ber vitni. Því var það að ég skellti eftirfarandi inn á fésbókarsíðu mína, ásamt tilvísun í söguna í vefmiðlinum:
Þetta er afskaplega einkennilegt mál. Hvernig í ósköpunum má það vera að þetta hrófatildur skuli vera komið svo langt sem raun ber vitni? Það vantar svar við því. Menn geta ekki þeytt yfir landslýð bara hverju sem er, beðist svo fyrir, fyrir áeggjan einhverra ótilgreindra bænda í Biskupstungum.
Þá virðist þetta benda til þess, að þau kerfi sem halda utan um bygginga- og skipulagsmál séu heldur betur að klikka. USS
Hvaða hagsmunum er verið að þjóna með þessari taktlausu tollbúð við kirkjuvegginn? Hefur hún tilgang, annan en sem einhverskonar sýnidæmi um það hvernig við Íslendingar byggðum áður fyrr?
Það er kominn tími til að fá alla tilurð þessa upp á borðið svo ekki verði véfengt.
Viti menn, ég fékk viðbrögð þar sem það var rifjað upp fyrir mér að ég hafi átt sæti í sveitarstjórn Biskupstungnahrepps þegar deiliskipulagið sem um er að ræða var samþykkt (í minnihluta reyndar, en held ekki að deilur hafi verið uppi um skipulagsmál). Gat það verið að ég væri þarna búinn að hlaupa heldur betur á mig með kröfum mínum um að sannleikurinn komi nú í ljós í málinu?
Drífa Kristjánsdóttir Man ekki betur en að þú hafir sjálfur verið í sveitarstjórn þegar hreppsnefnd Biskupstungna samþykkti deiliskipulagið sem er í gildi fyrir Skálholt og nú er verið að vinna eftir. Samþykktin var gerð sumarið 1996 fyrir 15 árum og á að vera í gildi skv. skipulagslögum þótt fyrrverandi skipulagsstjóri og núverandi forstjóri Skipulagsstofnunar beri brigður á eigin verk og lög.
Ég tók mér heila nótt til að leita viðeigandi svara við þessu og niðurstaðan varð þessi: 
Nú, nú, hvurslags er þetta?! Hafi ég lagt blessun mína yfir byggingu þessa lágreista og lítilláta minnisvarða um fyrri dýrðartíma í Skálholti, þá horfir málið auðvitað öðruvísi við, og þá ég veit hvað er rétt og rangt í þessu máli. Það er það sem skiptir máli. Það gengur auðvitað ekki að stjórnsýslan/stjórnvöld/áhugamannanefndir sendi frá sér svo misvísandi skilaboð sem raun ber vitni, þar sem sannleikurinn hlýtur að vera til, undirritaður með pomp og pragt. Það er nú ekki lítið ferli sem deiliskipulag þarf að fara í gegnum. Það sem enn vefst fyrir mér er (eða ég man ekk): var það deiliskipulagstillaga Péturs eða Reynis sem varð ofan á. Annar var nefnilega fenginn til að skipuleggja, man ég, og þá kom hinn og kvaðst eiga tilkall til að skipuleggja í Skálholti.
 Málið lét mig ekki í friði svo ég fór að leita á vefnnum í von um að finna téð deiliskipulag í skálholti. Það næsta sem ég komst því var á vefsjá Skipulagsstofnunar. Þar var að ekki að finna neitt deiliskipulag fyrir Skálholt, en það þarf svosem ekki að vera neitt undarlegt. 
Þetta er að finna í RUV um málið frá 25. nóvember og því skellti ég á fésbók mína:
‎"Deiliskipulag fyrir Skálholt var unnið 1996, sem sveitarstjórn vísar í, sé ekki í gildi, því það hafi ekki fengið þá málsmeðferð sem þurfti. Þá sé Þorláksbúð sýnd á skipulaginu sem rúst en ekki sem byggingarreitur. Ef byggt verði yfir Þorláksbúð, sé það breyting, og þá þurfi að breyta deiliskipulagi, og gera grein fyrir hæð byggingarinnar og fleiru." 
Þrátt fyrir að ég hafi setið í sveitarstjórn 1996, er enn óljóst hvernig va farið með deiliskipulag í Skálholti. Er það yfirleitt til? Ef svo er, er þá ekki hægt að skoða það bara? Vantar kannski einhverja stilmpla á það?  Hvað þýðir þetta sem haft er eftir forstjóra Skipulagsstofnunar: "..það hafi ekki fengið þá málsmeðferð sem þurfti".  Hvar fórst sú málsmeðferð fyrir - hjá sveitarstjórn Biskupstungnahrepps? - Skipulagi ríkisins?
Hvað sem því líður þá bætti ég þessu við á fésbók minni:
Nú er það spurningin: Samþykkti ég byggingu þarna, eða staðfesti að þarna væri rúst? Mér finnst ótrúlegt að heimild til byggingar sé að finna í deiliskipulagi frá 1996, þó ekki væri nema vegna þess, að á þeim tíma var hreint allt bannað sem hugsanlega gæti breytt ásýnd Skálholtsstaðar. Ég yrði ekki ósáttur við að fá þetta á hreint.

Það á nú ekki að vera erfitt að fá botn í þetta mál - eða hvað?  Er ekki best að gera það og halda svo áfram, hvort sem torfkofinn síðan telst vera hrófatildur eða lítillátur minnisvarði, annað hvort um dýrðardaga Skálholts meðal þjóðarinnar, nú, eða um eitthvað annað og síður viðeigandi á þessum helga stað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...