31 janúar, 2012

Orðaskak í "kommenta"kerfi


Fyrir nokkrum dögum var sagt frá því í einum vefmiðlinum, að Steingrímur J. Sigfússon hefði aðeins einu sinni tekið svefntöflu. Það stóð auðvitað ekki að ýmsum viðbrögðum við þessu. Ég ákvað að prófa að taka þarna þátt og kom inn í samskipti tveggja aðila, Þ.S. og A.M.S.  Þetta reyndust verða sömu ófrjóu umræðurnar og venjulega - áhugaverð reynsla samt sem áður:


Þ. S. : Steingrímur missir ekki svefn . Gott að vita það en hvað skyldu margir foreldrar þessa lands missa svefn vegna þess að þau hafa ekki peninga í buddunni til að kaupa mat fyrir börnin sín daginn eftir.? En Steingrími er slétt sama um það. Búinn að hafa rúm 3 ár til að lagfæra hlutina ásamt Jóhönnu. Það eina sem að hefur verið gert er, að bönkunum hefur verið bjargað. læk 1
A.M.S.: Málefnalegheitunum er viðbrugðið í þessu kommentakerfi. Það er eiginlega alveg sama hvort upphafsumræðan snýst um mikilvæg efni eða ekki, fólk virðist eiga takmarkalaust af skít í fórum sínum og kastar vítt og breitt. Nánast alltaf með lokuð augun að því er virðist. læk 10
Þ.S. : Er það ekki að einhverju leyti af því að fólk á hvorki fyrir skuldum né mat og er við það að missa sitt húsnæði? Þessi ríkisstjórn er búin hafa rúm 3 ár til að gera eitthvað en hefur enn ekkert gert. Jú, hún hefur bjargað bönkunum. læk 1
A.M.S. :  Það er nú ekki einsog fólk þurfi að þrykkja skít á alla kanta og blinda sjálft sig á orsök og afleiðingu þó það sé auralítið.Ég þarf t.d. ekki að ata þig auri þó ég sé blönk, ekki einu sinni þó þú hefðir unnið að því dag og nótt í þrjú ár að reyna að redda stöðu minni og annarra. læk 1
P.M.S.: Þ. S. Já þú segir 3 ár til að gera eitthvað - hvað finnst þér að það hafi átt að vera? Bara bjarga öllum, kannski? Þú segir að stjórnin hafi ekkert gert. Ertu nú ekki tilbúin til að endurskoða þá fullyrðingu lítillega? læk 1
Þ.S.: Þú gætir þá upplýst mig um hvað þau hafa gert í þágu heimilianna?. Allar upplýsingar vel þegnar. læk 0
P.M.S.: Það var nú reyndar ekki ég sem fullyrti um það sem gert hefur verið - ég var hinsvegar að benda á að alhæfingar eru yfirleitt ekki sterkar þegar maður vill að einhver taki mark á sér. læk 1
Þ.S.: A. M. S., það eru þúsundir fólks í þessu landi sem að eiga ekki fyrir mat fyrir börnin sín. Atvinnuleysi aldrei verið meira. Já og svona til viðbótar, þá var ég ekki "að þrykkja skít á alla kanta". En ég hef málfrelsi ennþá. Spurning hvenær því verður hent út í stjórnarskrá Jóhönnu og Steingríms. læk 0
P.M.S.: Þ.S., Það er sannarlega illa farið með þig :( læk 0
Þ.S.: Nú skil ég ekki? Var ég að tala um mig?? læk 0

Ég hyggst ekki svara þessar knýjandi spurningu Þ.S., sem er greinilega í krossferð fyrir hönd samborgaranna.

Biðstofubelgingur á bílaverkstæði

Í gær þurfti ég að bíða um stund á biðstofu bílaverkstæðis eftir að reglubundinni smurningu lyki. Á biðstofunni að annar karl í sömu stöðu og ég.
Ég ætlaði mér svo sem ekkert að fara að ræða við þennan ókunna mann, tók fram hundgamalt blað af Lifandi vísindum og hóf að fletta því. Það varð þó ekki mikið úr flettingum.

Það er nú meira ástandið í þessu þjóðfélagi - sagði hann, líklega til að þreifa á hvort hann hitti fyrir í mér skoðanabróður.
Já, það gengur misvel hjá stjórninni að komast áfram
Þessi stjórn hefur nú ekki gert neitt
Hvað meinarðu, er það nú alveg rétt?
Já, hún hefur ekki gert neitt sem skiptir máli.
Hún hefur þó gert eitthvað, er það ekki?
Hún lofaði skjaldborg um heimilin og hefur ekkert gert í því?
Hvað er átt við með þessari skjaldborg? Er það rétt að stjórnin hafi ekkert gert í því?
Já, hún lofaði skjaldborg og hún hefur ekki staðið við það.
Hvað átti hún að gera?
Nú sjá til þess að fólk missti ekki heimilin sín og þyrfti ekki að flytja úr landi.
Hún hefur nú gert heilmikið í að aðstoða heimilin, er það ekki?
Nei, og ef hún kemur kemur ekki kvótamálunum á hreint fyrir kosningar má hún biðja fyrir sér.
Það á bara að skipta um fólk þarna og fá þarna inn fólk sem ræður við verkefnið.
Hvaða fólk ætli það sé?
Það er til fullt af hæfu fólki.
Eins og hvaða fólki? Verðum við ekki að losa okkur út úr þessu kunningjasamfélagi og ganga bara í Evrópusambandið? Við munum aldrei geta stjórnað málum okkar sjálf svo vel sé við þessar aðstæður.
Já, já - Jóhanna vill það

Hér kom talsverð umræða þar sem ég lýsti skoðunum mínum á hinu og þessu í sjávarútvegsmálum (sem ég veit nú ekkert sérlega mikið um), eins og ég sá þau og í gegnum það kom í ljós að þarna var á ferðinni fyrrverandi útgerðarmaður til margra ára en starfaði nú við fiskvinnslu.

Sjórinn er fullur af fiski. Þessi fiskveiðistjórnun er hreint rugl!
Hvað meinarðu?
Jú ég veit að það hefur aldrei verið annað eins af fiski við landið. Ég skrifaði öllum þingmönnum um þetta, en það voru ekki nema einn eða tveir sem svöruðu mér?
Er það ekki hlutverk fiskifræðinga að meta í hvaða ástandi fiskistofnar eru við landið?
Það er nú meira bullið. Þeir vita ekkert hvað þeir eru að gera. Þetta mat þeirra byggir að yfir 90% á togararallinu þar sem þeir sigla sömu slóðina ár eftir ár, eins og fiskarnir séu bara alltaf á sama stað í sjónum. Meiri hálfvitagangurinn!
Hvernig á þá að mæla þetta? Eru þeir ekki menntaðir til að meta stærð fiskistofna.
Það er bara algert prump. Heldurðu að þeir sem stunda sjóinn allt árið séu ekki betur í stakk búnir til að segja um stærð fiskistofna? Nei, það er sko fullur sjór af fiski, já, inni á fjörðum þar sem áður var enginn fiskur, en allt fullt núna.
Er þá nokkuð annað en sýna fram á að staðan sé svona?
Það er ekkert hlustað á það.

Svona hélt þetta áfram, enginn flötur þar sem hægt að finna eitthvað sameiginlegt. Hann talaði út frá sinni sýn, og ég minni og hvorugur tilbúinn að sættast á sjónarmið hins, svo nokkru næmi.
Svona er umræðan búin að vera á þessu landi undanfarin ár. Menn, ég sem aðrir, eru tilbúnir til að blása út úr sér skoðunum sínum á öllu og öllum, en hreint ekki tilbúnir að hlusta á eða taka mark á því sem aðrir hafa fram að færa. Stálin stinn ráða umræðuhefðinni sem við erum búin að koma okkur upp. Mikið óskaplega er hún leiðinleg og niðurdrepandi.

Sem betur fer kom að því að bíll málfélaga míns var tilbúinn. Það síðasta sem hann sagði við mig var:
Já, Jóhanna bjargar þessu öllu! með lítt dulinni hæðninni. Hann kvaddi ekki þegar hann yfirgaf verkstæðið.



29 janúar, 2012

Að höndla hinn eina sannleik


"Þetta fólk sem núna er við stjórnvölin er ekki starfi sínu vaxið það vita allir og sjá vitibornir menn"                                                                                            

Þessa mögnuðu setniningu afrita ég úr einum þeirra þúsunda umræðuþráða á fasbókinni sem snúast um pólitík. Þessi setning kristallar, í mínum huga,  þann málflutning sem stjórnarandstaðan beitir.

Ég þarf að fá svar við, í þessu sambandi hvað það felur í sér að vera starfi sínu vaxinn í ríkisstjórn þessi árin.

Ég þarf að vita hvað átt er við með því þegar höfundur notar orðið "allir". Eru það raunverulega allir, eða bara þeir sem eru andstæðingar stjórnarinnar. Ef það eru raunverulega allir, þá er ekki líklegt að Steingrímur, Jóhanna og þeirra fólk, væru enn í valdastöðu - þau myndu jafnvel tilheyra þessum hópi sjálf.  

Þá vil ég líka fá svar við því hvað það felur í sér að vera það sem kallað er "vitiborinn maður". Er það eitthvað sem aðeins stjórnarandstæðingar (aðallega, líklega sjálfstæðismenn) geta með réttu notað um sig, úr því þeir eru til sem ekki sjá og ekki vita það sem þarna er fullyrt.    

Er nú líklegt að við komumst eitthvað áfram með svona málflutningi dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð?

Ætli sé ekki til skynsamlegri og uppbyggilegri nálgun?

28 janúar, 2012

Ég er 9gagger

Eftir því sem árunum, sem ég hef lagt að baki fjölgar, hefur jafnframt fjölgað þeim þáttum í lífinu og umhverfinu, sem ég velti fyrir mér hvort við hæfi sé að ég taki þátt í, tjái mig um, eða almennt sinni. 
Ég geri nú samt ýmislegt, sem ég get ekki ímyndað mér að fólk almennt, á mínum aldri taki sér fyrir hendur. 

Þegar ég ákveð með sjálfum mér hvað sé við hæfi við þessar aðstæðurnar eða hinar, hef ég oftar en ekki hliðsjón að einhverjum samferðamönnum, aðallega úr fortíðinni. Hvernig hefðu þeir farið í þetta mál? Ég neita því auðvitað ekki að það gerist ansi oft að ég hætti við eitthvað vegna þess að mér finnst það ekki við hæfi í ljósi aldurs míns og stöðu. 

Stundum læt ég vaða, en sjálfsagt ekki næstum nógu oft.

Ég viðurkenni auðveldlega að kynslóðirnar lifa að talsverðurm hluta, hver í sínum heimi. Sumt af því sem fer fram innan þessara heima er nokkurskonar einkaeign viðkomandi kynslóðar. Þar má til dæmis taka ýmsa menningarlega þætti, eins og klæðnað, skemmtanir, og dægradvöl af ýmsu tagi. 

Ég get séð fyrir mér, að í stórum dráttum megi skipta samfélagi eins og okkar í 5 mennigarheima af þessu tagi:
a. Bernskan - frá leikskólabyrjun til um það bil 12 ára.
b. Unglingsárin (með því að fólk er börn lengur en var, myndi ég setja efri mörkin hér við tvítugt)
c. Árin frá tvítugu til 35-40 (námi lýkur, fjölskylda verður til)
d. Árin þegar börnin fara að fljúga úr hreiðrinu og lífið byrjar að hægja á sér.
e. Starfslok - og smám saman í framhaldi af því, ellin.

Það eru mikil skörun á milli þessara heima, ekki síst þeirra sem liggja hver að öðrum. Það eru síður snertifletir milli heima eins og t.d. b og d. 

Ég mundi falla undir heim d, samkvæmt skilgreiningu, en ég umgengst fólk í heimum b og c daglega og hlýt því að draga dám af því sem þar fer fram. Tel það reyndar forréttindi að tilheyra þannig samfélagi fólks.  Ég spyr mig hinsvegar oft hvar mörkin á því eru, sem er við hæfi að ég taki mér fyrir hendur. Ég er sjálfsagt fullur af fordómum sjálfur gagnvart fólki sem rýfur mörkin milli þessara heima, hví skyldi það sama ekki gilda þegar ég er annars vegar.

-------------------------

Atvik hafa hagað því svo undanfarna daga, að ég hef sogast inn í atburðarás, sem á endanum leiddi til þess, að einn fyrrverandi nemandi minn skrifaði þetta á fasbókarsíðu félaga síns:
Mér finnst það skemmtilegt að Palli Skúla sé 9gagger
Hvernig á ég að taka svona athugasemd? 
1. Á ég að líta svo á að innrás mín í heim sem ekki er ætlaður fólki á mínum aldri, teljist fremur jákvæð? 
2. Á ég að taka þessu þannig, að nú sé ástæða til að brosa út í annað að gamla kallinum sem er að fara inn á svið sem hann ber ekki skynbragð á?

Ég held að það sé nr. 1.

Það sem ég er að vísa til varðandi heimsókn mína í annan heim er að finna hér og hér:

Ég bendi jafnöldrum mínum á að smella á seinni hlekkinn. Það er ekkert hættulegt.

27 janúar, 2012

Kjaftasaga úr fortíðinni

Gamli unglingurinn fer oft með vísur af ýmsu tagi, meðal annars þessa,s em hann segir vera eftir Þórð Kárason frá Litla-Fljóti (d. 1968):
Margt er skrítið mannheimi í,
margur fær að kenna á því.
Ýmsir konur eignast tvær
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð
en öðrum kær.

Ég hef nú auðvitað innt þann gamla eftir því um hverja er verið að yrkja, en hann hefur löngum ekkert þóst vita um það. Í gær lét hann þó vaða, en ég er ekki viss um það sé rétt af mér að upplýsa um þau nöfn sem þarna er um að ræða. Ég læt því nægja þessu sinni gefa það upp, að um er að ræða karla sem allir áttu heima rétt fyrir neðan miðja sveit, annarsvegar heilmikinn kvennamann (að sögn gamla) með upphafsstafina G.I. en hinsvegar bræður tvo sem aldrei voru kvæntir og jafnvel ekki við konu kenndir, hvað veit ég?

26 janúar, 2012

Á sama tíma í Laugarási.

Svona eru dæmigerðar fréttir í morgunsárið:


Kolófært víða, snjóflóðahætta og rafmagnsleysi. VísirHellisheiði, Þrengslavegi og Reykjanesbraut var lokað í gærkvöldi vegna ófærðar og óveðurs. Allar björgunarsveitir á suðvesturhorninu voru kallaðar út í gærkvöldi og hafa ásamt lögreglu aðstoðað fólk í vandræðum í alla nótt. 
Lögreglan á Suðurnesjum fékk um það bil hundrað beiðnir um aðstoð í nótt frá fólki, sem sat fast í bílum sínum. Fjöldi manns, bæði starfsmenn og flugfarþegar hafa hafist við í Leifsstöð í nótt, auk þess sem margir leituðu á hótel í Keflavík og í athvarf sem Rauðikrossinn opnaði í Holtaskóla í Keflavík.

Á Laugarvatni sér ekki milli húsa að sögn heimamanna, og þess vegna er ég heima á þessum morgni.

Á sama tíma er logn í Laugarási.
myndir teknar kl 07:30




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...