28 janúar, 2012

Ég er 9gagger

Eftir því sem árunum, sem ég hef lagt að baki fjölgar, hefur jafnframt fjölgað þeim þáttum í lífinu og umhverfinu, sem ég velti fyrir mér hvort við hæfi sé að ég taki þátt í, tjái mig um, eða almennt sinni. 
Ég geri nú samt ýmislegt, sem ég get ekki ímyndað mér að fólk almennt, á mínum aldri taki sér fyrir hendur. 

Þegar ég ákveð með sjálfum mér hvað sé við hæfi við þessar aðstæðurnar eða hinar, hef ég oftar en ekki hliðsjón að einhverjum samferðamönnum, aðallega úr fortíðinni. Hvernig hefðu þeir farið í þetta mál? Ég neita því auðvitað ekki að það gerist ansi oft að ég hætti við eitthvað vegna þess að mér finnst það ekki við hæfi í ljósi aldurs míns og stöðu. 

Stundum læt ég vaða, en sjálfsagt ekki næstum nógu oft.

Ég viðurkenni auðveldlega að kynslóðirnar lifa að talsverðurm hluta, hver í sínum heimi. Sumt af því sem fer fram innan þessara heima er nokkurskonar einkaeign viðkomandi kynslóðar. Þar má til dæmis taka ýmsa menningarlega þætti, eins og klæðnað, skemmtanir, og dægradvöl af ýmsu tagi. 

Ég get séð fyrir mér, að í stórum dráttum megi skipta samfélagi eins og okkar í 5 mennigarheima af þessu tagi:
a. Bernskan - frá leikskólabyrjun til um það bil 12 ára.
b. Unglingsárin (með því að fólk er börn lengur en var, myndi ég setja efri mörkin hér við tvítugt)
c. Árin frá tvítugu til 35-40 (námi lýkur, fjölskylda verður til)
d. Árin þegar börnin fara að fljúga úr hreiðrinu og lífið byrjar að hægja á sér.
e. Starfslok - og smám saman í framhaldi af því, ellin.

Það eru mikil skörun á milli þessara heima, ekki síst þeirra sem liggja hver að öðrum. Það eru síður snertifletir milli heima eins og t.d. b og d. 

Ég mundi falla undir heim d, samkvæmt skilgreiningu, en ég umgengst fólk í heimum b og c daglega og hlýt því að draga dám af því sem þar fer fram. Tel það reyndar forréttindi að tilheyra þannig samfélagi fólks.  Ég spyr mig hinsvegar oft hvar mörkin á því eru, sem er við hæfi að ég taki mér fyrir hendur. Ég er sjálfsagt fullur af fordómum sjálfur gagnvart fólki sem rýfur mörkin milli þessara heima, hví skyldi það sama ekki gilda þegar ég er annars vegar.

-------------------------

Atvik hafa hagað því svo undanfarna daga, að ég hef sogast inn í atburðarás, sem á endanum leiddi til þess, að einn fyrrverandi nemandi minn skrifaði þetta á fasbókarsíðu félaga síns:
Mér finnst það skemmtilegt að Palli Skúla sé 9gagger
Hvernig á ég að taka svona athugasemd? 
1. Á ég að líta svo á að innrás mín í heim sem ekki er ætlaður fólki á mínum aldri, teljist fremur jákvæð? 
2. Á ég að taka þessu þannig, að nú sé ástæða til að brosa út í annað að gamla kallinum sem er að fara inn á svið sem hann ber ekki skynbragð á?

Ég held að það sé nr. 1.

Það sem ég er að vísa til varðandi heimsókn mína í annan heim er að finna hér og hér:

Ég bendi jafnöldrum mínum á að smella á seinni hlekkinn. Það er ekkert hættulegt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...