19 maí, 2012

Þingmannasvör og mín

Auðvitað blöskrar mér þessa mánuðina í slíkum mæli að ég get vart fundið orð sem lýsa blöskurmagninu svo vel sé.
Þá vil ég halda því til haga að mér finnst hálf kjánalegt að senda forskrifaðan póst á einhverja stofnun í þágu einhvers málstaðar. Mér finnst almennt það sama um undirskriftalista af hvaða tagi sem er.

En, í gær í blöskurkasti, ákvað ég að slá til, svona einu sinni og sendi eftirfarandi texta, sem væntanlega margir hafa séð, t.d. á síðu Illuga Jökulssonar, á alla fulltrúa á löggjafarsamkundunni:
Kæri þingmaður
Nú stefnir enn einu sinni í að þingið neiti þjóðinni um að segja hug sinn um nýja stjórnarskrá - að þessu sinni með fundartæknilegum aðferðum. Ég tel þetta brot á rétti mínum sem þegn í þessu ríki og krefst þess að þingið taki sig tafarlaust saman og virði rétt umbjóðenda sinna.
Hér gildir einu hvort þú sért í stjórn eða stjórnar- andstöðu - þú átt að berjast fyrir mínum hag og réttindum en ekki skýla þér bak við formsatriði.
Reglurnar sem þú vinnur eftir eru nefnilega skrifaðar fyrir mig, en ekki til að klekkja á pólitískum andstæðingum þínum.
Virðing mín fyrir þér og þinginu mínu, sem þú situr í fyrir mína hönd, mun taka stakkaskiptum hljóti þessi bón hljómgrunn hjá þér.
Virðingarfyllst
Páll M Skúlason
Þessu bætti ég við frá sjálfum mér: 
es. Ég veit, því miður, að hluti ykkar mun í engu sinna þessu erindi mínu, af ástæðum, sem ég tel mig vita um. Ástæður þeirra ykkar, sem standa í vegi fyrir því að Alþingi Íslendinga fái starfað í þágu þjóðarinnar, hafa fátt með þjóðarhag að gera, og það er miður.
Við ykkur sem takið þennan pól í hæðina, hef ég fátt að segja. Finnst leitt að virðing ykkar fyrir almannahagsmunum skuli ekki vera meiri en raun ber vitni.
Viti menn, ég fékk tiltölulega fljótlega eftirfarandi, staðlað svar: 
Kæri viðtakandi.
Einhver misskilningur er á ferðinni. Það mál sem nú er rætt á alþingi snýst EKKI um kosningu um nýja stjórnarskrá. Tillagan er um að kanna hug kjósenda til nokkurra spurninga og niðurstaðan úr könnuninni er ekki á nokkurn hátt bindandi fyrir alþingi eða aðra sem kunna að koma að breytingum á stjórnarskrá. Þess má geta að þessi óbindandi könnun gæti kostað í krinum 250 milljónir króna.
Ég lít svo á að þegar alþingi hefur unnið sína vinnu og skilar fullbúnu frumvarpi að stjórnarskrá þá eigi þjóðin að taka afstöðu til þess í kosningum.
Kær kveðja,
Gunnar Bragi Sveinsson
Auðvitað svaraði ég þessu, og með þessum hætti:
Sæll Gunnar Bragi og þakka þér fyrir svarið.

Það er leitt að þú teljir mig, sem kjósanda í þessu landi, vera að misskilja eitthvað sem glymur í eyrum mér dag eftir dag, meira til gremju en annars. Þetta er einmitt dálítið sá taktur sem sleginn hefur verið eða gripið hefur verið til, þegar talin er þörf á að hindra eða tefja framgang mála - orðhengilsháttur, kallast það.

Mér þykir vænt um og þakka það, að þú skulir ekki skella því framan í mig að sendingin frá mér hafi verið "með eindæmum vanhugsuð og ámælisverð firra".

Svar þitt minnir sem sagt á umræðuna eins og hún hefur verið, af hálfu ykkar, sem betur leituðuð leiða til að vinna með en á móti - en það má víst auðvitað ekki þegar menn eru í stjórnarandstöðu.

Síðustu ár hefur fólk tekið upp á því að skrifa orðið Alþingi með litlum staf, í lítilsvirðingarskyni. Þetta var eitt þeirra orða sem mér var kennt að ávallt skyldi rita með stórum staf.

Að lokum vil ég ítreka fyrra bréf mitt, sem ekki byggðist á neinum misskilningi, að mínu mati.

Góð kveðja
Páll M Skúlason
Þetta svar fékk ég einnig:
Kærar þakkir fyrir hvatninguna, ég mun svo sannarlega gera mitt besta til að þjóðin fái að segja sína skoðun,
Bestu fáanlegar,
Margrét Tryggvadóttir

Þingmaður Hreyfingarinnar
Því svaraði ég svona:
Sæl Margrét og þakka þér svarið.

Skoðun þjóðarinnar getur nú verið með ýmsum hætti og misjafnt hvar rétt er að stilla henni upp til að tjá skoðun sína. Þar á ég auðvitað við mál þar sem nauðsynlegt er að kíkja undir yfirborðið til að móta rökstudda skoðun, í stað skoðunar sem verður til vegna hávaða hagsmunahópa.

Ég leyfi mér að láta þig vita, að þægilega oft tel ég málflutning þinn einkennast af skynsemi fremur en einhverjum einstrengingslegum málstað sem er kannski ekki einu sinn málstaður, heldur flokkspólitísk afstaða af einhverju tagi.
Haltu áfram þá leið sem þú telur vera réttasta.

Góðar kveðjur
Páll M Skúlason
Loks komu þessi viðbrögð við pósti mínum:
Takk, reyni einsog ég get -- tek seinnihluta bréfsins ekki til mín :) // Mörður Árnason
Sem ég svaraði auðvitað:
Sæll Mörður
Ég þakka svarið - seinni hlutann taka þeir sem eiga.
kv pms
Þrátt fyrir sendinguna frá mér, er enn haldið áfram að karpa og á sama tíma dvínar æ meir trú mín á að þessari þjóð auðnist að koma sér saman um það helsta sem máli skiptir hjá einni þjóð, á næstu árum.

13 maí, 2012

Við verðum að fá almennilegt fólk!

Mér finnst leiðinlegt* að þurfa að hlusta á fullvaxta fólk, jafnvel fólk sem að öllu jöfnu er bara skynsamt og vel hugsandi, hegða sér eins og grunnskólabörn. Þeir sem hafa starfað á sama  vettvangi og ég hafa án efa upplifað þær aðstæður, þegar verið er að takast á við efni sem höfðar ekki til blessaðra barnanna, eða er kannski í strembnara lagi, jafnvel bara það sem kalla má "leiðinlegt", að nemendurnir vilja fara að gera eitthvað annað. Það skiptir engu máli í þeirra huga, hvert samhengið þess sem verið er að fást við, er. Það sem er kannski spurningin um að komast frá einum stað á annan, þar sem leiðin getur á köflum verið torsótt.

"Gerum eitthvað annað. Þetta er leiðinlegt!"
"Eitthvað annað, já. Hvað viltu þá gera?"
"Bara eitthvað annað. Þetta er hundleiðinlegt!"
"Nefndu eitthvað skemmtilegt sem þú vilt gera."
"Hengingarleikinn?"

Samsvarandi samtal úr heimi fullorðinna, þessi árin, gæti verið á þessa leið:

"Djöfull þarf að losna við þetta ömulega Alþingi. Það verður að fá almennilegt fólk þarna inn!"
"Almennilegt fólk? Hvaða fólk er það?"
"Nú bara einhverja sem eru betri en þessir hálfvitar þarna við Austurvöll!"
"Hvernig væri nú að nefna eitthvert dæmi um svona "almennilegt fólk?"
"Uh...uh..."

Já, hvaða fólk er þetta almennilega fólk sem alltaf er verið að kalla eftir, sem síðan á að koma með allar réttu lausnirnar, sem allir eru sáttir við og sem koma engum illa?
Svona fólk langar mig að hitta. Kannski er ég bara einn af svona fólki, nú, eða Bragi á Vatnsleysu, eða Sigga í Arnarholti, eða...

Setjum nú svo, að við getum öll, komið okkur saman um að henda öllum núverandi Alþingismönnum af þingi. Hvert væri þá næsta skref?
Væntanlega að finna almennilegt fólk til að taka sæti á þingi.
Hvernig finnum við þetta almennilega fólk?  Prófkjör, kosningar? Ekki hafa slíkar aðferðir, væntanlega, leitt til annars en að óhæft fólk sest á þing, í krafti peninga, hagsmuna eða hæfileikans til að kjafta sig áfram.

Svo er það náttúrulega spurningin um hvort almennilegt fólk er tilbúið til að fórna ærunni í að vinna fyrir fólk sem vill fátt meira en losna við það úr starfi.

Skelfing er þetta þreytandi pæling .....

*Nú hvað vil ég þá? Er þetta ekki bara ábyrgðarlaus aðferð við að losa um frústrasjónir, sem verða ekki losaðar með öðrum hætti?

12 maí, 2012

Snillingur sem fyrr

Það er ekki ástæða til að draga úr því þegar maður finnur til snilldarinnar í sjálfum sér - sem gerist furðu oft í mínu tilviki - eins og margir vita.

Nú undir kvöld varð ég vitni að enn einu augnabliki snilldar þegar ég tók heimalagaðan hamborgarann úr ofnimum, þar sem Camembert osturinn hafði fengið að leika um yfirborð hans.

Það þarf ekki að hafa um þetta fleiri orð  - myndin sér um að sannfæra efasemdarfólkið.



01 maí, 2012

Berjumst, brystur (bræður og systur)

Ég viðurkenni það fyrstur manna, að verkalýðsbarátta er ekki lengur eitt þeirra hugtaka sem fá mig til að hugsa um þjáða menn í þúsund löndum. Ég er kominn á þann aldur, að ég man eftir þessu  fyrirbæri sem raunverulegum hluta af lífi mínu. Ég sinnti starfi sem var þannig launað, að ég átti ekki annars kost en fórna sumarfríum til að vaxandi fjölskyldan gæti lifað sæmilega af.  Auðvitað hefði ég getað farið úr eitthvert annað starf, en það var, af einhverjum orsökum, aldrei valkostur.

Bætt kjör kostuðu átök. Það voru baráttufundir, kröfugöngur, og verkföll. Ég tók þátt í þessu vegna þess að það var mér óskiljanlegt hvernig svo miklvægt starf sem mér fannst ég vera að sinna, væri ekki metið betur til launa - og þó.

Frá því ég hóf starfsferilinn í lok áttunda áratugarins og fram undir aldamót, leið varla það ár að ekki væru kjaramál ofarlega á baugi. Hluti af því voru verkföll, og sum mjög löng, þegar aðrar leiðir reyndur ófærar. Ég veit ekki hve oft ég fór í verkfall á þessum tuttugu árum, en það var ekki fyrr en um aldamót, sem tókst loksins að koma kjörunum í sæmilega ásættanlegt horf.

Mér er það fullljóst, að þetta er ekki skemmtilesning.


Ég setti þetta hér í framhaldi af mismunandi viðhorfum sem komu fram hjá viðmælendum í fréttatíma fyrir nokkrum dögum dögum. Þeir tjáðu sig um viðhorf sín til þess, hvort verslanir ættu að vera opnar 1. maí, á frídegi verkalýðsins. Þarna kom fram augljóst kynslóðabil - annarsvegar viðhorf þeirra sem höfðu lifað tíma þar sem þurfti að berjast fyrir bættum kjörum, hinsvegar þeirra sem hafa varla heyrt á fyrirbærið "verkalýðsbarátta" minnst. Kynslóðin sem óst upp á alsnægtatíma bólunnar, fékk nánast allt sem hugurinn girntist, ef ekki vegna góðra launa, þá vegna "góðra" lána.

Á sama tíma og það er auðvitað gott að unga kynslóðin hefur ekki þekkt það að þurfa að velta fyrir sér hverri krónu eða taka þátt í að berjast fyrir sig og sína, þá er það ákveðið áhyggjuefni að viðspyrnan þar sem kjarabarátta er annars vegar, er að hverfa af vinnumarkaði, smám saman.

Það má vel vera, að atvinnurekendur framtíðarinnar líti so svo á að þeim beri að sjá til þess að þeir sem hjá þeim starfa njóti bestu mögulegra kjara. Það getur hinsvegar farið svo, að kjörin versni vegna þess að verkalýðshreyfing á engar tennur.

Er það hugsanlegt að hluti þess áróðurs sem beint er gegn stjórnvöldum þessi misserin, ætti í raun að vera hluti af verkalýðsbaráttu, sem ætti þá ekki síst að beinast gegn atvinnurekendum á hinum frjálsa markaði?  Er ekki bara kominn tími til að menn líti upp úr fésbókinni og fari að takast á við hið raunverulega líf.

Þetta var í tilefni verkalýðsdagsins - þið tvö til þrjú sem lásuð alla leið:   Berjumst.  :)

29 apríl, 2012

Plága í Laugarási?


Indæll er þessi vordagur - m.a. nýttur til að kíkja á öskrandi mávagerið sem stundar ákafa hreiðurgerð í litlum hólma í Hvítá skammt fyrir ofan brúna. Staðan var næstum eina og að koma í sjávarþorp, vantaði einhverjar bátkænur við bryggju og svokallaðan "sjávarilm". Þetta með "sjávarilminn" má auðveldlega leysa með sama hætti og gert er í mjólkurbæ Íslands þessa daga með "fjósilm" - útbúa einhverskonar ílát þar sem t.d. þekktir Grundfirðingar hér í uppsveitum, geta fundið ilminn, sem með óútskýranlegum hætti tengir þá við sjálfa sig.
Þetta varð mér ljóst fyrir nokkru í starfsmannaferð, en þá gerðist það sem hér má sjá, þegar rennt var niður að höfninni á Siglufirði.

Ég, og flestir Laugarásbúar líta á þessar gargandi sjávarsíðufugla, sem plágu, sem þörf er á að losna við.

Ég var auðvitað með EOSinn og smellti af hinu og þessu eins og gengur. Meðal þess sem ég vildi mynda, enn einusinni, var gamli vatnsveitukofinn, en á hann bjó ég til merki í gamla daga þegar ég fékk hlutastarf að sumri við að mála kofann (auðvitað fyrir klíkuskap, þar sem gamli unglingurinn sat þá einu sinni sem oftar í stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss). Nú, hvað um það. Þar sem ég nálgaðist kofann, spratt skyndilega upp kanína, sem stökk út í buskann. Þar með virðist ljóst, að kanínuplága er yfirvofandi í Laugarási, eins og víða um land.

Ég er nú bjartsýnn þrátt fyrir þennan pláguuppgötvandi dag. Í Laugarás hafa komið plágur, gegnum árin, í ýmsum myndum. Engin þeirra hefur náð að valda slíkum skaða í Þorpinu í skóginum, að þar hafi lífið orðið leitt. Það sama trúi ég að verði niðurstaðan í baráttunni sem framundan er við þau börn náttúrunnar sem að ofan eru nefnd.

Vonandi ekki framtíðarsýn fyrir Laugarás

  1. Fleiri myndir frá deginum

28 apríl, 2012

Heyrðu, afi?

Ekki er ég nú hættur að auðga þessar síður með andríki mínu, en að undanförnu hafa aðstæður verið þannig að þetta áhugamál hefur lent lítillega til hliðar.
Það er auðvitað nóg af fólki vítt og breitt sem er tilbúið að tjá sig um menn og málefni, út frá ýmsum sjónarhornum og þessvegna hefur ekki myndast neitt afgerandi tómarúm í þjóðfélagsumræðunni þótt ég tæki ekki þátt um stund - sem er í mínum huga fremur dapurlegt.
Er það raunverulega svo, að mín rödd skipti engu?  Það virðist vera raunin. Huggun mín er sú, að í rauninni skiptir engu hvaða hundrað eða þúsund, eða jafnvel tugir þúsunda bloggara og samfélagsrýna hætta að tjá sig í vikur eða mánuði - það breytir engu stóru.  Þeir sem lesa skrif af þessu tagi eru vísast ekki að því til að láta þau hafa eða leyfa þeim að hafa áhrif á skoðanir sínar. Tilgangurinn er miklu fremur að herða sig í eigin skoðunum í baráttunni við hinar. Maður sér stöðugt fleiri merki þess, að fólk er hætt að lesa, eða kynna sér skoðanir meintra andstæðinga. "Fésbókarvinir" verða smám saman einsleitari skoðanabræður, daglegur rúntur um samskipta- og fjölmiðla felst æ meir í að skanna miðla og greinar sem maður er sammála og læka í gríð og erg, heimsóknir til skoðanalegra andstæðinga hafa þann tilgang einan að hneykslast með sjálfum sér, eða verða sér úti um fóður til að bölsótast yfir á eigin síðum.
Stundum finnst mér ástand þjóðfélagsumræðunni  einkennast stöðugt meir af öskurkeppni, með það að aðalmarkmiði að öskra andstæðinga í kútinn frekar en yfirvegaða samræðu sem tekur þann pól í hæðina, að úr þvi við þurfum að lifa saman í þessu landi, þá hljóti það að vera meginverkefni okkar að efla það, okkur, börnum okkar og barnabörnum til hagsbóta.

Ég hef ekki verið og er ekki barnanna bestur þegar um allt ofangreint er að ræða. Það er auðvitað bara vegna þess að ég tel mig vita betur. Ég tel að sýn mín á samfélagið sé sú sem kemur því best þegar til langs tíma er litið. Ég hef gerst sekur um að:
- opna ekki tiltekið dagblað árum saman, jafnvel þó það berist inn á heimilið nánast daglega.
- henda út "fésbókarvini" á grundvelli vanstilltra umræðuaðferða, sem fólu í sér skoðanir sem ég gat með engu móti samþykkt. Reyndar bara einum.
- ég hef lokað á "fésbókarvini" sem gera fátt annað en spila einhverja leiki, eða læka einhver fyrirtæki í þeirri von að fá verðlaunin.
- ég hef lækað, ítrekað, greinar sem tjá samskonar skoðanir og ég hef.
- ég hef hneykslast með sjálfum mér og í athugasemdum á mönnum og málefnum sem falla ekki að minni sýn á lífið og tilveruna.

Ég sé orðið æ meir fyrir mér hópa fólks sem standa gegn hver öðrum öskrandi af lífs og sál kröftum. Hávaðinn er orðinn svo mikill að enginn heyrir í neinum. Menn eru löngu hættir að leiða hugann að því að ef til vill sé rétt að setjast niður í rólegheitum og ræða sig niður á leið út úr þessu umhverfi.

Við getum öll samþykkt að lífið eigi að halda áfram.

ps. ég biðst velvirðingar á að vera búinn að taka sögnina "að læka", athugasemdalaust inn í málfar mitt. Verður bara ekki að líta á það sem lítið skref af minni hálfu til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...