29 apríl, 2012

Plága í Laugarási?


Indæll er þessi vordagur - m.a. nýttur til að kíkja á öskrandi mávagerið sem stundar ákafa hreiðurgerð í litlum hólma í Hvítá skammt fyrir ofan brúna. Staðan var næstum eina og að koma í sjávarþorp, vantaði einhverjar bátkænur við bryggju og svokallaðan "sjávarilm". Þetta með "sjávarilminn" má auðveldlega leysa með sama hætti og gert er í mjólkurbæ Íslands þessa daga með "fjósilm" - útbúa einhverskonar ílát þar sem t.d. þekktir Grundfirðingar hér í uppsveitum, geta fundið ilminn, sem með óútskýranlegum hætti tengir þá við sjálfa sig.
Þetta varð mér ljóst fyrir nokkru í starfsmannaferð, en þá gerðist það sem hér má sjá, þegar rennt var niður að höfninni á Siglufirði.

Ég, og flestir Laugarásbúar líta á þessar gargandi sjávarsíðufugla, sem plágu, sem þörf er á að losna við.

Ég var auðvitað með EOSinn og smellti af hinu og þessu eins og gengur. Meðal þess sem ég vildi mynda, enn einusinni, var gamli vatnsveitukofinn, en á hann bjó ég til merki í gamla daga þegar ég fékk hlutastarf að sumri við að mála kofann (auðvitað fyrir klíkuskap, þar sem gamli unglingurinn sat þá einu sinni sem oftar í stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss). Nú, hvað um það. Þar sem ég nálgaðist kofann, spratt skyndilega upp kanína, sem stökk út í buskann. Þar með virðist ljóst, að kanínuplága er yfirvofandi í Laugarási, eins og víða um land.

Ég er nú bjartsýnn þrátt fyrir þennan pláguuppgötvandi dag. Í Laugarás hafa komið plágur, gegnum árin, í ýmsum myndum. Engin þeirra hefur náð að valda slíkum skaða í Þorpinu í skóginum, að þar hafi lífið orðið leitt. Það sama trúi ég að verði niðurstaðan í baráttunni sem framundan er við þau börn náttúrunnar sem að ofan eru nefnd.

Vonandi ekki framtíðarsýn fyrir Laugarás

  1. Fleiri myndir frá deginum

1 ummæli:

  1. Loðskinnaiðnaður getur sem sagt orðið næsta féþúfa Laugarásbúa. Eiga ekki einhverjir veiðihunda til að ná fengnum?

    SvaraEyða

It's only words ...

Við erum mörg reið og það hvílir á okkur einhver óviðráðanlegur þungi. Við upplifum vonleysi og varnarleysi. Við reynum að skilja hvernig he...