29 apríl, 2012

Plága í Laugarási?


Indæll er þessi vordagur - m.a. nýttur til að kíkja á öskrandi mávagerið sem stundar ákafa hreiðurgerð í litlum hólma í Hvítá skammt fyrir ofan brúna. Staðan var næstum eina og að koma í sjávarþorp, vantaði einhverjar bátkænur við bryggju og svokallaðan "sjávarilm". Þetta með "sjávarilminn" má auðveldlega leysa með sama hætti og gert er í mjólkurbæ Íslands þessa daga með "fjósilm" - útbúa einhverskonar ílát þar sem t.d. þekktir Grundfirðingar hér í uppsveitum, geta fundið ilminn, sem með óútskýranlegum hætti tengir þá við sjálfa sig.
Þetta varð mér ljóst fyrir nokkru í starfsmannaferð, en þá gerðist það sem hér má sjá, þegar rennt var niður að höfninni á Siglufirði.

Ég, og flestir Laugarásbúar líta á þessar gargandi sjávarsíðufugla, sem plágu, sem þörf er á að losna við.

Ég var auðvitað með EOSinn og smellti af hinu og þessu eins og gengur. Meðal þess sem ég vildi mynda, enn einusinni, var gamli vatnsveitukofinn, en á hann bjó ég til merki í gamla daga þegar ég fékk hlutastarf að sumri við að mála kofann (auðvitað fyrir klíkuskap, þar sem gamli unglingurinn sat þá einu sinni sem oftar í stjórn Vatnsveitufélags Laugaráss). Nú, hvað um það. Þar sem ég nálgaðist kofann, spratt skyndilega upp kanína, sem stökk út í buskann. Þar með virðist ljóst, að kanínuplága er yfirvofandi í Laugarási, eins og víða um land.

Ég er nú bjartsýnn þrátt fyrir þennan pláguuppgötvandi dag. Í Laugarás hafa komið plágur, gegnum árin, í ýmsum myndum. Engin þeirra hefur náð að valda slíkum skaða í Þorpinu í skóginum, að þar hafi lífið orðið leitt. Það sama trúi ég að verði niðurstaðan í baráttunni sem framundan er við þau börn náttúrunnar sem að ofan eru nefnd.

Vonandi ekki framtíðarsýn fyrir Laugarás

  1. Fleiri myndir frá deginum

1 ummæli:

  1. Loðskinnaiðnaður getur sem sagt orðið næsta féþúfa Laugarásbúa. Eiga ekki einhverjir veiðihunda til að ná fengnum?

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...