28 apríl, 2012

Heyrðu, afi?

Ekki er ég nú hættur að auðga þessar síður með andríki mínu, en að undanförnu hafa aðstæður verið þannig að þetta áhugamál hefur lent lítillega til hliðar.
Það er auðvitað nóg af fólki vítt og breitt sem er tilbúið að tjá sig um menn og málefni, út frá ýmsum sjónarhornum og þessvegna hefur ekki myndast neitt afgerandi tómarúm í þjóðfélagsumræðunni þótt ég tæki ekki þátt um stund - sem er í mínum huga fremur dapurlegt.
Er það raunverulega svo, að mín rödd skipti engu?  Það virðist vera raunin. Huggun mín er sú, að í rauninni skiptir engu hvaða hundrað eða þúsund, eða jafnvel tugir þúsunda bloggara og samfélagsrýna hætta að tjá sig í vikur eða mánuði - það breytir engu stóru.  Þeir sem lesa skrif af þessu tagi eru vísast ekki að því til að láta þau hafa eða leyfa þeim að hafa áhrif á skoðanir sínar. Tilgangurinn er miklu fremur að herða sig í eigin skoðunum í baráttunni við hinar. Maður sér stöðugt fleiri merki þess, að fólk er hætt að lesa, eða kynna sér skoðanir meintra andstæðinga. "Fésbókarvinir" verða smám saman einsleitari skoðanabræður, daglegur rúntur um samskipta- og fjölmiðla felst æ meir í að skanna miðla og greinar sem maður er sammála og læka í gríð og erg, heimsóknir til skoðanalegra andstæðinga hafa þann tilgang einan að hneykslast með sjálfum sér, eða verða sér úti um fóður til að bölsótast yfir á eigin síðum.
Stundum finnst mér ástand þjóðfélagsumræðunni  einkennast stöðugt meir af öskurkeppni, með það að aðalmarkmiði að öskra andstæðinga í kútinn frekar en yfirvegaða samræðu sem tekur þann pól í hæðina, að úr þvi við þurfum að lifa saman í þessu landi, þá hljóti það að vera meginverkefni okkar að efla það, okkur, börnum okkar og barnabörnum til hagsbóta.

Ég hef ekki verið og er ekki barnanna bestur þegar um allt ofangreint er að ræða. Það er auðvitað bara vegna þess að ég tel mig vita betur. Ég tel að sýn mín á samfélagið sé sú sem kemur því best þegar til langs tíma er litið. Ég hef gerst sekur um að:
- opna ekki tiltekið dagblað árum saman, jafnvel þó það berist inn á heimilið nánast daglega.
- henda út "fésbókarvini" á grundvelli vanstilltra umræðuaðferða, sem fólu í sér skoðanir sem ég gat með engu móti samþykkt. Reyndar bara einum.
- ég hef lokað á "fésbókarvini" sem gera fátt annað en spila einhverja leiki, eða læka einhver fyrirtæki í þeirri von að fá verðlaunin.
- ég hef lækað, ítrekað, greinar sem tjá samskonar skoðanir og ég hef.
- ég hef hneykslast með sjálfum mér og í athugasemdum á mönnum og málefnum sem falla ekki að minni sýn á lífið og tilveruna.

Ég sé orðið æ meir fyrir mér hópa fólks sem standa gegn hver öðrum öskrandi af lífs og sál kröftum. Hávaðinn er orðinn svo mikill að enginn heyrir í neinum. Menn eru löngu hættir að leiða hugann að því að ef til vill sé rétt að setjast niður í rólegheitum og ræða sig niður á leið út úr þessu umhverfi.

Við getum öll samþykkt að lífið eigi að halda áfram.

ps. ég biðst velvirðingar á að vera búinn að taka sögnina "að læka", athugasemdalaust inn í málfar mitt. Verður bara ekki að líta á það sem lítið skref af minni hálfu til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...