13 maí, 2012

Við verðum að fá almennilegt fólk!

Mér finnst leiðinlegt* að þurfa að hlusta á fullvaxta fólk, jafnvel fólk sem að öllu jöfnu er bara skynsamt og vel hugsandi, hegða sér eins og grunnskólabörn. Þeir sem hafa starfað á sama  vettvangi og ég hafa án efa upplifað þær aðstæður, þegar verið er að takast á við efni sem höfðar ekki til blessaðra barnanna, eða er kannski í strembnara lagi, jafnvel bara það sem kalla má "leiðinlegt", að nemendurnir vilja fara að gera eitthvað annað. Það skiptir engu máli í þeirra huga, hvert samhengið þess sem verið er að fást við, er. Það sem er kannski spurningin um að komast frá einum stað á annan, þar sem leiðin getur á köflum verið torsótt.

"Gerum eitthvað annað. Þetta er leiðinlegt!"
"Eitthvað annað, já. Hvað viltu þá gera?"
"Bara eitthvað annað. Þetta er hundleiðinlegt!"
"Nefndu eitthvað skemmtilegt sem þú vilt gera."
"Hengingarleikinn?"

Samsvarandi samtal úr heimi fullorðinna, þessi árin, gæti verið á þessa leið:

"Djöfull þarf að losna við þetta ömulega Alþingi. Það verður að fá almennilegt fólk þarna inn!"
"Almennilegt fólk? Hvaða fólk er það?"
"Nú bara einhverja sem eru betri en þessir hálfvitar þarna við Austurvöll!"
"Hvernig væri nú að nefna eitthvert dæmi um svona "almennilegt fólk?"
"Uh...uh..."

Já, hvaða fólk er þetta almennilega fólk sem alltaf er verið að kalla eftir, sem síðan á að koma með allar réttu lausnirnar, sem allir eru sáttir við og sem koma engum illa?
Svona fólk langar mig að hitta. Kannski er ég bara einn af svona fólki, nú, eða Bragi á Vatnsleysu, eða Sigga í Arnarholti, eða...

Setjum nú svo, að við getum öll, komið okkur saman um að henda öllum núverandi Alþingismönnum af þingi. Hvert væri þá næsta skref?
Væntanlega að finna almennilegt fólk til að taka sæti á þingi.
Hvernig finnum við þetta almennilega fólk?  Prófkjör, kosningar? Ekki hafa slíkar aðferðir, væntanlega, leitt til annars en að óhæft fólk sest á þing, í krafti peninga, hagsmuna eða hæfileikans til að kjafta sig áfram.

Svo er það náttúrulega spurningin um hvort almennilegt fólk er tilbúið til að fórna ærunni í að vinna fyrir fólk sem vill fátt meira en losna við það úr starfi.

Skelfing er þetta þreytandi pæling .....

*Nú hvað vil ég þá? Er þetta ekki bara ábyrgðarlaus aðferð við að losa um frústrasjónir, sem verða ekki losaðar með öðrum hætti?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...