01 maí, 2012

Berjumst, brystur (bræður og systur)

Ég viðurkenni það fyrstur manna, að verkalýðsbarátta er ekki lengur eitt þeirra hugtaka sem fá mig til að hugsa um þjáða menn í þúsund löndum. Ég er kominn á þann aldur, að ég man eftir þessu  fyrirbæri sem raunverulegum hluta af lífi mínu. Ég sinnti starfi sem var þannig launað, að ég átti ekki annars kost en fórna sumarfríum til að vaxandi fjölskyldan gæti lifað sæmilega af.  Auðvitað hefði ég getað farið úr eitthvert annað starf, en það var, af einhverjum orsökum, aldrei valkostur.

Bætt kjör kostuðu átök. Það voru baráttufundir, kröfugöngur, og verkföll. Ég tók þátt í þessu vegna þess að það var mér óskiljanlegt hvernig svo miklvægt starf sem mér fannst ég vera að sinna, væri ekki metið betur til launa - og þó.

Frá því ég hóf starfsferilinn í lok áttunda áratugarins og fram undir aldamót, leið varla það ár að ekki væru kjaramál ofarlega á baugi. Hluti af því voru verkföll, og sum mjög löng, þegar aðrar leiðir reyndur ófærar. Ég veit ekki hve oft ég fór í verkfall á þessum tuttugu árum, en það var ekki fyrr en um aldamót, sem tókst loksins að koma kjörunum í sæmilega ásættanlegt horf.

Mér er það fullljóst, að þetta er ekki skemmtilesning.


Ég setti þetta hér í framhaldi af mismunandi viðhorfum sem komu fram hjá viðmælendum í fréttatíma fyrir nokkrum dögum dögum. Þeir tjáðu sig um viðhorf sín til þess, hvort verslanir ættu að vera opnar 1. maí, á frídegi verkalýðsins. Þarna kom fram augljóst kynslóðabil - annarsvegar viðhorf þeirra sem höfðu lifað tíma þar sem þurfti að berjast fyrir bættum kjörum, hinsvegar þeirra sem hafa varla heyrt á fyrirbærið "verkalýðsbarátta" minnst. Kynslóðin sem óst upp á alsnægtatíma bólunnar, fékk nánast allt sem hugurinn girntist, ef ekki vegna góðra launa, þá vegna "góðra" lána.

Á sama tíma og það er auðvitað gott að unga kynslóðin hefur ekki þekkt það að þurfa að velta fyrir sér hverri krónu eða taka þátt í að berjast fyrir sig og sína, þá er það ákveðið áhyggjuefni að viðspyrnan þar sem kjarabarátta er annars vegar, er að hverfa af vinnumarkaði, smám saman.

Það má vel vera, að atvinnurekendur framtíðarinnar líti so svo á að þeim beri að sjá til þess að þeir sem hjá þeim starfa njóti bestu mögulegra kjara. Það getur hinsvegar farið svo, að kjörin versni vegna þess að verkalýðshreyfing á engar tennur.

Er það hugsanlegt að hluti þess áróðurs sem beint er gegn stjórnvöldum þessi misserin, ætti í raun að vera hluti af verkalýðsbaráttu, sem ætti þá ekki síst að beinast gegn atvinnurekendum á hinum frjálsa markaði?  Er ekki bara kominn tími til að menn líti upp úr fésbókinni og fari að takast á við hið raunverulega líf.

Þetta var í tilefni verkalýðsdagsins - þið tvö til þrjú sem lásuð alla leið:   Berjumst.  :)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...