17 nóvember, 2014

"Jæja, er dýrðin þá komin í hús?"


Ég ætla að leyfa lesendum að giska á hver það var sem lét fyrirsögnina sér um munn fara þar sem ég kom heim með kassann sem geymdi nýjustu græjuna á heimilinu.

Ég hef áður lýst því yfir  að í mér leynist ákveðin tegund af græjufíkli, þó svo slíkar yfirlýsingar hæfi vart manni á mínum aldri. Ég get hér með bætt því við, að ég er afskaplega athafnasamur maður í því sem hentar mér eða sem áhugi minn beinist að og við slík tækifæri kýs ég að bíða ekki með það til morguns sem ég get gert eins og skot. Það sem mér hugnast hinsvegar síður að fást við, bíður oftar en ekki von úr viti og af því hef ég fengið að heyra gegnum tíðina, en minna upp á síðkastið, enda fD væntanlega farin að átta sig á hvern mann ég hef að geyma. Varla seinna vænna.

Nú tekur við lærdóms- og æfingatími og sem ég vænti mikils af, því hér er á ferð harla áhugaverð græja. 

04 nóvember, 2014

Þegar sjóninni hrakar

Það eru allmörg ár síðan ég gerði mér grein fyrir því að ég var farinn að lesa minna en áður. Þá áttaði ég mig einn góðan veðurdag að ef til vill þyrfti ég að fá mér gleraugu, sem ég gerði, svokölluð hagkaupagleraugu. Þetta breytti lífinu til muna, en þar kom að ég var farinn að nota mismunandi gleraugu við mismunandi aðstæður og því varð það úr að ég skelllti mér til augnlæknis sem mældi rækilega á hvern hátt sjón mín viki frá því sem eðlilegt telst. Í framhaldi af því fór ég með niðurstöður læknisins í gleraugnabúð og fékk mér ein gleraugu sem dugðu við allar aðstæður. Þau voru sem sagt þannig, að ef ég þurfti að lesa þá horfði ég í gegnum þau neðst en ef ég þurft að sjá frá mér þá horfið ég efst. Miðhlutinn var síðan ætlaður sjónvarps- og tölvusýn. Mér gengur ágætlega að nota þessi gleraugu og tel mig vera, á grundvelli þeirra talsvert "víð"sýnan.

Þetta má kallast undarlegur inngangur, en svo verður að vera.

Stofnunin sem ég starfa við, sem er Menntaskólinn að Laugarvatni. Hann varð 60 ára á síðasta ári og það var ákveðið að efna til myndbandasamkeppni innan skólans af því tilefni. Myndböndin áttu síðan að geta nýst sem kynningarmyndefni fyrir stofnunina í framhaldinu. Það var skipuð dómnefnd og síðan bárust í keppnina skemmtileg myndbönd sem gáfu góða, en mismunandi sýn á lífið innan stofnunarinnar. Dómnefndin valdi síðan þrjú efstu myndböndin og verðlaun voru veitt.

Þá var ég kominn með gleraugun góðu og gat horft á myndböndin bæði nálægt og í fjarlægð.

Hér fyrir neðan gefur að líta það myndband sem dómnefndin valdi í fyrsta sæti. Að mínu mati er hér á ferðinni afar metnaðarfullt verk, vel unnið og fagmannlega og kannski það besta við það er, að það geislar af kímni og léttleika um leið og það nær vel því markmiði að kynna líf og starf í skólanum.

Það reyndist hinsvegar svo, að af ákveðnum ástæðum fellur myndbandið ekki fyllilega að því sem stofnunin vill standa fyrir og því er því ekki haldið á lofti. Ég læt áhorfendur um að dæma hvort það rýrir myndbandið á einhvern umtalsverðan hátt.


Hér eru síðan myndböndin sem urðu í öðru og þriðja sæti.
Þetta varð í öðru:

Þetta varð í þriðja sæti:

01 nóvember, 2014

Ég sá líf mitt ekki þjóta hjá.

"This is your captain speaking. I'm afraid I haven't got very good news for you." Framhald ávarps flugstjórans í flugi OU419 frá Frankfurt til Dubrovnik í Króatíu þann 25. október hef ég á íslensku: "Í gærkvöld tókst okkur að lenda á flugvellinum í 25 hnúta vindi, en í kvöld er vindhraðinn 30 hnútar úr norðri. Við vonum að þetta fari allt vel."
Þegar þarna var komið var leiðin um það bil hálfnuð og við nýbúin að sporðrenna samloku sem flugþjónarnir höfðu fært okkur. Ferðin fram til þessa hafið gengið afar vel.
"30 hnútar. Það er nú varla umtalsvert - 15 metrar á sekúndu." Það var talnaspekingurinn í hópi samferðamannanna sem var fljótur að slá alvarleika yfirlýsingar flugstjórans út af borðinu. Hann vissi hinsvegar ekki, að í Dubrovnik er ein flugbraut með stefnuna um það bil austsuðaustur/vestnorðvestur og að skammt norðan þessarar flugbrautar er fjallgarður.

Það er af fD að segja, að hún var að halla sér þegar flugstjórinn greindi frá stöðu mála og ég var nú ekkert sérstaklega að upplýsa hana í smáatriðum þegar hún losaði blundinn. Það voru hinsvegar nokkur ónot í mér því ég hafði ekki ástæðu til að efast um að þegar flugstjóri segist ekki hafa góðar fréttir þá meini hann það. Flugstjórar mega ekki valda óþarfa ótta hjá farþegum með kæruleysislegri kaldhæðni.

Til að gera nánari grein fyrir flugvellinum í Dubrovnik hef ég sett hér inn yfirlitsmynd af honum lesendum til glöggvunar. Flugbrautin er sú lengsta í Króatíu, 3300 metrar, en aðeins ein. Í um það bil tveggja kílómetra fjarlægð NNA af vellinum rís nokkuð voldugur fjallgarður. Vindáttin var, þegar það sem greinir hér að neðan átti sér stað, norðlæg 30 hnútar eða 15 m/sek. Það þarf ekki fræðimenn til að ímynda sér að aðstæður á vellinum myndu vera nokkuð óstöðugar. Slíkar veðuraðstæður kallar fD "hringrok", en einnig er vísað til þeirra sem sviptivinda.

"Við erum nú að hefja aðflug að flugvellinum og ég bið farþega að festa sætisbeltin," sagði flugstjórinn og það var það síðasta sem heyrðist frá honum í ferðinni. Við fundum hvernig véln lækkaði flugið smám saman og til að byrja með var þar allt með eðlilegum hætti: lítilsháttar hreyfing til hliðanna og upp og niður. Í stað þess að þessi hreyfing minnkaði þegar komið er undir skýjahæð, fór hún vaxandi eftir því sem neðar dró. Öll ljós í vélinni voru slökkt þegar hér var komið.
Ekki ætla ég að greina nákvæmlega hvað fram fór í sætinu við hliðina á mér, en læt nægja að greina frá því, að sessunautnum varð því órórra sem nær dró jörðu.

Ljósin á flugvellinum birtust smám saman og í stað þess að vera kyrr á sínum stað voru þau á stöðugri hreyfingu upp og niður og til hliðanna. Ég stóð mig að því að vera farinn að halda mér nokkuð fast í sætisarmana, en lét ekki eftir mér að láta á neinu bera að öðru leyti: starði út um gluggana, fylgdist með hreyfingum Airbus 319 vélarinnar, sem fylgdu engu mynstri. Það má segja að ástand mitt hafi verið svipað og Grettis í þessum ljóðlínum Matthíasar Jochumssonar: 
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,

heldur í feldinn, horfir í eldinn

og hrærist ei.

Það birtir, það syrtir

því máninn veður og marvaðann treður
um skýja sæinn.
Hver ber utan bæinn?
Það sem myndi gerast næst, gæti allt eins verið það síðasta sem gerðist, án þess að ég gæti rönd við reist með nokkrum hætti. Ekki voga ég mér að neita því, að þarna flaug sá möguleiki um huga minn, að úr þessari flugferð ætti ég mögulega ekki afturkvæmt.

Ljósin á jörðinni fóru smám saman að nálgast það að vera í láréttri sjónlínu, sem þýddi að vélin nálgaðist jörðu æ meir. Stundum lyftist hún skyndilega, svo maginn sökk niður, stundum pompaði hún niður svo maginn fór upp í háls og þess á milli þeyttist hún til hliðanna með tilheyrandi afleiðingum.
Jörðin og vélin voru við það að kyssast og eitt augnablik virtist sem kyrrð væri að færast yfir, en þá sviptist vélin skyndilega til hægri, ljósin úti vinstra megin hurfu alveg sjónum og þar með virtist ljóst að þessu væri bara að ljúka. Í sama mund og slíkar hugsanir bærðu á sér, var gefið inn með sama afli og tíðkast í flugtaki, og haldið til himins á ný.

"Hann er hættur við að lenda" var sagt með orðum víða um vélina, þó öllum gæti verið það ljóst, án þess að orð kæmu til. Það var síðar haft eftir farþega sem sat hægra megin í vélinni, að ef henni hefði verið lent við þær aðstæður sem þarna voru, hefði hægri vængurinn orðið fyrsti hluti vélarinnar til að snerta flugbrautina.

"Hann ætlar örugglega að reyna að lenda á annarri braut", sögðu þeir sem vissu ekki að það var ekki önnur braut. "Ætli hann ætli að lenda á öðrum flugvelli? Hvaða flugvöllur skyldi það vera? Hvenær ætli við verðum þá komin á hótelið?"  Margar spurningar fóru um huga farþeganna. Þeim var að hluta svarað innan nokkurra mínútna, þegar sami ferillinn hófst aftur: vélin lækkaði flugið og stefndi til jarðar.  Neðar, mjakaðist hún, neðar og neðar. Aftur dansaði hún og aftur dönsuðu ljósin fyrir utan. Aftur mátti lesa áhyggjur, nokkurn ótta, skelfingu og jafnvel hrylling úr augum farþeganna, sem þurftu að ganga í gegnum samskonar aðflug aftur. Hreyfingar vélarinnar voru jafn ófyrirsjáanlegar og fyrr; allt gat gerst. Það var ekki fyrr en augnabliki áður en lendingarhjólin snertu malbikið á flugbrautinna og kyrrð komst á vélina.
Sennilega hefur þessi atburðarrás litið svona út utanfrá:

"Hún er lent! Hún er lent!" var sett í orð um alla vél, þó öllum mætti ljóst vera, að Airbus 319 vél Croatia Airlines var lent, heilu og höldnu á einu flugbrautinni á flugvellinum í Dubrovnik í 30 hnúta hliðarvindi.
Það var klappað og fagnað um alla vél, en hendur  héldu áfram að skjálfa fram eftir kvöldi. Heitingar voru uppi um að aldrei framar skyldi stigið upp í flugvél. Heim skyldi farið með lest og skipi.
Fimm dögum síðar var flogið frá Dubrovnik til Zagreb og þaðan til Amsterdam áður en lokaleggurinn til Íslands var floginn.
.......................................................
Myndirnar sem fylgja úr ferðinni tengjast ekki reynslunni í flugvélinni, eins og nærri má geta, enda var ég ekki með hugan við ljósmyndun meðan á henni stóð. Þær eru hinsvegar lítið sýnishorn frá dvölinni í Dubrovnik þar sem við sóttum ESHA-ráðstefnuna svokallaða í nokkra daga.  Það kann að vera að ég greini frá einhverju öðru sem þar gerðist og sérstakt má teljast, áður en langt um líður.

Dubrovnik er falleg borg og aðbúnaður var þar með miklum ágætum.



13 október, 2014

Doktoraþorpið í skóginum

Það rann upp fyrir okkur Kvisthyltingum í tengslum doktorsvörn Þorvaldar fyrir nokkrum dögum að Laugarás hefur líklega hlutfallslega alið af sér óvenju marga doktora. Okkur telst til að frá aldamótum hafi 6 Laugarásbörn fetað þennan veg. Lengi má örugglega velta því fyrir sér hvað það er sem veldur.













Árið 1997 Lauk Helga Gunnlaugsdóttir frá Brekkugerði doktorsprófi frá háskólanum í Lundi

Árið 2002 lauk Eiríkur Sæland frá Sólveigarstöðum doktorsprófi frá Ríkisháskólanum í Utrecht í Hollandi.










Árið 2005 lauk Tómas Grétar Gunnarsson frá Asparlundi doktorsprófi frá Háskólanum í East Anglia á Bretlandi.








Árið 2010 lauk Guðbjört Gylfadóttir frá Launrétt 2 doktorsprófi frá Floridaháskóla í Bandaríkjunum.










Árið 2013 lauk Atli V Harðarson frá Lyngási doktorsprófi frá Háskóla Íslands.










Árið 2014 lauk Þorvaldur Skúli Pálsson frá Kvistholti doktorsprófi frá Háskólanum í Álaborg

















Mér finnst þetta harla merkilegt ekki síst fyrir þær sakir að ég átti þátt í uppfræðslu fjögurra af þessum sex einhverntíma á námsferli þeirra (hvort sem það breytti nú einhverju)og fjórir doktoranna luku stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Þá er það athyglisvert, að fjórir af 6 doktorunum ólust upp á garðyrkjubýlum.
Ef ég færi að reyna að grennslast fyrir um þann fjölda Laugarásbarna sem hafa lokið meistaraprófi, svo ekki sé nú talað um fyrsta hákólaprófi yrði listinn talsvert lengri.

Er þessi menntunarsækni Laugarásbúa ein af megin ástæðum fyrir því hve  hægt gengur að fjölga íbúunum? Það má spyrja.

.....
Nú verð ég bara að vona að ég hafi ekki gleymt neinum - ef svo er þá treysti ég því að ég verði látinn vita.

11 október, 2014

Verkir í lendum og mjaðmargrind.

Ekki var ég nú alveg viss um hvað var framundan þar sem ég sat í stofu D2-106 í Álaborgarháskóla föstudaginn 2. október síðastliðinn. Sannarlega vissi ég að næstelsti sonurinn, Þorvaldur Skúli, myndi þarna verja doktorsverkefni sitt og í framhaldinu líklegast fá doktorsnafnbót. Umrætt verkefni ber yfirskriftina "Lumbopelvic pain - sensory and motor aspects".  Ekki ætla ég mér nú að fara að lýsa innihaldi eða tilgangi verkefnisins, en í sem stærstum dráttum fjallar það um tiltekið verkjamódel sem var notað til að rannsaka hvort og hvernig sársauki í lendum og mjaðmagrind breytir niðurstöðum í tilteknum greiningarprófum.
Í stofu D2-106 var samankominn um 30 manna hópur til að fylgjast með vörninni, bæði fulltrúar fjölskyldnanna sem standa að doktorsefninu og fyrrum og núverandi kollegar hans auk einhverra nema í þeim fræðum sem þarna er um að ræða.
Áður en athöfnin hófst setti yngsti Kvisthyltingurinn, sá sem hefur menntað sig í miðlun, upp samband við internetið, sem olli því auðvitað að áhugasamir gátu fylgst með öllu sem fram fór.

Svo hófst athöfnin með því að Thomas Graven-Nielsen, prófessor, sem hélt utan um athöfnina, bauð fólk velkomið og greindi frá því sem þarna myndi fara fram. Hann kynnti til sögunnar andmælendur eða matsnefnd, þau Dr. Lieven Danneels frá háskólanum í Ghent í Belgíu og Dr. Britt Stuge frá Háskólasjúkrahúsinu í Osló og formann hópsins Parisa Gazerani, dósent, frá Álaborgarháskóla.
Þessu næst hófst 45 mín. fyrirlestur Þorvaldar, sem var skreyttur með viðeigandi glærum.


Að loknu stuttu hléi tóku andmælendur til máls, fyrst Dr. Britt Stuge. Hún fór yfir ýmsa þætti í verkefninu með gagnrýnum hætti og kallaði eftir svörum og útskýringum, en þetta fór þannig fram að hún talaði úr sæti sínu en Þorvaldur stóð berskjaldaður og þurfti að bregðast við athugasemdum og spurningum.
"Hér stend ég og get ekki annað"
Meðan á þessum þætti stóð vaknaði alloft með móðurinni, sem þarna var auðvitað stödd, þörf á að láta hendur skipta gagnvart andmælandanum, en til þess kom ekki.  Þegar Dr Britt hafði lokið sér af, tók Dr Lieven Danneels við og kallaði sömuleiðis eftir skýringum á ýmsu og gagnrýndi sumt. Þessi hluti athafnarinnar tók upp undir 2 klukkustundir og tók nokkuð á.

Formaður nefndarinnar tilkynnir
niðurstöðu nefndarinnar.
Fv. Parisa Gazerani, Dr. Britt Stuge,
 Dr. Lieven Danneels
Andmælendur drógu sig síðan í hlé til að ráða ráðum sínum, en öðrum viðstöddum var boðið til móttöku í tilteknu herbergi annarsstaðar í húsinu, sem reyndist ekki auðfundið, en fannst auðvitað að lokum. Þar hafði verið komið fyrir léttum veitingum og hópurinn sem þarna var stóð í kringum borðið og beið eftir að niðurstaðan yrði kunngjörð. Eftir um 20 mínútur gengu andmælendur í salinn og formaðurinn tilkynnti að Þorvaldur hefði fullnægt kröfum og væri þar með orðinn doktor.
Þessu næst setti Professor Thomas  þennan undarlega hatt á höfuð Þorvaldar (setti hann ekki rétt á, nema það sé svona sem Danir setja svona hatta á fólk) og íklæddi hann svarta skikkju. Hann flutti síðan ávarp, en hann var leiðbeinandi Þorvaldar í doktorsverkefninu.
Þá gerðu gestirnir veitingum góð skil áður en heim var haldið.

Þarna var hápunktur langs ferils sem hófst í raun með meistaranámi í Perth í Ástralíu og síðar í Osló.
Það sem ekki síst gerði Þorvaldi kleift að vinna að þessu verkefni var ríkulegur styrkur sem hann fékk árið 2012 frá frændum okkar Dönum, en hann kallast EliteForsk rejsestipendium. Þorvaldur hlaut þennan styrk fyrstur Íslendinga og fyrstur sjúkraþjálfara í Danmörku.

Ég þarf væntanlega ekkert að fjölyrða um það, en við foreldrarnir og fjölskyldan öll erum afar stolt af okkar manni og einnig stoð hans og styttu í gegnum þetta, henni Ástu Huldu.


21 september, 2014

Hörður (að verða) 80

Á morgun, þann 22. september, fagnar Hörður Vignir Sigurðsson áttræðisafmæli. Hann er einn þeirra sem hafa verið samferðamenn Laugarásbúa af minni kynslóð nánast alla ævi. Ég mun hafa verið 10 ára þegar fjölskyldan flutti í Gamla bæinn í Hveratúni, Hörður, þrítugur og Ingibjörg tuttugu og fjögurra ára, með synina Atla, fjögurra ára og Bjarna, tveggja ára.
Ári eftir að þau fluttu bættist Kristín síðan við hópinn. Hörður og Ingibjörg eða Ingibjörg og Hörður finnst mér hafa markað upphaf þeirrar miklu fólksfjölgunar sem varð í Laugarási á síðari hluta sjöunda áratugarins.

Í Gamla bænum bjuggu þau í um það bil 3 ár en fluttu þá í húsið sem þau höfðu komið sér upp í Lyngási, norðan Laugargerðis, vestan Skálholtsvegar, í og undir Kirkjuholti.
Landið sem Lyngás stendur á er 1,4ha. Gróðurhúsið sem þau Lyngáshjón byrjuðu með svo fljótt sem mögulegt var eftir flutninginn, var um 800m² (br.) , pökkunarskúrinn/aðstöðuhúsið var byggt 1965, og hitt gróðurhúsið sem byggt var, er rúmir 400² , en það reis 1974.

Skúrinn og gróðurhúsið
í Lyngási 1970
Mér finnst ræktunin í Lyngási hafi alltaf verið blóm og þá aðallega krysi og jólastjarna, löngum bæði þannig að þessar tegundir voru seldar sem græðlingar til framhaldsræktunar og einnig í endanlegri mynd. Ég var á einhverjum tíma sumarstarfsmaður hjá þeim og veit því örlítið um þetta.







Það sem sést af íbúðarhúsinu
í Lyngási, 2014




Eins og lífið gengur nú fyrir sig þá kom að því að aldur þeirra hjóna kallaði á breytingar og fyrir 12 árum fluttu þau í Hveragerði, þar sem þau búa enn.
Lyngás er hér enn og gegnir nú talsvert ólíku hlutverki. Fyrsta gróðurhúsið þeirra er orðið að minningu, hitt gegnir óræðu hlutverki, og pökkunarskúrnum hefur verið breytt í einhverskonar vistarverur.


1984 fluttum við Kvisthyltingar í næsta nágrenni við Lyngás. Börnin okkar fengu ekki síst að njóta þessa nágrennis, en á það bar aldrei skugga.

Eftir að þessi ágætu hjón fluttu í Hveragerði hafa samskiptin dregist saman, enda er Hveragerði þannig í sveit sem að maður er annaðhort að "drífa sig í bæinn" eða að "drífa sig heim". Það var þessvegna kærkomið að fá að komast í myndasafnið hjá Ingibjörgu og hafa þar með beinlínis skothelda ástæðu til að kíkja í heimsókn til þeirra á þessu ári.

Lyngásfjölskyldan 1969

11 september, 2014

Ekki sáttur

Ég er maður sem fylgist með stefnum og straumum, enda löngu búinn að átta mig á því að þeir sem gleyma sér smá stund í tíma sem löngu er liðinn (eða ekki svo löngu) eru óðar orðnir á eftir að flestu leyti, ekki aðeins tæknilega heldur einnig í hugsun, málbeitingu og flestu því öðru sem því fylgir að lifa og starfa í nútímanum. Lengi gæti ég nú fjallað um þetta eins og margt annað, en það bíður eftirlaunaáranna. Nú er það hraðinn sem gildir; snaptsjattshraðinn.

Fyrir skömmu átti ég leið um Egilsstaði og Hallormsstað ásamt fleira fólki. Þar sem það fólk kemur við sögu hér síðar þá er bara best að geta þeirra: Hveratúnsbændurnir Sigurlaug og Magnús, tenórinn Egill Árni og píanóleikarinn Hrönn. Þarna vorum við á ferð í ágætum bíl Einbúablárhjónanna Sæbjörns (Mannsa) og Arndísar (Dínu) og þar sem veðrið var með slíkum eindæmum að annað eins höfðum við ekki upplifað sunnanlands misserum saman, varð úr að við renndum í Atlavík.
Sá staður, við þessar aðstæður, var eiginlega draumkenndur, ekki aðeins fyrir fegurðar sakir og veðurs, heldur einnig vegna blámóðu loftsins og drapplits Lagarfljótsins.

Við svona aðstæður er fyrsta hugsun nútímamannsins að taka af sér sjálfsmynd til dreifingar, svo aðrir geti notið hennar með honum. Þarna voru nútímamenn á ferð og viðþolslitlir drifu ferðalangarnir sig úr bifreiðinni og niður á vatnsbakkann og hófu að taka sjálfsmyndir. Og þeir tóku sjálfsmyndir, og þeir tóku sjálfsmyndir og síðan tók við tími sem fór í að séra þessum myndum, öðrum til ánægju.

Um þessa mynd er lítillega fjallað í textanum.
Ég er auðvitað nútímamaður og sem slíkur var ekki um annað að ræða hjá mér en að taka sjálfsmynd(ir), sem ég  gerði auðvitað, þó svo þetta sé einn þeirra þátta í fari nútímamannsins sem ég hef enn einna minnsta skilninginn á.

Ég, ólíkt sumum hinna, séraði myndunum ekki og hafði það svo sem ekki einusinni í hyggju, taldi myndefnið ekki vera þess eðlis að það ætti erindi í almenna dreifingu.
Það var, sem sagt, sérað og síðan fóru sérarnir að keppast um hver fengi flest lækin, svona rétt eins og gengur og gerist.  Og ekki meira af því, utan eftir á að hyggja þá velti ég fyrir mér, hvort það var náttúrufegurðin eða sjálfsmyndirnar, sérin og lækin, sem héldu athygli ferðamannanna mest.

Það var haldið heim á leið og daginn eftir varð mér litið í símann minn (já, ég á snjallsíma með myndavél). Þá blasti þar við mér einstaklega vel heppnuð sjálfsmynd og þar með varð ekki aftur snúið.
Ég séraði sjálfsmyndinni með þessum hætti:

Það var eins og við manninn mælt, miðillinn logaði fram eftir kvöldi og næsta dag, bæði af lækum og kommentum. Annað eins hef ég ekki reynt á þessum vettvangi og neita því auðvitað ekki, þó svo sjálfsmyndinni hafi verið sérað í hálfkæringi, að viðbrögðin kitluðu og eftir þau er ég líklega orðinn meiri nútímamaður. Uppskeran varð 113 læk og 16 komment. Kommentin voru sum þess eðlis að ég roðnaði með sjálfum mér og lyftist allur að innan, en hvorki lét né læt á neinu bera hið ytra.

Sagan er hinsvegar ekki öll.

Skömmu eftir þetta átti Hveratúnsbóndinn afmæli. Hann er reyndar bróðir minn, fyrir þá sem ekki vita. Eins og vera bar streymdu inn að prófílinn hans hlýjar afmæliskveðjur. Allt í lagi með það.
Sjálfsmynd Hveratúnsbóndans, sem vikið er að í textanum.
Eins og vera ber þakkaði maðurinn svo fyrir allar kveðjurnar daginn eftir og lét þar fylgja með sjálfsmynd sem hafði verið tekin við áðurnefnt tilvik í Atlavík. Þessi sjálfsmynd komst auðvitað ekki í hálfkvisti við mína fínu mynd, Bæði var, að uppbygging myndarinnar fullnægði ekki stöðlum góðrar sjálfsmyndar og myndefnið skorti einfaldlega hinn rétta tón.
En viti menn.
Lækin og kommentin streymdu að og nú er þarna að finna 119 læk og 17 komment!

Ég hef velt talsvert fyrir mér ástæðum þessa sigurs bróður míns, en ekki fundið neina haldbæra, utan þá að þarna bættust við nokkrir sem höfðu gleymt að óska honum til hamingju með afmælið og reyndu þarna að bæta úr, eftir því sem kostur var, með þessum hætti.

-------------------------------------------------

Varnagli: Ég vona að lesendur átti sig á raunverulegum tilgangi mínum með þessum skrifum. Áður en þeir túlka þennan tilgang  með neikvæðum hætti, þætti mér vænt um að fá að heyra frá þeim.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...