01 nóvember, 2014

Ég sá líf mitt ekki þjóta hjá.

"This is your captain speaking. I'm afraid I haven't got very good news for you." Framhald ávarps flugstjórans í flugi OU419 frá Frankfurt til Dubrovnik í Króatíu þann 25. október hef ég á íslensku: "Í gærkvöld tókst okkur að lenda á flugvellinum í 25 hnúta vindi, en í kvöld er vindhraðinn 30 hnútar úr norðri. Við vonum að þetta fari allt vel."
Þegar þarna var komið var leiðin um það bil hálfnuð og við nýbúin að sporðrenna samloku sem flugþjónarnir höfðu fært okkur. Ferðin fram til þessa hafið gengið afar vel.
"30 hnútar. Það er nú varla umtalsvert - 15 metrar á sekúndu." Það var talnaspekingurinn í hópi samferðamannanna sem var fljótur að slá alvarleika yfirlýsingar flugstjórans út af borðinu. Hann vissi hinsvegar ekki, að í Dubrovnik er ein flugbraut með stefnuna um það bil austsuðaustur/vestnorðvestur og að skammt norðan þessarar flugbrautar er fjallgarður.

Það er af fD að segja, að hún var að halla sér þegar flugstjórinn greindi frá stöðu mála og ég var nú ekkert sérstaklega að upplýsa hana í smáatriðum þegar hún losaði blundinn. Það voru hinsvegar nokkur ónot í mér því ég hafði ekki ástæðu til að efast um að þegar flugstjóri segist ekki hafa góðar fréttir þá meini hann það. Flugstjórar mega ekki valda óþarfa ótta hjá farþegum með kæruleysislegri kaldhæðni.

Til að gera nánari grein fyrir flugvellinum í Dubrovnik hef ég sett hér inn yfirlitsmynd af honum lesendum til glöggvunar. Flugbrautin er sú lengsta í Króatíu, 3300 metrar, en aðeins ein. Í um það bil tveggja kílómetra fjarlægð NNA af vellinum rís nokkuð voldugur fjallgarður. Vindáttin var, þegar það sem greinir hér að neðan átti sér stað, norðlæg 30 hnútar eða 15 m/sek. Það þarf ekki fræðimenn til að ímynda sér að aðstæður á vellinum myndu vera nokkuð óstöðugar. Slíkar veðuraðstæður kallar fD "hringrok", en einnig er vísað til þeirra sem sviptivinda.

"Við erum nú að hefja aðflug að flugvellinum og ég bið farþega að festa sætisbeltin," sagði flugstjórinn og það var það síðasta sem heyrðist frá honum í ferðinni. Við fundum hvernig véln lækkaði flugið smám saman og til að byrja með var þar allt með eðlilegum hætti: lítilsháttar hreyfing til hliðanna og upp og niður. Í stað þess að þessi hreyfing minnkaði þegar komið er undir skýjahæð, fór hún vaxandi eftir því sem neðar dró. Öll ljós í vélinni voru slökkt þegar hér var komið.
Ekki ætla ég að greina nákvæmlega hvað fram fór í sætinu við hliðina á mér, en læt nægja að greina frá því, að sessunautnum varð því órórra sem nær dró jörðu.

Ljósin á flugvellinum birtust smám saman og í stað þess að vera kyrr á sínum stað voru þau á stöðugri hreyfingu upp og niður og til hliðanna. Ég stóð mig að því að vera farinn að halda mér nokkuð fast í sætisarmana, en lét ekki eftir mér að láta á neinu bera að öðru leyti: starði út um gluggana, fylgdist með hreyfingum Airbus 319 vélarinnar, sem fylgdu engu mynstri. Það má segja að ástand mitt hafi verið svipað og Grettis í þessum ljóðlínum Matthíasar Jochumssonar: 
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,

heldur í feldinn, horfir í eldinn

og hrærist ei.

Það birtir, það syrtir

því máninn veður og marvaðann treður
um skýja sæinn.
Hver ber utan bæinn?
Það sem myndi gerast næst, gæti allt eins verið það síðasta sem gerðist, án þess að ég gæti rönd við reist með nokkrum hætti. Ekki voga ég mér að neita því, að þarna flaug sá möguleiki um huga minn, að úr þessari flugferð ætti ég mögulega ekki afturkvæmt.

Ljósin á jörðinni fóru smám saman að nálgast það að vera í láréttri sjónlínu, sem þýddi að vélin nálgaðist jörðu æ meir. Stundum lyftist hún skyndilega, svo maginn sökk niður, stundum pompaði hún niður svo maginn fór upp í háls og þess á milli þeyttist hún til hliðanna með tilheyrandi afleiðingum.
Jörðin og vélin voru við það að kyssast og eitt augnablik virtist sem kyrrð væri að færast yfir, en þá sviptist vélin skyndilega til hægri, ljósin úti vinstra megin hurfu alveg sjónum og þar með virtist ljóst að þessu væri bara að ljúka. Í sama mund og slíkar hugsanir bærðu á sér, var gefið inn með sama afli og tíðkast í flugtaki, og haldið til himins á ný.

"Hann er hættur við að lenda" var sagt með orðum víða um vélina, þó öllum gæti verið það ljóst, án þess að orð kæmu til. Það var síðar haft eftir farþega sem sat hægra megin í vélinni, að ef henni hefði verið lent við þær aðstæður sem þarna voru, hefði hægri vængurinn orðið fyrsti hluti vélarinnar til að snerta flugbrautina.

"Hann ætlar örugglega að reyna að lenda á annarri braut", sögðu þeir sem vissu ekki að það var ekki önnur braut. "Ætli hann ætli að lenda á öðrum flugvelli? Hvaða flugvöllur skyldi það vera? Hvenær ætli við verðum þá komin á hótelið?"  Margar spurningar fóru um huga farþeganna. Þeim var að hluta svarað innan nokkurra mínútna, þegar sami ferillinn hófst aftur: vélin lækkaði flugið og stefndi til jarðar.  Neðar, mjakaðist hún, neðar og neðar. Aftur dansaði hún og aftur dönsuðu ljósin fyrir utan. Aftur mátti lesa áhyggjur, nokkurn ótta, skelfingu og jafnvel hrylling úr augum farþeganna, sem þurftu að ganga í gegnum samskonar aðflug aftur. Hreyfingar vélarinnar voru jafn ófyrirsjáanlegar og fyrr; allt gat gerst. Það var ekki fyrr en augnabliki áður en lendingarhjólin snertu malbikið á flugbrautinna og kyrrð komst á vélina.
Sennilega hefur þessi atburðarrás litið svona út utanfrá:

"Hún er lent! Hún er lent!" var sett í orð um alla vél, þó öllum mætti ljóst vera, að Airbus 319 vél Croatia Airlines var lent, heilu og höldnu á einu flugbrautinni á flugvellinum í Dubrovnik í 30 hnúta hliðarvindi.
Það var klappað og fagnað um alla vél, en hendur  héldu áfram að skjálfa fram eftir kvöldi. Heitingar voru uppi um að aldrei framar skyldi stigið upp í flugvél. Heim skyldi farið með lest og skipi.
Fimm dögum síðar var flogið frá Dubrovnik til Zagreb og þaðan til Amsterdam áður en lokaleggurinn til Íslands var floginn.
.......................................................
Myndirnar sem fylgja úr ferðinni tengjast ekki reynslunni í flugvélinni, eins og nærri má geta, enda var ég ekki með hugan við ljósmyndun meðan á henni stóð. Þær eru hinsvegar lítið sýnishorn frá dvölinni í Dubrovnik þar sem við sóttum ESHA-ráðstefnuna svokallaða í nokkra daga.  Það kann að vera að ég greini frá einhverju öðru sem þar gerðist og sérstakt má teljast, áður en langt um líður.

Dubrovnik er falleg borg og aðbúnaður var þar með miklum ágætum.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...