31 ágúst, 2015

Í lífshættu á Kili

Ég þakka fyrir að sitja hér fyrir framan tölvuskjáinn í góðu yfirlæti í stað þess að öðruvísi sé komið fyrir mér. Reynsla gærdagsins hefur kennt mér (reyndar er ég alltaf að læra það sama í þessum efnum) að það sé mikilvægt að hugsa hvert skref áður en það er tekið. Ég hef reyndar haft þetta að leiðarljósi í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Oft hef ég hinsvegar staðið frammi fyrir aðstæðum sem verða til þess að ég gleymi einu og einu skrefi og það var það sem gerðist í gær.

Við fD skelltum okkur í Kerlingarfjöll. Ég, með alla myndatökuútgerðina mína og hún með litlu spjaldtölvuna sína. Ég, til að taka myndir til að dunda mér síðan við í myndvinnsluforritum. Hún til að taka myndir á spjaldtölvuna sína til að finna flott form og liti til að mála eftir á dimmum vetrardögum sem framundan eru. Í sambandi  við spjaldtölvuna stóð ein spurning fD uppúr: "Af hverju sé ég bara sjálfa mig?" Ég læt lesendur um að finna út tilefni spurningarinnar.

Hér ætla ég ekki að fjalla um þær dásemdir sem í Kerlingarfjöllum er að finna, nema með nokkrum myndum, heldur það sem gerðist þegar myndatökum var lokið og haldið var í áttina heim aftur.

Við vissum að ferðin þarna uppeftir gæti tekið einhvern tíma þannig að það var ákveðið að taka með nesti, útileguborðið, útilegustólana og gastæki til að hita vatn í kaffi. Eftir Kerlingarfjöll þurftum við síðan að finna góðan og ofurrómantískan grasbala til að koma græjunum fyrir, hita vatnið og snæða í guðsgrænni náttúrunni á fjöllum. Þennan stað fundum við við Gýgjarfoss í Jökulfalli við veginn upp í Kerlingarfjöll. Hreint indæll staður og það sem meira var, þarna gat ég æft mig í að taka myndir af fossinum meðan vatnið hitnaði. Í sem stystu máli, settum við allt upp. Kúturinn var settur í gastækið, potturinn á og vatn í hann, skrúfað frá gasinu og kveikt á. Að því búnu kom ég þrífætinum fyrir á góðum stað og tók að mynda í gríð og erg. Ég prófaði mismunandi stillingar á filternum, mismunandi ljósop, mismunandi hraða og mismunandi hitt og þetta.
"Á að rjúka svona úr gastækinu?" spurði fD þar sem hún stóð allt í einu fyrir aftan mig, en myndatakan fór fram í um 20 m fjarlægð frá eldunarstaðnum.  Mér varð litið við og sá hvar blásvartur reykur liðaðist upp af tækinu, augljóslega ekki úr pottinum. Það fór um mig við þessa sjón, eins og vænta mátti. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Annaðhvort var tækið bilað, eða ég hafði gert einhver mistök við tengingar.

"Nei, það á ekki að rjúka svona úr tækinu" varð mér á orði í huganum þar sem ég skildi myndatökutækin eftir á bersvæði við beljandi Jökulfallið á sama tíma og túristarúta nam staðar skammt frá, og hraðaði mér í átt að eldunarstaðnum. Þarna var augljóslega eitthvað mikið að, en eins og vænta mátti sýndi ég fumlaus viðbrögð þótt inni í mér ólgaði óvissan um hvað þarna gæti gerst í þann mund er ég nálgaðist tækið til að slökkva á því.  Ég byrjaði á að loka snöfurmannlega fyrir gasstreymið og átti  von á því að þá og þegar spryngi gaskúturinn í andlitið á mér.  Tækið allt var orðið glóandi heitt, en gaskútnum er komið fyrir inni í því, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Eftir nokkra stund hvarf ég aftur að tækinu þó svo hættan á sprengingu væri enn ekki liðin hjá og tók pottinn af hellunni, en hún er laus. Þá blasti við mér miði á hellunni sem greindi frá því, svo ekki varð um villst, að hluti af því að græja tækið til notkunar væri að snúa hellunni við. Þá rifjaðist það upp fyrir mér og þannig hafði ég gert þetta áður. Þarna hafði ég haft hugann meira við myndatökur en eldamennsku og því fór sem fór.

Mér tókst að snúa hellunni rétt og þegar tækið hafði kólnað nokkuð kveikti ég aftur á því og nú var allt með eðlilegum hætti, vatnið hitnaði, brauðið var smurt og álegg skorið. Það var etið og drukkið í guðsgrænni náttúrunni  og einu áhyggjurnar sneru að því hvort við vektum meiri athygli túristanna sem framhjá fóru, en vegurinn framundan, með þeim mögulegu afleiðingum, að þeir ækju á Qashqai þar sem hann stóð í vegarkantinum.

Svo var fram haldið ferðinni heim á leið.


24 júní, 2015

Sundbuxnakaupin

Það er svo komið að 10 ára gamlar sundbuxur mínar eru komnar úr tísku og ekki bara það, því þær hafa einnig orðið fyrir útlitsáverkum vegna þess að þær hafa verið notaðar til ýmissa annarra athafna sen sunds gegnum árin.  Niðurstaða mín varð sú, í tilefni af fyrirhugaðri ferð, þar sem gert er ráð fyrir að fólk sé frekar í sundbuxum en þessum venjulegu, svörtu vinnubuxum, að ég yrði að endurnýja sundbuxurnar.
Þetta tilkynnti ég fD og hún gerði ekki athugasemdir við þessar niðurstöðu mína.
Auðvitað vissi ég að val á sundbuxum gæti orðið  allt annað en einfalt því þar koma að ótal breytur sem get haft áhrif á valið.  Það hvarflaði að mér að  mér að það væri nú gott ef kæmi nú svona spurningaleikur á Fb: What kind of swimsuit suits you best? Take the test. Þá þyrfti ég bara að svara svona 10 spurningum og fengi niðurstöðuna svart á hvítu. Það er enginn svona spurningaleikur í gangi.
Svo hófst ferðin til höfuðstaðar Suðurlands, en þar þurfti að sinna ýmsum erindum, meðal annars að athuga hvort þar fengjust viðeigandi sundbuxur. Þó margt annað sem gerðist í þessari kaupstaðarferð hafi verið óendanlega skemmtilegt og fróðlegt, þá einbeiti ég mér bara að þessu sundbuxnamáli hér og nú.
A
Það var auðvitað fD sem stakk upp á líkegustu versluninni og ég átti allt eins von á að hún héldi áfram að stinga upp á, alveg þar til búið væri að greiða fyrir mögulegar buxur.
Þar sem enginn var Fb leikurinn til að hjálpa mér við val á svona flík, þá varð ég sjálfur að búa mér til spurningar með helstu breytum, því auðgljóslega yrði um margt að velja og mikilvægt að ég setti fram sjálfstæða skoðun þegar kæmi að sundbuxnavalinu.
Hér eru áhugaverðar spurningar sem sundbuxnakaupandi gæti þurft að svara til að taka upplýsta ákvörðun:
1. Hvað ertu gamall?
   Valkostirnir væru einhver aldursbil
2. Hvernig ertu í vexti?
   Valkostirnir væru á bilinu frá vaxtarræktarmaður upp í "Hvað áttu við?"
B
3. Hjúskaparstaða?
    Valkostir frá því að vera á lausu og upp í "harðgiftur í 40 ár"
4. Stundarðu sund?
    Valkostir frá aldrei og upp í daglega.
5. Hefurðu þörf fyrir að vera áberandi.
    Valkostir frá því að vera "nei engan veginn" og upp í "nú, auðvitað".
6. Hverjar eru stjórnmálaskoðanir þínar?
    Valkostir eru þetta venjulega frá vinstri til hægri.
C
7. Hver er uppáhaldsliturinn þinn?
    Valkostir óræðir, en eitthvað sem tengist litum. 
8. Til hvers ætlar þú að nota sundbuxurnar?
     Valkostir tengjast óhjákvæmilega svarinu við spurningu 4.
9. Hefur þú frelsi til að kaupa þær sundbuxur sem þig langar í?
   Valkostir á bilinu "Nei, alls ekki" og upp í "Já, auðvitað! Þó það nú væri!"
10. Vantar þig raunverulega sundbuxur?
    Vakostir frá "Neeeei, ætli það" og upp í "Auðvitað! Hverskonar hálfvitaspurning er þetta?"

Ég var örugglega búinn að fara í gegnum allar þessar spurningar í
huganum þegar við fundumm sundbuxnarekkann í búðinn sem fD hafði bent mér á.
D
Afgreiðslumaðurinn var unglingspiltur og fór yfir helstu þætti í úrvali sundbuxna verslunarinnar. Af einhverjum ástæðum benti hann mér ekki að þær sundbuxur sem maður kallaði alltaf "sundskýlu" áður fyrr. Síðan benti hann á flokk sundbuxna sem hann sagði að fylgdi ákveðið vandamál með stærðir - það þyrfti að gefa upp mittismál. "Þá verður bara að mæla", varð mér á orði og sú umfjöllun varð ekki lengri og ungi maðurinn hvarf á braut eftir að hafa bent mér á að það væri sjálfsagt að ég fengi að máta, ef ég vildi! Þrátt fyrir að mátun á sundbuxnum væri möguleg, hélt ég áfram að skoða.


E
Þarna var ákveðinn flokkur sundbuxna þar sem stærðirnar voru gefnar upp sem S, M, L, XL og XXL.
"Þú þarft ekki stærra en XL(?/!)" - ég set þarna tvo möguleika um greinamerki þar sem mér var ekki fullljóst hvernig skilja bæri það sem fD sagði.
Þessar sundbuxur voru til í þrem litum, og þá má sjá á meðfylgjandi myndum. Þegar stærðin var klár í huga mér stóð ekkert annað út af en liturinn.
"Það sér minnst á svörtu" - heyrðist í sjálfskipuðum ráðunaut mínum.

Ég fór úr þessari búð með sundbuxur í poka, en hvaða lit of lögun skyldi ég hafa valið?  A, B, C, D eða E?
 

23 júní, 2015

"Ég er að fara erlendis að versla föt"

 "Ég er að fara erlendis" Við skiljum þann sem þetta segir (með réttu eða röngu) sem svo að hann hyggist halda af landi brott, að hann sé að fara utan, eða að hann sé að fara tíl útlanda.
Erlendis mun vera eitt af þessum orðum sem kölluðust atviksorð og gefa til kynna kyrrstöðu, svona eins og inni eða úti. Þessi orð gefa til kynna að einhver er á einhverjum tilteknum stað.  Þannig segir maður: Ég er inni eða Ég er úti. Í samræmi við það segir maður væntanlega Ég er erlendis. Þá vaknar spurningin: Ef maður getur sagt: Ég er að fara erlendis, getur maður þá einnig sagt Ég er að fara inni, eða Ég er að fara úti?  Fáir held ég að myndu telja svo vera.


"Ég ætla að versla (mér) föt" Þetta skiljum við (með réttu eða röngu) þannig, að viðkomandi ætli að kaupa (sér) föt.  Sögnin að versla felur í sér að eitthvað er látið af hendi í stað einhvers annars. Þannig kaupir maður skyrtu og lætur af hendi einhverja fjárupphæð í staðinn. Í samræmi við það er eðlilegt að segja: Ég var að versla.  Það er einnig hægt að segja að einhver versli með skyrtur og þá merkir það að hann kaupir skyrtur og selur þær síðan aftur.  Sá sem fer út í búð til að versla, sér þar kannski þessa fínu skyrtu og niðurstaðan verður sú að hann kaupir hana og kaupmaðurinn selur hana. Kaupandinn verslar skyrtuna ekki, þó svo kaupmaðurinn versli með skyrtur.  Kaupmaðurinn kaupir skyrtur og selur þær aftur og verslar þannig með skyrtur. Viðskiptavinurinn kaupir skyrtu og greiðir fyrir hana og þannig má segja að hann versli við kaupmanninn, en hann verslar (sér) ekki skyrtuna.


Svo mörg voru þau orð og ég get þó alltaf sagt að ég hafi reynt.

19 júní, 2015

Gekt fab einkanir

Ég er enginn veiðimaður, en hef þó farið nokkrum sinnum að veiða um ævina og þá bara á svæðum þar sem mögulegt er að veiða silung. Ég hef fundið þá tilfinningu  að hafa veitt silung, einhverskonar sigurtilfinningu með tilheyrandi adrenalínflæði (einkunn 9,5). Oftast veiddi ég þó ekkert þó ég hafi vandað mig við val á veiðarfærum og staðið tímunum saman úti í á eða á árbakka (Einkunn 4,0).
Það eru sennilega um 20 ár síðan ég fór, ásamt fleirum úr fjölskyldunni til silungsveiða á stað þar sem silungur var ræktaður og sleppt í lítið vatn eða tjörn og síðan gat fólk keypt veiðileyfi þannig að greitt var fyrir hvert kíló sem veiddist.  Við hófum þarna veiðar og ekki leið á löngu áður en það beit á (9,5) hjá mér og hinum. Frábært, fannst okkur. Við kunnum að veiða, eftir allt saman. Hentum út í aftur og viti menn, það beit aftur á, og aftur og aftur og aftur. Eftir því sem aflinn varð meiri minnkaði ánægjan og á endanum nenntum við þessu ekki lengur og síðan hefur mig ekkert langað til veiða.

Þetta var inngangur til að sýna fram á munninn á ánægjunni af því að leggja sig fram til að ná árangri, annarsvegar og ánægjuleysinu af því að ná fyrirhafnarlausum árangri, hinsvegar.

Það er rætt um það þessa dagana, að margt bendi til þess, að einkunnir nemenda sem sækja um inngöngu í framhaldsskóla fari hækkandi ár frá ári, þær samræmist æ ver þeim kröfum sem framhaldsskólinn gerir til nemenda sinna og að þær séu ekki sambærilegar milli grunnskóla.

Framhaldsskólar kalla eftir samræmdum prófum til að unnt sé raða umsóknunum á sambærilegan mælikvarða.
Foreldrar gera kröfur til þess að árangur barna þeirra sé metinn þannig að þau komist í þá skóla sem þau (eða foreldrana) fýsir að komast í.

Nú er ég kominn á svæði sem er fullt af jarðsprengum og ég vil forðast feilspor.

Þar sem ég sit við tölvuna mína og skoða umsóknir grunnskólanema um bóknámsframhaldsskólann sem ég starfa við velti ég óhjákvæmilega fyrir mér hvað liggur að baki þeim einkunnum sem þar birtast mér. Þarna blasa við mér einkunnir þriggja nemenda (A, B og C) úr þrem mismunandi grunnskólum (1, 2  og 3). Þær eru alveg sambærilegar, en ég verð að velja á milli þeirra. Einn kemst inn, en hinir tveir ekki.
Með því að slá einkunnum umsækjendanna inn í excel kemst ég að því, að einkunnir nemanda B úr grunnskóla 1 eru örlítið hærri en einkunnir A og C. Ég vel nemanda B. En spyr mig jafnframt hvort það val var sanngjarnt. Ég spyr mig hvað það var sem myndaði einkunnir þessara nemenda. Voru þær sambærilegar, eða var ég kannski að hafna nemanda sem væri talsvert betur undirbúinn en B fyrir bóknám?  Hafði nemandinn sem ég hafnaði allt til brunns að bera sem einkennir öflugan námsmann, en bara svo "óheppinn" að koma úr grunnskóla þar sem kennarar hans höfðu gert kröfur á hann og ekki gefið honum neitt sem hann ekki átti? Kom nemandinn sem ég valdi úr grunnskóla þar sem matið byggði einvörðungu á hæfni hans til að taka próf? Kom hinn nemandinn sem ég hafnaði úr skóla þar sem matið byggðist að miklum hluta á öðru en prófum, þar sem metnir voru aðrir þættir frekar en þekking á námsefninu, s.s. ástundun, samvinnuhæfni, samviskusemi, viðhorf eða því um líkt? Var það jafnvel svo, að kennarar nemandans sem ég valdi höfðu gefið honum einkunnir á öðrum forsendum en þeim sem ég geng út frá? Var það kannski svo að einkunnagjöfin í viðkomandi grunnskóla endurspeglaði hreint ekki getu eða hæfni nemendanna?

Mér er það fulljóst, þar sem ég sit og velti þessu fyrir mér, að einkunnirnar, það eina sem ég hef á skjánum, kunna að vera og eru líklega algerlega ósambærilegar.

Ég vona að það sé orðið þeim ljóst, sem þetta lesa (ef þeir eru á annað borð einhverjir) að ég er talsverður talsmaður þess að nemendur sem útskrifast úr grunnskóla og ætla sér í framhaldsnám, gangist undir samræmt mat, annað er ávísum á að þeir verði ekki metnir inn í framhaldsskóla á sömu forsendum og aðrir.

Ég veit að það er trúaratriði hjá mörgum að berjast gegn samræmdum prófum og þeirra vilji er ofan á þessi árin.  Trú þeirra breytir engu um það að nemendur halda áfram að flytjast milli grunnskóla og framhaldsskóla. Framhaldsskólar munu varla til lengdar sætta sig við að val á nýnemum sé einhverskonar happdrætti. Einhverjir eru farnir að tala um inntökupróf.  Hvernig ætti nú að framkvæma slíkt? Ef tekið verður upp inntökupróf í framhaldsskóla, þá mun það líklega enda sem samræmt próf, því ekki gengur að hver nemandi þurfi að fara í inntökupróf í 2-4 framhaldsskólum, það segir sig sjálft.

Hvað er til ráða?  
Það þarf enginn að fara í grafgötur um að ég veit það, en það er víst ekki nóg. Þrátt fyrir það leyfi ég mér að hvísla það hér inn í storminn.
1. Foreldrar gera sér grein fyrir því að það er börnum þeirra fyrir bestu að fara í það nám sem hentar hæfileikum þeirra og áhuga.
2. Foreldrar gera sér grein fyrir því að einhverntíma þurfa börn þeirra að takast á við eitthvað sem gerir kröfur til þeirra, setur pressu á þau, veldur þeim kvíða, stillir þeim upp í samkeppnisaðstæðum.
3. Grunnskólar skipuleggja nám þannig í 9. og 10. bekk, að nemendur fái að njóta sín á þeim sviðum sem hentar áhuga þeirra og hæfileikum. Foreldrar eru kallaðir að borðinu og þeir sannfærast  um hvaða leiðir í framhaldsnámi henta börnum þeirra. Þeir vita hvaða leiðir eru í boði fyrir hvern og einn.
4. Á haustmánuðum í 10. bekk er tekin ákvörðun um hvert stefnt skal og í framhaldi af því eru nemendur 10. bekkjar skráðir í mismunandi tegundir samræmds mats allt eftir áhuga, hæfni, viðhorfum, lífssýn eða hvaðeina. Markmiðið: nemandinn fái að njóta sín til fullnustu. Hver getur mótmælt slíku?
5. Á vormánuðum gangast nemendur í 10. bekk undir samræmt mat til undirbúnings umsóknar um framhaldsskóla á viðkomandi sviðum.
6. Nemendur senda inn umsóknir sínar um þá skóla sem stefnt er á. 
7. Framhaldsskólarnir fá í hendur algerlega sambærilegar niðurstöður og vinna úr þeim.

Ég veit að það vakna ótal spurningar í þessu sambandi, en kjarninn er sá, að mér finnst foreldrar og grunnskólar  verði að taka undirbúning fyrir umsókn um framhaldsnám föstum tökum. Það hefur átt sér stað og á sér stað feikileg sóun á hæfileikum margra ungmenna sem hafa lagt í nám sem þau hafa ekki áhuga á eða hæfni til að stunda. Því þarf að breyta.

Á sextánda ári eiga unglingar að vera færir um að takast á við krefjandi verkefni, streitu og kvíða í hæfilegum skammti. Slíkt tel ég vera góðan undirbúning fyrir framhaldið.


17 júní, 2015

"Er þetta ekki ML-merkið?"

"Jæja vinur, hvað er títt..? Er þetta nokkuð búið að fljúga undir radarnum hjá þér..? Ég neita að trúa því en samt hendi ég þessu á þig til vonar og vara.."
Þessi skilaboð birtust mér gegnum samfélagsmiðila fyrir einhverjum vikum og fjölluðu um hvort ekki mætti reikna með að ég léti fé af hendi rakna svo unnt yrði að ljúka við vinnslu bolvískrar kvikmyndar sem hafði hlotið nafnið "Albatross". Sá sem skilaboðin sendi er fyrrum nemandi sem jafnframt reyndist fara með aðalhlutverk í kvikmyndinni.
Auðvitað hafði þetta ekki "flogið undir radarinn" hjá mér, svo vel tengdur sem ég er á samfélagsmiðlum. 
Ég styrkti með mínum hætti, eins og ótrúlegur fjöldi annarra og vissi síðan ekkert af málinu fyrr en póstur tilkynnti mér að tveir miðar á forsýningu þann 16. júní stæðu mér til boða.

Í gær héldum við fD síðan í höfuðborgina og sinntum ýmsum erindum, svona eins og maður gerir. Áætlaður tími reyndist vel rúmur svo við vorum komin nánast vandræðalega tímanlega á sýningarstaðinn sem var hátíðasalur Háskólabíós. Þá vorum við búin að drepa tímann með því að rifja upp kynni af högum og melum í vesturbænum í góða stund.

Það dreif að fólk á sýninguna og þar kom að hópnum var hleypt inn í salinn. Hátíðasalurinn í þessu, eitt sinn flottasta kvikmyndahúsi landsins hefur séð betri tíma.

Sýningin hófst og ekki ætla ég mér nú að lýsa því sem fyrir augu bar í smáatriðum, utan það að í einni senunni hnippti fD í mig og spurði fyrirsagnar þessa pistils. Viti menn, klæddist ekki aðal íþróttabuxum sem falla í flokkinn ML-föt á mínum vinnustað. Ef mið er tekið af því, að það eru ein 13 ár síðan pilturinn brautskráðist frá skólanum, verður að draga þá ályktun að ML-föt séu sígild og endist áratugum saman.

Um myndina sjálfa er það að segja, að ég skemmti mér aldeilis ágætlega, skellti meira að segja nokkrum sinnum upp úr. Sú senan sem ég hló mest að var þegar vinnufélagar Tómasar (aðalpersónunnar) gáfu sig á tal við brasilíska fótboltakonu og annar þeirra kynnti hinn sem meistarabeitningamann  á sinni ensku.

Á heildina er hér á ferð afar skemmtileg gamanmynd og leikendurnir, ekki síst minn maður, standa sig með prýði. Það helsta sem ég vil finna að henni er, að í nokkrum tilvikum er hljóðið ekki nægilega skýrt og þar með missti ég af nokkrum skemmtilegum athugasemdum persónanna og þá helst þess sem "baggaði" sig sig látlaust og tanaði grimmt.  Ég fékk það á tilfinninguna að það hafi verið ansi margir Bolvíkingar í salnum og jafnframt að þeir hafi þekkt til "baggarans", því þeir hlógu að bröndurum hans þó svo ég hafi ekki skilið/heyrt hvað hann sagði.

Fólk á auðvitað að drífa sig á þessa ágætu mynd, en auðvitað eru Bolvíkingar og ML-ingar skyldugir til að bruna í bíó.  Myndin verður frumsýnd föstudaginn 19. júní.

ps. Aðalleikarinn sem nefndur er hér fyrir ofan heitir Ævar Örn Jóhannsson, kláraði ML 2003 og bræður hans tveir Hafsteinn (2010) og Daníel Ari (2013) fylgdu í kjölfarið. 

16 maí, 2015

Með ásjónur engla

Í dag langaði mig að prófa nýja filterinn minn (Tiffen variable ND), en það þýðir bara það, að það myndefnið þarf að vera á hreyfingu til að ná fram tilteknum áhrifum. Fossar eru t.d. tilvaldir til þess arna. Ég veit bara um einn foss í nágrenninu og ég er nú búinn að komast að því að hann kallast Dynjandi og er í Brúará um það bil kílómetra fyrir ofan brúna. Ég hef reyndar ekki rannsakað til hlítar hvort þetta er rétt nafn þessa foss, eða flúða, en kalla hann bara Dynjanda þar til annað kemur í ljós.
Til að komast að fossinum er í fljótu bragði um tvær leiðir að ræða. Annarsvegar gengur maður frá brúnni, meðfram ánni þar til komið er að fossinum. Þessa leið fór ég einhverntíma í gamla daga.
Hina leiðina sá ég með því að fara á Google-maps. Sú leið virðist ótrúlega einföld: það liggur akvegurvegur frá Biskupstungnabraut og nánast alveg að fossinum.
Það þarf ekki að spyrja að því hvora leiðina ég valdi, og við fD lögðum í hann eftir að ég hafði tínt til græjurnar, sem verða stöðugt umfangsmeiri (og flottari).
Ég vissi að það var hlið þar sem ekið er inn á veginn niður að ánni, en hafði aldrei kannað hverskonar hlið það var. Nú veit ég það hinsvegar.
Þar sem ég beygði af aðalveginum, blasti við mjög sterkbyggt hlið og á því var skilti sem gaf skýrt til kynna að þarna væri um einkaveg að ræða. Það varð þá svo að vera, og við fD vorum þess albúin að yfirgefa Qashqai og ganga spölinn niður að ánni. Sannarlega var sá kostur og aka þennan spöl þó talsvert eftirsóknarverðari.
Í þann mund er við vorum að stíga frá borði, bar að bifreið innan af svæðinu handan hliðsins. Þegar hún nálgaðist opnaðist hliðið hægt og rólega og ég ákvað að reyna að ná sambandi við ökumannin til að kynna mér hve mikinn einkaveg væri þarna um að ræða. (Þetta gat verið einkavegur eins og sá sem liggur heim í Kvistholt og þetta gat líka verið einkavegur þar sem alvarleg viðurlög eru við akstri í óleyfi og jafnvel kölluð til lögregla. Hliðið benti til þess að einmitt sú gæti verið raunin).
Bílstjórinn, kona á ríflega miðjum aldri, stöðvaði bíl sinn hjá okkur og renndi niður hliðarrúðunni, þess albúin að tilkynna okkur að þarna færum við ekki í gegn. Í sama mund rann hliðið til baka og lokaði leiðinni. Spurningu minni um hvort það gæti verið möguleiki að við fengjum að aka veginn handan hliðsins svaraði hún sem svo:
"Þetta er einkavegur", hverju ég svaraði þannig að ég hefði fullan skilning á því, og svo framvegis og gaf til kynna að þá næði þetta ekki lengra. Konan horfði rannsakandi á okkur um stund en sagði svo:
"Þið eruð svo heiðarleg á svipinn að það hlýtur að vera óhætt að hleypa ykkur í gegn", og þar með ýtti hún á opnara (svona eins og notaðir eru á bílhurðir) og hliðið rann frá.
"Það gæti orðið vandamál hjá ykkur að komast út aftur, en það er yfirleitt hægt með því að........(hér vil ég ekki ljóstra upp um aðferðina). Ef það gengur ekki þá verðið þið að semja við einhvern um að hjálpa ykkur".
Spennan ætlaði ekki að verða endaslepp þennan daginn. Þar sem við erum spennufíklar, ekki síst fD, létum við slag standa og ókum þennan veg sem við alderi höfðum farið áður, könnuðum sem sagt ókunnar slóðir á 30 km hámarkshraða eins og tilskilið var, engin ástæða til að taka áhættuna á að verða tekinn fyrir of hraðan akstur. Qashqai var lagt  við sumarhús sem greinilega var mannlaust. Það, eins og ótrúlega mörg hús, sem við höfðum ekki áður haft vitneskju um, stóð á fögrum stað á bakka Brúarár og við blasti fossinn Dynjandi, sem venjulega væri nú bara kallaður flúðir frekar en foss.

50 m ganga var allt sem til þurfti til að komast að ánni. Græjurnar settar upp, stilltar og hvaðeina sem þurfti til myndatöku. Það var ágætur bónus að geta fylgst með og myndað straumandarpar og auka stegg sem létu fara vel um sig við bakkann okkar megin.
Segir ekki af myndatökunni fyrr en henni lauk, enda um að ræða enn eina æfinguna í að ná tökum á broti þeirra möguleika sem búa í græjunum.

Þegar konan ók frá okkur við hliðið fannst mér hún glotta, frekar en brosa, sem gæti þýtt að ráðið sem hún gaf okkur til að komast úr aftur væri ekkert sérstaklega gott.  Af þessum sökum fylgdi því nokkur spenna að aka veginn til baka á löglegum 30 km hraða, að hliðinu.
Hvernig skyldi enda vor för?
Á leiðinni sáum við nokkra einstaklinga horfa rannsakandi á löglegan akstur okkar og mér fannst ég geta greint af svipbrigðum þeirra og látbragði að við værum ekkert sérlega velkomin á þessum slóðum og að það gæti nú verið fróðlegt að sjá hvernig við færum að því að komast út.
Hliðið nálgaðist æ meir og spennan fór vaxandi.
Þar sem við vorum að verða komin að verklegu hliðinu tók það sig til og renndi sér kurteislega til hliðar og hleypti okkur í gegn og þar með hafði ráð konunnar dugað til.

Við heimkomu skoðaði ég afraksturinn til þess eins að komast að því að ég get gert betur, eins og ávallt.  Hvað væri líka varið í að ná einhverri fullkomnun á þessu sviði frekar en öðrum, ef út í það er farið.

Lék við hvurn sinn fingur

"Ég er nú enginn fýlupúki!" sagði afmælisbarnið þegar ég hafði orð á því hve hress og kátur hann var á 100 ára afmælinu sínu og á heimleiðinni valt upp úr mér að vera kynni að fæðingardagurinn gæti hafa misreiknast um 10 ár.
Guðmundur Indriðason bauð sem sagt til veislu á afmælisdaginn, ásamt fjölskyldu sinni í Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu. Þar hafa þau Jóna nú alið manninn að undanförnu og ekki annað að sjá en vel fari um þau.
Afkomendurnir sungu.
Fyrir utan börnin fjögur, maka og afkomendur var þarna margt fólk sem Laugarás og nágrenni gisti á uppvaxtarárum mínum og gistir enn, sumir auðvitað orðnir talsvert þroskaðri, en báru samt með sér að hafa andað að sér heilnæmu og langlífishvetjandi loftinu í Laugarási.
Það er nú ekki stirt
á milli hjónakornanna
Það var vel veitt og glatt á hjalla á Lundi í gær, kveðskapur fluttur og kveðjur, söngvar sungnir og leikið á hljóðfæri meðan veisluföng voru innbyrt og skálað fyrir afmæliskarlinum.

Börn Jónu og Guðmundar eru:
Grímur, Katrín Gróa, Jón Pétur og Indriði.
Hér í aldursröð frá hægri. 

Fleiri myndir frá afmælishófinu.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...