21 nóvember, 2015

Hlátur hljóðnar

Magga ásamt sr. Agli Hallgrímssyni
í garðveislu sem kórnum var boðið
til í Mülheim í Þýskalandi árið 1998
"Hvaða kona er þetta eiginlega?"
Aðstæðurnar voru þær, að leikhópur Menntaskólans að Laugarvatni var að sýna leikritið Land míns föður í Félagsheimili Seltjarnarness og leikararnir áttu erfitt með það halda andlitinu í hlutverkum sínum vegna þess að einhver kona úti í sal hló svo innilegum og smitandi hlátri að öllu því sem talist gat fyndið eða skemmtilegt í verkinu.
Konan var hún Margrét Oddsdóttir, eða Magga Odds.

Magga Odds lést þann 13. nóvember síðastliðinn, á 62. aldursári, nokkrum mánuðum yngri en ég.  Útför hennar fer fram frá Skálholtskirkju í dag.

Þýskaland 1998: Áning með tilheyrandi.
Þarna má líta Geirþrúði Sighvatsdóttur,
Pál M Skúlason og Gísla Einarsson
Enn einu sinni er maður minntur á að maður getur ekki gengið að neinu vísu þegar um er að ræða ævilengdina.  Með Möggu er látinn fjórði einstaklingurinn á nokkrum mánuðum, úr hópi fólks sem ég þekki til og sem voru á svipuðum aldri og ég. Í öllum tilvikum var krabbameinið afgerandi þáttur í því að lífsganga þeirra fékk ekki að verða lengri.  Svona er það nú bara.Við hin höldum áfram þann tíma sem okkur er mældur.
Magga kom í Tungurnar um svipað leyti og ég sneri aftur til að kenna í Reykholtsskóla. Hún og þáverandi maður hennar, Páll Óskarsson frá Brekku, byggðu yfir sig Brekkuskógi. Þau hjónin eignuðust þrjú börn, Odd Óskar, Heklu Hrönn og Kristin Pál, en þar kom að leiðir hjónanna skildi. Magga var þó áfram í Tungunum þar til hún tók sig upp og flutti á Suðurnesin í einhver ár. Síðan kom hún aftur og bjó í Reykholti til dauðadags.
Kórferð til Ítalíu 2007: Vatíkanið
Magga Odds var stór. Sannarlega var hún stórvaxin, en ég held að enn meira máli hafi skipt að hún hafði stórt hjarta. Konan var mikill ljúflingur, hress og brosmild og hláturmild og bar það ekki utan á sér ef líf hennar var ekki alltaf dans á rósum.
Snertifletir mínir við þessa ágætis konu voru aðallega af tvennum toga. Annarsvegar fæddust elstu börnin okkar árin 1977 og 1979. Þar með hittumst við nokkuð á vettvangi grunnskólans.  Hinsvegar vorum við saman í Skálholtskórnum um alllangt skeið, en í gegnum kórstarfið var ýmislegt brallað fyrir utan sönginn og með okkur tókst ágætur kunningsskapur. Skálholtskórinn fór reglulega í söng- og skemmtiferðir til útlanda á þeim tíma sem við vorum þar. Meðal annars fórum við eftirminnilega ferð kórsins, maka og áhangenda til Þýskalands og Frakklands í október 1998 og í mikla Ítalíuferð árið 2007, en þá held ég að Magga hafi komið með sem svokallaður áhangandi.

Kórferð til Ítalíu 2007: Caprí. Magga
ásamt, Dröfn , Hilmari, Hófí,og Þrúðu
Það er nokkuð síðan ég frétti af því að Magga hefði greinst með meinið sem hefur nú lagt hana að velli. Ætli ég hafi ekki hitt hana síðast fyrir um hálfu ári síðan, talsvert breytta, en augljóslega með sama hjartalagið.

Hér er horfin á braut ein af þeim manneskjum sem maður hefur aldrei haft nema gott eitt af að segja. Ef Magga átti einhverjar aðrar hliðar þá voru þær mér huldar.


17 nóvember, 2015

Það tókst

F.v. Magnús, Ólafur, Helgi, Halla, Héðinn, Jónína,
Kristján, Páll, Haraldur, Lára, Baldur, Smári,
Björn, Jarþrúður, Jason, Hólmfríður og Eiríkur.
Myndina tók einkaþjónn hópsins 
og notaði til þess myndavél Eiríks Jónssonar.
Þetta á ekki að vera ellibelgsblogg, enda standa vonir til að ævidagarnir sem framundan eru verði margir og vonandi farsælir. Auðvitað er maður samt farinn að hugsa til þess sem bíður, en ég mun örugglega fjalla um það síðar. 
Þetta er hinsvegar nokkurskonar fagnaðarblogg í tilefni af ánægjulegum endurfundum, en fyrir nokkrum dögum gerðist það sem ekki hefur gerst síðan vorið 1974, að stærstur hluti stúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni það vor,  hittist í eina kvöldstund. Það má halda því fram að það sem varð til þess að hópurinn hittist hafi ekki verið jafn ánægjulegt, en fyrr í haust létust tvær bekkjarsystur okkar þær Jóhanna Gestsdóttir og Sigurveig Knútsdóttir.  Þegar svo var komið fór af stað sá bolti sem varð til þess, að 17 af 25 bekkjarfélögum hittust á Hótel Holti. Hluta þessa hóps hafði ég ekki séð í á fimmta tug ára og því var ekki laust við að ákveðins spennings gætti. Reyndin var, svo undarlegt sem það nú er, að svo virtist sem við hefðum öll hist í síðustu viku. Það var eins og samskiptamynstrið hefði varðveist í frosti og síðan þiðnað í óbreyttu ástandi. Það var ekki fyrr en þetta fólk fór að segja frá hvað hefði á dagana drifið, að mér varð ljóst hvílíkur tími hafði liðið frá því við héldum út í vorið frá Laugarvatni. Fólk sagði frá áratuga námi og störfum, fjölskyldum og rígfullorðnum börnum og barnabörnum, allt án þess að ég hefði haft um það hugmynd. Það kom mér ekki síst á óvart hve mörg orð hver og einn þurfti til að greina frá, oft ansi fjölbreyttu æviskeiði. Þessi liður í dagskránni sem ákveðin hafði verið, stóð yfir ungann úr kvöldinu, og var afar skemmtilegur og upplýsandi, þó kennslufræðilega hefði ef til vill verið æskilegra að fá þessa fyrirlestraröð í smærri skömmtum. Ég stend mig að því að muna hreint ekki allt sem allir höfðu reynt um ævina.

Við strákarnir berum þess meiri merki en stelpurnar að árunum hefur fjölgað (kannski vegna ýmisskonar húðkrema frá L'Oreal, hvað veit ég?), en ekki hafa persónueinkennin breyst umtalsvert. Þetta var svona eins og míkrórannsókn á því sem gerist þegar mannskepnan eldist: sá hlutinn sem sést tekur óhjákæmilegum breytingum, sem eru jafnvel til bóta hjá sumum og auka við virðuleik annarra. Mér fannst á þessari kvöldstund, að innrætið, eða það sem einkennir persónuleikann, hafi haldið sér harla vel og sú breyting sem helst mátti greina fólst í talsvert meiri þroska í viðhorfum og víðari sýn á tilveruna.

Ég sat uppi með að vera  einhverskonar veislustjóri. Það hlutverk var mér ekkert sérstaklega að skapi og má kannski segja að þeir sem ákváðu þá skipan mál, hafi ekki lesið mig neitt sérstaklega vel. Þetta slapp þó allt til.
Ég hef verið afar gleyminn á atburði og aðstæður í fortíðinni, en tókst að tína saman nokkur tilvik sem komu upp í hugann, og las þessar hugsýnir mínar yfir hópinn og það var undantekning ef einhver gat ekki prjónað við, oft í talsvert lengra máli en ég, hvað um var að ræða í hverju tilviki.

Einn gaurinn hafði tínt saman myndaseríu frá árunum á Laugarvatni, þar sem gat að líta einhverja unglinga, sem ekki höfðu hugmynd um hvað ævigangan myndi bera í skauti sér.

Fyrir utan bekkjarsystur okkar tvær, sem hafa nú yfirgefið jarðvistina, vantaði 6 peyja, alla úr eðlis- og náttúrufræðideild. Þetta voru þeir: Heimir Geirsson, Þorvaldur Stefánsson, Hjálmur Sighvatsson, Kjartan Þorkelsson, Magnús Guðnason og Sigfinnur Snorrason. Þeir töldust löglega afsakaðir, að ég tel, en ætli við getum ekki reiknað með að við hittum þá síðar.

Á Holtinu þetta kvöld voru: Baldur Gunnarsson, Eiríkur Jónsson, Helgi Þorvaldsson, Hólmfríður Svavarsdóttir, Jarþrúður Þórhallsdóttir, Lára Hjördís Halldórsdóttir, Páll M. Skúlason, Björn Sigurðsson, Haraldur Hálfdanarson, Jónína Einarsdóttir, Halla I. Guðmundsdóttir, Jason Ívarsson, Kristján Aðalsteinsson, Magnús Jóhannsson, Ólafur Þór Jóhannsson, Smári Björgvinsson og Héðinn Pétursson.

Ég er bara talsvert þakklátur fyrir þessa kvöldstund, skal ég segja ykkur.





05 október, 2015

Af ljósinu á pallinum

Nú er liðinn sá tími að sólarljósið dugi til að lýsa upp sólpallinn. Í staðinn er nú notast við rafljós til að varpa birtu yfir svæðið.
Fyrir nokkru gerðist þetta:

"Það þarf að kaupa nýja peru í ljósið"

Við athugun varð mér ljóst að þetta var rétt. Langlíf peran sem gegnt hafði hlutverki sínu vel og lengi, gerði það ei meir.

"Er ekki til ný pera inni í búri? Við keyptum einhvern slatta til að hafa til vara".

Það leið ekki á löngu áður en pera sem reyndist vera til, var komin að dyrunum út á pallinn og þar með var kominn þrýstingur sem ekki var hægt að misskilja, á að það þyrfti að skipta um peru.  Ástæðuna fyrir þessum áhuga á peruskiptum má rekja til tiltekins viðhorfs fD til tiltekinnar smávaxinnar nagdýrategundar.
Sem oft áður þá hljóp ég ekki til og það var ekki fyrr en ég heyrði hurðinni út á pall lokað hratt nú rétt fyrir helgina og með fylgdu athugasemdir um að sést hefði til músar á pallinum.  Með þessari þróun mála óx þrýstingur á aðgerðir meira en svo að ég stæðist. og því var það að um helgina skipti ég um peru, setti nýja langlífis orkusparandi peru í ljósastæðið, með tilheyrandi átökum og veseni.

Og það varð ljós á ný.

Það næsta sem gerðist var þetta:
"Ferlega er óþægilegt þetta blikk á ljósinu."

Blikk, já. Hvað skyldi nú vera til í því? Ég athugaði málið og viti menn, ljósið blikkar lítillega. Ég hugsaði hratt, hafandi í huga að líkur hefðu vaxið á að aftur þyrfti að skipta um peru.
"Já, já. Þetta er sérstök tegund að perum sem blikka örlítið, en það dugir til að fæla burt mýs".

"Fæla burt mýs?"

"Já, það er vel þekkt, að þegar mýs lenda í svona ljósi fá þær oftar en ekki flogakast".

Við þessu öfluga svari gerðist ekki annað en fD ákvað að snúa sér að öðru og ég keypti mér smá frest.

Já, svona' er það við sjóinn víða,
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi að lifa og líða 
uns lausakaupamet er sett.

02 október, 2015

Með mólikúl að vopni

Gönguferð með Jóni
67 ár lífs í þessum nútímaheimi okkar finnst mér ekki vera fullnægjandi ævilengd.
En það er víst ekki spurt að því hvað mér finnst í þeim efnum.
Öll getum við átt von á að sjúkdómar leggi okkur að velli án þess við höfum nokkuð það aðhafst sem gæti stytt ævina umfram það sem venjulegt er hjá fólki í vestrænum samfélögum.
Ætli við séum ekki mörg sem hugsum gott til þess að hætta brauðstritinu og eiga síðan mörg góð ár til að njóta lífsins fram í ellina.
Við sjáum fyrir okkur heimsreisur, eða eitthvert dund í því sem áhuginn beinist að.
Við sjáum fyrir okkur samvistir við börnin okkar og barnbörn, að fylgjast með fólkinu okkar, að samfagna þeim árangri sem það nær í lífinu og hvetja það til dáða, taka þátt í gleði þess og sorgum, lifa.
Við viljum deyja södd lífdaga, sátt við að þann tíma sem við fengum.
En það er ekki spurt að því.

Mig grunar að Hilmar hafi ekki verið sáttur við að hverfa af vettvangi svo snemma.
En það var ekki spurt að því.

Í Sulzbach-Rosenberg
Hilmar Jón Bragason var samstarfsmaður minn í Menntaskólanum að Laugarvatni frá því ég hóf þar störf  árið 1986 og  til ársins 2010. Það eru hvorki meira né minna en nánast aldarfjórðungur, segi og skrifa.
Hilmar var einn þeirra sem kaus að fara á eftirlaun í samræmi við 95-ára-regluna svokölluðu. Hann keypti sér hús í Svarfaðardal og sá sennilegast fyrir sér það sem ég lýsi hér að ofan, en það átti ekki að fara svo. Hann varð að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdóminum sem fellir svo marga langt um aldur fram. Hann lést 24. september og útför hans er gerð í dag.

Formlega var Hilmar raungreinamaður og kenndi að mestu raungreinar og stærðfræði. Hann var hinsvegar flóknari persóna en svo að hann félli alveg undir þá klassísku skilgreiningu á raungreinamönnum að þeir séu frekar ferkantaðir í hugsun. Ég vil halda því fram að hann hafi ekki síður átt heima í húmanískum fræðigreinum þar sem það skiptir ekki höfuð máli hvort tveir plús tveir eru fjórir. Þannig fékk hann áhuga á esperanto og varð virkur félagi í samtökum esperantista, þýddi yfir á esperanto og sótti þing esperantista víða um Evrópu. Þetta tungumál var eitt af áhugamálum hans og hann kenndi það í nokkur ár í ML.  Þá var skák einnig áberandi áhugamál hans.

Í samstarfi innan skólans var ávallt hægt að treysta því að Hilmar færi ekki með neitt fleipur, var undirbúinn og búinn að hugsa um þau verkefni sem fyrir lágu. Hann lenti oft í hlutverki málefnalegrar stjórnarandstöðu, veitti aðhald og benti á það sem var illa undirbúið eða mætti við meiri umfjöllun.
Það varð öllum fljótt ljóst að Hilmari var hægt að treysta. Þannig gegndi hann stöðu trúnaðarmanns starfsfólks árum saman. Hann sat einnig í samstarfsnefnd um gerð stofnanasamnings frá því sú nefnd varð til, þar til hann lét af störfum  Þar fylgdist hann vel með og gekk í málin ef eitthvað var með öðrum hætti en vera skyldi.


Þessi ágæti samstarfsmaður var skapmaður talsverður, var fljótur að skipta skapi og hikaði ekki við að tjá skoðanir sína á því sem honum mislíkaði. Hann var fljótur upp og jafnfljótur niður, því var hægt að treysta.
Ég gæti kinnroðalaust talið upp, í tengslum við Hilmar, afskaplega mörg  þeirra jákvæðu lýsingarorða sem eru notuð notuð um fólk eða eiginleika þess, ekki síst að því gengnu. Ég kýs að gera það ekki, enda var Hilmar ekki sá sem sóttist eftir hrósyrðum um sjálfan sig.

Nánast varð samstarf okkar Hilmars sennilega í tengslum við samskipti við menntaskólann í Sulzbach-Rosenberg í Bæjarlandi. Hann var auðvitað þýskumaður par excellence, enda hafði hann stundað háskólanám hjá Þjóðverjum.  Við fórum saman þarna suður eftir vorið 1996 til að undirbúa heimsókn nemendahóps frá okkur þangað og síðan til að taka á móti hópi frá S-R. Samskiptin við þennan þýska skóla stóðu síðan með hléum til 2009.

Þá er það  kennarann Hilmar. Það kom oft fyrir að nemendur í neðstu bekkjum kvörtuðu undan þessum kennara. Það lærðist okkur fljótt að taka þær kvartanir ekki of alvarlega því það var Hilmari ljóst, að til þess að ná árangri í námi verður að vera fyrir hendi agi, bæði agi á sjálfum sér og agi í vinnubrögðum. Hann leit á það sem sitt verkefni, með réttu, að efla með nemendum vísindalega hugsun og öguð vinnubrögð. Hann gerði kröfur til nemenda, með réttu, og þeir hafa síðan verið duglegir að þakka það í þeim könnunum sem gerðar hafa verið meðal fyrrverandi nemenda skólans.
Í efri bekkjum, þegar Hilmar hafði náð fram markmiðum sínum gagnvert vinnu nemenda, naut hann síðan óskoraðs trausts og virðingar.

Eitt mikilvægasta áhugamál Hilmars var útivist, fjallgöngur, skíðagöngur og annað af þeim toga, sem ég kann ekki að segja mikið frá, enda deildi ég ekki því áhugamáli með honum. Jafnskjótt og snjó festi, var hann búinn að taka fram gönguskíðin og haldinn af stað upp í heiði á samt Jóni, félaga sínum.
Ég viðurkenni að ég óttaðist Jón talsvert, lengi framan af, en þegar ég hafði einu sinni náð að klóra honum bakvið eyrað varð hann sáttur við tilveru mína og ljúfastur hunda.
Það óttuðust margir Jón.
-------
Vorið 2012 hélt hópur starfsmanna ML norður land og heimsótti þá Hilmar í Svarfaðardalnum, en þar bjó hann í Tjarnargarðshorni. Hann tók á móti hópnum af mikilum höfðingsskap og hópurinn gæddi sér á dýrindis kjötsúpu. Það var sérlega ánægjulegt að hitta þennan gamla félaga aftur, en þetta var í síðasta skiptið sem ég hitti Hilmar, en við höfum reglulega heyrt af honum og frá honum síðan.

Heimsókn Tjarnargarðshorni 2012: Gríma, Hilmar, Halldór Páll og Guðrún


Tjarnargarðshorn er efsta húsið til vinstri.
Mynd: Árni Hjartarson. 








25 september, 2015

Vem kan segla

Mallorca 1974: Þarna hafði, að sögn, einn félaginn unnið
talsvert af  freyðivíni í einhverjum leik í skemmtigarði
og hópurinn samfagnaði auðvitað.
Það var mikil tilhlökkun í hópi nýstúdenta frá ML sem hélt til Mallorca vorið 1974. Félagarnir, sem höfðu deilt gleði og sorgum  í fjóra vetur, töldu sig auðvitað vera orðna nokkuð sjóaða á flestum sviðum og hugðu gott til skemmtilegs tíma á sólarströnd.  Eðlilega voru væntingarnar mismunandi til ferðarinnar, en einhverjir, sem voru nú ekki mikið meira en svona nokkuð venjulegir íslenskir sveitamenn sem höfðu kynnst lítið eitt lífsreyndara fólk á Laugarvatni, hugðust heldur betur njóta þess að stíga á erlenda grund í fyrsta skipti af alvöru. Eitt af því fyrsta sem bar fyrir augu var, að því er virtist, venjuleg verslun við hlið hótelsins. Þegar þar var komið inn blöstu við hilluraðir með áfengi af ýmsum tegundum, á verði sem varla gat talist eðlilegt á íslenskan mælikvarða.
Það varð úr við þessar aðstæður, að ég festi kaup á rommi, en það var drykkur sem hafði á sér svona ákveðin suðrænan blæ í huganum. Síðan festi ég kaup á kóla drykk. í framhaldinu smakkaði ég og smakkaði síðan aðeins meira.
Hópurinn naut lífsins á Mallorca og ferðin var eins vel heppnuð og vonir stóðu til og segir ekki meira af henni, en síðan þá hef ég ekki smakkað þennan drykk án þess að vera kominn aftur til Mallorca, tvítugur að aldri.
Þarna er um að ræða þekkt fyrirbæri, tenging bragðs við ákveðnar aðstæður í fortíðinni.

Þessi pistill átti ekkert að vera um romm og kókakóla. Það bara gerðist einhvernveginn í samhengi þess sem hann átti að snúast um.

Hópurinn hvarf frá Mallorca eftir tilskilinn tíma og dreifðist í ýmsar áttir. Miðjarðarhafseyjan skapaði umgjörð síðustu samskipta okkar sem hóps og suma bekkjarfélagana hef ég ekki séð síðan, við aðra hef ég átt í nokkuð reglulegum samskiptum af einhverju tagi.

Þessar vikurnar hefur mér talsvert oftar en áður orðið hugsað til menntaskólaáranna. Fyrst vegna þess að fyrir nokkrum vikum lést Jóhanna Gestsdóttir, sem var bekkjarfélagi á Laugarvatni. Við útför hennar frétti ég af því að önnur bekkjarsystir mín væri langt leidd af samskonar sjúkdómi og hún lést síðan þann 11. september síðastliðinn. Útför hennar fer fram í dag.
Sigurveig um það leyti sem hún kom á Laugarvatn

Sigurveig Knútsdóttir hét hún og þegar hún kom á Laugarvatn hafði hún átt heima í Svíþjóð einhvern tíma. Hún hafði sig alla jafna ekki mikið í frammi, var ekki áhugamanneskja um íþróttir svo ég muni, var meira svona fyrir hugans ævintýr. Hún féll ágætlega inn í hópinn, sem átti oft góðar stundir saman.

Þar með kem ég að tengingunni við bragðminnið sem fjallað er um hér ofar.

Það gerðist nokkuð oft á góðri stund að fólk fór að syngja. Fastur liður í þeim söng var sænska barnagælan "Vem kan segla förutan vind". Þarna kom Sigurveig sterk inn með sænskubakgrunninn sinn. Hún sætti sig ekki við rangan framburð, eða að rangt væri farið með. Mest vinnan hjá henni fór í að kenna meðsöngvurum framburðinn á "skiljas" í þriðju línu, og það gekk misvel að koma honum frá sér svo Sigurveig væri ánægð.  Síðan þurfti hún ítrekað að benda á að maður segir "åror" en ekki "årer".
Ég læt hér textann fylgja og lít á hann sem minningu um ágæta bekkjarsystur.

Vem kan segla förutan vind,
vem kan ro utan  åror.
Vem kan skiljas från vännen sin,
utan at fälla tårar.

Jag kan segla förutan vind,
jag kan ro utan åror.
Men ej skiljas från vännen min,
utan at fälla tårar.




Í hvert sinn sem ég hef heyrt þennan söng síðan hefur Sigurveig komið upp í hugann. Í hvert sinn sem Sigurveig hefur komið upp í hugann hefur mér dottið þessi söngur í hug, ásamt framburðarkennslunni.

Um ævigöngu Sigurveigar frá því leiðir skildust á Mallorca fyrir rúmum fjórum áratugum veit ég afskaplega lítið þó skömm sé frá að segja. Hún fór í listnám og hélt að minnsta kosti eina sýningu á grafíklistaverkum / dúkristum árið 1997. Þá náði hún sér í kennsluréttindi 1995 og starfaði síðan við kennslu í einhvern tíma. Loks  afrekaði hún það að eignast tvær dætur.

---------------

Í pistlinum um Jóhönnu nefndi ég von mína um að allur hópurinn sem eftir væri myndi hittast á Laugarvatni í maí árið 2024 til að fagna saman og minnast. Þá vissi ég ekki að nokkrum dögum síðar myndi annar bekkjarfélagi falla frá.  Ég verð að aðlaga von mína af þessu tilefni og taka undir orð sem enn ein bekkjarsystir mín lét frá sér fara fyrir stuttu, þar sem hún gerði athugasemd við að ég skyldi tala um árið 2024 í þessu sambandi í stað ársins 2019.
Ég vænti þess og vona, að í minningu þessara félaga okkar hittumst við öll á Laugarvatn til að fagna 45 ára stúdentsafmæli í maí 2019.

19 september, 2015

"Þú, þarna við súluna"

Aðdragandann að fyrirsögninni má rekja til ákvörðunar sem var tekin snemmsumars, þegar fréttir bárust af því, að víðfrægur sönghópur hyggðist halda tónleika í Skálholtskirkju þann 17. september. Hér var um að The King's Singers.  Það var ákveðið að kaupa miða á þessa tónleika.
Af málinu segir ekki frekar fyrr en á tónleikadegi þegar haldið var tímanlega til kirkju. EOS-inn var í farteskinu, ef heimilt skyldi reynast að taka myndir af hinum heimsþekktu listamönnum á hinum sögufræga stað.
Fyrir tónleikana spurði ég þann sem var í forsvari fyrir viðburðinum, hvort leyft væri að taka myndir og fékk við því afdráttarlausa neitun.  Við upphaf tónleikanna ítrekaði forsvarsmaðurinn í ávarpi til tónleikagesta, að myndatökur væru ekki leyfðar. Allt í góðu lagi með það. Þar sem ég er, í flestu afar, löghlýðinn maður, geymdi ég EOS-inn í töskunni þar til í hléi. Listamennirnir hurfu af vettvangi og þá fannst mér ekki úr vegi að taka myndir af söngpúltum þeirra félaga, sem ég og gerði. Þá bar að áðurnefndan forsvarsmann, sem hafði það á orði, að það myndi vera í lagi ef ég tæki einhverjar myndir af hópnum þegar þeir væru ekki að syngja, líklega fékk ég þarna ákveðna undanþágu vegna þess að hver maður gat séð að ekki hefði ég í huga að draga upp neinn farsíma til myndatökunnar, heldur sjálfan EOS-inn, sem er hið verklegasta tæki.

Hléinu lauk. Fólk fór að koma sér fyrir og ég stillti mér við súlu um miðja kirkju og stillti EOS-inn þannig að tryggt væri lysingin yrði viðunandi. Ég komst að því að ég myndi þurfa 12800 ISO til að myndirnar yrðu nægilega vel lýstar. Með því móti yrðu þær vissulega grófar, en einhverju varð að fórna.
"Þú þarna við súluna" Ég snéri mér við að um tveim metrum fyrir aftan mig sat mikilúðleg og ábúðarfull kona í sæti sínu. Ég gekk til hennar og viðurkenndi þar með að ég væri sá sem stóð við súluna.
"Já"
"Veistu ekki að það er bannað að taka myndir? Heyrðirðu ekki þegar það var tilkynnt áðan?"
Þarna var komin ein af þessum manneskjum sem telja það vera hlutverk sitt að sjá til þess að lögum og reglum sé framfylgt. Kallast það ekki "vigilante" á erlendum tungum?
"Jú, ég hef hinsvegar leyfi til að taka nokkrar myndir".
Þar með breyttist málflutningurinn snarlega og hún gerðist talsmaður annarra tónleikagesta sem þarna höfðu orðið fyrir grófu óréttlæti.
"Það er annað en var sagt við okkur". 
"Það getur vel verið"
Þar með snéri ég mér við, skildi vandlætingarfullt andlit talsmanns laga, regluverks og réttlætis, eftir, enda síðari hluti tónleikanna að hefjast.

Listamennirnir gengu inn kirkjugólfið og tónleikagestir fögnuðu og fögnuðu eins og full ástæða var til.
Ég smellti af tveim myndum þar sem hópurinn hneigði sig áður að söngurinn hófst á ný.

The King's Singers í Skálholti 17. sept. 2015

The King's Singers í Skálholti 17. sept. 2015
....
Mér hefur orðið hugsað til þess að ef til vill ætti ég að verða mér úti um vesti sem myndi auðvelda mér lífið við aðstæður sem þessar. Dæmi um svona vesti má sjá á myndinni hér til vinstri. Með því móti myndi ég aðgreina mig frá "múgnum með myndsímana" og losna við leiðindi eins og þarna var um að ræða, að mínu mati. Ég er viss um að konan var að tjá það sem margir sem sáu til mín hugsuðu.
...........
Tónleikar The King's Singers voru afskaplega skemmtilegir, en öðrum lætur betur að lýsa hinum tónlistarlega þætti en mér.

Forsvarsmaðurinn, sem ég nefni hér að ofan er Margrét Bóasdóttir og mér skilst, án þess að hafa fyrir því fulla vissu, að hún hafi átt stóran þátt í að þessir tónleikar voru haldnir í Skálholti. Fyrir það á hún bestu þakkir.

16 september, 2015

Tenór á ný

Ítalía 2007: Með Bubbu (Rannveigu Pálsdóttur) og
Kristni (Kristmundssyni) á Caprí.
Ég vildi gjarnan geta sagt að ástæða þess að ég ákvað að endurnýja samband mitt við Skálholtskórinn eftir nokkurra ára hlé, væri sú að ég teldi ótækt lengur að í kórinn vantaði sárlega þann fagra tenórhljóm sem lifnar í raddböndum mínum.
Ég get svo sem alveg sagt það og ég get vissulega trúað því, svona eins og sannir tenórar eiga að gera, en ég kýs að gera það ekki á þessum vettvangi. Það getur vel verið að ég velti mér upp úr aðdáun minni á silfurtærri fegurð raddar minnar í einrúmi heima og hver veit svo sem nema ég deili aðdáun minni á þeirri guðsgjöf sem ég bý yfir með fD? En það verður ósagt hér, enda lítillæti mitt of mikið til að fjölyrða um þessi mál.

Ef til vill er ástæðan fyrir skyndilegri endurkomu minni eitthvað tengd hækkandi aldri. Það kann að vera að mér hafi fundist að það væri nú farið að styttast í þeim tíma sem mér er gefinn á þessari jörð sem tenór og því siðferðisleg skylda mína að leyfa öðrum kórfélögum og tónleikagestum að njóta meðan notið verður. Það gæti mögulega verið að mér hafi fundist að þau gersemi sem raddbönd mín eru, yrðu að fá að njóta sín í eðlilegri tónhæð, annars væri það bara bassinn.
Mér líður seint úr minn þegar ónefndur (nú þarf ég að passa mig), eigum við að segja, aðili, sagði við ónefndan tenór, að rödd hans væri farin að dýpka eða dökkna og líklega réttast að hann færði sig í bassann. Eins og nærri má geta féllu þau orð í grýttan jarðveg og höfðu áralangar afleiðingar.  Ég skil viðbrögð tenórsins vel.

Berlín 2008: Einbeittir tenórar takast á við
Gunnar Þórðarson og Arvo Part
Það kann að vera, eftir allt sem á undan er gengið í aðkomu minni að kórmálum í fleiri áratugi en ég kæri mig um að fjalla um, reynist mér erfitt að slíta tengslin við það undursamlega samfélag sem kór er, ekki síst ef það reynir dálítið á, maður sér árangur og nýtur uppskerunnar þegar vel gengur. Á þessum vettvangi hef ég nokkuð oft fjallað um kórmál og ekki alltaf leiftrandi af jákvæðni, enda í þeim tilvikum, ástæða til, að mínu mati. Það breytir því ekki, að þegar kór er samstiga í því að gera vel, þá er gaman að þessu.

Ég hef upplifað margt á kórævi minni og þar standa upp úr ótrúlega skemmtilegar ferðir á erlenda grund.  Líklega voru þær alltaf  gulrótin sem hélt öllu saman - sameiginlegt markmið sem glæddi áhuga umfram þann sem verður til af söngnum einum saman.

Berlín 2008: Á tónleikastað.

Ég kom á fyrstu kóræfingu í gærkvöld. Við fD mættum reyndar bæði og hún hyggst takast á við allra hæstu sóprantóna að fítonskrafti.
Í tenórstólana voru mættir tveir tenórar á besta aldri. Meðalaldur tenóra við upphaf þessa söngárs er 64,6 ár. Þar eru menn vel hærðir með grásprengt upp í hvítt hár.  Það var rætt um að mögulega bætist einn tenór í hópinn, sem lílega verður til þess að meðalaldurinn nær 65+. Allt hið besta mál og allar kenningar um að með aldrinum lækki rödd tenóra þannig að þeir verði að leita í bassann, eru húmbúkk eitt. Þarna virtist einmitt hið gagnstæða vera raunin og vel gæti verið að kliðmjúkur altinn fái frekar notið fyrrum tenóra þegar tímar líða.

Megi þetta allt fara vel.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...