07 apríl, 2016

Góður biti í hundskjaft

Orðtök geta verið skemmtileg og til þess fallin að skerpa á því sem sagt er. Mér hafa dottið nokkur í hug að undanförnu.
Í dag tók Sigurður Ingi Jóhannsson við embætti forsætisráðherra í þessu, að mörgu leyti undarlega þjóðfélagi okkar. Hve lengi honum tekst  að gegna því, veit ég ekki, auðvitað. Þetta getur verið upphafið að endinum á stjórnmálaferli Hreppamannsins eða upphafið á löngum og farsælum ferli. Það kemur allt í ljós og veltur á ótal fyrirsjáanlegum og síður fyrirsjáanlegum þáttum.

Það vill svo til að ég hef átt samleið með þessum pilti á tvenns konar vettvangi. Annarsvegar áttum við ágætt samstarf þegar uppsveitahrepparnir ákváðu að efna til kosninga um sameiningu sveitarfélaga í uppsveitum á 10. áratugnum. Þar sátum við báðir í nefnd sem hélt utan um undirbúning og kynningu á því verkefni. Hinsvegar hafa leiðir legið saman í gegnum aðkomu Sigurðar Inga að málefnum Menntaskólans að Laugarvatni, en þar hefur hann átt sæti í skólanefnd í óskaplega mörg ár og var formaður nefndarinnar um alllangt skeið. Velferð skólans hefur skipt hann miklu máli.

Sigurður Ingi er vandaður maður, traustur og svona eiginlega gegnheill, ef mér hefur tekist að lesa hann rétt. Ætli megi ekki lýsa honum einnig sem svo, að hann hafi virkað á mann sem þungavigtarmaður í bæði eiginlegum og óeiginlegum skilningi.

Ég varð hugsi þegar ég frétti af því að hann væri kominn í framboð fyrir þann flokk sem hann síðan hefur unnið sig upp innan. Það kom mér nokkuð á óvart, því hann hafði ekkert ýjað að hneigingu til stuðnings við neinn sérstakan flokk, eins og lenskan hefur verið meðal sveitarstjórnarmanna í uppsveitum. Ég var aldrei búinn að staðsetja hann í þeim flokki sem reyndin varð.

Við þær aðstæður varð mér á orði, í huganum, svo orðvar sem ég nú er: "Þar fór góður biti í hundskjaft!"
Áður en við var litið tók Sigurður Ingi síðan að rísa hærra og hærra innan þessa flokks, að mínu mati að stórum hluta í hópi sem var honum ekki sæmandi. Það var bara mitt mat auðvitað, þar sem ég fylgdist með eins og hver annar, litaður að eigin lífsskoðunum og getu til að lesa í fólk, sem auðvitað er umdeilanleg, eins og flest annað.
Framinn var hraður, miklu hraðari en venjulega gerist innan stjórnmálaflokka. Áður en við var litið var hann kominn á þing, orðinn varaformaður og síðan ráðherra og nú síðast forsætisráðherra.   Þá datt mér í hug annað máltæki: "Í landi hinna blindu er sá eineygði kóngur".

Ég hef haft það á tilfinningunni, að sá stakkur sem maðurinn hefur verið settur í, innan þessa flokks hvorki fari honum vel, né virðist þægilegur.  Þar sem hann stóð í stiganum í gærkvöld, við hlið viðskiptamanns sem var bólginn af hroka og ekki í jafnvægi, fann ég þessa tilfinningu enn skýrar.

Það sem ég óttast er, að ítök þess sem þurfti að hrökklast frá, verði til þess að koma í veg fyrir að Sigurður Ingi fái að njóta sín eins og hann er. Vonandi ber hann gæfu til að hrista þann skugga af sér.




03 apríl, 2016

Hungur

Þeir sem telja sig vera góða í að lesa á milli línanna gætu mögulega ályktað sem svo, að mig hungri í að sjá "ástsæla" leiðtoga þjóðarinnar falla af stalli vegna ósæmilegrar framgöngu fyrr og nú, eða mig hungri í að öðlast hugarró með uppljóstrunarþætti sem verður sýndur á RUV í dag kl 18:00.
Þetta má svo sem vera satt og rétt, að minnsta kosti að því leyti að það leiðir hugann frá hungrinu, við og við.

Það er margt sem getur valdið hungri

Nú er ég á öðrum degi hungurs og vonast til að komast af þar til sú stund rennur upp að fái aftur að borða fasta fæðu. Ég læt liggja milli hluta tilefni þess að ég er hungraður og læt þá sem eru góðir í að lesa á milli línanna og móta samsæriskenningar um að velta því fyrir sér eða upp úr því. Þetta hungur er í það minnsta ekki tilkomið vegna þess að peningasending frá Tortóla tafðist.

Þessi hungurlota hófst með því að við fD fórum í kaupstað til helgarinnkaupa, s.l. föstudag. Ef allt hefði verið með eðlilegum hætti, hefðum við gengið úr versluninni með troðna poka af matvælum til næstu viku: mjólk, kjöt, brauð, ávexti, grænmeti.... nenni ekki að tína fleira til, vegna hungurtilfinningarinnar sem að kallar fram.
Ég var sérlega einbeittur þessu sinni við innkaupin, enda bara að kaupa fyrir mig, þurfti ekkert að spá í hvort fD mundi mögulega hafa áhuga á hinu eða þessu. Það er nefnilega þannig, að þegar ég tek frumkvæði í matarinnkaupum þá gerist það alla jafna, að þau matvæli renna jafnvel fram yfir síðasta neysludag, þar sem ég hafði ekki gert grein fyrir, með skýrum hætti til hvers og/eða hvenær ég hafði hugsað mér að þeirra skyldi neytt. Stundum bara langar mig í eitthvað, án þess að velta hinni praktísku hlið málsins meira fyrir mér.  En nóg um það.

Í umræddri verslunarferð keypti ég eftirfarandi: te, drikkeboullion, eplasafa, tæra bollasúpu og gosdrykki.  Ég gekk einbeittur framhjá girnilegum steikum í kjötborði, sælgtisrekkunum, snakkinu, ostunum og nýbökuðum brauðum og kökum.  Þann hluta lét ég fD eftir, en það kom fljótt í ljós, að hún, meðvitað, eða ómeðvitað, stefndi á einhverskonar samúðarhungur.

Þessi hungurvaka mín hófst síðan á laugardagsmorgni og stendur fram á miðjan dag á morgun, ef allt fer eins og ætlað er.
Tilfinningin, nú á öðrum degi, birtist fyrst og fremst í einhverskonar tómleika og vangaveltum um tilgang þessa alls. Það sem léttir svona aðgerð einmitt núna er ákveðin spenna vegna þess sem framundan er. Ekki hjá mér, ef einhver skyldi nú hafa lesið það á milli línanna, heldur hjá þessari þjóð, sem fékk víst ekki allar upplýsingarnar síðast þegar hún kaus.

Þar sem ég reyni að leiða hugann frá djöflatertunni minni með bananakreminu og þeyttum rjómanum, reyni ég sannfæra mig um að sú áþján sem þetta hungur er, sé jákvæð fyrir mig og mína. Í huganum og meira að segja beinlínis hvet ég fólk til að leggja þetta á sig.

28 mars, 2016

Í villum á páskadagsmorgni

Ég veit ekki hvað varð til þess að ég villtist í skóginum í gær. Ég hélt að það gæti ekki gerst og er ekki enn sannfærður um að það hafi gerst. Það gerðist samt mögulega. Hvernig gat það gerst? Er ég líklega farinn að missa eitthvað? Veit ekki.
Á páskadagsmorgni varð haldið í heilsubótargöngu eins og kveðið er á um.
"Ég er að fara út að viðra mig. Ætlar þú?" Þetta er nokkuð algengur aðdragandi að því að við fD höldum af stað í kraftgöngu út í ægifagurt umhverfi Þorpsins í skóginum. Í þetta sinn tók dóttirin á bænum þátt í göngunni, en að öðru leyti stefndi í ósköp hefðbundinn lið í heilsueflingunni. Ég tók reyndar með mér EOS-inn ef vera skyldi að ég fyndi færi á því, eina ferðina enn að festa á minniskort hans þá endalausu fegurð sem við blasir hvert sem litið er.
Þessu sinni lá leið í átt að brúnni, en þegar við komum að götunni sem liggur inn í Vesturbyggð (Skyrklettagata eða Ásmýri) gaf fD skýrt til kynna að hún hefði ákveðið að ganga þá leið, og gaf okkur hinum kost á að fara hana líka, en því réðum við að sjálfsögðu. Við fylgdum henni.  Leiðin lá framhjá Slakka og síðan upp götuna sem kallast Ásmýri á Google maps en Holtsgata á ja.is (svona er það með margar götur í Laugarási).

Þegar við vorum komin upp á brún brekkunnar í Holtsgötu ákvað fD að snúa við og ganga niður að á og þar einhverjar krókaleiði heim á leið. Ég ákvað hinsvegar að fara aðra leið, enda með EOS-inn með mér og 70-300 linsuna. Þarna skildi leiðir.  Ég og uG héldum þarna áfram, yfir brú á skurði og inn á Krosslandið (þar sem barnaheimili RKÍ var áður). Þaðan er einstakt útsýni yfir Hvítá og Vörðufell og ég skellti í panorama-mynd.

Síðan gengum við niður í kvosina þar sem barnaheimilið stóð, en minjar um það eru nánast engar, utan það sem ég tel hafa verið rotþró og sem sjá má á meðfylgjandi mynd.  Í framhaldi af rotþrórskoðuninni héldum við upp brekkuna í átt að Kirkjuholti, en þar uppi á brekkubrúninni má sjá fyrrum hliðstaur, veglegan, steyptan, sem markaði innkeyrsluna að Krossinum.


Það var eftir þetta, sem svo virðist sem ég hafi tapað áttum. Við ákváðum að ganga frá hliðstaurnum, og niður holtið, heim. Gekk vel til að byrja með. Á ákveðnum tímapunkti skildi þó leiðir, ég ákvað að fara aðeins sunnar og koma niður að Kvistholti þeim megin.  Áður en ég vissi af var ég kominn inn í skóginn og við mér blöstu feikna mikil grenitré og mörg þeirra  voru brotin eftir vetrarstorma, Eitt leiddi af öðru, ég sá sífellt fleiri brotin tré, hugsaði mér mér að það þyrfti nú að fara þarna upp með keðjusög og taka til. Það undarlega var, að þó svo mér fyndist þetta óvenju stór tré miðað við að ég væri í landi Kvistholts, kom það ekki upp í huga mér að ég væri bara hreint ekki þar.
Það var ekki fyrr en ég var kominn enn sunnar, að það blöstu skyndilega við mér byggingar, sem við nánair skoðun reyndust vera í Laugargerði. Þarna var eins og ég vaknaði upp úr einhverri leiðslu og snéri við á punktinum og hélt til baka í gegnum skóginn, sá glytta í íbúðarhúsið í Lyngási, en Lyngási tilheyra öll þessi brotnu tré. Enn hélt ég áfram og kom út á autt svæði. Það var eiginlega ekki fyrr en þá, að ég kveikti á því sem aldrei hefði átt að slokkna á: Það eru nánast engin tré efst í landi Kvistholts. En þarna var ég kominn heim og engin leið að villast eftir það.



Hér má sjá leiðina sem farin var í þessum villum:
Leiðin. Upphafspunkturinn er rotþróin sem um er rætt.

Að liðka til við Hliðið


"Þú ert að liðka til við Hliðið" varð föður mínum að orði fyrir allmörgum árum þar sem við sátum yfir kaffibolla og það kom til tals, að framundan væri messusöngur, eða "gigg" eins og það stundum  verið kallað nýlega. Síðan gamli maðurinn lét sér þetta um munn fara hefur það oft komið upp í hugann og hver veit nema í þessum orðum sé að finna eina ástæðu þess að ég komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að hefja aftur þátttöku í kórstarfi á þeim vetri sem nú gefur hægt og rólega eftir fyrir enn einu vorinu.
Í gær, á páskadag lauk einhverri mestu kórsöngslotu sem ég hef tekið þátt í, og er þá langt til jafnað.
Ekki svo að mér hafi borið skylda til að mæta í öll þau skipti sem talin verða hér á eftir, en við fD ákváðum að taka þetta bara alla leið, ekkert hálfkák.
Mér þykir rétt að halda því til haga að þessi ákvörðun var ekki meðvitað tekin vegna þess að við værum svo gott fólk, heldur einhver önnur, sem erfiðara er að útlista og sem ég kýs að láta liggja milli hluta að mestu leyti.  Möguleg ástæða er sú, að á þessum vetri höfum við fundið aftur örla á því að kórfélagar taki þetta áhugamál sitt það alvarlega að þeir mæta öllu jöfnu á æfingar. Við vitum að öll, að til þess að kór nái að hljóma vel saman, þurfa kórfélagar að mæta á æfingar og skiptir þá engu hversu vel menntaðir eða færir þeir eru í tónlist.  Fyrir utan það, að með góðri æfingasókn verður til einhver samhljómur, þá verður einnig til ákveðin samkennd sem síðan leiðir til þess að fólki finnst ekki slæmt að vera í samvistum hvert við annað og hlakkar frekar til kóræfinga en eitthvað annað.

Hvað um það, lotan sem nú er búin, var svona:
Laugardagur 19. mars. kl. 14 -  Útför Gunnars Haraldssonar og hann var síðan jarðsettur á Stóru Borg í Grímsnesi.
Þriðjudagur 22. mars kl. 20 - Æfing fyrir  vikuna framundan og var þar, vegna fjölda verka sem framundan var að syngja, farið á hundavaði yfir sumt, sem ég reikna með að hafi tekið á hjá þeim kórfélögum sem ekki eru búnir að vera í bransanum árum saman.
Miðvikudagur 23. mars kl. 20 - Æfing með Söngkór Miðdalskirkju fyrir fermingarmessu á skírdag. Það kom til þar sem óskað hafði verið eftir  viðbótarfólki í þann kór, sem er smám saman að mjakast þá leið sem bíður allra á öllum tímum.
Fimmtudagur 24. mars kl 11 - Fermingarmessa það sem tveir piltar úr Laugardal staðfestu skírn sína.
Fimmtudagur 24. mars kl 20:30 - Messa/guðsþjónusta með svokallaðri Getsemanestund.
Föstudagur 25. mars kl. 16 -  Messa/guðsþjónusta í tilefni dagsins þar sem skiptust á lestrar út ritningunni og kórsöngur.
Laugardagur 26. mars kl. 14 - Útför Jóns Karlssonar frá Gýgjarhólskoti, en hann var jarðsettur í Haukadalskirkjugarði.
Sunnudagur 27. mars, páskadagur, kl. 14 - Hátíðarmessa.

Eins og hver maður getur talið þá lögðum við leið okkar átta sinnum í Skálholt á þessum tíma (tíu sinnum ef með eru taldar heilsubótargöngur).  Þar söng kórinn um það bil 30 mismunandi verk (sálma og aðra tónlist).

Það er fjarri mér að láta það líta svo út hér, að ég sé að kvarta yfir þessari miklu tónlistarviku. Þetta var bara ágætt og enn einusinni áttaði ég mig á því að ég væri lifandi hluti að einhverju.

Það var gott hjá sr. Agli, í upphafi messunnar í gær, að geta um og þakka fyrir framlag kórsins í vikunni, því þó fólk sinni kórstarfi vegna áhuga síns á söng þá er mikilvægt að það finni að það sem gert er sé þakkarvert.
-------------
Tenórröddin er auðvitað orðin enn mýkri og fegurri en hún hefur veið um langa hríð, þrátt fyrir að sá staður sem tenórnum er ætlaður hæfi ekki svo mikilfenglegri og mikilvægri rödd.  Það er eiginlega með eindæmum að hann hafi þurft að búa við svo slakar aðstæður svo lengi. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru þær með svofelldum hætti:
Að baki organleikaranum er trébekkur, um það bil 30 cm hár.  Þessi baklausi trébekkur er fyrir aftan vel viðunandi stóla sópransins, en setan á þeim er um það bil 45 cm frá gólfi.  Augljóslega hefur þetta það í för með sér að mikið ójafnvægi myndast. 
Til þess að fegursta röddin fái notið sín verða þeir sem yfir henni búa, að príla upp á baklausan trébekkinn og standa þar með eins og turnar upp úr kvennafansinum fyrir framan.  Fyrir utan það að svo er háttað, getur hver maður ímyndað sér að príl upp og niður af trébekk í athöfn þar sem ekkert má fara úrskeiðis, er áhættuatriði, ekki síst þegar eigendur raddarinnar einu eru komnir á sjötugsaldur. Á þeim aldri vilja menn síður vera að príla mikið fyrir framan fulla kirkju af fólki. Það er fremur óvirðulegt, hæfir ekki röddinni og dregur athygli kirkjugesta frá henni yfir á prílið. Það má ætla að áheyrendur bíði frekar í spennu eftir því að prílið upp á eða niður af bekknum, endi með ósköpum, en að þeir hlakki til að heyra röddina hljóma og það er skaði..
Ég birti hér fyrir neðan tillögu mína að bekk sem hæfa myndi tenórum við þessar aðstæður. Þó það sjáist ekki á teikningunni, þá er, að sjálfsögðu gert ráð fyrir að bekkurinn sé vel bólstraður í bak og fyrir, til að tryggja nauðsynleg þægindi, því ekki viljum að að mikilvægasta röddin gjaldi þess að búa ekki við bestu aðstæður.



 

Myndirnar sem notaðar eru til að lífga upp textann voru teknar fyrir og í lok páskamessu. Sú síðasta af Jóni Bjarnasyni leika útgöngutónlist.

25 mars, 2016

Var það kannski valdarán?

Það er fjallað um siðferði, siðferðistilfinnningu, lög, formreglur og hitt og þetta í þeim dúr í kjölfar færslu konu nokkurrar á samfélagsmiðli fyrir nokkru. Sitt sýnist hverjum um þau mál og ég held að engum sem kíkir hingað inn blandist hugur um mína afstöðu.
Í kjölfar þess sem gerðist árið 2008 var þjóðin reið. Svo reið að hún ákvað að fela stjórn fyrrum flokkssystur minnar úr Þjóðvaka að freista þess að hreinsa til og reisa þjóðina úr rústum.
Það gekk  eins og það gekk.
Það kom nefnilega í ljós, að til þess að bjarga því sem bjargað varð þurfti að færa fórnir. Þegar þjóð þarf að færa fórnir verður hún reið og kennir um þeim sem leggja þá klafa sem fórnunum fylgja á hana, með réttu eða röngu. Svo var þjóðin líka reið út í þá, sem að hennar  mati ollu hruninu, en það var nú ekki alveg sátt um hverja þar var um að ræða.  Að stærstum hluta var þeim kennt um sem flugu hæst í bönkum landsins og stórfyrirtækjum. Þeir hafa síðan verið tíðir gestir í dómsölum og sumir hlotið fyrir viðunandi refsingar.
Sannarlega var á fyrstu árum eftir hrun einnig leitað að sökudólgum meðal stjórnmálaflokkanna og þar fundust þeir helst sem refsað var í kosningunum 2009.

Árin frá 2009-2013 tóku á, á stjórnarheimilinu og á Alþingi.
Á stjórnarheimilinu vegna þess að það er gömul saga og ný, að í svokallaða vinstri flokka velst fólk sem stendur fastar á hugsjónum sínum, en í þeim flokkum þar sem segl ráða vindi og hagsmunir skipta meira máli en hugsjónir.
Á Alþingi þar sem fyrrum hrunflokkar börðust með fordæmalausum hætti fyrir lífi sínu og tókst smám saman að sannfæra vel ríflega helming þjóðarinnar að þeir hefðu þær lausnir sem dygðu.  Þjóðin var, fjórum árum eftir hrun, að byrja að gleyma því sem gerst hafði í aðdraganda ársins 2008.

Það sem þjóðin var einna reiðust yfir, í kjölfar hrunsins, var hugmyndin um að fólkið sem hafði safnað að sér gífurlegum fjármunum á bólutímanum, hefði komið þeim undan fyrir hrun og léti síðan almenning í landinu um að greiða skuldirnar taka á sig skerðingarnar.  Eyjan Tortóla varð ein táknmynd þeirrar svívirðu sem hafði átt sér stað, og er það jafnvel enn.

"Ágætu kjósendur. Ég fullvissa ykkur um að ég hef þær lausnir sem munu leiða þjóðina aftur á braut hagsældar. Núverandi ríkisstjórn hefur skorið niður á öllum sviðum og það er kominn tími til að heimilin í landinu fái það sem þeim ber.  Vissulega er það svo, að við, fjölskyldan eigum miklar eignir á Tortóla, en það skiptir engu máli því það er fullkomlega löglegt og það er ekkert að því siðferðilega heldur.  Það er ekki síst þess vegna sem ég fullvissa ykkur um að ég mun leggja allt mitt í að heimilin í landinu fái risið úr þeim rústum, sem þau eru í eftir verk núverandi ríkisstjórnar".

Ef þetta hefði verið stefið í málflutningi núverandi "forsætisráðherra" í aðdraganda kosninganna 2013, velti ég því fyrir mér hver niðurstaðan hefði orðið.  Mér finnst það fullkomlega lögmætar vangaveltur.

Sögunni verður ekki breytt, en af henni eigum við að læra.  Ég er hinsvegar svo mikill svartsýnismaður, að ég reikna með, að á árinu sem í hönd fer muni það gerast sem veldur því að heimilin í landinu, svokölluð, muni áfram flykkja sér um grænbláan lit auðmanna, í þeirri von að fá að njóta fjármálasnilli þeirra.




22 mars, 2016

Þar sem ljósið nær ekki að skína

Öll eigum við hliðar sem við kjósum að vera ekkert að halda á lofti út á við. Það er mjög eðlilegt, enda erum við bara mannleg.  Þau hlutverk sem við tökum að okkur í lífinu kalla á að við nýtum þann styrk sem við búum yfir, hæfileikar okkar til að leika hlutverk okkar eru stundum miklir, stundum minni.  Flest reynum við að leika eins vel og geta okkar leyfir, hvort sem við störfum á eigin vegum eða hljótum umbun fyrir frá þeim sem við störfum fyrir. Hvernig sem það er, þá skiljum við alltaf hluta af okkur eftir, þar sem ljósið ekki skín. Við viljum geta ákveðið hvað við höfum bara fyrir okkur.  Fyrir lang flesta er þetta fullkomlega eðlilegt. Það getur enginn krafið okkur um að sýna þá þætti lífs okkar sem koma hlutverki okkar ekki við.

Þau eru mörg og margvísleg, hlutverkin og krefjast mis mikils. 

Fólk býður sig fram til að starfa í þágu almennings. Það býður fram krafta sína í þágu íbúa sveitarfélags eða jafnvel þjóðarinnar allrar.  Við slíkar aðstæður, ekki síst eftir það sem gerðist haustið 2008, spyrjum við hvað þar liggur að baki. Við viljum að það fólk sem býður fram krafta sína geri okkur grein fyrir bakgrunni sínum og forsendunum að baki framboðsins.  Sum okkar eru búin að læra að þær bakgrunnsupplýsingar sem við erum mötuð með og forsendurnar fyrir því að einstaklingar bjóða sig fram til almannaþjónustu, kunna að vera aðrar en þær sem upp eru gefnar. Við komumst að því þegar samfélagið riðaði til falls, að það er oft harla lítið að marka það sem gerist á yfirborðinu. Við áttuðum okkur á því að það var annað í gangi en okkur var sagt.

Þar með fauk traustið. En það leið ekki á löngu áður en upp reis fólk með ásjónur engla og kvaðst hafa allar lausninrnar fyrir íslenska þjóð og stór hluti þjóðarinnar þjáðu gleypti við boðskapnum.
Það er byrjað að falla á engilsásjónurnar. Sumum finnst að merki um að þær séu að umbreytast í guðlegar ásjónur,  öðrum finnst að smám saman, undir ódýrum leikhúsfarðanum sé að koma í ljós, smátt og smátt andlit spillingar, undirferli og dulins tilgangs.

"Skortur á gegnsæi leiðir til vantrausts
og djúpstæðs öryggisleysis".
Ég ber lítið traust  til þeirra afla sem nú stýra þessu landi og það er vissulega slæm tilfinning. Ég les fullt af orðum, ég heyri endalaust orðaflóð, en á þessum tímum eru orð ódýr. Fólkið sem við kusum til að leiða okkur, virðist hafa tileinkað sér þá aðferð að segja bara eitthvað á þeirri forsendu að eitthvað sé nógu gott, nú eða segja bara hreint ekki neitt, hugsandi sem svo: "Það bíður sér til batnaðar".
Sannleikur, réttsýni, hugsjónir, mannúð, jafnrétti, virðing. Allt eru þetta hugtök sem eiga að vera þrungin merkingu, en eru léttvæg fundin þar sem þau leka eða renna, jafnvel frussast út úr munnum stjórnmálamanna meðan ljósið skín á þá og myndavélarnar eru í gangi.

Hvað gerist þegar ljósin slokkna eða þegar myndvélunum er beint annað?

Við þessar aðstæður myndast kjöraðstæður fyrir samsæriskenningar og ekki ætla ég mér að feta þá braut, þó margt komi upp í hugann. Eitt veit ég þó fyrir víst: þar sem ljósið ekki skín og þar sem myndvélarnar og hljóðnemarnir ná ekki til, þar heldur líf stjórnmálamanna eða annarra sem gegna háum embættum í opinberum stofnunum eða stórum fyrirtækjum sem þjóna almenningi, áfram. Hvað er þetta fólk að gera þá? Varla er það bara að kúra. Ekki leggst það í hýði.

Þetta er birtingarmynd vantraustsins í mínum huga.

Þessi stubbur er skrifaður undir áhrifum frá talsverðri reynslu af því að vera þjóðfélagsþegn á Íslandi, kosningabaráttu forsetaframbjóðenda í landi hinna frjálsu og sjónvarpsþættinum "Spilaborg", sem RUV sýnir þessar vikurnar, hvort sem það er nú tilviljun eða ekki.







14 mars, 2016

Mánudagsflug

Mánudagar eru, að margra mati, erfiðastir daga vikunnar. Helginni lokið og framundan 5 vinnudagar. Með árunum hafa viðhorf mín til þessara daga vikunnar breyst smám saman þannig, að ég tel þá hvorki vera betri né verri en aðra daga. Ég hef öðlast heimspekilegra og yfivegaðra viðhorf til þeirra, sem annarra daga. Maður vaknar fyrir allar aldir, talsvert á undan pípinu í vekjaraklukkunni, situr og hugleiðir í núvitundarstíl um stund, athugar hvort eitthvað hafi borið til tíðinda í veröldinni, fær sér kaffisopa og aðra morgunhressingu. Kemur sér síðan af stað þannig að tilsettum tíma á vinnustaðnum verði náð.  
Einfalt og alltaf svipað. 
Allt í föstum skorðum.
Engin óvænt atvik sem raska því sem venja er til. 


Svona var það ekki í morgun.

Þetta byrjaði svosem nógu vel: vaknaður klukkutíma áður en vekjarinn næði að angra mig. Sinnti hefðbundnum morgunverkum. Lokaði útidyrum, Settist upp í Qashqai og ók af stað niður svellbunkann á heimreiðinni. Ekki gaf ég mér tíma, þar sem ég var að vanda mig við aksturinn á svellbunkanum, til að athuga hvort allt væri með felldu. Það var ekki fyrr en ég hafð ekið nokkur hundruð metra á alauðum aðalveginum, að mér varð litið á mælaborðið og varð ljóst að þar var ekki allt eins og vera skyldi. Rauð mynd af bílvél blasti við, einnig gult tákn sem sýndi skrensandi bíl og fleira sem þarna var ekki venjulega.  Að sjálfsögðu setti ég umsvifalaust spurningamerki við þetta allt saman; reiknaði með að þarna hlyti bara að vera um að ræða einhvern samslátt í tölvunni, en ákvað samt að snúa við. Það var engin ástæða til að taka neina áhættu. Það var annar bíll tilbúinn heima í hlaði.  Þar með snéri ég við og ók hem aftur, upp svellbunkann, og lagði Qashqai í hreiðrið sitt.  Á þessari stundu beindist hugsun mín og einbeiting fyrst og fremst að því sem gæti verið að Qashqai, hvernig best væri að leita lausna á því og hversu mikil fyrirhöfn það gæti verið.  Mitt í þessum hugsunum opnaði ég dyrnar og steig út.
Það var vinstri fóturinn sem kyssti klakabunkann fyrir utan og í þann mund sem hann var að taka til sín allan minn þunga, gerðist það sem auðvitað átti aldrei að gerast og sem skýringamyndin hér fyrir neðan lýsir nokkuð vel.

Ég vissi ekki fyrr til, í miðju hugsanaferlinu varðandi það hvað ég gæti gert í Qashqaimálum, en að ég tókst á loft og lá síðan kylliflatur á bakinu. Fyrsta hugsunin var hvort ég væri óbrotinn, og svarið við henni var strax jákvætt. Þarna þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af þvi hvort einhver hefði séð þessa óvirðulegu lendingu. Ég vissi að fD sat inni og kynnti sér fréttir morgunsins og gat því ekki hafa verið vitni.
Ég reis á fætur, fann svo sem ekki fyrir neinu sérstöku, og kom mér inn til að óska eftir láni á og síðan nálgast lykla að Yaris, sem beið þarna þess albúinn að flytja mig til vinnu, með góðfúslegu leyfi eigandans.

Hófst þar með önnur tilraun mín til að komast til vinnu á þessum mánudagsmorgni. Það voru engin óþægileg ljós í mælaborðinu á Yaris og ferðin niður svellbunkann gekk vel, enda vel negld dekk.

Þegar ég var búinn að aka nokkur hundruð metra fannst mér eitthvað vera undarlegt og renndi í huganum gegnum tékklistann. Niðurstðan leiddi mig að þeirri niðurstöðu að ég var ekki með gleraugun. Í kjölfarið lá beint við að álykta að án gleraugnanna væri til lítils að fara í vinnuna.
Þar með snéri ég við, án frekari málalenginga.
Á leiðinni til baka renndi ég í gegnum ýmsar hugsanir, sem flestar tengdust mögulegum afdrifum gleraugnanna. Mér þótti ljóst, að þau hefði ég misst þar sem ég lenti á bakinu á svellbunkanum. Mér fannst samt ótrúlegt að ég skyldi ekki hafa orðið var við þegar þau yfirgáfu andlit mitt. Hvar hefðu þau þá endað? Var ég kannski búinn að stíga á þau? Höfðu þau ef til vill flogið undir Yarisinn ég ég síðan keyrt yfir þau í annarri tilraun minni til að komast í vinnuna?

Heim komst ég aftur, upp svellbunkann, þrátt fyrir gleraugnaleysið. Lagði Yaris í nokkurri fjarlægð frá slysstaðnum og var næstum floginn á hausinn aftur þar sem ég steig út úr honum. Ég grandskoðaði vettvang slyssins, gleraugnalaus, en sá engin gleraugu þrátt fyrir umtalsverða leit. Fór síðan bara inn í hús, eftir að hafa ákveðið að bíða betri birtu til leitarinnar.

"Hver skyldi það nú vera sem vill ekki kaupa sér mannbrodda?"  Það var fD sem tók á  móti mér með rödd sem var þrungin vorkunnsemi.
"Ætli ég þurfi ekki að koma mér í garma og fara út að leita" hélt hún áfram. Treysti greinilega ekki sjón minni til þess arna. Kom sér í garma, setti upp Hagkaupagleraugun, dreif sig út og endaði á maganum á svellbunkanum hjá Qashqai.
"Þarna eru þau". Og viti menn undir miðjum bílnum mátti greina gleraugun og fD renndi sér á maganum nægilega langt til að hún næði þeim, ósködduðum.

Þar með hélt ég af stað í vinnuna þriðja sinni þennan mánudagsmorgun orðinn miklu nær því að trúa að forsjónina, sem líklega hafði valdið óhöppum morgunsins til að koma í veg fyrir að ég færi mér að voða einhversstaðar á leiðinni.

Afleiðingarnar? Jú, það er engu líkara en það sem rifjahylkið geymir hafi tognað eða gengið til. Ég var auðvitað óþreytandi í lýsingum mínum á ævintýrum morgunsins, á vinnustaðnum. Viðbrögðin þar voru misjöfn. Þau bestu sennilega þessi: "En er hjartað ekki enn á réttum stað?"

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...