11 september, 2016

Þessir kjósendur!

Dröfn Þorvaldsdóttir: (ónefnd fuglategund) 2016
Ég vil nú bara breyta því hvernig fólk velst á Alþingi. Ég veit að það vilja margir, en á ólíkum forsendum. Mig langar að hafa meiri bein áhrif á það hvaða fólk á mínum lista hlýtur kosningu.
Aðferðirnar sem eru notaðar við þetta núna, einkennast  af því að einhver fámennur hópur velur einhver frambjóðendapakka sem ég verð síðan að samþykkja, vilji ég kjósa einhvern flokk.
Þessar aðferðir stjórnmálaflokka til að velja fólk á lista fyrir kosningar eru gallaðar og stuðla hreint ekki endilega að því að kjósendur hafi nægileg áhrif á niðurstöðuna.

Prófkjör/flokksval
Sumir stjórnmálaflokkar halda prófkjör fyrir Alþingiskosningar. Þau fara eftir einhverjum reglum sem hver flokkur fyrir sig setur. Tilgangur þeirra er að velja fólk á lista fyrir kosningar. Prófkjörum er einnig ætlað að raða fólki á listana þannig, að sá sem flest atkvæði hlýtur í einhver tiltekin sæti fái það sæti. Þannig verður til pakki frambjóðenda, sem kjósendur geta síðan valið í kosningum. Þetta hljómar allt tiltölulega einfalt og lýðræðislegt. Við þurfum bara að ganga í einhvern flokk og þar með getum við haft áhrif á hvaða fólk fer í framboð og í hvaða röð í okkar kjördæmi.

Þetta er hinsvegar ekki aldeilis svona einfalt og þar kemur ýmislegt til.
1. Aðstöðumunur
Sitjandi þingmenn geta lagt verk sín í dóm samflokksmanna.
Sumir eru þekktari en aðrir.
Sumir eru snoppufríðari en aðrir (sigurvegari í prófkjöri í Suðurkjördæmi sagði aðspurður, að listinn hefði orðið "álitlegri" með konur ofar en reyndin varð :))
Sumir eru ríkari af veraldlegum auð en aðrir. Allir vita að peningar eru afl þess sem gera skal, líka í prófkjörum.
Kjósendur sumra flokka dást frekar að ákveðnum týpum af fólki (t.d. lögfræðingum eða körlum sem geta staðið í lappirnar, eins og það er kallað) og þar með getur listinn orðið ansi einhliða.

2. Smölun
Þeir sem hafa færi á því, vegna aðstöðu sinnar, að safna í flokkinn fólki beinlínis til þessa að þeir kjósi með tilteknum hætti og þá jafnvel gegn loforðum um eitthvað í staðinn.

3. Kynjakvótar
Þessir kvótar eiga að tryggja það að karla og konur skipist á lista í sem jöfnustum hlutföllum, sem getur þýtt að niðurstöðu prófkjörs verður breytt og þar með gengið gegn vilja kjósenda í prófkjörinu.
Mér finnst að aðall góðs eða öflugs þingmanns eigi að birtast í öðrum eiginleikum en kyni. Bæði kyn geta verið góðir og öflugir þingmenn.
Mér finnst reyndar margt fleira um þetta, en læt það bara ekki uppi.

4. Annað 
Fyrir utan þetta má örugglega tína til ótal flækjur í tengslum við þessi prófkjör.

Flokkurinn raðar
Einhver fámennur hópur flokksmanna raðar frambjóðendum á lista, sem er síðan samþykktur á einhverjum flokksfundi.  Fín aðferð fyrir svokallaða "flokksgæðinga", en síðri fyrir kjósendur.
--------
Ég vil hafa kosningar þannig, að ég þurfi fyrst að velja flokkinn minn og síðan þann sem ég vil sjá frá honum á Alþingi. Þetta myndi auðvitað gera ýmsum kjósendum erfitt fyrir þar sem þeir þyrftu að kjósa í tveim skrefum í stað eins: Fyrst að velja flokkinn og síðan þingmannsefnið. Sé þetta þeim ofviða, hafa þeir hreint ekkert að gera á kjörstað yfirleitt. 
Ég er kannski tregur, en ég átta mig ekki á hvaða vandkvæði myndu fylgja þessu fyrirkomulagi, enda myndi vilji kjósenda endurspeglast í því fólki sem fengi sæti á þingi. Þessi aðferð tel ég að myndi henta mjög vel í rafrænum kosningum: fyrst kæmi gluggi þar sem maður merkti við sinn flokk. Síðan kæmi gluggi þar sem maður merkti við sitt þingmannsefni. Loks kæmi gluggi sem tilkynnti þér, að atkvæðið væri komið til skila og þér þökkuð þátttakan.
Þetta myndi ég kalla lýðræðislegar kosningar.




05 september, 2016

Skeinipappír í jurtalitum

Ég byrja á því að afsaka notkun mína á þessu óheflaða orði í titlinum, en það var valið vegna þess að það taldist kalla á meiri athygli en önnur orð yfir sama fyrirbæri. En hvað um það, reynslan af því að upplifa útisalerni túrista (væntanlega) í þjóðgarðinum á Þingvöllum í gær, gerði manneskju, mér nákomna, talsvert hugsi. Síðan gerðist það skyndilega í dag að eftirfarandi spurningu var varpað fram í engu samhengi við annað sem var í gangi:
"Er það ekki góð viðskiptahugmynd að lita klósettpappír í felulitum og skylda alla túrista sem kom til landsins til að kaupa hann?"
Í framhaldinu átti sér stað nokkur umræða um framkvæmanleika þessarar hugmyndar og auðvitað varð niðurstaðan engin, enda hugmyndin bara hugmynd á þessu stigi.

Ég birti hér mynd af salernisaðstöðu túrista, sem er innan um berjalyng á Þingvöllum. Á vinstri helmingi myndarinnar má sjá aðstöðuna eins og hún birtist okkur. Hægri hluti myndarinnar sýnir síðan sama svæði eftir að pappírinn, sem er óhjákvæmilegur þáttur í athöfn af því tagi sem þarna er um að ræða, hefur verið litaður með jurtalitum. Það er engum blöðum um það að fletta, að jurtalitaður pappír myndi falla einstaklega vel að umhverfinu.

 Það má halda áfram að velta þessari hugmynd fyrir sér og hún verður ekkert nema betri, Grundvöllur hennar er auðvitað fyrst og fremst sá, að stór hópur þeirra ferðamanna sem hingað koma, telja þetta vera land sem er mikið til ósnortið af siðmenningunni, eins og þeir þekkja hana. Þeir telja að hér séu þeir frjálsir til að hleypa lausu dýrinu í sér, frummanninum sjálfum.   Þetta þurfa Íslendingar með snefil af viðskiptaviti auðvitað að nýta sér og hér hafa verið lögð fram frumdrög að lausn á þeirri sjónmemengun sem skjannahvítur (ja, smá  brúnn líka eftir notkun) pappírinn hefur óhjákvæmilega í för með sér.
Það má sjá fyrir sér atvinnu við að tína jurtir og vinna úr þeim lit sem síðan myndi nýtast við litun á þessum pappír; örugglega miklu umhverfisvænni aðferð en bleiking. Úrgangsefnin sem útiskitufólkið skilur eftir skolast bara ofan í jarðveginn í næstu rigningu og af honum spretta grösin græn og blómin blíð.  
Ekkert nema pottþétt plan.

02 september, 2016

Úrið

Þó frá og með nýliðnum mánaðamótum beri ég hinn virðulega titil  "ráðgjafi" þýðir það ekki að ég sé fær um að gefa ráð varðandi hvað sem er. Ráð mín varðandi nýja námskrá fyrir framhaldsskóla geta orðið óteljandi og viturleg að stærstum hluta, en þau munu sennilega ekki alltaf falla í kramið, þar sem þau litast óhjákvæmilega á skoðun minni á því fyrirbæri.
Ég hef skoðun á flestu og um margt get ég veitt fólki ráð kjósi ég svo. Þó eru til þau svið þar sem ráð mín, ef ég á annað borð er tilbúinn að gefa þau, munu verða gagnslaus og byggð á mikilli vanþekkingu og áhugaleysi. Þetta á t.d. við um nýja úrið sem fD fékk að gjöf frá afkomendum í tilefni stórafmælis fyrir nokkru.
"Hvernig virkar þetta?"
"Afhverju kemur þetta?
"Hvað á ég að gera núna?"
"Hvernig losna ég við þetta "auto"?"
"Hvað gerist svo þegar ég kem heim?"
"Á svo bara að smella hér?"
"Hvernig stillir maður þetta?"
Þessar spurningar eiga það sameiginlegt, að við þeim hef ég ekki haft nein svör og get þar af leiðandi ekki gefið nein ráð, utan hið eina sem ég gef ávallt þegar þær spretta fram: "Þú verður bara að spyrja..." svo nefni ég tiltekinn höfuðborgarbúa, sem er nær því að tilheyra græjukynslóð en við.
Að öðru leyti hljóma svör mín t.d. svona:
"ÉG veit það ekki."
"Ég hef ekki hugmynd um það."
"Hvernig á ég að vita það?"
"Þú bara syncar það við símann."
"Hef ekki grun um það."

Það er alveg sama þótt ráð mín varðandi úrið séu algerlega gagnslaus, spurningarnar spretta fram, þó vissulega fari þeim fækkandi og nú er orðið hægt að merkja meiri sjálbærni í samskiptum fD og úrsins.

Til nánari útskýringar á úrinu má geta þess, að um er að ræða svolkallað GPS-úr sem maður getur látið mæla nánast alla hreyfingar sem eiga sér stað í líkamanum, með mikilli nákvæmni, jafnt í vöku og svefni. Síðan er hægt að láta það senda upplýsingar í viðeigandi APP í símanum, þar sem síðan er hægt að njósna um líkamsstafsemi sína niður í smæstu einingar.  Svona græja hentar ekki síst fólki sem stundar líkamsrækt af einhverju tagi, til að mæla vegalengdir, skrefafjölda, hjartslátt og kalóríubrennslu, svo eitthvað sé nefnt.
Nú skellir fD úrinu á sig fyrir hverja gönguferð og tekst á endanum að láta það synca við símann að gönguferð lokinni. Fagnar glæstum kalóríubruna og spyr síðan hvernig hægt er að skoða þetta eða hitt, annað.
Það nýjasta snýst um þetta "AUTO", en þannig er á í gönguferðir fer hún með bæði úrið á úlnliðnum og símann í vasanum, hvorttveggja stillt il að mæla vegalengdir og kalóríubrennslu. Þegar hver ganga stendur síðan sem hæst byrjar úrið að láta ófriðlega á úlnliðnum, sýnir "auto" á skjánum og í sama mund hefst tónlistarflutningur í símanum. Það fór nánast heil ganga hjá henni fyrir nokkru í að finna út úr hvernig ætti á fá þessa "ömurlegu" tónlist til að hætta.  Það tókst hjá henni að lokum, en eftir stóð spurningin um tilganginn með látunum í úrinu og tónlistinni í símanum. Þessa spurningu fékk ég, ráðgjafinn. Þar sem ég, eðlilega, hef ekki hugmynd um þetta, svaraði svaraðí ég í þá veru.
"Ég fer þá með símann með mér í bæinn í dag."

Ég set spurningamerki við þetta úr, ekki síst þar sem talsvert oft hittist svo á, að ég slæst í för á gönguferðunum um Þorpið í skóginum og nágrenni. Það er nefnilega þannig, að með tilkomu úrsins hefur sprottið fram ófyrirsjáanleg samkeppni fD við sjálfa sig, með þeim afleiðingum að göngurnar verða æ lengri. Með sama áframhaldi verður spurning um hvort hún nær háttum (kvöldfréttum, á nútímamáli).


28 ágúst, 2016

Sósulitur og svartur ruslapoki eða skrautklæði


Það sem hér er til umfjöllunar á sér bræður í tveim pistlum frá ágústmánuði árið 2014 og þá má sjá hér og hér.
Það er nánast erfitt að hugsa til þeirra tíma þegar móttaka nýnema í framhaldsskóla á Íslandi tók mið af því sem gerist þegar ný hæna kemur inn í hænsnahóp. Ég held og vona að það hafi tekist að breyta þeim hefðum sem voru orðnar allof fastar í sessi og sem fólust í því að spyrja nýnema hvern fjandann þeir vildu upp á dekk og gera þeim ljóst að þeir væru ekki velkomnir. Þeir þyrftu að gangast undir píningar og niðurlægingu til að geta fengið inngöngu í samfélag nemenda í skólanum; leggja leið sína í gegnum einhverskonar hreinsunareld.
Auðvitað getur hver maður séð að með þessum aðferðum við að taka á móti nýjum samnemendum voru eldri nemendur fyrst og fremst að gera lítið úr sjálfum sér, þroska sínum og atferli. Það var hinsvegar hægara sagt en gert að koma þeirra hugsun til skila, til þess var óttinn við að víkja frá hefðinni of sterkur. Ég er viss um að margir áttuðu sig á þessu, en voru ekki tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að breyta.


Það er svo, að dropinn holar steininn og við kusum að fara tiltölulega mjúka leið til að breyta þeim hefðum sem tengdust "busun" eða móttöku nýnema. Einum af öðrum var þeim þáttum fækkað, sem í raun voru óásættanlegir og þar kom, haustið 2014 og endanlegur viðsnúningur varð og það sem áður kallaðist "dauðaganga" í umsjón ruslapokaklæddra, sósu- og matarlitaðra  ógnvalda, vék fyrir "gleðigöngu" sem er leidd áfram af dansandi, skrautklæddum fígúrum af ýmsu tagi. Það var fatnaðurinn og tónlistin sem í raun breytti öllu yfirbragðinu.  Stjórn nemendafélagsins sem tók þá erfiðu ákvörðun að móta þessa nýju nálgun, verður seint fullþakkað. Vissulega voru þau ekki endilega öll sátt og vissulega voru aðrir eldrinemendur misglaðir, en þeir tóku þátt í breytingunni.
Ég hef, starfsins vegna, fylgst allvel með þessum þætti í gegnum árin. Neita því ekki, að ég kveið nokkuð fyrir því fyrstu skiptin; fannst skelfilegt hve lágt var lagst á stundum og man þá tíma þegar einhverjir eldri nemendur voru búnir að setja í sig það sem ekki má og þá fannst mér þessi hefð vera komin á sitt lægsta plan.

Nú er móttöku nýnema lokið í þriðja sinn, með þeim jákvæðu formerkjum sem  mótuð voru haustið 2014.   Trú mín á að maðurinn sé eitthvað annað og meira en kjúklingur, hefur vaxið enn frekar.

21 ágúst, 2016

Reynir Sævarsson og Skálholt 1974-5

Reynir Sævarsson (mynd: Kaja og Sævar)
Reynir Sævarsson frá Heiðmörk í Laugarási, lést í Kaupmannahöfn að morgni 13. ágúst s.l. eftir erfið veikindi. Reynir fæddist 1959 og var því á 58. aldursári. Eftir að hafa gengið í Reykholtsskóla, lokið 9. bekk (Miðskóladeild) í Lýðháskólanum í Skálholti og stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni, lá leið Reynis fyrst til Noregs þar sem hann vann eitt sumar við trjáfellingar. Hann nam síðan kvikmyndagerð um tíma, en lærði síðan frönsku í dönskum háskóla. Árangur hans í því námi leiddi til þess að franska ríkið bauð honum að stunda frönskunám í Frakklandi í eitt ár. Í kjölfar þess hóf hann þátttöku í hjálparstarfi á vegum Rauða krossins og ferðaðist um allan heim, en hann bjó sér heimili í Kaupmannahöfn. Árið 2002 veiktist hann alvarlega og varð þar með að gefa frekari starfaþátttöku upp á bátinn.
Kynni mín af Reyni stóðu nú svo sem ekki lengi, eða veturinn 1974-75, þegar hann var í  fyrsta nemendahópnum sem ég kenndi. Ég held að fyrsti nemendahópur hvers kennara hljóti að verða sá eftirminnilegasti og maður hlustar eftir því sem maður fréttir af þeim hópi síðan.
Í minningunni fór ekkert sérstaklega mikið fyrir Reyni. Hann var þarna að braska í gegnum táningsárin, eins og bekkjarfélagarnir. Hann var ljúfur nemandi, tranaði sér ekki fram, var jafnvel feiminn, en féll vel í hópinn, var góður námsmaður og sinnti sínu vel.
Foreldrar Reynis eru þau Karítas Óskarsdóttir og Sævar Magnússon. sem byggðu Heiðmörk. Börn þeirra urðu fjögur: Ómar, Reynir, Þór og Jóna Dísa (Sigurjóna Valdís).  Þór lést með sviplegum hætti árið 1993, svo ljóst má vera að mikið hefur verið lagt á heiðurshjónin Kaju og Sævar og systkinin.

Við andlát Reynis  hefur hugurinn reikað til vetursins í Skálholti, fyrir 42 árum. Margt er þar í móðu auðvitað, en þetta var ágætur vetur og ég á örugglega eftir að gera meira úr honum þótt síðar verði.

*********
Í Skálholti 1975: Þarna er afar góð vinkona okkar æ síðan,
Guðrún Ingólfsdóttir með okkur á mynd.
Þegar ég lauk stúdentsprófi frá ML vorið 1974 þurfti ég að gera upp við mig hvað ég ætlaði að gera til að skapa mér möguleika til framtíðar. Ég var ekki tilbúinn að skella mér beint í framhaldsnám, og það varð úr, að sr. Heimir Steinsson, þá rektor Lýðháskólans í Skálholti, tók áhættuna á því að  ráða mig, nýstúdentinn, til starfa. Þáverandi unnusta mín og síðar eiginkona, Dröfn Þorvaldsdóttir fékk einnig starf í mötuneyti skólans þennan vetur.

Vissulega var kennsla eitt þeirra starfa sem til greina komu hjá mér og ég taldi, að með því að kenna í Skálholti einn vetur myndi ég átta mig á hvort þessi starfsvettvangur gæti hentað mér.


Í Lýðháskólanum þennan vetur voru um 24 lýðháskólanemar, en einnig hafði skólinn tekið að sér að sjá um kennslu nemenda 9. bekkjar, en þeir Tungnamenn hefðu að öðrum kosti þurft að fara í Héraðsskólann á Laugarvatni og einhver(jir) tók(u) reyndar þann kost.  Það voru 14 nemendur í 9. bekk þennan vetur, 12 "Tungnamenn" og 2 sem höfðu tengsl við sveitina, en sem áttu fjölskyldur annarsstaðar. Þetta voru þær Svala Hjaltadóttir, sem mig minnir að hafi verið í skólanum í gegnum Ásakot, líklegast systurdóttir Vigdísar, þó ég þori ekki að fullyrða það, og Ásbjörg Þórhallsdóttir, systir Dóru, konu sr. Heimis.
Aðrir nemendur í bekknum voru þessir:
Atli V. Harðarson frá Lyngási.
Birgir Haraldsson frá Höfða.
Eiríkur Már Georgsson frá S-Reykjum þá, en síðar Vesturbyggð í Laugarási.
Grímur Þór Grétarsson frá S.Reykjum.
Guðmundur Hárlaugsson frá Hlíðartúni.
Guðmundur B. Sigurðsson frá Heiði.
Guðrún Sverrisdóttir frá Ösp.
Hallveig Ragnarsdóttir frá Ásakoti.
Inga Birna Bragadóttir frá Vatnsleysu.
Jón Ingi Gíslason frá Kjarnholtum.
María Sigurjónsdóttir frá Vegatungu.
Reynir Sævarsson frá Heiðmörk.

Það er ákveðin eldskírn að kenna í fyrsta sinn, ekki síst þegar maður er aðeins 5 árum eldri en nemendurnir. Þessum bekk kenndi ég ensku og fyrirmyndir mínar við þá iðju hlutu að verða þeir Benedikt Sigvaldason, sem var skólastjóri og enskukennari í Héraðsskólanum á Laugarvatni og Björn Ingi Finsen, sem var enskukennarinn minn í ML. Ég hugsa að ég hafi frekar nýtt aðferðir Björns Inga, enda hafði ég ekki í mér ýmislegt það sem einkenndi kennsluaðferðir eða kennsluhætti Benedikts.
Ég kenndi Lýðháskólanemendunum auðvitað einnig, ensku og frönsku. Þeir voru enn nær mér í aldri og sumir jafnaldrar.

Samstarfsfólkið var hið ágætasta. Sr. Heimir var einstaklega hæfur í starfi. Hann hafði kynnst lýðháskólahugmyndinni  þegar hann kenndi við danskan lýðháskóla í þrjú ár áður en hann var ráðinn til starfa í Skálholti.  Dóra hélt utan um mötuneytisreksturinn, en annað starfsfólk var það sem sjá má á meðfylgjandi mynd.  Fimm úr þessum hópi eru nú látin, en við hin höldum áfram að eldast, svona rétt eins og gerist.

Í sem stystu máli má segja að þessi fyrsta reynsla mín af kennslu hafi orðið til þess að ég ákvað að nema ensku og uppeldisfræði við Háskóla Íslands. Kennslan varð síðan ævistarf mitt.


Bestu þakkir færi ég Jónu Dísu fyrir upplýsingar um lífshlaup bróður hennar.

19 ágúst, 2016

Jóna á Lind

Jónína Sigríður Jónsdóttir, eða Jóna á Lindarbrekku, lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu, laugardaginn 13. ágúst. Útför hennar er gerð frá Skálholtskirkju í dag.

Þorrablót Skálholtssóknar 1991 - handrit
Atriði í 4 þáttum, skotið inn á milli annarra atriða.
Persónur: Manneskjan, sem er kona komin á steyp(ir)inn og rödd símans.
1. Manneskja kemur að síma og er að flýta sér. Tekur tólið af.
Síminn: (öskrar) Nei, þú færð ekkert samband hér!
Manneskjunni krossbregður og hún skellir tólinu aftur á.
2. Manneskjan kemur að símanum, varlega. Lyftir tólinu mjög varlega, við öllu búin. ekkert gerist.
Bíður eftir sóni og velur síðan fyrstu töluna.
Um leið fer tólið að lemja manneskjuna í andlitið.
Síminn: (hrópar) Var ég ekki búinn að segja þér að láta mig í friði, fæðingarhálfvitinn þinn!
Manneskjan missir tólið og grípur fyrir andlitið í skelfingu. Hleypur út.
3. Manneskjan kemur aftur, alveg miður sín og fer að reyna að tala um fyrir símanum.
Manneskjan: En barnið er alveg að koma. Ég verð að ná í sjúkrabíl!
Gengur síðan varlega að símanum, tekur tólið af, bíður eftir sóni, á alltaf von á hinu versta, velur fyrstu tölu, bíður, aðra tölu, bíður, þriðju tölu, bíður, fjórðu tölu, bíður. Smám saman fer manneskjan að slappa af. Velur fimmtu tölu og fær þá í sig gífurlegan rafstraum gegnum tólið. Kippist til, ógurlega og öskrar upp yfir sig. Tólið fellur. Manneskjan flýr og ógeðslegur hlátur heyrist frá símanum.
4. Manneskjan birtist, gengur að símanum. Geðveikislegt útlit og hlátur, setur símann á gólfið og hoppar síðan öskrandi á honum. Ef síminn brotnar ekki nægilega við þetta, hleypur manneskjan baksviðs og kemur aftur með slaghamar og mélar símann, ásamt því sem hún hrópar ókvæðisorð að honum.

Þorrablót Skálholtssóknar 1991 Aftari röð frá vinstri:
Sigríður Guttormsdóttir, Karítas Óskarsdóttir, Georg Franzson,
Brynja Ragnarsdóttir, Þóra Júlíusdóttir, Páll M. Skúlason,
Elinborg Sigurðardóttir, Jens Pétur Jóhannsson. Fremri  röð
frá vinstri: Gunnlaugur Skúlason, Jónína Sigríður Jónsdóttir,
Fríður Pétursdóttir, Matthildur Róbertsdóttir,
Guðmundur Ingólfsson. Dansmeyjar hægra megin:
Gústaf Sæland og Jakob Narfi Hjaltason.

Af einhverjum ástæðum, dettur mér alltaf þetta atriði úr þorrablótsdagskránni 1991 í hug þegar mér verður hugsað til Jónu á Lindarbrekku. Þarna var hún, hálfsjötug, að leika kasólétta konu sem ætlar að hringja á sjúkrabíl, en síminn er hreint ekki á því að veita henni færi á því. Jóna vílaði hreint ekki fyrir sér að taka að sér þetta hlutverk og skilaði því með slíkum ágætum að ég man það enn.
Atriði eins og þetta tengjast auðvitað einhverju sem gerst hafði innan sveitar árið á undan og ég man hreint ekki hvað það var með símamálin sem kallaði fram þennan þátt í skemmtidagskránni, en gaman fannst mér að finna þetta handrit í fórum mínum. Ég tel að það sé bara vel við hæfi að láta það fylgja hér, um leið og ég reyni að hripa niður einhverjar línur í minningu Jónu.

Jónu á Lindarbrekku, eða Jónínu Sigríði Jónsdóttur, hef ég þekkt alla ævi. Samskiptin milli okkar og fjölskyldna okkar í Laugarási voru einna nánust á fyrstu áratugum ævi minnar. Jóna og Guðmundur komu í Laugarás 1951, einum tveim árum áður en ég leit dagsljós fyrsta sinni. Þau fluttu í örlítið sumarhús á Lindarbrekku (29 m²), sem þau byggðu síðan við um 10 árum seinna, enda varla um annað að ræða þar sem börnunum fjölgaði stöðugt. Þau urðu fjögur, öll fædd á einum áratug, frá 1951-1961: Indriði, Jón Pétur, Katrín Gróa og Grímur.
Þegar Jóna og Guðmundur fluttu í Laugarás voru þar fyrir Knútur Kristinsson læknir og kona hans Hulda Þórhallsdóttir, Helgi, bróðir Guðmundar  og kona hans Guðný (Gauja) Guðmundsdóttir, en þau tóku við búskap á Laugarásjörðinni 1946, foreldrar mínir, Skúli Magnússon og Guðný Pálsdóttir í Hveratúni, sem komu í Laugarás 1946, og Jón Vídalín Guðmundsson, bróðir Gauju og Jóna Sólveig Magnúsdóttir á Sólveigarstöðum, en þau komu rétt fyrir, eða um 1950.
Guðný í Hveratúni, Jóna á Lindarabrekku, Gauja í Helgahúsi,
Maja í Skálholti, Magga á Iðu.
Á þessum tíma og reyndar fram á sjöunda áratuginn má segja að þessir íbúar Laugaráss hafi verið ein fjölskylda; frumbýlingar sem stóðu saman, hjálpuðust að, var boðið í barnaafmælin, skiptust á jólagjöfum og þar fram eftir götunum. Á sjötta áratugnum reis hús fyrir dýralækni í Launrétt og þangað fluttu Bragi og Sigurbjörg og 1958 komu svo Hjalti og Fríður í Laugargerði.
Þarna var fámennur og þéttur hópur og það má bæta við fjölskyldunum á Iðu, í Skálholti og á Spóastöðum.
Fyrir mér var Jóna alltaf þessi hressa kona, afskaplega félagslynd og barngóð og ágætur húmoristi.
"Sæll komdu", sagði hún alltaf þegar hún heilsaði, en aldrei "Komdu sæll". Ég reikna með að þarna hafi verið um einhverja austfirsku að ræða, en Jóna var frá Neskaupstað. Hún kom á Laugarvatn um miðjan fimmta áratuginn, þar sem hún vann í skólamötuneytinu veturinn 1948-49 og kynntist eiginmanninum sem síðar varð. Hún var síðan í sumarvinnu hjá Helga í Laugarási áður en hún fór í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og trúlofaðist Guðmundi sínum.


Gæti verið saumaklúbbur í Hveratúni: f.v. Jóna á Lindarbrekku,
Fríður í Laugargerði, Ingigerður á Ljósalandi, Maja í Skálholti,
Gauja í Helgahúsi, Gerða í Laugarási (læknisfrú),
Guðný í Hveratúni, frú Anna í Skálholti, ??,
Renata í Launrétt, ??, Áslaug á Spóastöðum?
Þeir hverfa af sviðinu, hver á fætur öðrum, þessir fyrstu íbúar í Laugarási, en það er víst lífsins saga, eins og augljóst má vera. Þeim er reiknaður mislangur tími; sumir hafa horfið á braut alltof snemma, en aðrir lifa vel sprækir fram í háa elli.  Jóna átti eitt ár í nírætt þegar kallið kom, og flestum þykir það væntanlega ágætur aldur.

Árið 2012 varð það úr að hjónakornin á Lindarbrekku fluttu í þjónustuíbúð á Flúðum. Þaðan lá leið þeirra um þrem árum síðar á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu og ég er viss um að þar áttu þau góða vist saman, hjá því úrvals fólki sem þar starfar.  Ég má til með að halda því fram hér, að þau hefðu gjarnan viljað ljúka ævigöngunni á sambærilegu heimili hér í Laugarási, en um það var ekkert val.
Guðmundur lifir Jónu sína, á 102. æviári.

Það get ég sagt með sanni, að með Jónu hverfur á braut hreint ágæt kona og úrvals nágranni. Henni þakka ég samfylgdina.

Í Litla Bergþór í desember 2010 birtist ágætt viðtal Geirþrúðar Sighvatsdóttur við Guðmund og Jónu.

Guðmundur fagnar aldarafmæli sínu í apríl 2015.







14 ágúst, 2016

Ég hef varann á mér

Dröfn Þorvaldsdóttir: Drög að leirtauslínu
Það fer ekki mikið fyrir henni í dyngjunni, svona alla jafna. Endrum og eins berast tenóraríur úr hljómtækjunum þarna inni, sem merki um að litir snerta flöt í erg og gríð.
Innan dyra í dyngjunni safnast fyrir myndverk af ýmsu tagi: hefðbundin akrýlverk á striga, hrosshársstungin akrýlverk, leirfígúrur og lampaskermar. Það er oftast þegar lítið er orðið um striga að hún leitar á önnur mið og úrval þeirra flata sem verða fyrir valinu eykst stöðugt. Nú síðast er það leirtau, eins og það sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Harla fínt, auðvitað.

Ég dunda mér í minni skonsu, eins og gengur, alveg með það á hreinu, að ef hún finnur ekki hefðbundinn flöt til að mála á, þá fái hún ekki að mála á mig.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...