16 apríl, 2017

Fjörutíu ár

Það hef ég fengið að heyra, aðallega var það þó svona kannski fyrri tvo áratugina, að ég væri lítið rómantískur. Seinni tvo hefur þetta  komið minna til tals. Ég get svo sem alveg verið sammála því, að rómantík verður víst seint talin til hluta af því sem einkennir persónu mína fremur öðru.

Varðandi þetta með rómantíkina þá má kannski segja að þar sé nokkuð jafnt á komið, því fD á ekki yfir höfði sér þann dóm að verða kölluð einkar rómantísk, þó ekki efist ég um að hún telji sig búa yfir þeim eiginleika í ríkum mæli.

Á þessum degi eru fjórir áratugir liðnir frá því við gengum í heilagt hjónaband í Skálholtsdómkirkju. Það var sr. Guðmundur Óli Ólafsson sem sá um það sem að honum sneri.  Tveim árum síðar fluttum við í Reykholt þar sem við stóðum við í 5 ár, en þá var íbúðarhúsið í Kvistholti komið það langt að hægt var að flytja inn með börnin þrjú sem þá höfðu litið dagsins ljós. Það síðasta bættist síðan við fimm árum síðar.
Síðan höfum við gengið lífsins veg svona rétt eins og það gengur fyrir sig. Eins og oft vill verða, hefur þessi ganga ekki alltaf eftir sléttu malbiki, Það hafa komið kaflar sem ef til vill má líkja við ferðamannabrautir í uppsveitum, en þeir eru nú harla fáir.

Ef ég ætti að nefna eitt ár sem kemur fyrst upp í hugann og sem felur í sér ótrúlegar andstæður, yrði það árið sem George Orwell notað á eina frægustu bók sína. Ég hygg, svona fyrir mína parta, að varla sé hægt að finna annað ár ævinnar, sem hefur þroskað mig meira og hraðar. Á þessu ári sigldum við sennilega úfnasta sjóinn á þessari leið.

Það á hinsvegar ekki að líta til einstakra ára eða atburða þegar fjallað er um þann umtalsverða tíma sem hér er undir, heldur þá heildarmynd sem sjá má út úr honum. Heildarmyndin er bara hreint ágæt, verð ég að segja..
Við fD getum verið ánægð með börnin fjögur sem við höfum sent út í veröldina. Þar er á ferð rétthugsandi og ábyrgt fólk.

Við getum verið sátt við að hafa byggt húsið okkar í Laugarási, Þorpinu í skóginum, sem hefur verið skjól okkar og samastaður í 33 ár.

Við getum verið ánægð með að hafa tekist að losna úr fjötrum skulda þó heimilistekjurnar hafi ekki alltaf dugað milli mánaðamóta.

Við getum verið ánægð með að hafa ekki í lífi okkar troðið öðrum um tær, eftir því sem við best vitum.

Við getum sennilega bara verið ánægð með hvort annað og okkur sjálf, svona ef grannt er skoðað.

Hvert verður svo framhaldið?
Hver veit. Það gætu verið kaflaskil framundan. Það er hinsvegar þannig, að þegar maður er búinn að lesa einn kafla, tekur annar við, nema auðvitað ef bókin er búin. Næsti kafli byggir oftar en ekki á því sem þegar hefur verið lesið.
Það er eins með lífið. Maður byggir alltaf á því sem búið er.
Vegurinn áfram er framhald af veginum sem farinn hefur verið. Beygjur við og við, vissulega, en alltaf framhald.

Ef einhver ætlar að halda því fram, að myndin sem fylgir sé ekki þrungin af rómantík, þá er mér að mæta. Annað eins hefur varla sést.



        Gleðilega páska    


13 apríl, 2017

"Operation" Hlunkur

Ætli lexía dagsins sé ekki helst þessi gamalkunna: Áður en þú stekkur, athugaðu hve breið áin er eða Gúglaðu áður en þú gerir það (Look before you leap - myndi það útleggjast á enskri tungu).

Það hefur líklega ekki farið framhjá áhugafólki um listgjörninga fD, að hún hefur að undanförnu staðið í ströngu við að steypa furðufugla í yfirstærð, sem síðan eiga að ala aldur sinn utandyra.
Þetta er örugglega hin ágætasta hugmynd, en því er ekki að leyna, að til þess að hún komist í framkvæmd þarf að leysa ýmis hagnýt mál og þar er líklegast stærsta málið: hvernig á að festa lappir við hlunka sem eru holir að innan?

Mér varð það auðvitað á að stinga upp á festifrauði, og þar með var sá þáttur kominn á mína ábyrgð. Allt sem myndi gerast í tengslum við festifrauðið yrði á mína ábyrgð. Ég myndi hafa sagt að þetta yrði svona og svona.

Ég tók á mig þessa ábyrgð og það er komið á annan mánuð síðan keypt var festifrauð á brúsa. Leiðbeiningar utan á brúsanum eru af skornum skammti, en þó sagt að hann innihaldi 500ml  sem myndu verða að 25 lítrum.  Það voru einnig keyptar lappir: 10 og 12 mm skrúfteinar sem myndu duga til að halda fleiri tonnum af steypu.

Svo bara leið tíminn. Ég vissi að þegar upp væri staðið myndi ég ekki geta staðist þrýstinginn, en hann hefur farið stigvaxandi undanfarnar vikur. Ég var búinn að hugsa framkvæmdina fram og aftur og fannst ávallt að óvissuþættirnir væru of margir, t.d. bara hve hratt frauðið myndi taka sig, eða harðna eða þenjast út. Af þessum sökum og fleiri (skort á framkvæmdagleði sem beinist í þá átt sem um ræðir) var það ekki fyrr en í gær, að óbeinn þrýstingurinn var orðinn meiri en svo að ég gæti staðist.

Í dag voru hlunkarnir bornir út á pall, stillt þar upp þannig að lappirnar myndu standa beint upp í loftið. Það var brotið í þeim sem brjóta þurfti, lappirnar sagaðar í æskilegar lengdir.
Svo koma að ísetningu festifrauðsins.

Ég notaði festifrauð síðast þegar við byggðum íbúðarhúsið. Því var sprautað meðfram gluggum og hurðakörmum og mér þótti það mikið töfraefni. Síðan eru líðin ein 35 ár.

Hvað um það, hvernig sem færi, varð ég að ganga þessa braut á enda og þar með byrjaði ég að sprauta frauðinu inn í belginn á stærsta hlunknum. Var búinn að reikna út að brúsinn myndi duga í alla hlunkana fimm, sem tilbúnir voru á borði úti á palli í 4,5°C hita (á ekki að nota frauðið við lægri hita en 5°C).

Ég sprautaði í belginn. Jú, frauðið þandist eitthvað út, en ekkert í líkingu við það sem það átti að gera, að mínu mati. Ég hafði séð einhversstaðar að til viðbótar við það sem það myndi þenjast strax út, myndi það bæta við rúmmál sitt 33% þegar upp væri staðið.  Því ákvað ég, til að hafa vaðið fyrir neðan mig, að setja frauð svo það fyllti hálfan belginn. Þar með hlyti hann að fyllast nokkurnveginn þegar endanlegri þenslu yrði lokið.

Frauðið var sannarlega ekkert að flýta sér að þenjast út, og það varð ofan á að bera hlunkinn inn í stofu (sem er einnig vinnusvæði fD) þar sem hlýrra væri og betra að hafa stjórn á aðstæðum. Þar voru lappirnar 4 settar í, og vonir stóðu til að þær myndu fljótt festast, sem aldeilis varð ekki raunin.  Þar með varð úr að reyna að skorða þær einhvernveginn. Til þess náði ég mér í kubba sem ætlaðir höfðu verið eldivið, tróð þeim ofan í belginn og tókst eftir nokkurt streð að skorða lappirnar nokkurnveginn eins og hugsað hafði verið.
Einnig skellti ég frauði í botninn á einum litlu hlunkanna, en þar með tæmdist brúsinn, sem átti að duga til að fylla 25 lítra rúm.
Þar með læddist að mér vondur grunur. Belgurinn á stóra hlunknum tæki kannski 10 lítra, og mögulega hafi farið sem svaraði til eins lítra í belginn á þeim litla.

Hvað yrði þá með  þá 14 lítra sem út af stóðu.
Inni í stofu gerðist það hægt en örugglega, að frauðið fór að stækka og það kom að því að nauðsynlegt var að hefja björgunaraðgerðir. Þær hafa staðið síðan. Ég hef skóflað ofan af frauðinu jafnskjótt sem það hefur nálgast að fara upp úr hlunknum. Þessi aðgerð hefur nú staðið í næstum 3 klukkutíma og enn þenst frauðið út. Á tímabili þótti fD þetta vera orðin spurning um að koma sér fyrir á bak við einhverja hlíf, ef hlunkurinn skyldi springa, en af því hefur ekki orðið - enn.

Já, ég veit að einhver besserwisserinn í ykkar hópi mun setja upp svip undir þessari frásögn, og verði honum bara að góðu. Ég er nú búinn að læra eitthvað sem ég kunni ekki áður og bruna inn í framtíðina með tiltekna, nýja þekkingu í farteskinu og sem ég mun mögulega geta notfært mér..

Þegar ljóst var að festifrauðið væri ef til vill ekki það sem best hentaði, náði fD í steypupokann og hrærði í hlunkana sem enn voru frauðlausir.


Síðan heldur lífið áfram.

11 apríl, 2017

不要在我的花园里屎 - No cagar en mi jardín - Don't shit in my garden

Tillaga að veggskreytingu á símaskúrinn.
Ég reikna með því að það sé vegna þess að ég á EOS, sem ég fæ stundum ábendingar frá nágrönnum um hitt og þetta. Eina fékk í gærkvöld:

Í tilefni frétta af óþrifnaði túrista þá nefnum við, að það hefur verið töluverð ásókn í að gera þarfir sínar við símaskúrinn. Í dag var t.a.m. stór hlessingur með tilheyrandi pappír.
Tækifæri f. þig og Eos.

Einnig var fjallað um fyrri dæmi um svipað atferli á þessum slóðum, og nefnd dæmi um Íslendinga sem léttu á sér og brúkuðu síðan kjaft þegar þeir voru atyrtir.

Ég verð nú að viðurkenna, að þetta með EOS-inn kitlaði aðeins og ég lagði leið mína að gatnamótum Skálholtsvegar og Ferjuvegar þar sem er að finna grænan símaskúr, sem allt eins gæti verið almenningssalerni. 
Ég fann fyrir lítilsháttar skilningi á aðstöðu fólks sem sér skúrinn, sér vonina um að geta létt af sér því sem fólk þarf að létta af sér með reglulegu millibili. Þegar það síðan uppgötvar að þarna er um að ræða tengivirki símans, er það bara of seint og ekki um að ræða annað en láta náttúruna hafa sinn gang.  
Auðvitað getur það einnig verið svo að gestir okkar líti á þetta land sem náttúruparadís og að í náttúruparadísum sé heimilt að sinna frumþörfum sínum án þess að til þurfi að koma einhver mannvirki.
Ég veit það svei mér ekki. 

Það er mér þó ljóst, eins og mörgum öðrum, að þetta gengur bara ekki svona. Hvað er til ráða, Ég hef ekki hugmynd hugmynd um hvað er til ráða frekar en aðrir, að því er virðist.   Jú, jú, ég get tekið myndir á EOS-inn og skrifað pistil um málið, en það bara breytir engu. 

Ég held að tvennt valdi þessari stöðu: 
a. salerni ætluð ferðafólki eru alltof fá (innviðavandamálið) og 
b. ferðamenn fara um landið í of ríkum mæli á eigin vegum í bílaleigubílum eða "kúga"-vögnum sem gera ekki ráð fyrir að þaurfi að kúka.

Dæmið sem birtist hér á myndunum sýnir að viðkomandi vildi hafa vaðið fyrir neðan sig. Ákvað að sinna verkefni sínu við horn símaskúrsins þar sem hann gat síðan haft varann á sér og var í minnstri hættu á að verða gripinn með allt glóðvolgt fyrir neðan sig.

Ég læt þetta duga, en leyfi myndunum að njóta sín. Þeir sem áhuga hafa geta sé nákvæmari mynd af afurðinni hér lengra fyrir neðan, en sannarlega ræð ég þeim frá því, þó auðvitað gefi ég kost á að  fólk geti rekið nefið í "hlessinginn"og séð hvað viðkomandi borðaði síðast. :)

Ég veit að þið skrollið öll niður 
😎   
þar með eruð þið búin að missa réttinn til að hneykslast á myndbirtingunni. 
































07 apríl, 2017

Svo segi ég ekki meira um það.


Undirfyrirsögn þessa pistils er:

Við erum sjálfum okkur verst.

Ég er búinn að fjalla um dvalar- og/eða hjúkrunarheimilismál talsvert oft í pistlum mínum og vísa að miklu leyti til þeirra:
Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Tilefni þess að ég legg enn einu sinni ínn á þessa braut, er frétt sem birtist í Fréttatímanum í gær, 6. apríl.

------------------

Í Læknablaðinu árið 1922 er greint frá því að Landsstjórnin hafi veitt Árnessýslu kr. 11.000 í framlag til að kaupa Laugarás fyrir læknissetur. Í Morgunblaðinu þetta sama ár er greint frá því, að Sýslunefnd Árnessýslu hafi keypt gistihúsið við Geysi, sem reist hafði verið í tengslum við konungskomuna 1907. Jafnframt kom fram að húsið væri ætlað „til íbúðar á læknissetri þar uppi í sýslunni“.

Það var þá ekki svo, eftir allt saman, að það hafi verið hrepparir sex sem keyptu Laugarásjörðina 1922, heldur var það Sýslunefnd Árnessýslu. Í mínum huga skýrir það margt, ekki síst það, að miðað við hreppapotið sem við höfum búið við og búum enn við, fannst mér allaf fremur undarlegt að þessir sex hreppar hefðu getað komið sér saman um að kaupa Laugaráslandið sem miðstöð fyrir læknisþjónustu á svæðinu. Nú hef ég fengið skýringuna. Sýslunefnd Árnessýslu sá þessi mál með skýrari og hlutlægari augum, en hrepparnir gera í samskiptum sín á milli. Þetta leiddi huga minn að því, að um þessar mundir á sér stað skoðanakönnun um mögulega sameiningu Árnessýslu í eitt sveitarfélag. Svei mér ef það er ekki bara góð hugmynd.

Ég hef átt leið inn á vefinn tímarit.is þar sem er að finna botnlausan fróðleik um fyrri tíma.

Þegar uppi voru fyrirætlanir um að byggja brú á Hvítá, hjá Iðu, fór auðvitað ekki hjá því að uppsveitamenn tækjust á, alveg eins og enn í dag.
Í grein sem Brynjúlfur Melsteð, bóndi í Gnúpverjahreppi skrifaði í Tímann 14. febrúar, 1952, segir hann meðal annars:

"Það var viturleg ráðstöfun, er sýslunefnd Árnessýslu keypti á sínum tíma Laugarás fyrir læknissetur. Að vísu var Hvítá þröskuldur á leið læknis austur um hérað, en allir sáu þá að auðvelt var að brúa hana á Iðuhamri. Og þegar brú sú hefir byggð verið, er læknissetrið á Laugarási eins vel sett og hugsast getur í hjarta héraðsins og sýslunnar. Á þessu miðsvæði Árnessýslu um Skálholtsland, Laugarás og Iðu, er hið ákjósanlegasta sveitaþorpsstæði, svo að þar skortir aðeins brúna."
Sem betur fer varð það ofan á að Iðubrúin var byggð. Í desember 1957 var hún opnuð fyrir umferð, áratug síðar en ætlað var í fyrstu. Sennilega átti sundurlyndisfjandinn þar einhverja aðkomu.

Sannarlega hef ég ekki legið á skoðunum mínum varðandi byggingu dvalar- og hjúkrunarheimilis í Laugarási og tel mig hafa fært fyrir því talsvert gild rök. Ég veit hinsvegar, að það sem ég segi um þetta mál, er í ýmsum kimum tekið með þeim fyrirvara, að ég bý í Laugarási og væntanlega hafi ég því einhverja óeðlilega hagsmuni af málinu. Ég skil það svo sem, en vil halda því til haga, að þó svo ég búi í Laugarási nú, liggur engan veginn fyrir að svo verði til æviloka. Reyndar eru líkurnar á að svo verði ekki, meiri en minni. Laugarás verður áfram til og fær vonandi að njóta sannmælis þegar fram líða stundir og íbúarnir átta sig á því, að ef þeim finnst vanta eitthvað, þá eru mestar líkur á að þeir fái það með því að standa saman. Til þess að upplifa mátt samstöðunnar, þurfa þeir einnig að uppgötva, að það svæði sem uppsveitirnar ná yfir er stórt og að baráttan á að standa um og samstaðan á að vera um eitthvað sem kemur flestum minnst illa. Þar er samnefnarinn.


Það kviknaði vissulega neisti í hjarta mér þegar kvenfélagskonur sendu frá sér samþykkt, þar sem kallað var eftir að reist skyldi hjúkrunarheimili í Laugarási. Sá neisti slokknaði fljótlega, þegar hefðbundnar raddir tóku að heyrast í umhverfinu:

„Auðvitað á það að rísa á Flúðum, þar sem fólkið er“, sagði Hreppamaðurinn.

„Sannarlega á það að rísa í Reykholti, þar er sundlaug og félagsaðstaða“, sagði Tungnamaðurinn

„Það kemur auðvitað ekkert annað til greina en Laugarvatn. Þar eru tilbúin hús fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili“, sagði Laugdælingurinn.

Ég hef ekki heyrt neitt haft eftir Skeiðamanni, Gnúpverja, Grímsnesingi, Grafningsmanni eða Þingvellingi um þetta mál.

Ég hef ekki heyrt um að um málið hafi verið fjallað á vettvangi sveitarstjórna. Það er kannski of viðkvæmt. Kannski er það bara eins gott, því þar yrði sennilega ekki niðurstaða um að Laugarás (þar sem fólkið er ekki, þar sem er ekki sundlaug eða félagsaðstaða, þar sem ekki er tilbúið húsnæði) gæti verið staðurinn til að mynda samstöðu um.

Ég vil auðvitað taka það fram, að mér er á engan hátt í nöp við Flúðir, Reykholt eða Laugarvatn. Þetta er allt hin ágætustu þorp, hvert með sín séreinkenni, eins og eðlilegt er. Megi þau og uppsveitirnar allar blómstra, hvert á sinn hátt.

Mér finnst líklegt, því miður, að þegar við eldumst og getum ekki lengur lifað lífinu án aðstoðar, verðum við send í aðra hreppa, eða aðra landshluta, hér eftir sem hingað til.


Fyrirsögn pistilsins er:“Svo segi ég ekki meira um það“ og þannig verður það.

05 apríl, 2017

Engisprettufaraldur

Ég man orðið tímana tvenna. Vissulega er minnið þó gloppótt og einskorðast við undarlegustu tilvik oft afskaplega ómerkileg, meðan merkir atburðir eru horfnir það djúpt í minnisstöðvarnar í heila mínum að þeir verða ekki svo auðveldlega kallaðir fram.
Sumt man ég þó vel.

Einu sinni voru bara ræktaðir tómatar eða gúrkur (agúrkur, segja sumir) í gróðurhúsum á Íslandi. Svo hófst blómaræktun, en um hana veit ég fátt.  Utandyra spruttu kartöflur, gulrófur og hvítkál, líklega einnig blómkál. Ætli þetta hafi ekki verið úrvalið.
Það var með grænmetið eins og annað; gagnvart því ríkti ákveðin íhaldssemi og markaðssetning tók tíma. Ætli menn hafi ekki byrjað að rækta papriku, t.d. að einhverju ráðiu, á sjöunda áratugnum. Það liðu síðan allmörg ár þar til hún  náði fótfestu að ráði. Hefur líklega ekki síst haft með að gera vaxandi snertingu landans við útlönd.
Þegar ljóst var, að paprikan var farin að festa sig í sessi, hófst innflutingur, auðvitað. Innflutningsfyrirtæki sáu hag sinn í að keppa við íslenska framleiðslu, sem enn var bundin við vor, sumar og haust. Garðyrkjubændur voru síðan tekjulausir yfir vetrarmánuðina.
Svona hefur þetta verið með fleiri afurðir íslenskra garðyrkjubænda. Ég nefni hér kínakálið, sem var heilmikil nýjung þegar það kom fyrst fram í ræktun hér. Það var komið svo að engin máltíð var framreidd nema kínakál væri í salatinu. Þá hófst auðvitað gengdarlaus innflutningur á því.
Garðyrkjubændur skópu markaðinn, svo hófst innflutningurinn og í krafti viðskiptafrelsis.

Mér varð hugsað til þessa þegar í ítarlegri frétt var sagt frá nýjasta gæludýrinu í leikskóla í höfuðborginni, en það var engispretta sem hafði fundist í salati sem börnunum var ætlað.  Ég þarf auðvitað ekki að segja það, en umrætt salat var ekki  ræktað á þessu landi, heldur flutt inn frá einhverju landi þar sem engisprettur eiga heimkynni.

Mér varð á að hugsa hvort þarna væri ekki ástæða fyrir foreldra að láta til sín taka. Það var útlent skordýr í salatinu sem borið var fyrir börnin þeirra. Einhverntíma hefði heyrst hljóð úr horni, en það hefur ríkt þögn í kjölfar þessarar fréttar.  Hvað ef það hefði nú verið kakkalakki í salatinu?  Hvað eru börnin búin að sporðrenna miklu af engisprettum eða öðrum kvikindum með innflutta salatinu?

Látum það vera, því það er annað sem mér finnst meira áhyggjuefni en engisprettur í salati, því á sama tíma og leikskólar gefa börnunum innflutt salat, fá garðyrkjubændur sem rækta salat og hafa gert það að mikilvægum þætti í matarmenningunni, rutt brautina sem áður, fá nú æ oftar þau skilaboð frá stórmörkuðum eða dreifingaraðilum, að æ minni eftirspurn sé eftir salatinu þeirra. Það er ekki svo að salatneysla landans sé að dragast saman, þvert á móti, innflutningurinn eykst. Engispretturnar fara nú um grænmetismarkaðinn og háma í sig allt sem á vegi verður.
Þetta er auðvitað í nafni viðskiptafrelsis. Frelsisins til athafna. Frelsisins til að flytja inn hvað sem mönnum dettur í hug, um langan veg, frá löndum þar sem gróðurinn býr við önnur og hagfelldari ræktunarskilyrði en hér.

Ég tel, að opinberum aðilum, eins og ríki eða sveitarfélögum, eigi að bera skylda til að leggja áherslu á að innkaup á íslenskum vörum á grundvelli gæða þeirra, á grundvelli ábyrgðar þeirra gagnvart umhverfinu, á þeim grundvelli að þeir byggja tekjur sínar að stórum á innlendri starfsemi.

Mér finnst að foreldrar ættu að rísa upp, ekki aðeins vegna barnanna sem borða útlend skordýr, ekki aðeins vegna slælegra vinnubragða innflytjandans, sem virðist ekki sérlega umhugað um gæði og öryggi vörunnar sem hann selur, heldur ekki síst vegna þess að þetta land er, í flestum tilvikum, það land sem börnin þeirra vaxa upp í og munu hafa lífsviðurværi í til framtíðar.

Það er nú svo.

01 apríl, 2017

Laugarás hvelfingin

Skrifa myndatexta
Þessi pistill átti rétt á sér þann 1. apríl, 2017, en hefur nú tapað tilgangi sínum. Hann mun hafa verið ótrúlegri en svo að nokkrum manni hafi dottið í huga á mæta á fundinn sem boðað var til.  
Hugmyndin að hvelfingu yfir Laugarás er ekki ný, en Páll Dungal, garðyrkjubóndi í Ásholti í Laugarási varpaði henni fram á sínum tíma. Hann átti það til a hugsa út fyrir kassann.

Það hefur ekki farið framhjá Laugarásbúum, að eitthvað mikið stendur til á sláturhúslóðinni. Stór hluti sláturhússins hefur verið rifinn, mikil girðing hefur verið sett upp umhverfis lóðina og beltagrafa er búin að athafna sig á svæðinu vikum saman. Gríðarlegir haugar hafa hlaðist upp og grafan hverfur smám saman ofan í hyldýpis skurð.  Sú saga hefur gengið meðal fólks, að þarna eigi að rísa hótel, en fregnir hafa verið afar óljósar og allar upplýsingar sem komið hafa fram hafa reynst stangast á. Þetta hefur leitt hugann að því að ef til vill sé þarna ekki allt sem sýnist.
Í morgun  þegar ég opnaði póstinn minn sá ég að mér hafði borist póstur frá einhverjum sem augljóslega vildi ekki að á hann yrðu borin kennsl. Í þessum pósti voru eftirfarandi upplýsingar:
Dear Mr. Skulason
This is not spam. I feel compelled to provide you with this information. Laugaras is about to become the center of some operation of a huge scale, involving well known Icelandic businessmen. I'm sorry I can't give you more details, but if you follow the  link you will find out more. You will only be able to use the link once, after that it will become unresponsive.
www. HMS1911705719PH2201603789BTB1903673479HS251167ÓÓ2301575619FI0808543829.eu
Best wishes
Anonymous
Ég var afar hikandi, en ákvað samt að taka áhættuna af því að smella á hlekkinn. Það sem þá blasti við mér var eiginlega of rosalegt til að þegja bara yfir því. Það er ástæða þess að ég greini hér frá þessu.  Risafjárfestar hafa tekið saman höndum og virðast ætla að byggja risavaxna hvelfingu yfir Laugarás. Þegar maður skoðar  þetta nánar fellur ýmislegt í einhverjar skorður og ýmis mál taka að skýrast. Þessi helst:
1. Þar sem nú er grafið í sláturhúslóðinni á að koma ein stoðin undir hvelfinguna, en ekki hótel eins og talið hefur verið.

2. Óvenju mikið hefur verið um mannaferðir eldsnemma á morgnana hér efst í holtinu fyrir ofan Kvistholt, en þar virðist, samkvæmt teikningunni, eiga að reisa miðjufót hvelfingarinnar.

3. Nánast öll hús eða býli sem seld hafa verið í Laugarási undanfarin allmörg ár, hafa verið keypt undir því yfirskini að þar ættu að vera frístundahús.

4. Sveitarfélögin sem eiga Laugaráslandið enn, að nafninu til, hafa smátt og smátt verið að snúa baki við þessari eign sinni.

5. Viðhaldi á opinberum svæðum hefur verið mjög ábótavant.

6. Símasamband við þorpið reynist mjög stopult og kvartanir íbúa fá lítinn hljómgrunn.

7. Íbúar í Laugarási til margra ára, eru byrjaðir að hugsa sér til hreyfings. Síðast í gær birtist auglýsing um garðyrkjubýli sem er til sölu. Þessi auglýsing er auðvitað bara formsins vegna, enda ljóst að núverandi íbúar munu ekki kemba hærurnar í þessu þorpi í skóginum.

Hér býr eitthvað undir, sem ekki má þegja um.  Því er boðað til íbúafundar í dag kl. 15:00 í Slakka þar sem þetta mál verður til umræðu og vel kann að vera að einhver viti meira en aðrir og geti upplýst um það sem þarna virðist vera framundan.

Fjölmennum á fundinn í Slakka.

Kvistholti 1. apríl, 2017
Páll M. Skúlason

ps. ég velti lengi fyrir mér hvort einhver merking fælist í hlekknum sem leiddi mig að áformunum sem uppi virðast vera. Ég tel mig geta séð út frá honum hverjir það eru sem standa að þessum fyrirætlunum. Nánar um það á fundinum.


Mögulegt útlit hvelfingarinnar.




29 mars, 2017

Traust

Þessi dagur er staðfesting á því að vantraust mitt og fjölmargra annarra á stofnunum samfélagsins hefur verið og er réttlætanlegt. Einhvers konar staðfesting á því, að alla daga, allan ársins hring dunda einhverjir apakettir sér við það að svindla og svíkja, ekki aðeins hver annan, sem mér er nokk sama um, heldur þessa blessuðu vanmáttugu og bláeygu þjóð; þjóð sem trúir alltaf á ný.

Nafnorðið traust og sagnorðið að treysta eru mikil tískuorð um þessar mundir. Allt á að vera gagnsætt og uppi á borðinu til að skapa traust á hinu og þessu. Þetta er líklegast bara orðagjálfur til þess eins ætlað að freista þess að fá okkur til að treysta svo hægt verði að svína á okkur enn á ný. Ég tel reyndar að verið sé að því alla daga. Orð eru ódýr.

Það er óendanlega eitthvað dapurlegt að búa við það að geta ekki treyst. Það er eiginlega bara niðurdrepandi til lengdar.  Það er eins og ekki fyrirfinnist sú hugsun að við samtímamennirnir eigum að fá að ganga í gegnum lífið í fullvissu þess að við séum að stefna að einhverju svipuðu til að líf okkar allra geti orðið gott líf. En, nei, það eru alltaf einhverjur, sem búa ekki yfir nauðsynlegri siðferðiskennd til að svo megi verða. Það virðist meira að segja vera til hellingur af slíku fólki, fólki sem lifir fyrir það að raka að sér auði og völdum í krafti fjármagns, sérþekkingar eða ættartengsla.

Ég hef ekki sérstaklega mikla trú á því að ég muni lifa það að búa í þjóðfélagi þar sem traust ríkir. Með vaxandi fáfræði fólks (mér þykir leitt að þurfa að segja það) skapast einmitt kjörlendi fyrir þá sem búa yfir hæfileikanum til að sannfæra almúgann um mannkosti sína.

Þessu þurfti ég bara að koma frá mér á þessum degi, þegar 70 ár eru frá því stærsta eldgos 20. aldar hófst.







Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...