30 nóvember, 2017

Austur verður vestur og öfugt

Sjá roðann í austri, hann brýtur sér braut.
Fram, bræður, það dagar nú senn. 
Þeir hæða vorn rétt til að rísa frá þraut, 
vorn rétt til að lifa eins og menn. 
Þeir skammta okkur frelsi, þeir skammta okkur brauð. 
Hvað skóp þeirra drottnandi auð? 

Á herðar oss ok fyrir völdum var lagt, 
það ok hefur lamað vort fjör. 
En vér erum fjöldinn, því sé það nú sagt: 
Vér sverium að rétta vor kjör! 
Og vaknið nú bræður til varnar í nauð. 
— Vor vinna, hún skóp þeirra auð. 

Til grunna skal bráðlega hrynja sú höll, 
sem hrófaði upp gullkálfsins þý. 
Nú hönd þína, bróðir, því heimssagan öll 
skal héðan af byrja sem ný. 
Vér vöknum í eining til varnar í nauð, 
og vinnan skal gefa okkur brauð.
Þorsteinn Gíslaon


Já, það var þá. 
Nú er þetta með öðrum hætti og við öll meira og minna laus við einhverjar pælingar um byltingu gegn arðræningjunum. Það má segja að við séum orðin allmiklu hlýðnari, eða dofnari, eða bara sinnulausari. Ekki kann ég að fullyrða neitt um það.

Það var hinsvegar alls ekki þetta sem ég ætlaði að tjá mig um á þessum ágæta degi, þetta bara kom upp í hugann.

Að undanförnu hef ég þurft að velta dálítið fyrir mér Hvítárbrúnni hjá Iðu, sem sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Í því samhengi hafa áttir komið við sögu og þá aðallega austur og vestur.
Þannig er, að brúarstöplarnir voru reistir með tveggja ára millibili, sá fyrri var byggður 1953 á austurbakka Hvítár, en samt er hann sá vestari, svo undarlegt sem það kann að hljóma. 1955 var eystri stöpullinn síðan byggður upp á vestari bakka árinnar.
Auðvitað er ástæða þessa einföld og hana má sjá á myndinni hér fyrir neðan.


Hvítá heldur utan um Laugarás á þrjá vegu, en þess fjórða gætir sjálfur biskupsstóllinn í Skálholti.
Getum við verið betur í sveit sett?

Það held ég ekki.

Glöggir lesendur/skoðendur taka eflaust efti nafninu sem Hvítá ber hjá félaga Google. Það má velta fyrir sér hve langt verður í að Laugarás teljist standa við Ölfusá og brúin fái þar með nafnið "Ölfusárbrú hjá Iðu".



24 nóvember, 2017

Saman í þessu

Það er verið að reyna að berja saman ríkisstjórnarnefnu, sem er svo sem gott og blessað. Sumir brjálaðir yfir því eins og venja er til. Aðrir bara sáttir og svo allir þeir sem gæti ekki verið meira sama.
Á meðan þetta stendur yfir undirbúum við hér í neðsta hluta Biskupstungna að minnast þess, með pompi og prakt, að innan nokkurra vikna verða liðin 60 ár frá því Hvítárbrúin, sem tengir byggðina vestan og austan árinnar. Hér væri margt með öðrum hætti ef þessi brú hefði ekki komið til.

Við ætlum að taka í notkun nýja ljósakeðju, sem næstu árin mun lýsa vegfarendum leið í mesta skammdeginu, minna okkur á jólahátíðina og skreyta þetta fagra mannvirki sem brúin óneitanlega er.
Ljósakeðja af þessu tagi kostar sitt. Við hófum söfnun sem hefur gengið framar vonum og við erum afskaplega þakklát þeim sem hafa lagt sitt til, hvort sem það er í smáu eða stóru. Án þeirra hefði þetta ekki orðið.
Þeirra verður getið og þeim þakkað betur þegar upp verður staðið.

Það er venjan, þegar mikil mannvirki eru tekin í notkun, að til eru kallaðir forystumenn og stjórar af ýmsu tagi til að klippa á borða, ýta á takka, nú eða gefa skipun um formlega opnun viðkomandi mannvirkis.
Þetta fórst fyrir þegar Hvítárbrúin var opnuð þann 12. desember 1957.
Úr því verður bætt nú.
Það verður enginn borði klipptur, það verður ekki ýtt á neinn takka, það verður ekki gefin nein skipun. Það verður miklu magnaðra en allt það sem fólki hefur áður dottið í hug við svipuð tækifæri.

Nú vinna íbúar í Skálholtssókn, frá Spóastöðum í norðri að Helgastöðum og Eiríksbakka í suðri, að undirbúningi fyrir formlega opnun brúarinnar, tendrun brúarljósanna og sextíu ára afmælið.
Margir leggja hart að sér til þess að gera þessa hátíð okkar sem skemmtilegasta og eftirminnilegasta. Ekki endilega óskaplega hátíðlega, enda ætlum við að freista þess að hafa þetta allt fremur lágstemmt, en bara því afslappaðra og skemmtilegra.

Það er ekki  markmið okkar að freista fjöldans til að vera viðstaddan, heldur fyrst og fremst þá sem búa eða einhverntíma hafa búið í grennd við og notið góðs af þjónustu brúarinnar, þá sem hafa styrkt kaupin á ljóskeðjunni og aðra þá sem áhuga kunna að hafa á brúnni og okkur.
Það eru allir velkomnir, en við munum ekki auglýsa þessa samkomu með neinum áberandi hætti í fjölmiðlum, svona fyrirfram. Þetta blogg mitt tel ég ekki vera fjölmiðil, nema kannski þegar ég ýti á einhverja takka sem tengjast........ já, ekki fara lengra þangað.

Ekki get ég látið hjá líða, úr því ég er að fjalla um Hvítárbrúna, en nefna að að í blaðinu okkar hér í Tungunum, Litla Bergþór, sem á að koma út fyrir hátíðahöldin, er síðari hluti samantektar minnar á aðdragandanum að, og byggingu þessarar miklu brúar.  Ég hika ekki við að misnota hér aðstöðu mína, og hvetja áhugafólk um brúna og bara lífið í Biskupstungum almennt í fortíð og nútíð, að verða sér úti um áskrift að þessu merka riti.  Það er létt verk: þarf bara að senda tölvupóst á netfangið lbergthor@gmail.com, með nafni, kennitölu og heimilisfangi.




Ég þakka mínum sæla fyrir það að vera nú kominn á eftirlaun, því sjaldan hefur verið í eins mörg horn að líta og nú og einstaklega ánægjulegt að hafa tækifæri til að taka þátt í svo gefandi iðju eins og hér er um að ræða.








17 nóvember, 2017

Afstæður aldur

Þegar ég byrjaði að taka saman efni um Hvítárbrú hjá Iðu eða Iðubrúna, sem hún hefur verið kölluð svona í daglegu tali, átti ég ekkert sérstaklega von á að finna á lífi einhverja sem þar störfuðu síðustu árin áður en brúin var fullbyggð.  Það eru nú, eins og margir vita, sextíu ár síðan hún var opnuð fyrir umferð, sem þýðir að þeir sem þar störfuðu eru nú sextíu árum eldri en þeir voru þá.
Ég hafði einhvernveginn ímyndað mér að það hefðu nú aðallega verið karlar á aldrinum frá 25 og upp úr, sem byggðu þetta mikla mannvirki, sem myndi þýða, að ef einhverjir væru á lífi væru þeir nú, að minnsta kosti 85 ára og mögulega farnir að missa eitthvað úr, svona eins og gengur.

Síðla sumars fékk ég ábendingu um fyrrverandi brúarvinnumann, sem einmitt hafði unnið við brúarsmíðina á þessum tíma.  Hann reyndist vera 74 ára og var því 14 ára þegar hann tók þátt í þessu verki með sínum hætti. Hann var nokkurskonar léttadrengur og ég á eftir að fá að vita meira um það, en þarna er um að ræða afskaplega hressan mann, sem hefur reynst vera meira en til í að aðstoða mig við að rifja upp þann eftirminnilega tíma í lífi hans sem þarna var um að ræða.
Í gegnum hann náði ég síðan sambandi við annan, sem hafði verið fullgildur starfsmaður, og var rúmlega tvítugur á þessum tíma. Það þýðir að hann er skriðinn yfir  áttrætt; kominn á níræðisaldur.
Mér varð hugsað til þess hvernig ég leit fólk á þeim aldri þegar ég var talsvert yngri en nú. Raunar held ég að hver maður geti ímyndað sér hver ímynd fólks var í huga þeirra á yngri árum.

Svo hitti ég þennan mann og svei mér ef ég varð ekki nokkuð undrandi. Það var fjarri því að á honum væru einhver ellimerki. Ég hefði alveg trúað því ef einhver hefði sagt hann vera um sjötugt. Hjá þessum hef ég fengið gagnlegar upplýsingar um myndefni sem ég fékk frá Vegagerð ríkisins og sem mun birtast í seinni umfjöllun minni í Litla Bergþór í byrjun desember. Það sem meira er þá stefnir í að framhald verði á, þar sem þessir karlar hafa frá ýmsu að segja frá brúarbyggingunni sem ég hlakka til að umbreyta í ritaðan texta.

Þetta var fyrri hluti

Hvítárbrú hjá Iðu eða Iðubrú?


Hvítárbrú hjá Iðu, heitir brúin formlega, sem verður búin að þjóna okkur í uppsveitum í sextíu ár, í desember.  Hún hefur yfirleitt, manna á meðal verið kölluð Iðubrúin, sem hefur haft það í för með sér, að þeir sem ekki vita betur, halda að áin heiti Iða. "Hvernig er veiðin í Iðunni?" spyrja menn.

Vandamálið með Hvítárbrúarnafnið er augljóslega það, að það er önnur Hvítá, sú í Borgarfirði. með brú hjá Ferjukoti sem var byggð 1928.  Ekki bætir svo úr skák, að fyrir nokkrum árum var byggð önnur brú á Hvítá, sú sem er hjá Bræðratungu.
Eftir stendur, að brúin okkar hér í neðsta hluta Biskupstungna er ekki yfir ána Iðu, eins nafnið Iðubrú gefur til kynna, heldur yfir Hvítá. Þar með hef ég ákveðið fyrir mig að reyna að venja mig af því að kalla hana Iðubrúna og byrja að kalla hana Hvítárbrú hjá Iðu. Eða brúna á Hvítá hjá Iðu.  Sannarlega ekki eins þjált og Iðubrú, en réttara.




11 nóvember, 2017

Yf'rum

Það flugu ótal hugsanir í gegnum höfuðið á mér, þar sem við fD fikruðum okkur í fljúgandi hálku niður heimkeyrsluna í Kvistholt, niður á veg og síðan út í "búð" eða "Pólland", eða "sjoppu", fyrir nokkrum dögum.
Voru þetta ef til vill mistök af minni hálfu?
Var þetta í rauninni eitthvað sem ég var tilbúinn í?
Varð þetta mögulega viðurkenning á að nú væri ég að nálgast endastöðina?
Mátti líta á þetta sem uppgjöf, fyrir einhverju sem ég ætti að berjast gegn, af alefli?
Var ég að lúta, með þessu, einhverju ósýnilegu ægivaldi, sem enginn fær umflúið, en allir geta barist gegn svo lengi sem kraftar leyfa?
Hvaða heimur var þetta sem ég var þarna að ganga inn í?
Sem betur fer var ég nægilega upptekinn við að reyna að standa í fæturna í hálkunni til að láta þessar hugsanir mínar ekki ná yfirhöndinni, nægilega ákveðinn í að finna, í samráði við fD, auðvitað, öruggustu blettina til að stíga niður fæti á.

Andlit
Svo renndi hópferðabifreiðin inn á planið við búðina. Í gegnum glerið mátti greina grátt hár, eða ekkert, eða litað, jafnvel einstaka derhúfu og þar fyrir neðan andlit sem voru alvarleg eða glottandi, eða brosandi, eða hlutlaus.
Fremstu sætin voru þegar setin og því þurftum við fD að feta okkur inn eftir allri bifreiðinni, framhjá öllum þessum andlitum. Andlitum sem hafa fylgt okkur alla tíð, andlitum sem voru alveg ný fyrir okkur, andlitum sem voru rúnum rist, eða slétt, eða eitthvað þar á milli.
Á leiðinni inn úr gekk á með: Blessaður! Blessuð!, Komdu sæll!, Komdu sæl!, Komiði sæl!, Sæll!, Sæl!, Góðan daginn!, en ekkert Hæ!.
Þessum kveðjum fylgdu bros, nú eða lítilsháttar glott. Þau voru glaðleg, þreytuleg eða bara ...leg.

Vorum við örugglega á réttum stað?
Hópferðabifreiðin lagði af stað, svona rétt eins og væntingar stóðu til, leið sem við höfðum svo sem farið ótal sinnum áður: niður að vegamótunum hjá Reykjum á Skeiðum, þar til hægri, framhjá Brautarholti, niður á Skeiðavegamót þar sem beygt var til vinstri í áttina í Rangárþing.  Það var spjallað á leiðinni. Það var enginn upptekinn við snjallsímann sinn (ég smá, reyndar), það var enginn með í eyrunum, þeir sem ekki voru að spjalla, fylgdust með umhverfinu fyrir utan; umhverfi sem þeir þekktu svo vel. Höfðu farið þarna um þúsund sinnum áður.

Ull
Í Rangárþingi ytra var skoðuð ullarvinnsla og fjárhúsin á bænum. Ullin var snert, vélarnar skoðaðar, pælt í framleiðsluvörunum. Þarna var ekki aðeins unnið úr ull af sauðfé, heldur einnig geitum og hundum.   Fólkið var upprifið, áhugasamt, hlutlaust eða alveg sama, svona eins og alltaf er. Það var sagt frá og það var hlustað og talað um pljónaskap, peysur, fjölda gramma í dokku, rúning, aðbúnað sauðfjár, tækni við að fóðra féð, kuldann í fjárhúsunum, þvott, þurrkun, vinnslu, þæfingu, spuna og allt hitt sem tengja má við ullarvinnslu og sem ég kann ekki að orða.


Leiðsögn
Svo var hópferðabifreiðin ræst á ný, farþegarnir voru kannski heldur lengur að koma sér fyrir en í skólaferðalögum æskunnar, en hver þurfti svo sem að flýta sér?
Það kom leiðsögumaður til skjalanna þegar þarna var komið og meðan bifreiðin flutti hópinn enn austar fræddi hann farþegana um ýmislegt sem sjá mátti til hægri og vinstri, rifjaði upp ófærð og snjóakistur og girðingavinnu, sagði frá hrossaræktarmiðstöðvum, kjúklingabúum, sumarhúsum frægra, aflögðum sláturhúsum, óbrúuðum ám og fjöllunum að baki Heklu, sem Tungnamenn fá ekki séð.

Hvolsvöllur
Leiðin lá á Hvolsvöll í Eldfjallamiðstöðina Lava Centre, en svo virðist sem fólkið hafi ekki spjallað nægilega lengi um ullina, ullarvinnsluna, sauðféð, hundabandið, eða vélbúnaðinn, eða skoðað nægilega lengi það sem hægt var að skoða, því þörf reyndist á að drepa slatta af tíma áður en innreiðin í miðstöðina gæti hafist.  Það varð úr að leiðsögumaðurinn ákvað að taka hring um Hvolsvöll, sem reyndar var ekki hans heimabær og hann kvaðst sjaldan koma þangað. Þetta varð til þess að hóferðabifreiðin endaði í blindgötu, sem auðvitað var bara ágætt, því okkur bauðst þar að líta tækjabúnað sem sveitarfélagið hafði komið upp fyrir fólk til að æfa sig á, utandyra. Allt fór vel og með ágætum, þegar upp var staðið.

Ja, þessi Eldfjallamiðstöð!
Endurgert, gróið hraun, timburklætt, tölvutæknimusteri. Tími til að ná áttum, dást að glænýrri glæsibyggingunni áður en sest var niður til að gapa yfir dásemdum íslenskrar náttúru á kvikmyndatjaldi, áður en gengið var inn í heim eldfjalla, hrauna, jarðskjálfta í tölvugerðum, litríkum töfraheimi. Stunur, andköf, undur, bros, leikaraskapur, íhugun, hugsanir. Ævintýraveröld.


Etið og drekkið
Eftir eldfjallaævintýrið þurfti að ná sér niður. Við blöstu hilluraðir af drykkjarföngum og leið flestra lá að þeim hlutanum þar sem hægt að að fá prósent. Fá prósent eða mörg. Köld eða stofuheit. Það var sest niður og farið yfir daginn áður en fólkinu var boðið að velja sér af hlaðborði sem var 20 metra langt. Fremst súpan, sem ekki reyndist nú flókin. Málið vandaðist þegar koma að aðalréttinum. Þar sem ekki sást á milli endanna tók maður allt of mikið á diskinn til að byrja með til að geta með góðu móti komið öllu yrir á honum við lok leiðarinnar. Svo var eftir að gera þessu öllu skil og það var annar handleggur. Þessi gengdarlausi gleypigangur Vesturlandabúans. Hugur reikaði, örskamma stund, suður til Bíafra æskunnar, en síðan var tekið til við að koma kræsingunum á sinn stað, með aðstoð viðeigandi drykkjarfanga. Það tókst, en hreint ekkert umfram það. Þá var eftirrétturinn eftir. Hann fór á sinn stað, þó ekki sé nú hægt að halda því fram að líkaminn hafi beinlínis kallað á hann.

Heim
Hópferðabifreiðin beið í þolinmæði eftir því að koma þessu fólki til síns heima. Leiðsögumaður sagði sögur af hinu og þessu, sem fyrir augu hefði átt að bera, en bar ekki, þar sem aldimmt var orðið. Hann fylgdi með þar til Þjórsá tilkynnti að Árnesþing tæki við.
Það er ekki sagt frá þessari ferð frekar.





Ferðin þessi
Ferðalangar: 34-35, úr Biskupstungum að mestu.
Leiðsögumaður í Rangárþingi: Olgeir Engilbertsson, Nefsholti í Holta- og Landssveit
Gestgjafi: Kvenfélag Biskupstungna, en kvenfélagið bauð íbúum í þessa ferð og hana skipulögðu Elinborg Sigurðardóttir og Elín Siggeirsdóttir.
Ullarvinnslan: UPPSPUNI á bænum  Lækjartúni þar sem húsráðendur eru Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson.
Eldfjallamiðstöðin: Upplýsingar um hana.

-------------------------------
Hvernig er það svo að fara yf'rum?

Ég er svona markatilfelli. Enn mengaður af áratuga samneyti við unglinga, hef varla náð því að verða eðlilegur miðaldra karl og stekk svo upp í hópferðabifreið með öldungum.
Piff.
Aldur er nú ekkert nema sú slóð sem við öll fetum frá því við komum úr móðurkviði og þar til við hverfurm aftur í móðurkvið.  Jú, sannarlega breytist hugsunarháttur okkar eftir því sem við eldumst, skárra væri það nú. Þar kemur til reynsla og þroski.  Við verðum samt alltaf sama fólkið, þurfum bara að kljást við það að sá hluti okkar sem tjáir aldurinn, er fyrst og fremst sá sem við berum hið ytra. Innrætið heldur sér nokk: stríðnispúkinn, hugsuðurinn, bóndinn, kennarinn, leikarinn, grínistinn.... þetta er allt þarna, allt til enda. Þarf sennilega bara stundum að pota aðeins í það svona við og við.


Ég þakka kvenfélaginu fyrir mig.


26 október, 2017

Forsetinn snerti mig

Ekki vafðist fyrir okkur fD að ljúka því sem ljúka þurfti í höfuðstað Suðurlands í morgun, enda orðin með eindæmum þjálfuð í að vita hvað við þurfum í raun til að lifa með umtalsverðri reisn næstu vikuna. Það má segja, að minnismiðar séu að verða óþarfir í þessum kaupstaðarferðum.

Kannski var nú helsti tilgangurinn með þessari ferð að greiða atkvæði í þessum Alþingiskosningum sem framundan eru. Eins og fram hefur komið hér áður, hef ég verið nokkuð tvístígandi varðandi það hvernig atkvæði mitt geti nýst sem best þeim stjórnmálaflokkum sem næst standa  þeim gildum sem mér finnst mikilvægt að séu í hávegum höfð á þessu ísahlýja landi, þar sem varla er hægt að tala um að komið sé haust, ennþá, hvað þá vetur.

Konan sem sat bak við skrifborðið, vildi sjá skilríki, sló eitthvað inn, náði síðan í kjörseðil og umslag. Rétti mér þetta tvennt og benti mér síðan á að ganga eftir húsinu endilöngu þar til ég kæmi að kjörklefa, sem ég gerði auðvitað. Þar fann ég, bakvið sturtuhengi, aðstöðu þar sem gert var ráð fyrir að þeir sem inn kæmu, þyrftu ekki að setjast, enda kannski óþarfi, sérstaklega ef enginn vafi léki á hver skyldi nú fá atkvæðið. Ekki er því að neita, að ef efi minn hefði verið því meiri, hefði nú ekki verið slæmt að geta tyllt sér og ekki hefði nú blessaður kaffisopi, jafnvel smá koníaksdreytill komið sér illa við slíkar aðstæður, en ég var nú ekki svo langt frá niðurstöðunni.

Inni í kjörklefanum, eða sturtuhenginu, var sem sagt borð sem maður þurfti að standa við. Á því, uppi við vegginn, var röð af TRODAT stimplum, sem merktir voru hver með sínum bókstafnum. Ég lét augun reika frá einum stimplinum til annars, þar sem ég hafði opnað kjörseðilinn, en hann var næstum eins og fermingarkort. Utan á honum svartar, óreglulegar línur til að tryggja að ekki væri nú hægt að lesa í gegn, sem enginn möguleiki hefði verið á hvort sem var, enda seðillinn úr svokölluðum karton pappír.  Sennilega er þetta gert, eins og flest annað, sem þarna fer fram, til þess að draga úr líkum á að lögmæti utankjörfundaratkvæðagreiðslu yrði dregið í efa og jafnvel kært.
Ég neita því ekki, að hönd mín nánast réði því að ég tók einn stimpil, en ekki annan, enda staðfastlega þeirrar skoðunar, að að fjöldi stjórnmálaflokka sé ekki til þess fallinn að gera Ísland að betra landi. 
Ég tók stimpil og stimplaði á miðjan kjörseðilinn í þar til gerðan reit. Teningnum var kastað. Ég verð að lifa með þessari ákvörðun minni, og er bara nokkuð sáttur við hana, svona miðað við allt og allt. Ég ætlaði að þessu búnu, að skila kjörseðlinum og ljúka málinu þannig, en það var nú ekki svo einfalt. Ég verð að hafa fyrir því að koma atkvæðinu á skrifstofu Bláskógabyggðar eða fá einhvern til að fara með hann fyrir mig á kjördag í viðeigandi kjördeild, bara til þess að hægt verði síðan að flytja hann aftur á talningarstað í Suðurkjördæmi. Mikið bull, að mínu mati.  Við tóku pælingar um hver væri best til fallinn að sinna þessu verki, en ekki kom nú hver sem er til greina. Um þetta varð niðurstða og málið er í höfn.

X fær fólk víst ekki að setja á kjörseðla fyrr en á laugardag, en þá verð ég fjarri góðu gamni, ef að líkum lætur. Það verð ég að segja alveg eins og er, að mér er harla mikið sama um að missa af þeirri gleði, eins og í stefnir.  Mér sýnist að áfram verði það sama uppi á teningnum. Það verður þannig þar til hægt verður að bera traust til þeirra framboða og frambjóðenda sem vilja fá X-ið okkar við sinn staf á kjörseðlinum.

Djö... held ég nú að við værum mikið betur sett, ef stjórnmálamenn þyrftu að aflétta leynd af fjármálavafstri sínu með ættmennum og viðskiptafélögum.  Ég held, svei mér þá, að þetta fyrirbæri "bankaleynd", sé sá þáttur sem stendur mest í vegi fyrir því að á þessu landi verði hægt að byggja upp traust á ný.
Hvað um það, ekki raunar margt fleira um það að segja, en í lágvöruverðsverslun í framhaldinu rakst ég á  forseta og bæjarstjóra, harla brosmilda báða. "Það þýðir víst ekkert að eiga orð við þig", sagði forsetinn kankvís, um leið og hann snerti öxl mína létt (engan veginn kynferðislegt áreiti þar á ferð). "Nei, þannig held ég að tíma þínum væri ekki vel varið", svaraði ég.  Í framhaldinu brostum við hvert við öðru, forsetinn, bæjarstjórinn og ég. Ég sá ekki hvort fD brosti, en tel það fremur ólíklegt.
Forsetinn og bæjarstjórinn hurfu út í haustdaginn, en við fD keyptum okkur skyrdrykk.



24 október, 2017

...sem fyllir mælinn?

Þessa mynd tók ég ófrjálsri hendi hér, en átti síðan aðeins við hana.
Sennilega myndi þetta teljast siðferðilega rangt - sem það eflaust er,
eins og svo margt í þeim veruleika sem við búum við.
Í gær fjallaði ég um þjóðkirkjuna, bankaleyndina, traust og siðferði. Engin smá viðfangsefni í nokkrum línum.
Það kann einhver að spyrja til hvers ég var nú að því og mér er ljúft að svara.
Ég er afskaplega þreyttur á því að geta ekki treyst sjórnvöldum eða stjórnmálaleiðtogum í þessu landi. Ekki fæ ég betur séð að en sama sé uppi á tenginum meðal margra samlanda minna og einnig meðal annarra þjóða.

Til þess að njóta trausts verður fólk sem tekur þátt í stjórnmálum að koma hreint fram, vera það sem það er, sannfæra kjósendur um að það sé ekki með óhreint mjöl í pokahorninu.
Ég geri mér auðvitað grein fyrir því, að til þess að komast áfram í stjórnmálum virðist þurfa að beita ýmsum meðulum sem ekki þola alltaf dagsljósið. Svona hefur þetta verið frá alda öðli, sjálfsagt.

Stjórnmálamennirnir eru eitt, en síðan eru það kjósendurnir. Þar er nú margur sauðurinn og þar á meðal þessir:
1. Kjósandinn sem  hefur afar skýra heildarsýn á það hvernig honum finnst að þjóðfélagið eigi að vera. Hann er tilbúinn að kjósa mismunandi stjórnmálaflokka eftir því hvernig honum finnst þeir uppfylla þessa sýn. Hann fylgist afar vel með öllum hliðum og leggur til hliðar fordóma sína gagnvart einstökum persónum eða málum, en lætur heildarsýnina á það hvernig honum finnst gott samfélag eigi að vera, ráða för og vali sínu á kjördegi. Þetta er nánast hinn fullkomni kjósandi.

2. Kjósandinn sem með einhverjum hætti, hvort sem það gerðist í foreldrahúsum, í gegnum nám sitt (nám sín (nýslenska)), tengslanet sitt, vonir sínar eða þrár, kýs ávallt það sama, óháð öllu öðru sem kann að gerast.
Þessi kjósandi les aðeins "réttu" miðlana, finnur sér ávallt einhverja kima til að styrkja skoðanir sínar, er tilbúinn að dreifa óhróðri um þá sem hafa aðrar skoðanir, og gerir leiðtoga síns flokks nánast að leiðtoga lífs síns, óháð því hvað sá hefur að geyma í raun.
Það skiptir þennan kjósanda engu máli, þó flokkurinn hans vinni beinlínis gegn því sem myndi henta manneskju í hans stöðu best.  Þetta er yfirleitt kjósandinn sem segist ekki vera pólitískur, vegna þess að hann hefur í rauninni ekki nein baráttumál utan að verja flokkinn sinn.

3. Kjósandinn sem lætur stundarhagsmuni ráða hvaða bókstaf hann merkir við í kjörklefanum. Hann stekkur á einhver afmörkuð mál sem einhver flokkur lofar í kosningabaráttu; lætur þau skipta öllu. Þetta geta jafnvel verið lítil og ómerkileg mál, en mál sem skipta þennan kjósanda miklu þá stundina. Þetta er kjósandinn sem veldur sveiflum í skoðanakönnunum. Þetta er kjósandinn sem stjórnmálamennirnir hamast við að reyna að sannfæra. Þetta er kjósandinn sem lætur glepjast af yfirboðum í aðdraganda kosninga.

4. Kjósandinn sem hefur engar ákveðnar lífsskoðanir, er bara nánast sama um þetta "helvítis kjaftæði". Þetta er kjósandinn sem lítur þannig á að atkvæði hans skipti engu máli, eða að það sé sama rassgatið undir öllum þessum póitísku drullukökusmiðum. Þetta er kjósandinn sem, annaðhvort mætir ekki á kjörstað, eða kýs þann flokk sem tókst að rétta honum einhverja dúsu, t.d. veitti nóg af bjór á kynningarfundinum, gaf honum bol, eða barmmerki.

Ég held að það sé strengur úr öllum þessum kjósendategundum í mér - misáberandi þó.

Ég ætlaði hinsvegar ekki að fjalla um tegundir kjósenda hér og nú, heldur áfram um spurninguna um traust.

TRAUST
Bankaleynd er sennilega stærsta uppspretta þess vantrausts sem nú ríkir í þessu samfélagi og þannig hefur það verið, líklega síðustu 15 ár. Þetta er óhemju eyðileggjandi fyrirbæri.  Í svo fámennu samfélagi sem við búum í er kjörlendi fyrir spillingu. Ættir og viðskiptafélagar birtast einhvernveginn allsstaðar þar sem góðir dílar eru gerðir, þar sem ríkiseignir eru seldar, þar sem einkahagsmunir koma við sögu.
Auðvitað er svona andrúmsloft líka gróðrarstía fyrir samsæriskenningar, en þær spretta fram þar sem vantraust er fyrir hendi.

Í mínum huga er veruleiki okkar í þessu landi lagskiptur:
- það er sá veruleiki sem blasir við okkur og sem öllum má ljóst vera að er fyrir hendi.
- það er sá veruleiki sem venjulegt fólk/almenningur sér ekki. Það sem gerist á lokuðum fundum, óformlegum fundum, í Öskjuhlíðinni, á einhverri paradísareyju í suðurhöfum, í skíðaskála í suður Evrópu, á krá í Amsterdam, í ræktinn.  Á þessum veruleika ættum við að byggja val okkar á stjórnmálaleiðtogum, en það mun vera siðferðilega rangt að veita okkur upplýsingar um hann. Hann er á þeim stað sem lögin banna okkur að fara. Lögin sem voru sett í þágu..........

Svo er það spurningin um sannleikann. Hver er hann þessi sannleikur? Er hann gamall eða nýr?
Sannleikur er það sem satt er og rétt. Raunveruleiki.  Það sem er ekki raunverulegt er þá væntanlega ekki sannleikanum samkvæmt.  Þá þarf að velta fyrir sér hver raunveruleikinn er. Er hann það sem blasir við okkur dags daglega, eða er hann ef til vill eitthvað það sem lúrir undir yfirborðinu og okkur á að vera siðferðilega ómögulegt að nálgast? Lifum við þá í einhverjum gerviheimi?

---------

Af heilum hug get ég lýst því yfir hér, að ég verð ekki tengdur einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki, þó vissulega falli skoðanir mínar að langstærstum hluta að stefnumálum þeirra stjórnmálaflokka sem vinstra megin eru við miðjuna.  Sannarlega skammast ég mín ekki fyrir það, er stoltur, ef eitthvað er.  
Ég hef heldur ekki farið sérstaklega dult með það, að ég hef nokkra óbeit á þeim öflum í stjórnmálum sem teljast standa hægra megin í þessu litrófi. Þá hef ég megna óbeit á persónudýrkun þegar stjórnmál eru annars vegar. 
Svona er ég og ég tel að mikið þurfi að ganga á, áður en einhverjum tekst að breyta mér að þessu leyti. Hlekkir á síður sem eiga að sannfæra mig um að ég fari villur vega, þar með talið á umfjöllun um I C E S A V E,  skipta nákvæmlega engu að þessu leyti.

🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆🔆

Þar hafið þið það, þessi fáu sem höfðu þrek til að lesa alla leið, ekki síst ef þið hafið haft nægilega opinn huga til að skilja hvað ég er að fara.

Markmið mín með þessum skrifum eru ekki að reyna að sannfæra einhvern um að hann ætti ef til vill að endurskoða pólitiska hugsun sína eða skoðanir.  Ég veit að það mun ekki gerast.  Þau snúast, tel ég, aðallega um að skýra þessi mál með sjálfum mér og halda því til haga fyrir síðari tíma, hve rétt ég reyndist nú hafa haft fyrir mér alla tíð.
😎




23 október, 2017

Er þetta dropinn?

Myndin var tekin hér
Ég var skírður og fermdur ásamt öllu því helsta  sem maður gerir innan þjóðkirkjunnar. Ég telst vera í þjóðkirkjunni.
Í flestu hef ég leyft þessari stofnun að fara sínu fram án þess að það hefði einhver veruleg áhrif á mig. Stundum hef ég komist upp á kant við tiltekna þjóna hennar, líkar ekki aðrir, eða það sem þeir halda á lofti í nafni kristinnar trúar.  Fyrir ríflega 30 árum fór ég að syngja með kór sem starfar á vegum kirkjunnar og hef þar marga fjöruna sopið. Fyrir allmörgum árum var ég kominn á fremsta hlunn með að kveðja þessa stofnun, en af því varð ekki og ég veit í rauninni ekki hversvegna. Hélt áfram þessu hlutleysi mínu, ekki síst vegna þess að það var ekkert sérstakt annað í boði og er reyndar ekki enn.

Þetta var fyrri hlutinn.

Í dag er rætt um stolin gögn og réttmæti þess að birta þau.
Hversvegna sá einhver ástæðu til að stela þeim?
Hversvegna þurfti að stela þeim?
Var þeim yfirleitt stolið?
Hvað felur það í sér að stela? Jú, líklega að taka eitthvað ófrjálsri hendi sem einhver annar á. "Þú skalt ekki stela" hljómar eitt boðorðanna. Ég samþykki auðveldlega, að ef maður stelur einhverju sem er í eigu einhvers annars, þá er það brot gegn lögum Guðs og manna, og allt það. Það er rangt.
Þá vaknar spurningin: "Hvenær er eitthvað eign einhvers?"

Það eru í gildi lög um bankaleynd. Um þau þessa leynd fann ég þetta í fljótu bragði:

Meginreglan um bankaleynd felur í sér þagnar- og trúnaðarskyldu fjármálafyrirtækja og starfsmanna þeirra gagnvart viðskiptamönnum. Reglan er lögfest í 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í íslenskum rétti virðast reglur um bankaleynd einkum byggjast á sjónarmiðum um friðhelgi einkalífs en einnig búa að baki önnur sjónarmið á borð við vernd viðskiptahagsmuna banka og fjármálafyrirtækja. -  Vigdís Sigurðardóttir lokaverkefni 2009


Fjármálafyrirtækjum ber að halda leyndum upplýsingum um viðskiptavini sína, hvað svo sem þeir eru að bardúsa. Ef einhver tekur sig til og kemur tilteknum upplýsingum af þessu tagi til fjölmiðils, telst það stuldur og þar með, væntanlega, siðferðilega rangt..

Nú er það hinsvegar svo, að fjármál flestra okkar, sem eigum í viðskiptum við banka, eru þess eðlis að opinber birting þeirra myndi á engan hátt skaða okkur. Gæti jafnvel orðið ýmsum okkar til framdráttar. Þannig má halda því fram, að bankaleynd skipti langflesta litlu eða engu máli.


Bankaleynd skiptir aðallega máli fyrir þá einstaklinga, fyrirtæki eða félög, sem þurfa að leyna einhverju. Þannig má ætla að bankaleyndin sé til komin vegna þeirra. Það eru ýmsir hagsmunir, sem geta þurft að fara leynt, og jafnvel má færa fyrir því lögmæt rök.


Í skjóli bankaleyndar hefur hinsvegar ýmislegt það átt sér stað og á sér stað, sem segja má að sé rótin að djúpstæðu vantrausti í þessu samfélagi. Í skjóli bankaleyndar á sér ýmislegt stað sem ekki þolir dagsins ljós jafnvel þó almannahagsmunir krefjist þess að þar um sé allt uppi á borðum.


Get ég kosið einstaklinga til að hafa forystu í málefnum þjóðarinnar, sem á sama tíma skara eld að eigin köku, ættmenna sinna og viðskiptafélaga í skjóli bankaleyndar? Á ég ekki rétt að að allt slíkt sé uppi á borðum.


Stjórnmál snúast nefnilega fyrst og fremst um traust.

Það erum við búin að reyna á undanförnum árum, að einstaklingar sem við höfum kosið til valda, hafa reynst eiga sér tvær hliðar: þá sem við sjáum, kannski leiftrandi af eldmóði þess sem vill berjast fyrir hag almennings og þá sem við fáum ekkert að vita um vegna þess að um það ríkir bankaleynd.


Þetta var síðari hlutinn



Nú hefur biskupinn, sem sagt tjáð sig um þessi mál og fjallar um það sem er siðferðilega rétt eða rangt. Við þetta vaknar þessi spurning í huga mér: Er það siðferðilega rangt að leyna kjósendur upplýsingum sem geta hafa afgerandi áhrif á það hvað þeir kjósa?




Ég tel að siðferðið eigi ekki aðeins að virka á annan veginn. Þeim sem vill gegna trúnaðarstörfum fyrir heila þjóð ber skylda til að koma hreint fram gagnvart henni. Annað er ekki boðlegt og í mínum huga beinlínis siðferðilega rangt.


Er það kannski svo að þjóðkirkjan telji sig þurfa að halda verdarhendi yfir valdhöfum, sérstaklega ef þeir tilheyra einum tilteknum stjórnmálaflokki? Nú, eða tilteknum flokkum. Hverjar eru skyldur kirkjunnar gagnvart almenningi, sem er leiddur inn í kjörklefann án þess að vita nákvæmlega hvort atkvæðið er greitt á réttum forsendum?


Já, það er svona með siðferðið og traustið. Það er sennilega ekki ætlað öllum.


Þetta var samantektin



Nú er ég, sem sagt kominn á brúnina. Er þetta dropinn sem fyllir mælinn?

Ég verð að eiga það við sjálfan mig.





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...