14 nóvember, 2021

Rúnurnar og Stebbi

 

Það er haust. Lítilsháttar næturfrost skilur eftir þunnt skæni á pollunum. Ég reyni að hitta á þá alla til að upplifa framhjólin á Fergusoninum brjóta sig í gegnum þessa áminningu um að veturinn nálgast. Gulbrúnt, leirblandað pollavatnið brýst upp úr mölbrotnu skæninu og augun leita að næsta polli til að hitta á. 

Stebbi er í bænum.
Hann fer þangað stundum og kemur þá til baka, umluktur keim af kaupstaðarlykt, búinn að útrétta og lyfta sér upp.
Það getur sennilega verið einmanalegt að vera ráðsmaður í Höfða, þó Rúnurnar séu indælar konur, svo sem. Ekki hef ég hugmynd um hvernig sambandi Stebba og Rúnanna er háttað og velti því ekki einusinni fyrir mér.

Stebbi í Höfða
(mynd Tómas Jónsson í
Héraðsskjalasafni Árnessýslu)

Þau eru bara þarna uppi í Höfða. Stebbi kemur stundum heim, en ég sé aldrei Rúnurnar nema þegar við þurfum að bjarga mjólkurflutningunum fyrir Stebba, þegar hann þarf að fara í kaupstað.
Fergusoninn er alltaf í Hveratúni þegar Stebbi fer af bæ og við pabbi brunum síðan upp í Höfða til að ná í mjólkurbrúsana og koma þeim fyrir mjólkurbílinn. Pabbi leyfir mér að keyra Fergusoninn á leiðinni uppeftir, en aldrei til baka. 

Áfram liggur leið og ég finn fullt af pollum til að stýra ofaní, þarf stundum að sveigja til og frá þegar þeir standast ekki á. Framdekkin á Fergusoninum eru ekki eins og á venjulegum traktorum. Þau eru breið, annað alveg slétt, en hitt er með sjáanlegu myntri.
Pabbi gerir engar athugasemdir við aksturslagið - vill kannski ekki draga úr nautn minni af akstrinum. Hann situr á hægra brettinu og hefur vakandi auga með að ég geri enga vitleysu. Ég er á þrettánda ári og upplifi ótrúlegt vald mitt - með stjórn að vélknúnu farartæki. Það er eitthvað alveg sérstakt við það, að fá að snerta á einhverju sem bara fullorðnir fá að gera.  

Rúna Jóns (eða Rúna hin) vinstra megin og Rúna Víglunds. 
(mynd frá Svövu Theódórsdóttur)
Í hlaðinu í Höfða stöðva ég Fergusoninn og drep á honum. Rúna Víglunds kemur út úr fjósinu beint úr mjöltunum. Hún er í fjósafötunum, fjósapilsi og peysu. Pilsið er engan veginn á litinn, úr einhverskonar striga, og það glansar á það. Sennilega er það ekki þvegið oft. Hún er með skuplu á höfðinu, eða klút og bíður okkur góðan daginn og býður okkur inn í kaffi. Við fáum alltaf kaffi þegar við komum í Höfða. Við göngum í bæinn, fyrst inn í forstofuna og síðan inn í eldhús, en þar er Rúna Jóns, einnig í fjósagallanum. Hún hefur farið á undan inn til að hella upp á. Þær eiga von á okkur. 
Rúna Jóns setur bolla fyrir okkur og Rúna Víglunds skenkir síðan kaffið. Fyrst hellir hún í bollann hjá pabba, svo minn, þá bolla Rúnu Jóns og loks í sinn. Það er spjallað um daginn og veginn meðan þessi athöfn á sér stað, spurt frétta og rætt um hitt og þetta. Mér finnst það dálítið sérstakt, að þar sem Rúna hellir í bollana þarf hún frá svo mörgu að segja og um svo margt að spyrja, að hún hættir ekki að hella kaffinu þegar hún færir könnuna milli bollanna og þessvegna fer kaffið líka á borðið.  Ég er alltaf jafn undrandi þegar þetta gerist og bíð þess í hvert skipti sem við flytjum mjólkina frá Höfða.  Báðar Rúnurnar eru afskaplega hlýjar konur, í minningunni, og ég sé þær enn fyrir mér í eldhúsinu í Höfða og held að ég hafi hvergi séð þær annarsstaðar en þar og hef líklega ekkert pælt í því þá, hvernig lífi þeirra var háttað.  

Eftir kaffið höldum við pabbi aftur heim, eftir að hafa sett brúsana í kerruna. Pabbi keyrir Fergusoninn til baka og reynir frekar að sneiða hjá pollunum. Það er ekki fyrr en löngu seinna sem ég átta mig á því, að maður á að reyna að komast hjá því að keyra ofan í alla polla sem maður sér. 

Við skellum brúsunum á brúsapallinn og þaðan bara heim. Mjólkurflutningunum er lokið þennan daginn.  Stebbi kemur úr kaupstað síðdegis, með grænmetisbílnum. Hann kíkir inn í kaffi og býður pabba sopa úr pela sem á stendur VAT69. Hann segir frá ferð sinni, þakkar greiðann og heldur síðan af stað á Fergusoninum upp í Höfða, þar sem Rúnurnar bíða. Skyldi hann sneiða hjá pollunum?

-------------------------

Þetta var árið 1965 eða 1966 og ég var þá á 12. eða 13. ári. Þrennt man ég í rauninni frá mjólkurflutningum okkar pabba: ég að keyra Fergusoninn ofan í pollana með ísskæninu, aðferð Rúnu Víglunds við að hella í kaffibollana og pilsinu hennar Rúnu Víglunds. 

Þóra Guðrún Víglundsdóttir (1918-2002) var dóttir þeirra Jóhönnu Ketilríðar Þorsteinsdóttur (1880-1954)  frá Höfða og Sigurðar Víglundar Helgasonar (1875-1944).  
Úr minningargrein um Víglund:

Árið 1907 gekk hann að eiga Jóhönnu K. Þorsteinsdóttur í Höfða. Byrjuðu þau ungu hjónin þar búskap sama ár og bjuggu þar jafnan síðan. Varð þeim 8 barna auðið, og eru 5 þeirra á lífi: Sesselja, gift Sigurði Þórðarsyni verslunarstjóra í Rvík, Gunnþórunn, gíft Þorsteini Gíslasyni, vjel«tjóra í Hafnarfirði; Magnús, stórkaup maður í Rvík, kvæntur Ragnheiði Guðmundsdóttur, stud. med., og Guðrún og Þorsteinn, sem bæði eru enn í föðurgarði.

Guðrún Jónsdóttir (1899-1995). Um Guðrúnu og Eirík bróður hennar segir Bjarni Harðarson í athugasemd á Fb.:

Þau voru ekki frá Bryggju þó Eiríkur hafi fæðst þar - heldur eiginlega úr Skálholtssókn, María móðir þeirra var fædd í Laugarási. Jón faðir þeirra var fæddur í Höfða. Móðir Jóns var ein hinna mörgu og fögru Kópsvatnssystra. Jón og María bjuggu víða í sveitinni og aðallega á rýrum kotum eins og Bryggju, Tjarnarkoti og Torfastaðakoti - jú og í Laugarási líka smátíma.

Stefán Benedikt Guðmundsson (1912-1972) frá Minni-Brekku í Fljótum.Foreldrar hans voru Guðmundur Stefánsson (1867-1927) og Ólöf Pétursdóttir (1872-1952) bændur Minni-Brekku, Fljótum, Skagafirði.

26 október, 2021

Kvistholt: Greypt í stein

 

Hann var þarna, þessi veggur, sem stakk dálítið í augu, mín augu, altso. Það var dálítið með hann eins og svipaðan vegg á dæluhúsi hitaveitunnar. Mér fannst að það vantaði eitthvað á hann. Þetta var vorið 1982, þegar smiðir slógu upp fyrir kjallaranum í Kvistholti. 

Þetta var einum 16 árum áður en lög um listskreytingar opinberra bygginga tóku gildi og sú aðgerð mín sem lýst verður hér fyrir neðan kann að hafa haft áhrif á þá lagasetningu. Ég trúi því bara. 


Þarna var búið að planta út og tiltölulega rólegur tími, milli þess sem einstakir verkþættir byggingarinnar stóðu yfir. 

Mér fannst að eitthvað vantaði á þennan vegg og að endingu varð það úr að ég myndi koma fyrir í honum einhverju varanlegu. Þar með hófst hönnunarferli og í framhaldinu uppsetningarferli, en það hófst á gólfinu í bílskúrshluta pökkunaarhússins í Hveratúni. Ég varð mér úti um lista sem ég heflaði og pússaði, áður en ég mátaði þá við mótið sem ég hafði útbúið á gólfinu.   Þegar allt var klárt þar, merkti ég alla listana svo þeir myndu nú rata á réttan stað ínnan á mótunum.  

Þarna tók síðan við hin eiginlega uppsetning verksins sem síðar var einskonar einkennismerki Kvistholts og Kvisthyltinga. Ég hefði svo sem gjarnan viljað hafa mótað einhverja útgáfu af kvisti þarna á vegginn, en það hefði tekið meiri tíma og verið flóknara í vinnslu.

Uppsetningin á listunum innan á vegginn reyndist ekki sérstökum vandkvæðum bundin, enda hafði ég auðvitað vandað til hönnunar og allrar útfærslu. Hvern lista negldi ég á sinn stað innan á mótin  og var bara harla sáttur í verklok. 

Þessu næst hófst járnabindingin og þá kom innra byrði mótanna og loks var slegið upp undir plötuna, þar sem öll steypa átti að fara fram í einum rykk, 

Þegar plötuuppslátturinn var klár, var jarnabundið af miklum móð, áður en  steypubíllin og kraninn komu frá Selfossi og gæðasteypan var hífð á sinn stað. Allt gekk þetta sérlega vel fyrir sig, en engir aukvisar sem að komu: ættingjar og nágrannar. 

Merkið tilbúið innan á mótunum.


Komið að því að slá upp fyrir plötunni yfir kjallarnum. Þarna er rotþróin komin
og ekki sé ég betur en Þórir Sigurðsson sé að aka fullhlöðnum bíl úr Asparlundi.
Það ver einmitt Þórir sem kom með rotþróna.

Talsverð streita í kringum þetta steypustand, en með góðra manna hjálp fór það allt vel.

Kannski hlakkaði ég mest til að sjá hvernig verkið myndi birtast þegar timbrinu hafði verið slegið utan af veggjunum í kjallaranum, en eins og við mátti búast, var að það vonum. 

Merkið í hvíta rammanum.

Þarna var merkið enn, þegar nýir eigendur tóku við Kvistholti, vorið 2020.

Svo liðu árin og merkið var á sínum stað. Það var bara þarna og það má segja að það hafi einhvern veginn síast inn í undirmeðvitundina. Þannig var það eiginlega aldrei spurning, þegar fD ákvað að fara að kynna þau verkefni sem hún var að vinna að og þegar ég ákvað einnig að merkja mér myndirnar sem ég tók; þetta merki kom strax til skoðunar og úr varð að ég teiknaði það upp til þess arna og þar gegnir það enn hlutverki sínu hjá fD. Ég fór aðeins aðra leið með myndamerkinguna.




23 október, 2021

Lítil saga um rauðvín

Auðvitað er það ekki ætlun mín, að fara að hefja rauðvín upp til skýjanna. Mér finnst það yfirleitt ekkert sérstakt - en stundum á það við og stundum ekki. 
Það er ekki í frásögur færandi, svo sem, og þó, að við fD fengum fyrir skömmu ágæta gesti í heimsókn, þar sem neytt var fremur sérstakrar máltíðar. Það þótti við hæfi að neyta lítilsháttar rauðvíns með matnum, alla vega með matnum. Hvað gerðist svo í framhaldinu á ekki erindi inn á miðil sem þennan. 
Ljósið  yfir matarborðinu var slökkt og þess í stað fengu tvö kertaljós að njóta sín og varpa mildri birtu sinni yfir matargestina, matinn og rauðvínið
Það lá fyrir að ein rauðvínsflaska myndi engan veginn duga viðstöddum og því voru fleiri til staðar, eftir því sem á þyrfti að halda. Maður veit nefnilega aldrei, við svona aðstæður. Maður veit heldur aldrei, við svona aðstæður hvaða tegund rauðvíns telst sæmilega drykkjarhæft og því var til staðar önnur tegund, svona til öryggis.
Mynd 2

Ég fékk það hlutverk að finna tappatogara til að draga tappann úr rauðvínsflöskunni hinni fyrstu og fórst mér það vel úr hendi, enda hef ég, á langri ævi, lært, eða búið mér til aðferð sem dugar, við að draga tappa úr rauðvínsflösku. 
Rauðvínsflöskum nútímans er lokað með tvennum hætti. Annarsvegar er þeim lokað með korktappa (reyndar oftar, nú orðið, með einhverskonar plasttappa), sem er á kafi í stútnum á rauðvínsflöskunni og síðan er einhverskonar plasthulsa sett yfir, sem nær niður á stútinn. Þessi plasthulsa mun vera þarna aðallega af útlitslegum ástæðum. 
Hinsvegar, er um að ræða rauðvínsflöskur, þar sem tappinn er skrúfaður á. Þessi tappi er þá úr einhverri málmtegund, sennilega áli. Mér hefur skilist að þessari aðferð við að loka rauðvínsflöskum, sé aðallega beitt, þegar um er að ræða heldur ómerkilegra rauðvín, en um þetta þori ég ekki að fullyrða.

Mynd 3
Í því tilviki sem hér var um að ræða, var þessi plasthulsa svört að lit (því held ég allavega fram þar til ég verð sannfærður um annað). 
Ég beiti þeirri aðferð á rauðvínsflöskur af þessu tagi, að ég nota endann (oddinn) á tappatogaranum til að rjúfa plasthulsuna rétt fyrir neðan toppinn á rauðvínsflöskunni (mynd 2), dreg endann síðan hringinn og viti menn, þá blasir tappinn við, en það er einmitt hann sem ég þarf að draga úr. Ég held að allir viti hvernig tappatogara er beitt: Endanum er stungið í tappann, sem næst miðju hans og síðan er tólinu snúið réttsælis, þar til það telst vera komið nægilega djúpt til að hægt sé að ná tappanum úr rauðvínsföskunni í heilu lagi (mynd 3). Maður reynir að hugsa þá hugsun ekki til enda, ef hluti tappans verður eftir í flöskustútnum, meðan gestirnir bíða af eftirvæntingarfullri hógværð eftir að fá rauðvín í rauðvínsglösin. 

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, en sem fyrr, dró ég tappann úr í heilu lagi og við þekkjum öll (eða allflest) hvernig hljóð heyrist, þegar tappinn sleppir endanlega tengslum sínum við toppinn á rauðvínsflösku. Þannig hljóð heyrði ég þarna og sannarlega hafði hreint ekki átt von á öðru.
Í beinu framhaldi tók ég til við að hella í glösin, í þeirri röð sem siðareglur segja að eigi að hella rauðvíni í rauðvínsglös.
Mynd 4

Svo var skálað í gleði yfir því, að nú gat máltíðin hafist fyrir alvöru og hún fór vel fram. Með matnum dreyptu gestir á rauðvíninu, og eftir því sem lengra leið á máltíðina lækkaði í rauðvínsglösunum, rétt eins og fara gerir, þegar rauðvíns er neytt með mat. 
Þar kom, að það hafði lækkað það mikið í glösunum, að þau kölluðu á áfyllingu og ég hafði skilið það svo, að það væri mitt hlutverk að sjá um að fólk hefði ávallt nægt rauðvín í rauðvínsglösunum, til að skola matnum niður með. Af þessum sökum náði ég í aðra rauðvínsflösku og tók til við að beita sömu aðferð við að opna hana og ég hef lýst hér að ofan. Það var rökkvað við matarborðið, eins og ég hef áður greint frá, aðeins þessi tvö kertaljós, sem vörpuðu kertaljósastemningu yfir borðhaldið. 

Spjall gestanna við þessar dulúðugu, en líflegu aðstæður, snérust um ýmis, áhugaverð málefni, sem ég hafði áhuga á að fylgjast með, þó svo ég þyrfti að draga, á sama tíma, tappa úr annarri rauðvínsflösku. Við það beitti ég sömu aðferð og ég lýsti hér fyrir ofan, og endurtek því ekki frásögn af henni. Munurinn núna var sá, að plasthulsan vildi ekki gefa sig jafn auðveldlega og sú fyrri hafði gert.  Ég beitti tappatogaranum efst við stútinn, ég beitti honum aðeins neðar, ég beitti honum jafnvel efst í toppinn. Plasthulsan gaf sig ekki, og ég velti augnablik fyrir mér, hvort þessi rauðvínsframleiðandi væri farinn að nota harðplast í hulsurnar á rauðvínsframleiðslu sinni. Það, sem sagt gekk hvorki né rak, að komast í gegnum plasthulsuna. Umræðurnar voru hinar líflegustu og ég var með hugann við þær, á sama tíma og ég freistaði þess að opna rauðvínsflöskuna, svo fagmannlega og virðulega sem mér var unnt.   
Mynd 5

Þar kom, að ég sá ekki fram á að ljúka verkinu, nema ég breytti um nálgun og því var það, að ég stóð upp frá borðum og náði mér í hníf. 
Um leið og ég fylgdist af áhuga með umræðunum, snéri ég mér frá borðinu og stakk hnífsoddinum í hulsuna við stút rauðvínsflöskunnar og þá fyrst gaf hulsan sig og mér tókst að skera blátopp hennar af.  Þá blasti við mér hvítur tappinn og mér fannst hálfur sigur unninn, hafði þó engin orð um það, enda snérust umræðurnar við borðið um allt annað en rauðvínsflöskutappa.

Nú var komið að því, að beita tappatogaranum að tappann. Ég setti oddinn á honum, eins og Mynd 3 sýnir og snéri svo réttsælis, eftir að hafa tryggt að ég hefði hitt í miðjuna. Nú bar svo við, ólíkt því sem vant er, að tappatogarinn rann í gegnum tappann, rétt eins og um loftin blá, sem kom mér mjög á óvart; svo mjög á óvart að ég missti þráðinn í umræðunum við borðið.

Ég dró tappann úr og hann reyndist vera örþunnur, svona um það bil 2 millimetrar. Ég neita því ekki, að það flaug í gegnum hug mér, hvort þarna væri um að ræða alveg nýja tegund vísindalega þróaðra rauðvínstappa. Það flaug líka í gegnum hug mér hvort þarna gæti verið um að ræða gallaða rauðvínsframleiðslu, sem hættulegt gæti verið að hella í glös hjá gestum. Það flaug ýmislegt í gegnum hug mér við þessar aðstæður, en niðurstaða mín varð sú, að bera málið undir gestina.  
Þá gall í einum: "Áttu bara ekki að skrúfa tappann af?"

Njótið laugardagsins með UB40


10 október, 2021

Ekki var nú fyrirhyggjan neitt sérstök - og þó.

Ekki veit ég hvernig við höfðum hugsað okkur að þetta yrði. Það sem réði var sennilega bara einhver rómantísk sýn á framtíðina. Mögulega trúðum við því í sakleysi okkar, að þetta yrði ekkert mál.  Allavega ákváðum við að stefna að því að fá lóð í Laugarási, reyndar bestu lóðina, og byggja þar hús yfir fjölskylduna, sem enginn vissi hve stór yrði, eða hvort eitthvað það gæti gerst, sem myndi koma í veg fyrir að áform okkar yrðu að veruleika. 
Ef við hefðum vitað, þegar lagt var af stað, hvað beið okkar, veit ég hreint ekki hvort við hefðum lagt í þessa vegferð.  

Þarna var ég að nálgast þrítugt, kennari við Reykholtsskóla og ef kennaralaunin hafa einhverntíma verið  óviðunandi, þá var það á þessum tíma. Ekki áttum við kost á því, að leikskóli tæki við sonunum tveim og þar með var ég eina fyrirvinnan, að stærstum hluta. Þarna, árið 1980 var verðbólgan ekki nema um 30%, sem reyndist bara vera lítið miðað við það sem framundan var og við sáum ekki fyrir. Lán voru vísitölutryggð, eins og nærri má geta.


Gula svæðið sýnir verðbólgu á Íslandi þegar
framkvæmdir stóðu yfir í Kvistholti.
Það var gengið frá því við foreldra mína, að þau væru tilbúin að gefa eftir hluta af landinu úti í Holti, sem tilheyrði Hveratúni. Af sögulegum ástæðum voru þar tveir hektarar um það bil, sem tilheyrðu þeim og við gátum fengið annan þeirra, en þar hafði áður verið fjárhús fjölskyldunnar, kartöflukofi og reykkofi, auk þess sem þar höfðu þau stundað útirækt. 

Svo kem ég að tilefni þess að ég ákvað að reyna að taka helstu þætti þessarar sögu saman, en hún er sú, að ég er þessi árin að renna í gegnum fundargerðir hreppsnefndar Biskupstungnahrepps, meðal annarra. Þar rakst ég á tvær færslur, fyrst þessa frá því 2. október, 1980:
Einbýlishúsin sem við höfðum til afnota
í Reykholti
4. erindi Páls M. Skúlasonar.

Bréf hafði borist frá Páli M Skúlasyni, þar sem hann greinir frá því að hann hafi í hyggju að byggja íbúðarhús á erfðafestulandi Skúla Magnússonar í Hveratúni, miðja vegu milli íbúðarhúsanna í Lyngási og Asparlundi. Einnig óskar hann eftir því, að hreppsnefnd taki afstöðu til möguleika á byggingu gróðrarstöðvar á hluta þessa lands.
Samþykkt var að láta skipuleggja garðyrkjubýli með íbúðarhúsi og garðyrkjustöð á erfðafestulandi Skúla Magnússonar milli Lyngáss og Asparlunds.

Svo kom hin færslan í fundargerðabókinni, en hún er frá 28. desember, 1981:

Fyrsta skóflustungan
2. Erindi Páls M. Skúlasonar

Borist hafð bréf til hreppsnefndar, dags. í Reykholti 28. desember, 1981, undirritað af Páli M Skúlasyni, þar sem hann óskar eftir leyfi til að stofna lögbýli að Laugarási í Biskupstungum.
Hreppsnefnd samþykkti að mæla með því að Páli M. Skúlasyni verði veitt leyfi til að stofna lögbýli á landi því sem hann hefur fengið á leigu í Laugarási, sem áður var hluti af landi Hveratúns.

Þann tíma sem framkvæmdir stóðu yfir í Laugarási, bjuggum við í kennaraíbúð í Reykholti, reyndar bjuggum við tveim, splunkunýjum einbýlishúsum, hvoru á fætur öðru. Fyrst í húsinu sem stendur við Miðholt 3, að ég held, og síðar í húsinu sem kallast nú Miðholt 5.
Þegar stund gafst og á sumrin vorum við mikið í Laugarási,, enda var ekki um annað að ræða en reyna að afla einhverra viðbótartekna. það gerðum við með því að stunda útiræktun í landinu okkar og vinna það sem til féll, t.d. vann ég eitthvað við að aðstoða bróður minn, hitaveitustjórann, við að leggja hitalagnir þvers og kruss um Laugarás.

1981

Hilmar Ólafsson, arkitekt, mældi fyrir húsinu, sem fyrirhugað hafði verið að yrði á einni hæð, en það gat víst ekki orðið vegna þess, að á þessum tíma var búið að setja bann við því að íbúðarhús í Laugarási væru byggð á  botnlausri mýrinni. Það var, af þessum sökum ekki um annað að ræða, en láta teikna kjallara undir hluta af húsinu,  
Fyrsta skóflustungan var tekin vorið 1981 og við tók vélavinna með jarýtu og traktorsgröfu, áður en Böðvar Ingimundarson og hans menn sáu um að slá upp fyrir grunninum. 
Þá hófust svokölluð Marteinsmál, sem snérust um það, að Marteinn Björnsson, sem þá var byggingafulltrúi á Suðurlandi, neitaði að samþykkja teikningarnar. Úr þessu varð mikið argaþras, margar ferðir, margar atlögur  að því að breyta teikningunum svo þær kæmust í gegnum nálarauga Marteins. 

1982 

Á endanum tók með tilstyrk Félagsmálaráðuneytisins, að fá Martein til að gefa eftir, en þá var liðinn heill vetur, þar sem uppslátturinn hafði beðið eftir steypunni. Þetta hafði það í för með sér, að það þurfti að fara yfir mótin og rétta af eftir veturinn, en það tókst að steypa og í hönd fór tími mótaniðurrifs og hreinsunar. 

Svo var bara að drífa þetta áfram. Það var slegið upp fyrir kjallaranum og hann steyptur og þá tók platan, við. Mörg voru handtökin við þetta allt saman. 

1983

Við fengum svo Steingrím Vigfússon, sem hafði þá flutt með fjölskyldu sína í Laugarás og bjó í Lyngbrekku, til að ljúka því að reisa húsið og hans aðkoma að þessu verki varð til þess að þessi bygging varð afar vönduð. Hann kastaði hreint ekki til höndunum, sá ágæti smiður.

Á þessu ári tókst að gera húsið fokhelt. Milli þess sem ég skrapp í Reykholt til að reyna að sinna starfi mínu sem kennari, eyddi ég tímanum í nýbyggingunni. Á þessu sumri var orðið ljóst að fjölgunar væri von í fjölskyldunni, sem var fagnaðarefni, þó tímasetningin hefði mögulega getað verið betri.

1984

Í mars 1984 veiktist yngri sonurinn alvarlega og við tók tími, sem væri sennilega allur í móðu, ef ekki væri fyrir dagbók sem ég færði þessi ár og mun líklega fjalla um einhversstaðar, einhverntíma, endist mér aldur til. 

Í byrjun ársins var komið formlegt leyfi fyrir því að við fengjum að nefna  þennan stað okkar í alheiminum Kvistholt. 
Í lok mars fæddist okkur dóttir, sem var sannarlega gleðiefni á þeim umbrotatímum sem gengu yfir.
Sú aðstoð, sem við fengum þennan tíma, var með þeim hætti að verður aldrei fullþökkuð.  Þarna kom fjölskyldan í Laugarási sterk inn, bræður mínir við húsbygginguna og foreldrar, systir og mágur við að hlaupa til hvenær sem þörf var á, að ógleymdri einstakri aðkomu skólastjórans, Unnars Þórs Böðvarssonar og hans fjölskyldu allri.
Allt gekk þetta og í ágúst fluttum við inn í kjallarann og þann hluta hússins sem sneri fram á hlað og þaðan í frá var Kvistholt heimili okkar.
Það liðu ansi mörg ár þangað til íbúðarhúsið í Kvistholti taldist vera fullklárað. Ætli megi ekki segja að það hafi verið þegar við tókum lán í japönskum yenum, rétt fyrir bankahrunið mikla, til að setja upp þakskegg.

Þau fimm ár ævinnar sem þarna er um að ræða, hef ég litið á sem nokkurskonar eldskírn. Þarna lærðist ótalmargt um tilgang lífsins og það hvað er mikilvægt og hvað það er sem skiptir minna, eða engu máli. 
Sannarlega vildi ég gjarnan búa yfir betra minni um þennan tíma til að geta gert honum almennilega skil. Ég vona bara, að það sama verði hjá mér og mörgu fólki, að eftir því sem árunum fjölgar, opnast betur fyrir það sem reynsla fortíðar hefur komið fyrir á góðum stað í heilabúinu.



04 október, 2021

Mǫrðr hét maðr

Ég hygg að dr. Haraldur Matthíasson hafi fengið að hlutverk, einhverntíma veturinn 1975-6, að leiða mig og bekkjarfélagana í ML í gegnum undraheima Brennu-Njáls sögu. Síðan eru liðin mörg ár og mikið vatn hefur til sjávar runnið og allt það. Njáluminni mitt er ekkert sérstakt, frekar en ýmislegt annað. Jú, ég veit eitthvað um Gunnar og Hallgerði og Njál og Bergþóru og Njálssyni, sennilega vegna þess að í kringum þetta fólk var ansi mikill hasar á sínum tíma. Mögulega man ég eitthvað af þeirra málum enn, vegna þess að það er erfitt að vera Íslendingur án þess að um þau sé fjallað á ólíklegustu stöðum og lífi þeirra þannig viðhaldið í þjóðarsálinni.
Á þessum tíma, fyrir næstum hálfri öld, var víst margt annað en Njála, sem vakti með mér meiri áhuga eða fékk meiri athygli frá mér. Nú er svo margt orðið breytt, eins og nærri má geta. 

Í fyrrahaust hugðist ég taka þátt í starfi hóps sem ætlaði að lesa Njálu og fjalla um hana eftir því sem ástæða þætti til. Af þessu varð ekki af augljósum ástæðum. Á þessu hausti er Njála aftur á dagskrá og ég mættur þar galvaskur, til að bæta fyrir athyglisskortinn í gamla daga. "Það getur varla nokkur Íslendingur lifað innihaldsríka ævi, nema vera búinn að kynna sér þetta öndvegisrit" hugsaði ég þar sem ég var næstum búinn að steingleyma fyrsta samlestrinum. Nú eru lestrarnir orðnir þrír og söguþráðurinn farinn "þykkna".  Er það sem hér fylgir, kveikjan að öllu því sem síðar gerist?


Kannski voru það álögin sem Gunnhildur lagði á Hrút, sem ollu þessu, sem síðar olli öllu sem á eftir fylgdi. Hvað var orsök og hvað var afleiðing?
Ég ætla ekki að hætta mér lengra, að svo komnu máli, en treysti því, að fornsagnaspekingarnir sem halda utan um lesturinn og það djúpvitra fólk, annað, sem þátt tekur, muni opna fyrir mér alla leyndardómana sem sagan felur í sér. 
Ég er ekki enn kominn á það stig að treysta mér til að kveða upp úr um höfund Njálu. Ég er enn bara að fylgjast með og lesa eftir því sem mér gefst tími til.

25 september, 2021

Sama gamla

Það má hverjum manni vera ljóst, að ég ætla mér að nýta kosningaréttinn, þó ég viti, að eins og venjulega muni mér ekki verða að ósk mini um stjórn í þessu landi, sem mér hugnast. Ég man varla eftir kosningum sem fóru í samræmi við vilja minn. Samt kýs ég og kýs og kýs.

Jú, það hefur komið fyrir að ég ég hef fengið hluta óska minna uppfylltan, en þá hefur verið mynduð einhver samsteypustjórn þar sem sérhagsmunaöfl, sem við fáum aldrei að kjósa, taka til varnar með aðferðum sem sjaldan fara hátt.  
Svo fáum vð aldrei að kjósa embættismenn, E-flokkinn, sem hafa fengið völd langt umfram það sem eðlilegt er. Þeir hafa mikil völd til, og mikil tengsl við öflin sem stjórna bak við tjöldin.
Við kjósendur getum spriklað eins og við viljum, en það breytir bara harla litlu, því miður. Við þykjumst geta breytt einhverju, sjáum fyrir okkur fyrirmyndarsamfélagið og finnum einhvern hóp sem þykist tilbúinn að berjast með okkur fyrir því. Svo gengur bara harla fátt eftir, þegar upp er staðið. 

Gegnum árin hef ég auðvitað velt því fyrir mér hvernig stendur á því að fólk notar atkvæði sin til að styðja við öfl sem hafa það helst að markmiði að skara eld að eigin köku og tekst að blekkja okkur til að halda að það sé okkur fyrir bestu. Ég skil bara hreint ekkert í því og sé ekki fram á að skilja það. 

Hér hefur talað kjósandi sem hlakkar ekkert sérlega mikið til að vita hvað kemur upp úr kjörkössunum, því hann veit að það verður það sama og venjulega.
Þessi kjösandi ætlar, þrátt fyrir það að nýta kosningaréttinn. Allavega það.
Svo ætlar hann að halda áfram með líf sitt, fullur bjartsýni á að einhver finni leið, einhverntíma, til að bylta þessari samfélagsgerð.

-------------------------

Hvað á ég svo að kjósa? Hvað kemst næst því að get haft áhrif eftir kosningar, sem eru í einhverju samræmi við lífsskoðanir mínar? Á ég kannski bara að kjósa nákvæmlega þann flokk sem ég hallast helst að, þó ég viti að því atkvæði er ekki "taktískt" vel varið?  


22 september, 2021

Lögbrot á Kili

Fyrir framan Hallormsstaðaskóla. F.v Pálína,
ég, pabbi og mamma.
Fyrir ykkur sem tölduð að ég ætlaði að tjá mig um hálendisþjóðgarð, eða ofbeit á afrétti Tungnamanna, eða varpa einhverri annarri sprengju hér inn í aðdragana kosninga,  þá snúast eftirfarandi skrif um alls óskyld mál.

Lögbrotið, sem fyrirsögnin vísar til, er reyndar ekki nema hluti þess sem ég ætla að fjalla um í þessum pistli, en það var samt svo alvarlegt, að það er mér enn ljóslifandi í minni, 55 árum síðar. 
Árið 1967 var árið sem ég fermdist, þá 13 ára. Þrettán ára var ég allt þetta ár, nema tvo daga.

Einhvernveginn minnir mig að það hafi verið í ágúst þetta ár að Hveratúnshjónin, ásamt Pálínu systur pabba og Sigga á Baugsstöðum, bróður mömmu og mér lögðu í heilmikla ferð austur á land, Mig minnir að við höfum farið Sprengisand norður og þaðan yfir Möðrudalsöræfi austur á Hérað, til að heimsækja fólk. 
Á Víkingsstöðum á Völlum var amma mín  Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968). Hún bjó með syni sínum og bróður pabba, Alfreð.  Þá var fólkið á Hallormsstað líka heimsótt, en þar bjó fóstri pabba, Sigurður Blöndal (1924-2014)  með fjölskyldu sinni og þar hafði mamma gengið í húsmæðraskóla á sínum tíma. Frá þessu öllu saman greini ég í samantekt um ævi pabba, þegar 100 ára voru frá fæðingu hans og í samantekt um ævi mömmu þegar 100 ára voru frá fæðingu hennar og fer því ekki að orðlengja of mikið um það hér.

Árið 1965 lést Magnús Jónsson (1887-1965), afi í Hveratúni, en hann átti þar heima síðustu æviárin. Ég reikna með að þessi ferð hafi verið farin að einhverju leyti í tengslum við það. Mögulega hefði hún verið farin ári fyrr ef ekki hefði þurft að ferma mig, sem var auðvitað slíkur merkisatburður að flest annað þurfti að víkja. Amma lést ári eftir heimsókn okkar til hennar.

Ég minnist þess ekki að það hafi verið einhver umtalsverð samskipti við ömmu á Víkingsstöðum. Jú ég veit að það voru bréfaskriftir og mamma var dugleg að senda myndir af fjölskyldunni austur. Ég þykist viss um að amma kom aldrei í Hveratún. Það gerðu hinsvegar systkini pabba, flest og einhvernveginn minnist ég annarrar ferðar austur á land fyrir þessa og þá var afi með í för.
Auðvitað var hreyfing fólks ekki eins mikil milli landshluta þá og nú og öll samskipti flóknari, en það hefði verið gaman að kynnast þessari kjarnakonu, sem hafði eignast 9 (jafnvel 10) börn við erfiðari aðstæður en við getum ímyndað okkur. Sex þessara barna náðu fullorðinsárum. Það er ég viss um, að árin sem afi og amma bjuggu í Jökuldalsheiðinni, hafi tekið meira á en hægt er að orða þannig að við, allsnægtafólkið, getum skilið.

Föðursystkin mín: Alfreð (1914-1994), Haraldur (1915-1991) Björg (1919-1982),
Sigfríður (1921-1993) og Pálína (1925-1987).
 
F.v. Skúli, Ingibjörg, Guðný og ég.

Ég man ekki mikið frá þessari heimsókn að Víkingsstöðum. Það grillir í þessa góðlegu konu og frændfólkið, en fátt umfram það. 

Ingibjörg með fjórum barna sinna. Aftar f.v. Alfreð og Skúli. Fyrir framan, Pálína og Haraldur.

Lögbrotið

Það er kannski bara best að ég vindi mér í það sem ég man ofur vel frá þessari ferð austur á land. Í bláa Landróvernum, X1567, vorum við fimm á ferð. Þrjú sátu fram í og tveir aftur í. Hversvegna ég fékk að fara í þessa ferð hef ég engar upplýsingar um, en dettur einna helst í hug, að foreldrar mínir hafi viljað sýna ömmu nýfermdan piltinn. Heima voru þá væntanlega systurnar, Ásta (20) og Sigrún (18) og pössuðu sína nýfæddu syni, örverpið Magnús (7) og Benedikt (11).

Hvað um það, leiðin til baka suður skyldi liggja um Kjalveg. 
Ekki veit ég hvernig það kom til; hvort það var suðið í mér, eða frumlegheit föður míns, sameiginleg ákvörðun hinna fullorðnu í Landróvernum, eða einfaldlega það að ég var nægilega lítill töffari til að hægt væri að treysta því að ég gerði enga vitleysu. Eitt er ég þó nokkuð viss um: frú Guðný hefur ekki verið ánægð með að leyfa barninu keyra. Þegar þarna var komið hafði pabba oft tekist til að lokka mig til vinnu í gróðurhúsunum með því að ég fengi að snúa Landróvernum á eftir, svo ekki var ég alveg ókunnur gripnum.

Ekki held ég að ég hafi þarna gert mér grein fyrir því að með því að gerast bílstjóri með fjóra fullorðna, stressaða farþega innanborðs, var ég að takast á hendur umtalsverða ábyrgð, en ég veit, að ég var staðráðinn í því að leysa verkefnið óaðfinnanlega af hendi, enda Siggi á Baugsstöðum með í för, en hann var á þessum tíma ökukennari, ef ég man rétt.

Blái Landróverinn var farartækið. Þarna sennilega í Námaskarði.

Hvort ég keyrði að Hveravöllum, eða frá, man ég hreint ekki og hvernig getur það líka skipt máli? Adrenalínflæðið útilokaði allt annað en vegslóðann framundan, kannski þannig að leiðbeiningar þeirra sem vissu betur fóru fyrir ofan garð og neðan. Lengi ók ég Landróvernum og var stoltari og hamingjusamari en í annan tíma. Ég fékk að aka lengur en mig hafði grunað að yrði raunin. Ég túlkaði þann tíma sem ég fékk við stýrið sem mikla upphefð; nú væri ég sannarlega kominn í fullorðinna manna tölu.
Þetta var vissulega lögbrot, á því er enginn vafi og ég á erfitt með að sjá að ég hefði leyft nýfermdum börnum mínum svona lagað. Ég held að fyrir öllum þessum árum hafi allt verið svo miklu einfaldara og saklausara, og sannarlega var engin hætta á að Selfosslöggan væri að þvælast uppi á Kili og engin var hálendisvaktin.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...