22 september, 2021

Lögbrot á Kili

Fyrir framan Hallormsstaðaskóla. F.v Pálína,
ég, pabbi og mamma.
Fyrir ykkur sem tölduð að ég ætlaði að tjá mig um hálendisþjóðgarð, eða ofbeit á afrétti Tungnamanna, eða varpa einhverri annarri sprengju hér inn í aðdragana kosninga,  þá snúast eftirfarandi skrif um alls óskyld mál.

Lögbrotið, sem fyrirsögnin vísar til, er reyndar ekki nema hluti þess sem ég ætla að fjalla um í þessum pistli, en það var samt svo alvarlegt, að það er mér enn ljóslifandi í minni, 55 árum síðar. 
Árið 1967 var árið sem ég fermdist, þá 13 ára. Þrettán ára var ég allt þetta ár, nema tvo daga.

Einhvernveginn minnir mig að það hafi verið í ágúst þetta ár að Hveratúnshjónin, ásamt Pálínu systur pabba og Sigga á Baugsstöðum, bróður mömmu og mér lögðu í heilmikla ferð austur á land, Mig minnir að við höfum farið Sprengisand norður og þaðan yfir Möðrudalsöræfi austur á Hérað, til að heimsækja fólk. 
Á Víkingsstöðum á Völlum var amma mín  Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968). Hún bjó með syni sínum og bróður pabba, Alfreð.  Þá var fólkið á Hallormsstað líka heimsótt, en þar bjó fóstri pabba, Sigurður Blöndal (1924-2014)  með fjölskyldu sinni og þar hafði mamma gengið í húsmæðraskóla á sínum tíma. Frá þessu öllu saman greini ég í samantekt um ævi pabba, þegar 100 ára voru frá fæðingu hans og í samantekt um ævi mömmu þegar 100 ára voru frá fæðingu hennar og fer því ekki að orðlengja of mikið um það hér.

Árið 1965 lést Magnús Jónsson (1887-1965), afi í Hveratúni, en hann átti þar heima síðustu æviárin. Ég reikna með að þessi ferð hafi verið farin að einhverju leyti í tengslum við það. Mögulega hefði hún verið farin ári fyrr ef ekki hefði þurft að ferma mig, sem var auðvitað slíkur merkisatburður að flest annað þurfti að víkja. Amma lést ári eftir heimsókn okkar til hennar.

Ég minnist þess ekki að það hafi verið einhver umtalsverð samskipti við ömmu á Víkingsstöðum. Jú ég veit að það voru bréfaskriftir og mamma var dugleg að senda myndir af fjölskyldunni austur. Ég þykist viss um að amma kom aldrei í Hveratún. Það gerðu hinsvegar systkini pabba, flest og einhvernveginn minnist ég annarrar ferðar austur á land fyrir þessa og þá var afi með í för.
Auðvitað var hreyfing fólks ekki eins mikil milli landshluta þá og nú og öll samskipti flóknari, en það hefði verið gaman að kynnast þessari kjarnakonu, sem hafði eignast 9 (jafnvel 10) börn við erfiðari aðstæður en við getum ímyndað okkur. Sex þessara barna náðu fullorðinsárum. Það er ég viss um, að árin sem afi og amma bjuggu í Jökuldalsheiðinni, hafi tekið meira á en hægt er að orða þannig að við, allsnægtafólkið, getum skilið.

Föðursystkin mín: Alfreð (1914-1994), Haraldur (1915-1991) Björg (1919-1982),
Sigfríður (1921-1993) og Pálína (1925-1987).
 
F.v. Skúli, Ingibjörg, Guðný og ég.

Ég man ekki mikið frá þessari heimsókn að Víkingsstöðum. Það grillir í þessa góðlegu konu og frændfólkið, en fátt umfram það. 

Ingibjörg með fjórum barna sinna. Aftar f.v. Alfreð og Skúli. Fyrir framan, Pálína og Haraldur.

Lögbrotið

Það er kannski bara best að ég vindi mér í það sem ég man ofur vel frá þessari ferð austur á land. Í bláa Landróvernum, X1567, vorum við fimm á ferð. Þrjú sátu fram í og tveir aftur í. Hversvegna ég fékk að fara í þessa ferð hef ég engar upplýsingar um, en dettur einna helst í hug, að foreldrar mínir hafi viljað sýna ömmu nýfermdan piltinn. Heima voru þá væntanlega systurnar, Ásta (20) og Sigrún (18) og pössuðu sína nýfæddu syni, örverpið Magnús (7) og Benedikt (11).

Hvað um það, leiðin til baka suður skyldi liggja um Kjalveg. 
Ekki veit ég hvernig það kom til; hvort það var suðið í mér, eða frumlegheit föður míns, sameiginleg ákvörðun hinna fullorðnu í Landróvernum, eða einfaldlega það að ég var nægilega lítill töffari til að hægt væri að treysta því að ég gerði enga vitleysu. Eitt er ég þó nokkuð viss um: frú Guðný hefur ekki verið ánægð með að leyfa barninu keyra. Þegar þarna var komið hafði pabba oft tekist til að lokka mig til vinnu í gróðurhúsunum með því að ég fengi að snúa Landróvernum á eftir, svo ekki var ég alveg ókunnur gripnum.

Ekki held ég að ég hafi þarna gert mér grein fyrir því að með því að gerast bílstjóri með fjóra fullorðna, stressaða farþega innanborðs, var ég að takast á hendur umtalsverða ábyrgð, en ég veit, að ég var staðráðinn í því að leysa verkefnið óaðfinnanlega af hendi, enda Siggi á Baugsstöðum með í för, en hann var á þessum tíma ökukennari, ef ég man rétt.

Blái Landróverinn var farartækið. Þarna sennilega í Námaskarði.

Hvort ég keyrði að Hveravöllum, eða frá, man ég hreint ekki og hvernig getur það líka skipt máli? Adrenalínflæðið útilokaði allt annað en vegslóðann framundan, kannski þannig að leiðbeiningar þeirra sem vissu betur fóru fyrir ofan garð og neðan. Lengi ók ég Landróvernum og var stoltari og hamingjusamari en í annan tíma. Ég fékk að aka lengur en mig hafði grunað að yrði raunin. Ég túlkaði þann tíma sem ég fékk við stýrið sem mikla upphefð; nú væri ég sannarlega kominn í fullorðinna manna tölu.
Þetta var vissulega lögbrot, á því er enginn vafi og ég á erfitt með að sjá að ég hefði leyft nýfermdum börnum mínum svona lagað. Ég held að fyrir öllum þessum árum hafi allt verið svo miklu einfaldara og saklausara, og sannarlega var engin hætta á að Selfosslöggan væri að þvælast uppi á Kili og engin var hálendisvaktin.


Engin ummæli:

Ekki var nú fyrirhyggjan neitt sérstök - og þó.

Ekki veit ég hvernig við höfðum hugsað okkur að þetta yrði. Það sem réði var sennilega bara einhver rómantísk sýn á framtíðina. Mögulega trú...