12 september, 2021

Hermenn karlaleiðarinnar


Það var niðurstaða um það hjá fD í morgun, og sem ég féllst auðvitað á, að við skyldum njóta rigningarinnar með því að fara "karlaleiðina". Það kæmi mér ekki á óvart, ef einhver þeirra sem þetta lesa, kannist ekki við að hafa heyrt þessa leið nefnda, en mér er ljúft að upplýsa það og skýra.

Skömmu eftir að við fluttum á Selfoss, bauðst mér að taka þátt í morgungöngu með hópi harla hressra karla. Þetta fól það í sér að mæta á  tilteknum tíma (kl. 07.40) á tilteknum stað (á mótum Engjavegar og Rauðholts), sameinast þar tveim körlum og ganga með þeim, ásamt þeim þriðja sem bættist við milli Rauðholts og Langholts, en meðfram þeirri götu var síðan gengið, og nokkrir göngumenn til viðbótar tíndir upp, sem leið lá, vestur fyrir torgið hjá FSu, þaðan eftir Fossheiði, þar til beygt var inn á Kirkjuveg, eftir honum að Eyrarvegi, yfir hann og síðan brúarendann og að "Kaupfélagshúsinu". Þar bættust enn við nokkrir. Eftir þetta lá leið eftir Austurvegi, eða Árvegi, eftir því hvernig viðraði eða lá á mönnum, að tilteknum stað eða stöðum þar sem göngumenn liðkuðu sig (Müllersæfingar) undir styrkri stjórn eins göngumannsins. Skömmu eftir æfingarnar lauk svo göngu minni þann daginn. Svona var þetta fjóra daga vikunnar, en þann fimmta var oftast einhver tilbreyting: heimsóknir í fyrirtæki eða til einhverra stofnana eða félaga, nú eða þá að einhver félaginn bauð í afmæliskaffi í bakaríi.

Þessi gönguhópur fékk svo nafnið "Gönguhópur Hermanns" eftir manninum sem varð upphafsmaður að þessum göngum fyrir áratugum.

Mér fannst ágætt að ganga með þessum hópi á morgnana og fD tók upp á því að drífa sig í þetta eftir því hvernig á stóð. Þarna komst á föst venja sem gat ekki gert manni neitt nema gott. 

Svo fór ég að sofa lengur, en það ákvað ég að þegar ég hætti að vinna skyldi vekjaraklukkunni lagt. 
Oftar en ekki svaf ég af mér ofannefndan göngutíma á morgnana og þegar ég náði að vakna, fannst mér einhvern veginn ekki við hæfi að mæta, sérstaklega á föstudögum, þegar boðið hafði verið í afmæliskaffi.
Þetta þróaðist því þannig, að göngur mínar með þessum ágæta hópi lögðust af, en ekki er ég samt búinn að gefa upp á bátinn möguleikanna að ég muni eiga endurkomu, en það verður allavega ekki fyrir kosningar, ekki síst vegna þess að þeir eru farnir að fá pólitíkusa með sér, sem síðan fá umfjöllun eins og telst við hæfi.
Um pólitík karlanna í hópnum veit ég svo sem ekkert, enda ekki bein umræða um stjórnmál í hópnum, en tel mig samt nokkuð öruggan hvaða tveir stjórnmálaflokkar fá atkvæði þeirra í kosningum, alla jafna. Um stjórnmálaskoðanir þeirra fjalla ég ekki frekar, enda bara eðlilegt að fólk hafi sínar skoðanir á þjóðmálum. Ég hlakka til að sjá hvernig þeim gengur að fá fulltrúa frá öllum framboðum í morgungöngu með sér. 

Ganga okkar fD í morgun var nokkuð blaut, en karlaleiðina förum við alloft. Það er ákveðin stefnufesta sem fylgir henni - ákveðinn stöðugleiki. 

Engin ummæli:

Sama gamla

Það má hverjum manni vera ljóst, að ég ætla mér að nýta kosningaréttinn, þó ég viti, að eins og venjulega muni mér ekki verða að ósk mini um...