09 september, 2023

Hótelið

Weis stue í Rípum
Við höfðum þann háttinn á, þar sem við fD ókum um mið og suður Jótland í 4 daga fyrir skömmu, að treysta á það að geta pantað hótelgistingu svona eftir hendinni: ákváðum fyrst hvert ferðinni var heitið næst og síðan kom það í minn hlut að leita að gistingu á bókunarsíðum.  Þetta reyndist vera hin skemmtilegasta iðja. Þessi aðferð skapaði talsvert frelsi, varðandi tímasetningu og staðsetningu á gistingu.  Eftir að hafa dvalið eina nótt í gamla ráðhúsinu í Grásteini (Graasten) (1) ákváðum við að velja næstu gistingu á vesturströnd Jótlands og fyrir valinu varð bærinn Ribe (Rípar) (9), en þar búa 8-9000 manns. Þetta er elsti bær í Danmörku og mun hafa orðið verslunarstaður á 8. öld. e.kr.   Auðvitað var ég ekki tilbúinn að greiða stórfé fyrir gistingu og beindi því fyrst og fremst sjónum að því sem vel taldist viðráðanlegt.

Viti menn, eitt hótelið reyndist vera bæði ódýrt (10.000 kr. nóttin) og var með ágætiseinkunn (8,4 Alletiders) á bókunarsíðunni. Jú það var mynd af hótelinu á síðunni, sem ég sýndi fD, sem brást bara jákvætt við tillögunni.  Það varð því úr að ég bókaði gistingu í Weis stue í Ribe næstu nótt og þar með héldum við út í daginn, eyddum talsverðum tíma í Dybböl (2), áður en við kíktum á Sönderborg (3), brunuðum gegnum Broage (4) til að komast að landamærunum við Þýskaland í Padborg (5). Þar ókum við yfir landamærin, bara til að keyra svo til baka.

Smella á myndina til að stækka hana.

Eftir að hafa farið til Þýskalands (allavega 50 metra inn í það) lá leiðin til norðvesturs til Tinglev (6) og Tönder (7). Til að losna við að fara fjölfarnari leiðir  til Ribe (9) fann ég þarna vestast smábæ sem kallast Höjer (8). Þaðan lá síðan leið eftir "sveitavegum", norður til Ribe (9), þar sem hótelið okkar beið, tilbúið að tryggja ánægjulegan nætursvefn og aðbúnað, enda "alletiders".

Weis stue í Ribe (9)


Fyrst aðeins um sögu þessa húss. Hér er sögu þess að finna á ensku  og hér er hún á dönsku. (ég nenni ekki að þýða þetta fyrir ykkur). Í sem stystu máli, þá er þessi hótelbygging frá því um 1600 og að innan er hún frá 1704.
Heimilisfang Weis stue er Torvet 2 í Ribe og auðvitað stillti ég GPS tækið á það. Nú vill svo til, og því komumst við sannarlega að, að "Torvet" er ævafornt torg bæjarins og á því miðju stendur Ribe dómkirkja, mikið mannvirki.
Hér fyrir neðan má sjá hvernig það gekk fyrir sig hjá okkur að komast í herbergið okkar á Weis stue.

Skýring: 
A. Gula brotalínan sýnir leið okkar inn í miðbæinn og síðan út úr honum, á bílastæði sem við fundum (rauður kross). Þar mátti leggja í tvo tíma.
B. Hvíta punktalínan síðir gönguleið okkar inn á torgið, þar sem okkur tókst að afla upplýsinga um hvaða hús væri Weis stue.
C. Gráa brotalínan sýnir leiðina sem ekin var á bílastæðið þar sem okkur var bent á að leggja.
D. Rauða punktalínan sýnir svo gönguleið okkar frá bílastæðinu að hótelinu, með tannburstana.

GPS græjan leiddi okkur sem dagt inn á torgið við dómkirkjuna, en það varð okkur fljótt ljóst, að þar var ekki ætlast til að fólk væri að aka bílum, nema í algerum undantekningartilfellum. Ég tók þann pól í hæðina, að ef einhver gerði athugasemd við aksturinn, myndi ég bara kenna GPS-inu um, verandi útlendingur sem ekkert skildi og ekkert vissi.  
Inn á torgið komumst við óáreitt. Þar var enginn möguleiki á að stöðva, hvað þá leggja bíl, svo leiðin lá bara áfram yfir torgið og svo bara áfram - eitthvert (sjá gulu brotalínuna). Allt í einu rakst ég á bílastæði þar sem leggja mátti í 2 klst. Ekki var um annað að ræða en leggja þar og hefja síðan leitina að hótelinu fótgangandi (sjá hvítu punktalínuna). Niður á torgið komumst við, vandræðalaust, skimuðum eftir hótelinu, en það reyndist ekkert auðfundið svo ég spurði starfsmann á hótel Dagmar, sem stendur við torgið. Það vafðist ekki fyrir honum að liðsinna mér - benti á lítið hús í 20 m. fjarlægð. Á því hékk, við nánari eftirgrennslan, skilti með nafni þess: Weis stue.
Ekki fjölyrði ég um samskiptin við starfsfólk hótelsins, en það varð fljótt ljóst, að við þyrftum að leggja bílnum talsvert frá - í 7-8 mínútna göngufjarlægð, sem fD fullyrti að væru 12 mínútur. Allt í lagi með það, svo sem. 

Vistarverurnar

Stiginn upp á 2. hæð og vinstra megin er opið inn á salernið.
Okkur voru sýndar vistarverurunar, en þær voru eftirfarandi:
Það var gangur þvert í gegnum húsið og út í bakgarð við hliðina sem nýr frá torginu. Um miðjan þennan gang var hurðarhleri, sem lokað var með einskonar klinku (að sögn fD voru dyrnar svipaðar þeim sem voru á hænsnakofanum við Álfhólsveg 17 á sínum tíma). 
Þegar dyrnar (ca 60 cm breiðar) voru pnaðar, blasti við jafn breiður, snarbrattur stigi upp á 2. hæð (íslenska málvenjan). Upp hann klifruðum við og sumum okkar leist orðið ekkert á blikuna og höfðu á því orð.  Þegar upp á aðra hæð var komið, mátti sjá nokkrar dyr, þar á meðal einar að baðherbergi (1-2 ferm.) og aðrar að salerni (1 ferm).
Stiginn upp á 3. hæð (okkar hæð).
Þarna var vaskur, en öðru þurfti að 
sinna fyrir neðan stigann

Þessi aðstaða til snyrtingar var ætluð íbúum í herbergjunum 7 (4 á 2. hæð og 3 á þriðju) sem hótelið státaði af.  Aðrar vistarverur á þessari hæð voru væntanlega herbergi, en okkur var ekki ætlað að kynnast því nánar, enda var herbergið okkar á 3. hæð (ísl. málvenja). Upp á þá hæð lá annar stigi, nokkru mjórri en sá fyrri, en jafnbrattur, ef ekki brattari. Þegar upp var komið, blöstu við þrennar dyr, þar af einar að tilvonandi herbergi okkar, sem reyndist bara vel viðunandi að stærð.

Næst voru lagðar línurnar fyrir framhaldið. Ekki mun ég hér greina frá öllu því sem sagt var um þær aðstæður sem við vorum þarna komin í, en mér fannst þetta nú bara nokkuð spennandi. Okkur var ljóst, að ekki myndum við fara að burðast með neitt þarna upp nema það allra bráðnauðsynlegasta. Í framhaldinu var síðan lagt í hann, gangandi að bílnum á 2ja tíma bílastæðinu (hvíta punktalínan) Þaðan var svo ekið á bílastæðið þar sem við áttum að geta lagt í 48 tíma (ljósgráa brotalínan). Þar þurfti síðan að tína saman það allrabráðnauðsynlegasta fyrir nóttina (og EOS-inn). Því næst lá leiðin eftir rauðu punktalínunni, gangandi á hótelið og við tók að koma sér fyrir, sem var einfalt, þar sem ekki var um neinn umtalsverðan farangur að ræða.  Kvöldverð gátum við snætt í golunni við hótel Dagmar, þar sem fD freistaði þess að koma í veg fyrir að hún þyrfti að leggja leið sína um miðja nótt niður stigann á snyrtingu á 2. hæð. Þetta gerði hún með því að takmarka mjög vökvainntöku, sem reyndist svo ekki til neins þegar upp var staðið. 

Herbergið. Við gluggan má sjá kistuna með brunastiganum.
Okkur þykir ágætt, undir svefninn, að glugga aðeins í bók, en það reyndist ekki sérlega auðvelt, þar sem perur í ágætum lömpum við rúmið, voru varla nema 5 wött. Rúmið var hinsvegar ágætt, og herbergið vel þrifið.
Til umræðu kom hvað maður gæti tekið til bragðs, ef eldur kæmi nú upp í þessu forna húsi. Við eftirgrennslan kom í ljós, að fyrir innan gluggann á herberginu var kista. Þegar hún var opnuð blasti við kaðalstigi, sem skyldi notaður í neyðartilvikum. Ekki taldi fD lýkur á að hún myndi láta sér detta í hug að fara að príla niður þennan stiga. Ég held nú að hún hefði látið sig hafa það, ef hún stæði frammi fyrir vali milli gereyðandi eldtungna og stigans.

Nóttin í þessu gamla hús var alveg ágæt, ef frá er talið nauðsynlegt príl, hálfsofandi niður 60 cm stigann niður á hæðina fyrir neðan.

Morgunverð gátum við fengið á hótel Dagmar, þarna við hliðina á sérkjörum og það nýttum við okkur. Eftir það kvöddum við þennan einstaklega eftirminnilega gististað. Mér fannst hann "alletiders" og afskaplega gaman að fá að setja sig lítillega inn í aðstæður, svipaðar þeim sem fólk bjó við fyrir nokkrum öldum.  


 


30 júlí, 2023

Dagur til að gleyma, en læra samt af.

Egilsstaðir og Lagarfljót ofan af Fjarðarheiði.
Ekki hyggst ég hér skrá í smáatriðum ferð okkar frú Drafnar umhverfis landið, enda um hina ágætustu ferð að ræða í öllum meginatriðum. Sérstaklega þykir okkur vænt um ágætar móttökur á heimili frænda míns Sæbjörn Eggertssonar og Arndísar Þorvaldsdóttur konu hans, á Egilsstöðum, en þar fengum við að gista í tvær nætur.  
Það er hinsvegar svo, eins og alkunna er, að engar fréttir eru góðar fréttir og ég held mig við það hér, enda mikilvægt að halda til haga því sem miður fer, svo hægt sé að draga af því einhvern lærdóm - þannig höfum við það á Íslandi. Af þessum sökum, og í samhengi við áður skráða pistla, eins og til dæmis þennan hér: Þá er það frá , sem er frá því í mars, 2018, hyggst ég einbeita mér að rétt rúmum sólarhring ferðarinnar, sólarhring sem best væri að gleyma, en það gengur auðvitað ekki, því að það verður að draga lærdóm af því sem þá gerðist.

Upphaf máls


Síðdegis, laugardaginn 22. júlí, stödd á Egilsstöðum, vorum við fD orðin ásátt um að halda af stað heim daginn eftir, suðurleiðina, þó svo áður hafi verið höfð um það nokkur orð að hún væri bæði "löng og leiðinleg". Þegar raunin hafði síðan orðið sú, að norðurleiðin þótti heldur ekkert sérstök, var sem sagt niðurstaða um að halda suður um og leita uppi einhvern þann gististað sem ætti hugsanlega möguleika á að hýsa okkur eina nótt. Þar með tók ég fram símann minn og hóf leit, sem í langflestum tilvikum skilaði engu. Þar kom þó, að upp dúkkaði laus nótt á gististaðnum Gerði, sem var vel í sveit settur, miðað við ferðaráætlun. Ég pantaði og greiddi fyrir bústað/"bungalow", kr. 25.000 og þótti bara vel sloppið miðað við stuttan fyrirvara. Með þessum gjörning var allt orðið klárt varðandi heimferðina og við skelltum okkur út að borða, af því tilefni, meðal annarra. Það gekk ágætlega fyrir sig á veitingastað sem ég kýs að nefna ekki vegna framhaldsins. 

Atburðir næturinnar og morgunsins

Mynd af vef.

Segir nú ekki af málum fyrr en kl. 2 um nóttina, þegar ég vaknaði af værum blundi með hamagang í maganum, sem gerði ekkert nema ágerast. Það sem fylgdi læt ég liggja milli hluta, enda yrði sú frásögn hreint ekki þess eðlis að myndi kæta nokkurn mann.  Á því sem þarna fór fram, gekk fram á morgun og ég orðinn flak eitt. Frændi fór um víðan völl að leita eftir aðstoð heilbrigðisþjónustu á svæðinu, án árangurs og ég svo sem ekkert á því að þörf væru á slíku, þar sem ástandið var farið að réna þegar annað fólk, ósnert af magakveisu, reis úr rekkju.  Fyrirhuguð kynnisför um Skriðdal var slegin af, bæði vegna mín og þess að veðurfarið gaf ekki tilefni til þess að virða fyrir sér útsýnið í þeim fagra dal. Þá var ljós að ekki myndi ég njóta sunnudagskaffihlaðborðs kvenfélagsins í sveitinni, væntanlega með brauðtertum og rjómatertum eins og hver gat í sig látið.  
Í sem stystu máli, þá var þessi dagur allur frekar hörmulegur, þó auðvitað reyndi ég að bera mig vel.  Sannarlega velti ég því fyrir mér, hvernig þetta gat gerst, en varð litlu nær, þar sem ekkert þeirra þriggja sem tóku þátt í borðhaldinu með mér og borðuðu og drukku það sama, fann fyrir neinum einkennum. Þetta var því og verður líklegast óupplýst.

Haldið heim á leið


Við lögðum í hann suður á tilsettum tíma og stefndum á næsta gististað, Gerði, sem er í bæjaþyrpingunni þar sem Þórbergssetur er að finna. Til að flýta för ókum við fjallveginn Öxi í heilmikilli rigningu, eftir malarvegi, á bílnum sem ég hafði eytt hálfum degi í að þvo og bóna fyrir ferðina. "Það er best að skola bara af honum á Djúpavogi" hafði frændi sagt og því var haldið þangað. Þar er hinsvegar ekki þvottaplan við eldsneytisáfyllingarstöð, heldur einhversstaðar niðri við höfn, að skemmst frá því að segja, að þvottaaðstaðan fannst ekki, þrátt fyrir tilraun til að spyrja til vegar.  Það varð, af þessum sökum úr, að gera næstu tilraun til að skola skítinn af á Höfn, sem gekk eftir. Þaðan héldum í átt að gististaðnum, sem nálgaðist óðum. Tilhlökkunin var mikil að komast í hvíld, enda ég alveg búinn á því. Í huganum var ég farinn að sjá fyrir mér risastóran bústað, með arni og 50" sjónvarpi, baði, en varla heitum potti. Allavega stað til að hvílast og safna kröftum fyrir síðasta legg ferðarinnar. Ekkert átti að geta komið í veg fyrir, að vel færi um okkur þessa síðustu nótt.

Innritun í gistihúsið


Allt leit þetta vel úr, þar sem við ókum í hlað í Gerði og drifið í að klára innritun og fá í hendur lykið að slotinu sem beið okkar.  Ljúfmennska einkenndi enskumælandi konuna í móttökunni og hún fór strax í að leita að bókun okkar. Það kom tiltölulega fljótt í ljós, að hún átti ekki í erfiðleikum með að  vinna nafn mitt, vegna þess hvernig það er stafsett, helldur vegna þess, að það var bara ekkert á lsitanum yfir gesti þessa kvölds. "Wait a minute, I'll just call our booking office. Have some coffee while we sort this out". Þar með tók hún upp símann og hringdi og auðvitað fór það samtal fram á ensku. Um leið og ég heyrði hana segja "last night" í símann, tók ég fram símann minn til að geta staðfest bókun þessa nótt. Auðvitað þyrmdi yfir mig, þegar við mér blasti staðfesting á bókun fyrir síðustu nótt, en ekki þá sem var framundan. Ég var því tilbúinn því em konan í móttökunni upplýsti mig um, að loknu símtali sínu við bókunarskrifstofuna. Við vorum sem sagt á ferðinni sólarhring of seint.
Nú voru góð ráð dýr, eins og hver maður getur ímyndað sér. Lá það virkilega fyrir okkur að þurfa að aka alla leið heim þetta kvöld og komandi nótt, ofan á allt annað sem á daginn hafði drifið?
"Don't worry" sagði konan þar sem við henni blasti upplitið á mér eftir þessa uppgötvun. "We'll try to solve this, Just sit down and relax". Slappa af, já. Það þótti mér hægara sagt en gert, en niður settumst við fD og biðum þess sem verða vildi nokkra stund, eða þar til maður nokkur opnaði útidyrnar og spurði mig (á íslensku) hvort ég væri ég, sem ég játti auðvitað. Þarna var á ferð eigandinn, eða "bossinn", en þeir eru kallaðir til í svona tilvikum. Hann hafði verið einhversstaður úti að sinna girðingavinnu, þegar hann fékk símtal um vandamálið sem uppi var. 
Eftir stuttar umræður um stöðuna sagði hann okkur að það væri eitt laust herbergi í gamla hreppstjórahúsinu á Reynivöllum, en að þar væri reyndar ekki sér baðherbergi. Léttirinn var auðvitað mikill og okkur nokk sama hver þægindi myndu fylgja gistingunni. Síðan fegnum við miða með aðgangskóða að lyklaboxi í anddyri Reynivalla og leiðbeiningar um hvernig við kæmumst þangað. Þá skrifaði hann símanúmerið sitt á miðann, ef við skildum eiga í einhverjum vandræðum með að finna húsið, sem er í um 3 km fjarlægð frá Gerði. 
Allt gekk þetta síðan eins og í sögu, þar til ......

Herbergismálið


Reynivelli fundum við án vandkvæða. Við ákváðum að athuga fyrst hvort við kæmumst í herbergið, áður en við færum að flytja inn farangurinn. Lyklaboxið í anddyrinu opnaðist eins og það átti að gera. Þar var Assa-lykill, sem síðan gekk að herbergi númer 57. Ekki nóg með það, herbergið var risastórt með uppbúnum rúmum fyrir fjóra, hreint og fínt. Þetta leit allt mjög vel út, og þá ekkert annað að gera en ná í farangurinn. Ég fór úr jakkanum og setti á stól og hélt svo af stað út í bíl. Þá heyrði ég hurðina lokast, en það tók fD að sér og spurði í framhaldinu hvort ég væri ekki með lykilinn. Auðvitað var ég ekki með hann, því hann var í jakkavasanum og jakkinn á stólbaki í herberginu. Í jakkavasanum var einnig miðinn með símanúmeri eigandans, svo enn voru góð ráð dýr.  
Ég fór nú að líta í kringum mig í húsinu, en þar var sameiginlegt eldhús og, eins og við mátti búast, leiðbeiningar um umgengni þar. Á því balaði var, eins og við mátti svo sem búast, símanúmer sem hringt skyldi í ef einhver vandræði mættu gestum. Það er ekki um annað að ræða en hringja í þetta númer, sem reyndist vera númerið hjá eigandanum. Ekki veit ég hvort hann var þarna aftur farinn að lagfæra girðingarnar sínar, en mér tókst að greina honum þannig frá aðstæðum okkar, að viðbrögð hans voru hin ljúfustu. Hann sagði okkur að bíða smástund, hann skyldi bjarga þessu. Svo kom hann bara með "master" lykil og opnaði fyrir okkur.  Þar með tókst okkur loks að fara að vinna í að koma okkur í  ró. Ekki meira um það.

Við erum full þakklætis til gestgjafanna í Gerði, en öll þeirra viðbrögð við undarlegu eldri borgurunum sem þarna voru á ferð, einkenndust að ljúfmennsku og hjálpfýsi.

Lærdómurinn

Ekki segir meira af ferð þessari, en af henni er ýmislegt að læra:
a. Ekki fara á veitingastað - eldaðu sjálfur.
b. Láttu aðra athuga hvort þú bókaðir rétta daga á gististað.
c. Ekki skella hurð í lás, nema þú sért örugglega með lykilinn á þér.



07 júní, 2023

Laugarás: Sorgleg staða, en fyrirsjáanleg.

Kortið sýnir staðsetningu þéttbýliskjarna
í uppsveitum Árnessýslu.
Ég vil nú ganga svo langt að halda því fram, að sú staða sem nú er komin upp í uppsveitum Árnessýslu, sé afleiðing  um það bil fjögurra áratuga þróunar. 
Þetta byrjaði allt vel, þó umdeilt væri, þegar uppsveitahrepparnir sameinuðust um að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum, fyrir 100 árum, beinlínis til að koma þar upp læknissetri fyrir svæðið. 
Af sögulegum ástæðum kallaðist læknishéraðið þá Grímsneslæknishérað, en varð svo Laugaráslæknishérað á 5. áratug aldarinnar.
Oddvitar hreppanna mynduðu stjórn héraðsins og þannig var það svo, allt þar til ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt rétt fyrir hrun fjármálakerfisins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til.

Ekki verður annað séð, en það hafi verið nokkuð góð sátt um læknissetrið í Laugarási lengst af. Laugarásjörðin var sameiginleg eign hreppanna og fólk sá fyrir sér að þar myndi byggjast upp öflugur byggðarkjarni í hjarta uppsveitanna. Sú uppbygging fór vel af stað á fimmta og sjötta áratugnum, aðallega. þegar garðyrkjustöðvar spruttu upp og innviðir voru efldir til samræmis. Kannski er hægt að ímynda sér að fólkið hafi þá séð Laugarás með svipuðum augum og Árni G. Eylands: 
Þ A N K A R    V I Р   I Ð U B R Ú
Þar hef ég staðið undrandi.
Þvílíkur staður, hversu mikill ætti ekki hlutur þess hverfis að verða. Jarðhitinn, ræktunarlandið, áin – iðan – Vörðufell, og umhverfið allt. Hér á að rísa, hlýtur að rísa, mikið svitaþorp, borg garðyrkjubænda og annarra.
Fyrstu sporin þarf að stíga sem fyrst, og hljóta að verða stigin sem fyrst. Verzlun, sumarhótel, líkt því sem Þrastalundur var, þegar bezt var.
– Þvílíkur stðaur, þvílíkir möguleikar, ríkidómur og Guðsblessun. Hér hlýtur að rísa engu minna þorp en Selfoss og í bræðraböndum við þann stað.
– Já, ég nefndi Guðsblessun.
– Skálholt að baki, með það sem þar er búið illa að gera, og verið vel að gera – og verður vel gert. Og að fáu getur Skálholt og menningarhugsjónum þeirra sem þeim stað unna orðið meiri styrkur heldur en að vaxandi byggð við Iðu – ræktunarþorpi og miðstöð um samgöngur og framþróun nærliggjandi sveita.
– Sjá ekki allir Sunnlendingar hversu mikið hér er í efni? Vonandi gera þeir það, eins vel og betur en ég. Enn á ég ógert það sem mest er, að ganga á Vörðufell og líta yfir þetta fyrirheitna land.

Árni G. Eylands (1895-1980)
Heilsugæslustöðin í Laugarási og Hvítárbrú hjá Iðu. 

Sérstakt eignahald á Laugarásjörðinni hefur verið bæði blessun og bölvun gegnum áratugina. 
Blessun, vegna þess að með samstöðu uppsveitahreppanna tókst að byggja upp mjög öfluga heilsugæslu á svæðinu. 
Bölvun, vegna þess að með því hver hreppur fór í síauknum mæli að ota sínum tota varðandi uppbyggingu á þjónustu "heima fyrir", var markvisst dregið úr áherslu á frekari uppbyggingu í Laugarási.
 
Biskupstungnahreppur tekur Laugarás að sér
Þarna hugsaði hver um sitt og þar kom, að Biskupstungnahrppur tók jörðina á leigu um 1980 og hefur stýrt þróuninni síðan. Við þessa breytingu batnaði hagur Laugaráss harla lítið, þó vissulega hafi það vakið ákveðna bjartsýni þegar ný heilsugæslustöð var reist á síðari hluta 10. áratugarins. Það var eins með Tungnamenn og aðra uppsveitamenn: þeir unnu að því að byggja upp hver hjá sér og litu þannig á, að það sem gert væri í Laugarási væri til þess fallið að stöðva eða hægja á uppbyggingunni "heima fyrir".  Þetta var sem sagt áfram "bölvun" Laugaráss. Hugmyndir um uppbyggingu sem fram hafa komið gegnum tíðina, hafa verið kæfðar með þeim rökum að þær væru betur komnar á Flúðum, í Reykholti, eða á Laugarvatni, þar væru innviðirnir fyrir, svo ekki sé nú minnst á rökin um að þar væri "fólkið".
Þegar Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, var uppi sú sérkennilega staða, að honum var ætlað að stuðla að uppbyggingu á jörð, sem aðrir uppsveitahreppar áttu og fengu tekjur af. Á sama tíma voru Tungnamenn að byggja upp sinn byggðarkjarna í Reykholti, þar sem grunnskólinn var, félagsheimilið, sundlaugin og fleira. Hvaða ástæðu höfðu Tungnamenn svo sem til að efla byggðina í Laugarási?  Eina "opinbera" stofnun á vegum hreppsins fengu Laugarásbúar, en það var sorpbrennsluofn:
Þessi brennsluofn var sá eini í Biskupstungum og ætlaður til brennslu á sorpi frá öllum heimilum og má segja að hann hafi verið eina opinbera stofnunin sem sveitarfélagið hefur valið stað í Laugarási. Þannig var sorpi í Reykholti safnað og flutt til brennslu í Laugarási, við misjafnar undirtektir íbúa þar og þá aðallega vegna reykmengunar sem lagði frá honum yfir byggðina í norðlægum áttum. (laugaras.is)
Aðrir hreppar hafa líklega verið ágætlega hressir með þetta fyrirkomulag því þeir gátu einbeitt sér að uppbyggingunni heima fyrir.  Tungnamenn sátu uppi með að reyna að leiða hjá sér "síkvartandi" Laugarásbúa, sem töldu fram hjá sér gengið í uppbyggingu. Ég er þess fullviss, að tekjurnar frá Laugarási komu sér ágætlega fyrir hreppsjóð, en frumkvæði hreppsins í að halda áfram uppbyggingu þar var og er lítið sem ekkert. 

Bláskógabyggð verður til
Það var ákveðið, í byrjun þessara aldar, án þess að íbúar fengju að greiða um það atkvæði, að sameina Þingvallahrepp, Laugardalshrepp og Biskupstungnahrepp í sveitarfélagið Bláskógabyggð. Þá fór verulega að halla undan fæti í Laugarási, eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi línuriti um íbúaþróun í þéttbýliskjörnunum þrem.
 

AUGLÝSING um staðfestingu félagsmálaráðuneytis á sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, tilkynnir ráðuneytið að það hefur hinn 18. mars 2002 staðfest sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag. (18. mars, 2002)
Tungnamenn voru stærsta sveitarfélagið í þessari sameiningu og var mikið í mun að hin tvö upplifðu það ekki svo, að allur fókusinn eftir sameininguna yrði á uppbyggingu í Reykholti. Í aðlöguninni sem þarna fór fram, varð Laugarás nánast eins og neðanmálsgrein.  Ég vil nú ekki ganga svo langt, að halda því fram, að það hafi verið markviss stefna í uppsveitum, að ganga endanlega frá Laugarási, þó vissulega hafi það stundum hvarflað að mér. 
Sameiningin, þegar Bláskógabyggð varð til, var mistök, að mínu mati og ein birtingarmynd þeirra er það sem nú er í farvatninu og fjallað eru um þessa dagana.  Í mínum huga er þarna að birtast ein afleiðing ótrúlegs andvaraleysis (eða stefnu) sveitarstjórnarfólks í Bláskógabyggð undanfarna áratugi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef tárin sem grátið er í samþykkt sveitarstjórnar (sjá hér fyrir neðan), séu, að miklum hluta, krókódílatár.

Hvað er svo framundan?  
Oddvitanefndin heldur sjálfsagt áfram að hittast til að ráða ráðum sínum, nefndin sem kallaði sig Stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs. Hlutverk þessarar nefndar síðstliðna fjóra áratugi, í það minnsta, hefur ekki verið það að stuðla að uppbyggingu í Laugarási, heldur miklu frekar að tryggja það að í Laugarási yrði ekki uppbygging sem gæti ógnað uppbyggingunni "heima fyrir", þar sem fólkið er. 

Niðurstaða mín er sú, að það sem hefði getað orðið kjarninn í öflugri byggð í uppsveitunum, varð til þess að tefja þessa uppbyggingu, varð ok, sem uppsveitahrepparnir reyndu að losna við, en þótti samt (og þykir enn) gott að eiga ítök í til að tryggja að þessi kjarni fengi ekki að blómstra.

Það sem helst gæti orðið Laugrási til bjargar við þær aðstæður sem við blasa nú, þegar upp eru komnar hugmyndir um að flytja þaðan heilsugæsluna, er líklega að hrepparnir komi sér saman um að selja jörðina. Ég er ekki viss um að það verði ofan á, ekki meðan einhvern lífsneista er að finna í "þorpinu í skóginum".
Ég bíð nú nokkuð spenntur eftir framhaldi þessa máls og þar með hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar meinar eitthvað með samþykkt sinni, sem sjá má hér fyrir neðan. Mér finnst þessi samþykkt nú reyndar fremur veikburða, ef ég á að segja alveg eins og er, en það er rétt að sjá til hvað nú gerist.



Liður í undirbúningi að sameiningu?
Vissulega hvarflar það að mér, að það sé uppsveitamönnum smám saman að verða ljóst, að það mun koma til sameiningar þessar asveitarfélaga á næstu árum. Ég er alveg til í að líta að þessar hugmyndir um flutning heilsugæslunnar í því ljósi. Með honum væri rutt úr vegi einni stærstu hindruninni. Laugarás væri þá með engu móti lengur valkostur sem einhverskonar kjarni uppsveitanna til framtíðar. Þá yrðu stóru kjarnarnir tveir ótvíræðir valkostir í frekari uppbyggingu.
---------------------------------

Ég er búinn að fjalla oft um málefni Laugaráss í pistlum hér á þessu svæði
Hér eru hlekkir á nokkur dæmi:

Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Enn á að selja 8. maí, 2017

Ef einhver sem þetta les veit ekki hver ég er, eða hversvegna ég er að blanda mér í þessa umræðu, þá er ég fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar að langmestu leyti, þar til vorið 2022, þegar við Kvisthyltingar fluttum á Selfoss. 
Ég hef einnig unnið að því, í rúm 10 ár, að safna efni um Laugarás á vefinn https://www.laugaras.is

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...