Sýnir færslur með efnisorðinu Pælingar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Pælingar. Sýna allar færslur

21 janúar, 2017

Hetjudraumar

Kynjahlutfall meðal kennara í grunnskólum.
Það fór lítilsháttar hneykslunaralda um samfélagsmiðla fyrir nokkrum dögum þegar framkvæmdastjóri jafnréttisstofu  tjáði sig um ástæður þess að drengir falla frekar út úr skólakerfinu.  Framkvæmdastjórinn var m.a. útnefndur "skúrkur vikunnar": 
Hjörvar Hafliðason og Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmenn Brennslunnar, útnefndu Kristínu skúrk vikunnar fyrir þessi ummæli hennar og gagnrýndu þau harðlega.(Nútíminn 17. janúar)
Það sem framkvæmdastjórinn mun hafa sagt, efnislega, er að piltar falli frekar úr skólakerfinu vegna þess að þeir ala með sér drauma um að verða hetjur eða fáránlega ríkir.
Þetta er auðvitað alveg rétt hjá framkvæmdastjórnanum.
Það sem vantar hinsvegar í málflutninginn er ástæðan fyrir þessum draumum ungra pilta. 

Hér fyrir neðan er að finna hlekki þar sem ég fjalla um uppeldismál eins og ég sé þau vera.
Ég nenni varla að fara enn einu sinni að fjargviðrast út að stöðu uppeldismála í þessu samfélagi, ætla bara segja þetta þessu sinni, en vísa að öðru leyti í það sem ég hef sagt um þessi mál áður. Það sem ég hef sagt hefur ekki fengið neinar undirtektir og ég hef hvergi séð neinn annan halda þessu fram.
Við höfum flest séð skemmtileg myndskeið af því hvernig dýr, sem alin eru upp meðal annarrar dýrategundar en sinnar eigin, hafa aðlagast lifnaðarháttum og atferli tegundarinnar sem elur það upp.
Þetta myndskeið sýnir lamb sem telur sig vera hund:




HÉR er það hundur sem telur sig vera kött.

Svo er hér myndskeið af úkraínskri stúlku sem var alin upp meðal hunda:



Ekki er ég nú svo mikill öfgamaður í uppeldismálum að ég haldi því fram, að uppeldisaðstæður drengja séu fyllilega sambærilegar við það sem sjá má hér fyrir ofan, en samt tel ég að þær séu talsvert langt frá því að vera eins og best getur verið.
Það getur vel verið að við séum sammála um að það beri að ala stráka og stelpur eins upp. Þá er það bara svo, en uppeldið hlýtur þá að vera með þeim hætti að það taki með í reikninginn mismunandi líffræðilega eiginleika kynjanna.

Ég vil halda því fram að drengir fái ekki það uppeldi sem þeir þurfa til þess að geta notið sín sem karlmenn síðar.  

Uppalendur þeirra eru nánast eingöngu konur. Það er þannig með konur, að líffræðilega eru þær eru ekki karlar. Reynsluheimur þeirra er kvenlegur, hugsanir þeirra, skoðanir, atgerfi, útlit, eða bara flest, er kvenlegt. Það segir sig nokkuð sjálft. Af þessum ástæðum hlýtur uppeldið sem þær veita börnum að henta kynjunum mis vel.  Mér finnst að þetta segi sig sjálft.

Uppalendurnir eru fyrirmyndir barnanna. Fáir geta víst neitað því. Það er af foreldrum og kennurum sem börnin öðlast hugmyndir um það hvað þau eru, en þar með er ekki öll sagan sögð.  Tíminn með foreldrunum verður æ styttri og börnin eyða stærstum hluta vökutíma í stofnunum þar sem einvörðungu (nánast) starfa konur.  Tíminn með foreldrunum er frá því um kl . 17:30 til kl 20 á virkum dögum. Hve mikið af þeim tím nýtist til samskipta eða raunverulegrar samveru með foreldrunum? Hve mikinn hluta þess tíma nýta foreldrarnir til þess að ná sér niður eftir vinnudaginn eða sinna nauðsynlegum heimilisverkum. Hvað með helgarnar. Hve mikinn tíma um helgar hafa drengir með föður sínum í raun? 

Ég hef haldið þessum skoðunum fram. Einu viðbrögðin sem ég hef fengið eru að þetta sé bara bull;  rannsóknir sýni að kyn kennara skipti engu máli. Ætli það sé ekki einhver svona rannsókn sem vísað er til?

Dæmi um rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005:
Rannsóknarspurningarnar sem leitast var við að svara voru: Hefur kyn kennara áhrif á kennslu? Finnst nemendum á unglingastigi skipta máli af hvoru kyninu kennari þeirra er? Hvaða eiginleikum telja nemendur að kennari þeirra eigi að búa yfir? Notuð var megindleg rannsóknaraðferð þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir nemendur í 9. bekk á Akureyri. Úrtakið var 266 nemendur eða 134 stelpur og 132 strákar.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að nemendum finnst ekki skipta máli af hvaða kyni kennari þeirra sé. Nemendur hafa hins vegar ákveðna skoðun á því hvaða eiginleika þeir vilja helst hafa í fari kennarans. Hann á einkum að vera skemmtilegur, fyndinn og þolinmóður. Kyn kennara virðist ekki hafa áhrif á kennslu, heldur þykir mikilvægara að kennari sé hæfur í starfi. (úr rannsókn sem var hluti af B.Ed. verkefni við HA árið 2005).

Ég verð að segja það, að á niðurstöðum þessarar rannsóknar get ég ekki tekið mark. Segjum sem svo að lambið á myndskeiðinu hér fyrir ofan gæti svarað spurningunum: Skiptir það máli hvort þú elst upp meðal hunda eða sauðfjár? og Hvaða eiginleika telur þú að góður uppalandi eigi að hafa?  Myndi lambið sem hefur bara alist upp meðal hunda moögulega hafa forsendur til að telja uppeldi meðal sauðfjál betra? Myndi það t.d. hafa hugmyndaflug til að segja að það væri góður eiginleiki uppalenda að geta jarmað?

Nei, strákar skortir fyrirmyndir í skólakerfinu og þar er auðvitað við karlmenn að sakast. Þeim ber skylda til að gera sig gildandi á þessu sviði og ég tel þar mikið vera í húfi.

Líffræðilega eru strákar strákar, hvað sem tautar og raular, en hvað gerir umhverfið úr þeim sem manneskjum?
Ég er ekkert hissa á niðurstöðu framkvæmdastjóra jafnréttisstofu. Ég er hinsvegar hissa á að hann skuli ekki fjalla um ástæður þess að strákar vilja verða atvinnuknattspyrnumenn.

Hlekkir á nokkur fyrri blogg mín um þessi mál:

Kannski bara vitlaust gefið  2013
Alhæfingar rétttrúnaðarins    2012
Það má auðvitað ekki segja það, en .........  2010
Þjóðfélag á hverfanda hveli 1  2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 2  2008
Þjóðfélag á hverfanda hveli 3  2008

13 janúar, 2017

Bráðum verð ég frjálshyggjumaður

Nýleg reynsla mín er þáttur í meðvitaðri stefnu til að grafa undan opinberu heilbrigðiskerfi á Íslandi. Hún er liður í því að breyta viðhorfum þessarar þjóðar í þá veru að hún muni sættast á að okkur sé betur borgið með því að einkaaðilar sjái um heilbrigðisþjónustu.

Nú er tekin við í landinu einhver hægrisinnaðasta ríkisstjórn sem þessi þjóð hefur valið sér og þar með blasir ekki annað við en áfram verði grafið undan þjónustu sem á, ef rétt  væri á málum haldið, að standa öllum jafnt til boða og vera ókeypis, nútímaleg og vönduð.

Það sem mér virðist blasa við okkur er, að áfram verði haldið að svelta heilbrigðisþjónustuna, hækka gjöld á sjúklinga,  og skapa þannig frjóan jarðveg fyrir einkavæðingu á öllum sviðum.
Fjárfestar stökkva fram, heilbrigðisfyrirtæki spretta upp, frjáls og "gríðarlega hörð" samkeppni fær að blómsta.

"Sjúklingarnir okkar fá 10% afslátt ef þeir læka síðuna okkar eftir aðgerð".
"Sjúklingarnir okkar í þessum mánuði fá bíómiða fyrir tvo í kaupbæti".
"Skurðirnir okkar bera vönduðu handbragði vitni".
"Hjá okkur færðu endurgreitt ef þú ert ekki orðinn góður eftir viku".
"Er þér illt? Leyfðu okkur að lækna þig í glænýrri læknastöðinni okkar, þar sem gluggarnir eru pússaðir á hverjum degi og þú getur speglað þig í ítölsku gólfflísunum".
"Frábærar strandtöskur og sérmerkt strandbaðhandklæði handa öllum sem við tökum úr sambandi".

Þetta er ekki geðsleg tilhugsun.

Í tvígang, að undanförnu, hef ég þurft á þjónustu Landspítalans háskólasjúkrahúss (LSH) að halda.
Í annað skiptið kom ég þar inn og það sem við mér blasti voru ekki gljáfægðir gluggar eða gólf með ítölskum flísum sem hægt var að spegla sig í, heldur var þar allt fremur grámyglulegt og minnti mig óþyrmilega á vestrænt myndefni af austur-evrópskum sjúkrastofnunum á Stalínstímanum.  Bara gólfdúkarnir eru sjálfsagt jafngamlir mér.
Í hitt skiptið átti ég að mæta þangað í litla aðgerð, eftir margra mánaða bið eftir að komast að.
Það á sér stað heilmikill andlegur undirbúningur fyrir aðgerð á sjúkrahúsi. Það þarf að stilla sig af, skipuleggja hitt og þetta, fá frí í vinnu, og svo framvegis.
Jæja, á tilteknum tíma átti ég á að mæta á tiltekna deild á tiltekinni hæð.
Daginn fyrir þennan tiltekna tíma fékk ég tilkynningu um að tiltekinn tími hefði breyst og honum seinkað um 4 tíma.
Á aðgerðardegi, þar sem ég ók inn í höfuðborgina, hringdi síminn og mér tilkynnt, að enn væri frestun fram eftir degi af óviðráðanlegum "akút" ástæðum og að jafnvel gæti farið svo, að fresta yrði aðgerðinni.
Eftir miðjan dag var loks hringt einu sinni enn og aðgerðin slegin af.
Sannarlega tek ég fram að starfsfólkið sem ég hef verið í samskiptum við, er ekki í öfundsverðu hlutverki og hefur undantekningarlaust verið kurteist og skilningsríkt.

Auðvitað velti ég því fyrir mér, eftir svona reynslu, að það væri nú munur ef þetta væri nú bara einkarekið og menn gætu farið á hausinn ef þeir stæðu sig með þessum hætti gagnvart sjúklingum. Það væri hægt að fara í mál og krefjast tuga milljóna skaðabóta.

Þetta má ekki verða raunin og nú skulu ráðamenn þessarar þjóðar andskotast til að sjá til þess að íslenskt heilbrigðiskerfi rísi úr þessari öskustó. 
Það sem ég óttast hinsvegar er, að þessi þjóð sé búin að opna leiðina að enn frekari  niðurlægingu heilbrigðiskerfisins með því að skapa möguleikann á hægrisinnuðustu ríkisstjórn lýðveldistímans.

Hver var það aftur, sem sagði þessi fleygu orð: "Guð blessi Ísland!"






25 desember, 2016

Jólajákvæðni

Stundum eiga sér stað átök hið innra. Það er svona eins og með klassísku myndina af púkanum með þríforkinn á annarri öxlinni og englinum með geislabauginn á hinni. Maður stendur frammi fyrir einhverju sem hægt er að bregðast við með tvennum hætti: annaðhvort að "standa í lappirnar" og berjast gegn meintu óréttlæti eða broti gegn þér og hagsmunum þínum, eða sýna skilning, sjá aðrar hliðar á málinu, neita að trúa því að eitthvað annað búi undir en virðist vera við fyrstu sýn.

Þarna kristallast baráttan milli engilsins og púkans, sem báðir búa innra með þér og valda því að þú er oftast í ákveðnum vafa þegar kemur að því að bregðast við ytra áreiti.  Það er, sem betur fer svo, að oftar en ekki er það engillinn ber sigur úr býtum, í það minnsta út á við. Maður hneigist til að trúa því, á endanum, að það sé ekki verið að brjóta á þér með neinum hætti. Maður kemst að þeirri niðurstöðu að það séu málefnalegar ástæður fyrir því sem kann að líta fremur illa út við fyrstu sýn.

Ekki neita ég því að púkarnir hafa háð dálitla baráttu á öxlum mínum undanfarnar vikur og sjálfsagt fleirum í umhverfi mínu. Það er dálítið kaldhæðnislegt í kringum hátíð ljóssins, að barátta þeirra er til kominn vegna ljóss sem kom og kom ekki, réttinn til ljóssins eða ekki. Kannski hefur þetta snúist um baráttuna milli þess sem samfélagið ætti að gera fyrir þig eða þú fyrir samfélagið, vegið á móti því sem samfélaginu er ætlað að öðru leyti. Mögulega gæti þetta snúist um kröfur til samfélagsins sem eru eðlilegar eða óeðlilegar.

Ég átta mig á því, að það sem er búið að brjótast í mér og fleirum að undanförnu eru siðferðisleg álitamál framar öðru eins og reyndar afar mörg mál um alllanga hríð, sem smám saman hafa gert það erfiðara að taka afstöðu með englinum. Það er þessi eilífa spurning um réttlæti og ranglæti, sem hægt er að teygja og toga þangað til að þessu háleitu hugtök verða að merkingarlausum klisjum.

Með engilinn sigri hrósandi á annarri öxlinni og sigraðan púkann á hinni held ég áfram göngunni í gegnum það sem er og verður, héðan í frá sem hingað til.
Þó engillinn hafi sigrað þessu sinni, veit maður aldrei hvað gerist næst.

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - fyrir PS

Hvítárbrú hjá Iðu í desember 2016 - eftir PS



18 nóvember, 2016

Gamalt en mögulega einnig nýtt (2)

Bókin

Hér held ég áfram að skella inn köflum og kaflabrotum úr sömu bók og síðast. margt að því sem þarna er að finna er eilífur sannleikur, annað hefur breyst með breyttum lífsháttun, tækniþróun og öðru.  Það var þannig að allt í einu vantaði mig bók til að lesa og renndi í gegum bókastaflann á heimilinu. Nennti ekki að byrja á Laxness safninu eða Íslendingasögunum og endaði því á óhefðbundnari ritverkum, þar sem ég fann þessa bók. Húnvar gefin út í íslenskri þýðingu Jóns Þórarinssonar árið 1917 af Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar og var prentuð í Prentsmiðjunni Gutenberg. Titill hennar er BÖRN og undirtitill Foreldrar og kennarar og hún er eftir einhvern D.C. Murphy sem mun hafa verið "skóla umsjónarmaður í Ameríku" Um bókina segir þýðandinn m.a.: "þar þykir mikið til hennar koma og séð hef ég hana nefnda »kennslubók kennaranna og húslestrarbók heimilanna«.

Alþúðubl. 11.09.1943
Ökuskírteini Guðmundar, gefið út um ári áður en hann lést.

Eigandi bókarinnar

Bókin er merkt Guðmundi Þórarni Runólfssyni (1918-1943), en hann lést í slysinu sem lesa má um hér til hliðar. Bókin var gefin út ári áður en hann fæddist og hann hefur líklega eignast hana alllöngu seinna. Í Kvistholt barst bókin úr dánarbúi foreldra fD, en Guðmundur var föðurbróðir hennar.
Ekki vitum við margt um lífshlaup Guðmundar, annað en að hann fæddist í Heiðarseli á Síðu og að hann starfaði á Hvanneyri um það leyti sem hann lést. Það væri nú fengur í því ef einhver vissi eitthvað um Hvanneyri í kringum 1940, eða einhver gögn um lífið þar á þeim tíma.



 Guðmundur (fjórði f.v.), móðir hans, Sigurbjörg
Þórarinsdóttir og bræður, um 1925,
Gísli, f. 19. nóv. 1911, d. 23. apr. 1932,
Þorsteinn, f. 22. okt. 1913, d. 30. sept. 1991,
Ólafur, f. 16. des. 1914, d. 13. jan. 1939,
Guðmundur, f. 2. júní 1918, d. 9. okt. 1943 og
Þorvaldur, f. 4.1.1920, d. 15.3.2007.


 Úr bókinni

Ég ætlaði, sem sagt, að setja inn nokkur gullkorn úr þessari bók, en þar kemur í ljós, eins og búast mátti við, að manneskjan breytist ekki mikið, þó umhverfi hennar breytist. 

Foreldrar og kennarar

1. Sambandið milli foreldra og skóla.
Sumir hafa þá skoðun, að skólinn sé staður þar sem börnum sé komið fyrir til pössunar, en að öðru leyti er þeim lítið hugarhaldið um skólann eða kennarann. En þetta er röng hugsun. Verki foreldranna er ekki lokið með því að klæða börnin og sjá þeim fyrir líkamlegum þörfum; þeir hafa heldur ekki gert alla skyldu sína með því að láta þau ganga reglulega í skóla. Ef foreldrunum er áhugamál að börn þeirra komist  vel áfram og njóti svo góðrar skólafræðslu sem kostur er, þá verða þeir að neyta allra ráða til að gera þeim kost á því, búa sem allra best í haginn.

2. Hugmyndir foreldra um kennara
Foreldrar hafa mjög ólíkar skoðanir um það, hvað geri kennarann góðan fræðara. það minnir á munnmælasöguna um riddara, sem deildu um skjöldinn, hvað efni væri í honum; annar sagði að í honum væri silfur, en hinn að hann væri úr gulli. Þrátt þeirra endaði í einvígi. Þeir skilmdust langa stund, en með því að áþekt var um vígfimi þeirra og hreysti, bar hvorugur sigur úr býtum. Loks féllu báðir, örmagna af þreytu. Þá bar að þriðja riddarann, og báðu þeir hann að skera úr, hvor hefði rétt fyrir sér. Þegar hann fór að rannsaka skjöldinn reyndist hann öðru megin úr  gulli, en úr silfri hinumegin.

3. Tvennskonar foreldrar
Einhver hefur sagt að öllum foreldrum megi skifta í tvo flokka, skynsama og óskynsama. Ekki er allur sannleikurinn sagður með því, en það gefur fyllilega hugmynd um hvað er sannleikur í þessu efni. Fyr nefndi flokkurinn er langt um fjölmennari; en hinn síðarnefndi veldur öllum erfiðleikunum. Meðal óskynsamra foreldra eru þeir, sem hafa þá mölétnu hugmund að »kennarinn verði að fara eins með öll börn«.   Mörg ár eru síðan þessi hugmynd reyndist jafn óheilbrigð eins og hún er gömul. 
Kennarinn verður að fást við mjög ólíkt eðlisfar barna, sum þarf svo sem ekkert að aga; sum er auðvelt að aga, og við sum veitir ekki af að beita öllum þeim ráðum sem kennarinn kann. Læknir sem gæfi öllum sjúklingum sama lyf, myndi lækna suma en drepa suma.

4. Áhugaleysi foreldra
Hversu mjög gætu foreldrarnir stutt að því að skólinn ynni gott gagn, ef þeir fengju svo mikinn áhuga á skólavinnunni að þeir létu börn sín vera við nám í það minsta stundarkorn á hverjum degi! Foreldrar eru stundum algerlega hirðulausir um uppeldi barna sinna, og þó er gott uppeldi besti arfurinn sem þeir gætu leift þeim.  Eitt af verstu meinum vorrar þjóðar er slæpingshátturinn.
Á engan hátt geta heimilin stutt skólann að starfi betur en þann, að gæta barnanna sem best þann tímann, sem þau eru ekki í skólanum - varna því að þau leggist í iðjuleysi; að þau séu með góðum leiksystkinum og að ekkert hindri þau frá að sækja skólann reglulega.

5. Hirðulausir foreldrar.
Foreldrar sem eru hirðulausir um það, hvort börn þeirra sækja skóla reglulega, eru versta hindrun í starfi kennarans. Sumir foreldrar sýna aldrei að þeir skeyti  mikið um börn sín - fyr en þeim er refsað í skólanum, eða önnur börn tekin fram yfir þau; þá ranka þeir við sér; og mörg börn í barnaskólunum okkar fá litla hjálp eða upphvatningu heima fyrir. Það er eins og foreldrarnir segi við kennarann: »Ég fæði barnið og klæði, hitt verðið þér að gera« Fyrir getur það komið, að foreldrar undrist yfir því að ekkert heyrist um óþekt barna þeirra í skólanum, þó þeir ráði ekkert við þau heima.

6. Aðfinslur foreldra.
Annað er það sem oft angrar kennara en það eru aðfinslur foreldra barnanna, sem oft eru á reiðum höndum. Einn sagði: »Ekki gest mér að hvernig sá kennari kennir reikning; alt öðru vísi var mér kent«.  Drengurinn hans festr orðin í minni af því að faðir hans sagði þau, og honum þykir fremur gaman að því að eitthvað er út á kennarann að setja. Þegar hann fer í skólann, hljóma orð föður hans  í eyrum honum  og í reikningstímanum ber hann með sjálfum sér brygður á að kennarinn fari rétt með reikningsdæmin.  Hefði faðir hans verið skynsamur maður, þá hefði hann getað sagt sem svo:  »Aðferðirnar eru öðruvísi nú, en þær, er ég vandist, og líklega betir, því að allar kennsluaðferðir eru betri nú en áður.«  Þá hefði drengurinn farið í skólann með sannfæringu um að kennarinn hans segði betur til en kennarar föður hans höfðu gert.  
Stundum þarf að ávíta barn fyrir eitthvað í skólanum. Barnið fer heim og segir frá ofanígjöfinni, og gerir svo lítið úr misgjörð sinni sem það þorir. Foreldrarnir hafa heyrt einungis annan málsaðilann, hugsa að kennarinn hafi haft rangt  fyrir sér og segja það til allrar óhamingju svo barnið heyrir. Það fer aftur í skólann næsta dag, er nú í uppreisnarhug, gerir meira fyrir sér en fyrri daginn og er refsað þunglega. Þá er ekki einungis grátur í skólastofunni, heldur gnístran tanna á heimilinu.

7. Vinátta og heimsóknir
Milli kennara og foreldra ætti að vera innilegt vináttusamband og ef svo er ekki, þá er eitthvað athugavert, annaðhvort við kennarann eða foreldrana, og þá ættu þeir þegar að skilja að skiftum.
Í of mörgum sveitum má kennarinn heita ókunnur maður foreldrum barnanna. Sumstaðar koma foreldrar aldrei til kennarans, nema til að kæra yfir einhverju. Engin eftirtekt er veitt starfi hans, nema þegar eitthvað ber út af. Góð áhrif sem hann hefur á börnin eru skoðuð sem sjálfsagður hlutur; aldrei heyrir hann hlýtt orð fyrir það; en verði honum eitthvað á, þá hljóma áfellisdómar fjöldans bæði hátt og djúpt.

------------------------
Ég sé til hvort ég set inn eitthvað fleira úr þessari bók, en nú sem fyrr skiptir aðkoma foreldra að uppeldi barna sinna höfuðmáli, ekki aðeins til þess að vernda þau frá öllu illu, heldur til að beina þeim inn á þær brautir sem best munu gagnast þeim þegar þau vaxa úr grasi.

16 nóvember, 2016

Gamalt en mögulega einnig nýtt (1)


Eftirfarandi texti er ekki eftir mig, svo því sé nú haldið til haga. Ég skelli honum hér inn í tilefni af stöðu mála hjá grunnskólakennurum um þessar mundir.
Það er erfitt að skilgreina hugtakið »kennari«. Ef vér segjum að kennari sé maður vel bóklærður og lagaður til að kenna, maður hæfur til að stjórna, og leiða aðra, maður sem er skjótur að sjá hvað við nemendurna á í hvert sinn og sem ávalt beitir réttum tökum o.s.frv. - þá er ekki alt þar með sagt.
Þó að alt þetta sé tekið saman í eitt, þá skortir mikið á góða skilgreiningu, af því að það er eitthvað í góðum og vel hæfum kennara sem ekki verður skilgreint. Það skiftir ekki eins miklu fyrir barnið hvað það lærir. »Heiminn hungrar og þyrstir ekki nærri því eins eftir fræðslu eins og innilegri hluttekningu og samúð«, því að þegar öllum lexíunum er skilað, öllum kennslustundum lokið, þá munu áhrifin, sem eftir verða - þau áhrifin sem barnið geymir frá skólaverunni, - mynda lífsskoðun þess, og hugsunarhátturinn mótast eftir því, hvernig það hefur lært að hugsa af kennaranum.
Vér eigum enn engan áreiðanlegan mælikvarða á hæfileika manna og kvenna til kennarastarfsins; vér getum ekki metið kennarann eftir öðru en því, hve vel honum tekst að styrkja hjarta og skilning nemendanna. Þeir einir sem skilja til fulls mikilvægi kennarastarfsins, geta átt von á að vinna það til gagns.
Það er ekki nauðsynlegt að kennarinn sé neinn Samson að burðum, né spakur sem Salómon, né þolinmóður eins og Job, né engill að gæðum. En hann verður að hafa alla þessara mannhæfileika, þó að á lægra stigi sé. Þetta verður skiljanlegt, er vér minnumst þess að kennarastarfið er dag eftir dag og ár eftir ár að ná meira og meira áliti og virðingu. Kennararnir eru að vinna verk sitt betur og betur; þeir eru að fá hærri og hærri laun af því að starf þeirra verður æ verðmætara; kennarar njóta nú meiri virðingar en nokkru sinni fyr; öll skólaskipunin er nú áhugaefni hinna mætustu manna og uppskeran af starfinu er mjög undir henni komin. Starf kennaranna á mikla framtíð.
Vér erum að kenna börnum og ala þau upp, ekki einungis fyrir öldina sem er að líða, heldur fyrir allar komandi aldir. Í sannleika er það háleit hugsun, að þeir sem vinna að þessu mikla starfi, megi hafa áhrif á huga óborinna kynslóða.
Hvaðan hann er, frá hvaða tíma og hve mikið erindi hann á í dag, læt ég lesendur um að velta fyrir sér.
Það á sannarlega eftir að koma fleira í þessum brunni síðar.

14 nóvember, 2016

Dyngjan og athvarfið

Drungavaldandi regn undanfarinna vikna hefur engan veginn náð að slá Kvisthyltinga út af laginu. Listin er að verða búin að grípa stóran hluta þessarar Laugarásfjölskyldu heljartökum, þannig að daglegt líf snýst um að kanna þau mörk sem hún setur þessum ofurprúða hópi.
Eftir að fD tók sig til og sýndi afurðir sínar á þessu sviði fyrir nokkru, hefur hún æ meir horfið inn í dyngju sína, þar sem leirfígúrur eru hannaðar, mótaðar og málaðar. Við og við kíkir hún fram að talar um að fara út að ganga eða skjótast á Selfoss til að setja vetrardekkin undir. 
Þessi hendir burt andleysinu og hnoðar sama texta fyrir innansveitarblaðið, kemur því síðan frá sér upp á drævið. Hann tekur svo óvæntar syrpur á EOS-inn, smellir og smellir og gerir síðan tilraunir með útkomuna með dularfullum tölvuforritum, sem oftar en ekki hlýða ekk því sem þeim er ætlað að gera. 

Í aðdraganda aðventu sameinast þessi tvö í því að raða nótum í möppur, vita ekkert hvenær næsta æfing er, eða með hverjum, sem vissulega skapar gundvöll til hástemmdra umræðna um tilgang þessa alls. Þau líta svo að á tvo viðburðir á tónlistarsviðinu á næstunni beri hæst og séu mikilvægastir: útgáfutónleikar í Salnum í Kópavogi þann 26. nóvember þar sem frumburðurinn fylgir glænýjum hljómdiski sínum, sem kallast 'Leiðsla', úr hlaði og síðan árlegir aðventu- eða jólatónleikar í Skálholti þann 9. desember, þar sem ofangreindur frumburður og sunnlenskur eðalsópran leiða gesti inn í jólaskapið með aðstoð okkar sem erum búin að vera að flokka nótur og ruglast á æfingum, sem eru einhverntíma, einhversstaðar með einhverjum.

Við ætlum fyrir utan þessa tvo viðburði, að vera virkir þátttakendur í tónleikum á Laugalandi í Rangárþingi ytra þann fyrsta desember og Skálholti þann 3. desember, með rangæskum ágætis kór. 

Þessi hefur haft það á orði, að það sé eins gott að hann er farinn að minnka við sig. 

Málaralist, ljósmyndlist, ritlist og sönglist veita öllum litum regnbogans inn í drunga regnvotra vikna. 


11 nóvember, 2016

Persónulegur ávinningur

Þetta er hún, græna tunnan sem við bíðum eftir.
Við fD bíðum í ofvæni eftir grænu tunnunni sem á að taka við plasti sem til fellur á vestrænu heimili okkar og það er sko hreint ekki lítið, frekar en á öðrum vestrænum heimilum. Við erum meira að segja byrjuð að safna í svartan plastpoka. Tunnan birtist, af einhverjum ástæðum ekki enn og svarti plastpokinn fyllist óðum og það er meira að segja búið að kjósa alræmdan umhverfissinna til að stýra landi hinna frjálsu næstu fjögur árin (reyndar ekki, en þetta var tilraun til smá kaldhæðni), síðan tilkynning barst um að tunnan væri á leiðinni.
Það er verkefni út af fyrir sig að breyta venjum sínum og reyna að muna eftir að setja allt plast í sérstakan plastpoka. Þetta hefur bara allt farið í ruslafötuna undir eldhúsvaskinum, en nú þarf að staldra við og hugsa í hvert skipti sem rusl eða úrgangur af einhverju tagi fellur til, hvað á að gera við hann. Það er hreint ekki pláss fyrir fleiri rusladalla í eldhúsinu, fD búin að leggja stærstan hluta þess lausa rýmis sem var í húsinu undir verkefni sín.  Okkur tókst, blessunarlega að venja okkur á að flokka allan pappír í sérstaka tunnu fyrir nokkrum árum, en það var fyrir nokkrum árum. Nú á að fara að bæta þessu við.  Miðað við fregnir úr nágrannaþorpum, þá er græna tunnan þegar komin þar við hvert hús, en hún er ekki komin við hús í Laugarási enn, svo vitað sé, en hvað veit ég svosem, og það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart.

Til hvers er allt þetta tunnutilstand, þegar upp er staðið?
Hvað græði ég á þessu? Það  er kannski einmitt kjarnaspurningin; spurningin um tilgang minn með því að hætta að vera það sem kallað hefur verið "umhverfissóði" og fara að gerast "umhverfissinni".

Er eitthvað sérstakt sem hvetur mig til þess (fyrir utan auðvitað frú Ragnheiði á Ljósalandi og mögulega frænku í Miðdal, sem báðar aka um á rafmagnsbílum og senda þannig frá sér þau skilaboð, að umhverfið skipti þær máli)?  Mér finnst að enn sé litið á fólk sem er ofurmeðvitað um mikilvægi þess að sinna umhverfisvernd af einhverju tagi, sem hálfgerða furðufugla. Ekki vil ég vera furðufugl, er það?
Er eitthvað sérstakt sem letur mig? 
Já, og þar er af nógu að taka. Meginstraumurinn í hinum vestræna heimi virðist vera að fara í hina áttina. Já, segi og skrifa.
Mér hefur verið sagt, að við Íslendingar, sem þykjumst vera voðalega framarlega í umhverfisvernd og einstaklega meðvitaðir um allt sem lýtur að því að bjarga heiminum, séum mestu umhverfissóðar allra. Mér hefur verið sagt (sel það ekki dýrar en ég keypti, eins og stundum er sagt) að vistspor hvers Íslendings sé stærra en nokkurs annars fólks á jörðinni okkar bláu.  Við erum bara svo fá og í svo stóru landi, að það munar svo lítið um það. Getum afsakað okkur með því. Svo er vindasamt hjá okkur og það blæs menguninni eitthvað út í hafsauga.

Ég, núna
Það er hægt að undirrita í hálfkæringi allskonar alþjóðasamninga.
"Ég fagna því að náðst hefur sögulegt og metnaðarfullt samkomulag í loftslagsmálum á Parísarfundinum og við munum leggja okkar af mörkum bæði hér heima og við að miðla þekkingu okkar og reynslu til annara þjóða", segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. (MBL12/12, 2015)
Rauðvín frá Chile sem heitir
TerraMater - Móðir Jörð -
nafnið er viðeigandi
Fór þá ekki allt á fullt hjá íslenskum stjórnvöldum við að vinna í málinu? Ekki aldeilis. Unginn úr árinu 2016 hefur farið í að fjalla um aðra hluti en að hefja björgunaraðgerðir. Ætli mestur krafturinn í starfi stjórnmálamanna  síðan (ekki síst forsætisráðherrans sem vitnað er til) hafi ekki farið í að bjarga sjálfum sér, frekar en að vinda sér að að vinna að málum sem skipta alla máli. Það er einmitt kjarni málsins. Parísarsamkomulagið var ekkert sérstaklega áberandi í umræðunni fyrir Alþingiskosningarnar þann 29. október.
Það eru allir að bíða eftir að einhverjir aðrir taki til í sínum garði. Við gerum kröfur til annarra, en ekki okkar sjálfra. Okkar hluti veraldar gerir út á einstaklingshyggjuna. Hver er sjálfum sér næstur, og allt það.


Þegar ég fer í vínbúðina til að kaupa mér rauðvín þá fer ég auðvitað ekki að blanda því við umhverfismál, er það?  Ég sé þetta fína rauðvín frá Chile. Fer ég að pæla í því að það sem búið að flytja ríflega 12000 kílómetra, væntalega með skipi sem brennir jarðefnaeldsneyti? Rauðvínið mitt frá Chile í glerflösku, sem er helmingurinn af þyngdinni, sem síðan endar í flöskumóttökunni (ef ég á annað borð pæli eitthvað í því). Ef ég leiði hugann að umhverfismálum í tengslum við rauðvínskaupin, er ég snöggur að segja við sjálfan mig, að það geti nú ekki haft mikil áhrif á umhverfi heimsins að flytja eina flösku af rauðvíni frá Chile. Ég get líka sagt við sjálfan mig að fyrst aðrir kaupa rauðvín frá Chile, megi ég það ekki síður. Hversvegna á ég að neita mér um það sem aðrir leyfa sér, ef ég hef efni á því?
Þetta rauðvín er bara lítið dæmi sem hægt er að yfirfæra yfir flest það sem telja má munaðarvarning sem er eitt megineinkennið á ofgnóttarsamfélaginum sem við  búum í.   Í þessu samfélagi hreykjum við okkur af því, frekar en hitt, að láta aðra vita af því þegar við kaupum exótískar vörur sem eru langt að komnar.

Ég hef ekki trú á því að neitt umtalsvert gerist til að bjarga jörðinni frá þeim ósköpum sem hennar bíða, að mati þeirra sem til þekkja, fyrr en Vesturlandabúum verður settur stóllinn fyrir dyrnar með einhverjum hætti. Til að svo megi verða þarf að setja lög og reglur sem takamarka hitt og þetta og það verður ekki sársaukalaust, ef af verður. Stærsta orrustan verður þá líklega á milli stjórnvalda og þeirra sem eiga hagsmuna að gæta í því að framleiða og flytja heimshorna á milli, varning til kaupenda sem eiga pening.

Ég lít ekki á þessi skrif mín hér og nú sem pólitísk. Það sem hér er um að ræða er miklu merkilegra og  örlagaríkara en svo að réttmætt sé að setja það í flokk með pólitík eins og við höfum búið við á þessu landi.





08 nóvember, 2016

"...all men are created equal" í tilefni dagsins

Ég velti því fyrir mér, svona í tilefni dagsins, hvort sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna heimili konu að vera forseti.

Ég lærði ensku þannig, að það væri munur á MAN og A MAN, þar sem hið fyrrnefnda vísar til alls mannkyns og er ekki  til í fleirtölu og hið síðarnefnda merkir karl(maður) sem er síðan MEN í fleirtölu.
Það hefur enginn fengið mig til að efast um að svona sé þetta og hafi alltaf verið.
Sambærilegt orð í íslensku er dálítið öðurvísi og vefst ansi mikið fyrir okkur.
Ef þú er kvenkyns mannvera þá ertu KONA eða KVENMAÐUR ef þú er karlkyns mannvera ertu með sama hætti KARL eða KARLMAÐUR. Orðið MAÐUR í íslensku vísar hinsvegar til beggja kynja.  Þetta virðist mörgum okkar ekki vera ljóst, enda tala þau um KONUR og MENN, sem maður hlýtur þá að skilja sem svo, að konur séu ekki hluti af mannkyninu, heldur eitthvað allt annað.
Nóg um það.

Eftirfarandi er umræddur hluti úr sjálfstæðisyfirlýsingunni:
"We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness."
Við lítum svo á að allir karlmenn séu skapaðir (fæddir) jafnir og svo framvegis.  Þetta var upprunalega merkingin, fyrir utan það, að sjálfsögðu, að þarna var aðeins átt við frjálsa, hvíta karlmenn sem áttu eignir. "really meant that "all free, property-owning males are created equal".
Það var meira að segja svo, að Thomas Jefferson, sem skrifaði yfirlýsinguna átti sjálfur 200 þræla, sem augljóslega nutu ekki sömu réttinda og hann.
Þó fólk segi nú að þó svo aðeins sé talað um karlmenn í yfirlýsingunni þá sé merkingin nú orðin miklu víðtækari og nái til allra.
En er það svo í raun?
Er ekki einmitt líklegt, að þessi yfirlýsing sé einn stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir jafnrétti kynjanna og jafnrétti kynþáttanna, eða jafnrétti, yfirleitt?

Svona eru nú pælingar manns einfaldar á þessum mikla degi Bandaríkjamanna. Dálítið trumpískar, bara.

29 október, 2016

Dagurinn í dag

Þar sem ég er búinn að segja allt sem ég ætla að segja um þessar kosningar til Alþingis ætla ég bara að taka eitthvað annað fyrir.

Flest það sem mér dettur í hug á þessum þungbúna degi, eftir að hafa farið í hraustlega kraftgöngu klukkan 11, undir regnhlíf sem varla dugði til að koma í veg fyrir að ég yrði holdvotur og eftir að hafa komið til baka, stoltur yfir því að hafa gengið þrjá og hálfan kílómetra, stoltur yfir því að geta bara yfirleitt verið stoltur yfir einhverju, er fremur þunglamalegt. Ég ætla þó að freista þess að dæla þeim þyngslum ekki yfir annað fólk; fólk sem í sakleysi sínu hrasar inn á þessi skrif.
Þó þetta sé dagur sem kann að ráða úrslitum um hvernig lífi okkar næstu árin verður háttað og fátt jákvætt virðist þar vera í kortunum, þá er þetta einnig dagur fyrir ofurlítið ljóð.

Þetta er dagurinn í dag.


Dagurinn, þar sem einmana músarrindillinn hoppar og skoppar, rennblautur milli trjágreinanna og hefur ekki vit á að koma sér í skjól, ekki frekar en of stór hluti okkar hefur ekki vit á að kjósa rétt.

Dagurinn, þegar hálfaumkunarverðir túristar á bílaleigubíl stoppa við götukortið af Laugarási og botna hvorki upp né niður í því áður en þeir halda áfram inn í rigningun, svona eins og kjósendur sem nenna ekki að velta neinu fyrir sér.

Dagurinn, þegar ekki var slegið met í fjölda fólks í heilsubótargöngunni, svona eins og........já.

Dagurinn, þegar rennurnar á húsinu höfðu ekki undan að flytja regnvatnið alla leið niður í skurð, rétt eins og heilinn í okkur ræður ekki við að meðtaka allt áreitið sem hann verður fyrir, hvort sem hann vill eða ekki.

Dagurinn, þegar Laugarásbúar kíkja út úr skógarþykkninu til að kjósa yfir sig nýtt þing til næstu fjögurra ára. Það er eins gott að þeir kjósi nú rétt.

Dagurinn, þegar ég þurfti að velta fyrir mér stöðu fjölskyldna og skóla og vorkenndi bæði fjölskyldunum og skólunum.

Dagurinn, þegar álftirnar á Hvítá, einnig þessi vængbrotna, höfðu fært sig um set.

Dagurinn, þegar kjósendur þurfa að réttlæta atkvæðið sitt opinberlega á samfélagsmiðlum.

Dagurinn, þegar ég stillti sprittkertu upp á bakvið bing af hreindýramosa áður en ég tók mynd af herlegheitunum.

Dagurinn, þegar ég velti fyrir mér hvar best er að setja krossinn þannig að líkurnar á því að eitthvað jákvætt komi út úr því aukist.

Dagurinn, þegar mig langar dálítið í heitt kakó og rjómapönnukökur.

Dagurinn, þegar regninu slotar, droparnir úr yfirfullum rennunum þagna og fyrirheit eru gefin um að framtíðin verðir björt.

Þetta er svona dagur.


23 október, 2016

Hvar setur maður krossinn? (2)

Hér er framhaldið leiðbeiningum mínum til lesenda, eftir allmargar áskoranir, um það hvar þeir ættu að setja krossinn sinn á kjördag, þann 29. október.  Í fyrri hluta leiðbeininganna renndi ég mér yfir fimm þeirra flokka sem bjóða fram á landsvísu. Það þýðir að ég á eftir að afgreiða fjóra sem þannig háttar um og síðan eina þrjá, sem bjóða ekki fram allsstaðar.
Ég tek eftirfarandi fram aftur, svo enginn verði misskilningurinn: 
Við vinnsluna hef ég ekki aðrar heimildir en annað eyrað, sem ég hef notað til að hlusta á stjórnmálaumræður, og annað augað sem ég hef notað til að renna yfir helstu fyrirsagnir fjölmiðla (utan eins sem ég hef ekki augum litið nema í fjarska síðan árið 2009). Við ofangreindar heimildir bæti ég síðan skvettu (dassi) af eigin reynslu og hyggjuviti. 
Þá er bara að vinda sér í þetta:

P-listi: Píratar

Þú kýst Pírata ef:
- þú vilt grundvallarbreytingar á samfélaginu.
- þú veist fátt verra en fjórflokkinn.
- þú ert tölvunörd
- þú vilt nýja stjórnarskrá.
- þú er fyrrverandi stærðfræðikennari við framhaldsskóla í uppsveitunum.
- þú vilt flokk sem er hvorki hægra megin né vinstra megin, en ert ekki viss.....
- þér finnst geðveikt kúl að kjósa flokk með útlenskt nafn.
- þú "notar" en hefur samt rænu á að mæta á kjörstað.
- þú kýst alltaf flokka sem fá mikið fylgi í skoðanakönnunum.
- þú ert áhættufíkill.
- þú ert búin(n) að fá upp í kok af þessu ógeðslega samfélagi.
- þú er áhugmanneskja um að kjósa oft um flest.
- karlþingmaður flokksins hefur alveg náð þér (meira að segja þó hann sé ekki í framboði).
- þú er fyrir dálítið kaótíska aðferð við að taka ákvarðanir.
- þig langar að segja fokk við fjórflokkinn.
- þú ert tölvulistaspíra.
- þú starfar hjá tölvuleikjafyrirtæki.
- gegnsæi er lykilorðið í þínum huga.

S-listi: Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands

Þú kýst Samfylkinguna ef: 
- þú talar um flokkinn sem Samfylkinguna en ekki Samfó.
- þú ert jafnaðarmanneskja af gamla skólanum.
- þú studdir Alþýðuflokkinn í denn.
- þú vorkennir forystufólki í Samfylkingunni vegna þess hve illa flokkurinn kemur út í skoðanakönnunum.
- þú ert hlynntur aðildarumsókn að ESB.
- þú ert krati og stolt(ur) af því.
- þér líkar jarðbundinn og látlaus stíll formannsins.
- þú skilur ekki hversvegna flokkurinn er talinn vera hluti fjórflokksins.
- þú getur ekki fyrirgefið Bjartri framtíð að hafa hlaupist undan merkjum.
- þér finnst skemmtileg áskorun að skilja málefnin sem flokkurinn berst fyrir.
- þú ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en ruglast. Er Flokkurinn ekki örugglega með S?

T-listi: Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði

Þú kýst Dögun ef:
- þig langar að segja "fokk" við fjórflokkinn.
- þú manst ekki hvort þú ætlaðir að kjósa þennan flokk eða Flokk fólksins og setur bara krossinn hér.
- þú ímyndar þér að þessi flokkur muni komast í aðstöðu til að gera eitthvað, annars er þér bara alveg sama.
- þú vilt refsa öllum flokkum á Alþingi nema Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
- þú telur Ingu Sæland vera í þessum flokki. Þér finnst hún svo frábær.
- þú vilt senda fjórflokknum skýr skilaboð um óánægju þína.
- þú ert ofurhörð baráttumanneskja fyrir bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín.
- þér finnst að flokkurinn berjist fyrir öllu sem bæta mun hag þjóðarinnar.
- þú vilt ekki skila auðu og ekki gera ógilt.
- þú ert þessi nörd sem gaumgæfir stefnur allra flokka og finnur hjá þessum flokki nákvæmlega það sem þú vilt sjá gerast í samfélaginu.
- þú horfir á Friends í endursýningu.
- þú varst á Austurvelli veturinn 2008-9.
- þú setur krossinn bara hipsum hapsum og hann lendir á þessum flokki.
- þú ert kjósandinn sem styður minnimáttar.

V-listi: Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Þú styður Vinstrihreyfinguna - grænt framboð ef:
- þú ert femínisti
- þú ert öfgafemínisti, en samt ekki ein(n) af þeim sem hættu í Sjálfstæðisflokknum. Það væri of rosalegt.
- þú skilgreinir þig sem sósíalista.
- þú studdir Alþýðubandalagið í denn.
- þú ert heilluð/heillaður af formanninum.
- þú ert pólitísk(ur).
- þú hefur einstrengingslegar skoðanir á flestum málum.
- þú ert vinstrivinstrikrati.
- þú ert á móti aðild að ESB.
- þú ert listaspíra.
- þú trúir því að það þurfi að hafa hugsjónir í pólitík.
- þú þolir hreint ekki spillingu og baktjaldamakk.
- þú ert baráttumanneskja fyrir náttúruvernd.
- þú vilt "eitthvað annað" en stóriðju til að efla atvinnulíf.
- þú ert sérstök baráttumanneskja gegn kúgun auðvaldsins.

Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Norðausturkjördæmi, Suðurkjördæmi, Suðvesturkjördæmi og Reykjavíkurkjördæmum norður og suður:

R-listi: Alþýðufylkingin

Þú kýst Alþýðufylkinguna ef:
- þér finnst VG ekki vera nægilega vinstrisinnaður.
- þú varst félagi í Fylkingunni í den, og vilt bara vera þar ennþá.
- þú telur svona flokk eiga erindi við nútímafólk með síma.
- þú vilt gefa skít í fjórflokkinn, sama hvað.
- þú ert dálítill byltingarsinni í þér.
- þú varst hrifin(n) af liði Fljótsdalshéraðs í Útsvari í fyrra.
- þú þekkir ekki muninn á þessum flokki og Þjóðfylkingunni. Skellir krossinum bara hér.


Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi:

E-listi: Íslenska þjóðfylkingin

Þú kýst Íslensku þjóðfylkinguna ef:
- þú ert á "E"
- formaðurinn hefur ekki verið rekinn úr flokknum.
- þú ert rasisti í þeim skilningi sem lagður er í það orð á samfélagsmiðlum.
- þú vilt loka landamærum.
- þú hefur andúð á múslimum.
- þú ert á móti mosku.
- þú varst einu sinni Hægri græn(n), en þurftir að samþykkja að aðhyllast skoðanir Þjóðfylkingarinnar til að lifa af.
- þú hlustar á útvarp Sögu allan daginn.....alla daga.
- þú varst einusinni í Fylkingunni og fyrir þér er fylking bara fylking.
- þú uppfyllir ofangreind skilyrði og ert á kjörská í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi og setur krossinn ekki óvart á Alþýðufylkinguna.

Eftirfarandi stjórnmálasamtök bjóða fram lista í Reykjavíkurkjördæmi suður:

H-listi: Húmanistaflokkurinn

Þú kýst Húmanistaflokkinn ef þú ert á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmi suður og ef:
- þú telur þig vera meiri húmanista en annað fólk.
- þér finnst mikilvægt að flækja málin.
- þér finnst mikilvægt að hafa langan aðdraganda að inntaki stefnu flokksins.
- þú vilt að fjölmiðlun virki eins og um 1960.
- þér finnst formaðurinn ljúfur og staðfastur karl.

------------------------------------------------------------
Þá er komið að niðurstöðunni.
Nú er ég búinn að taka fyrir öll framboð til Alþingis í komandi kosningum. Nálgun mín af verkefninu felst að stórum hluta með því að skella einhverjum merkimiðum á framboðin, sem taka mið af tvennu:
- einhverjum þeirra stefnumála sem ég hef séð fljóta framhjá þar sem ég hef hlustað með öðru eyranu og horft með öðru auganu.
- alhæfingum, sem byggja að stærstum hluta á myndum (misskýrum) sem koma í hugann þegar ég leiði hugann að viðkomandi framboði.
Þetta er ein leiðin til að velja sér fulltrúa á Alþingi.

Það eru til fleiri leiðir.
Ég finn sjálfur engan flokk sem hefur allt það sem mér finnst að minn flokkur þurfi að hafa. Ég ætla samt að kjósa, að sjálfsögðu, því ef ég hefði ekki rétt til að taka þátt í að kjósa til Alþingis eða sveitarstjórnar, hver væri staða mín þá?
Svona set ég dæmið upp:
1. Hverjar eru lífsskoðanir mínar? Hvernig samfélag vil ég?  Hver er ég? Ég byrja á að svara þessum spurningum. Þetta eru engar smá spurningar.
2. Búinn að svara spurningunum. Þá spyr ég: Hverjum þessara flokka sem bjóða fram TREYSTI ég best (reynslan) til að vinna að óskum mínum?  Það getur vel verið að þá komi ekki nema einn flokkur til greina, en þeir geta einnig orði einir fjórir eða fimm. hvað geri ég þá?
3. Hver þessara flokka er líklegur til að koma manni á þing? Það er nú heldur lítið gagn í því að kjósa einhvern flokk sem mun ekki eiga fulltrúa á Alþingi eftir kosningar, er það? þarna get ég verið búinn að þrengja valkostina talsvert mikið.
4. Nú er komið að lokaatrennunni og það gerist með því að bera saman valkostina sem eftir standa.  Þar kann eitthvað að koma fram sem hljómar betur en annað og leysir þannig málið.
5. Ef enn er vandi með valið, þá er bara að bíð þar til í kjörklefanum. 

Ég hef eiginlega bar eitt megin ráð til kjósenda: "Ekki kjósa bara "af því bara". Það er ábyrgðarleysi. Þú ættir að reyna að sjá fyrir þér hvernig samfélag þú vilt og kjósa að því búnu. Þá hefur þú kosið rétt.
________________________


Svona rétt í lokin, til að bjarga mannorðinu, ef það er þá til staðar.  
Ef einhver ykkar hafa ekki húmor fyrir kosningaleiðbeiningum mínum í þessum skrifum, þá bið ég þá að láta bara vera að kíkja á bloggskrif mín yfirleitt og leita fanga frekar þar sem þeim líður betur með málflutninginn. 
Megum við öll kjósa rétt.



22 október, 2016

Hvar setur maður krossinn? (1)

"Svona rétt áður en ég held á kjörstað", kallaði ég pistil sem ég lét frá mér fara rétt fyrir síðustu kosningar. Þar var um að ræða pælingar mínar í aðdragandanum, þar sem ég reyndi að binda endahnútinn á ákvörðuðnarferli. 
Nú hefur fólk komið að máli við mig og farið þess á leit að ég sendi frá mér leiðbeiningar um hvernig atkvæði þess verður best varið; hvernig það eigi að kjósa. Mér er ljúft og skylt að verða við þessum óskum, eins og nærri má geta. 
Við vinnsluna hef ég ekki aðrar heimildir en annað eyrað, sem ég hef notað til að hlusta á stjórnmálaumræður, og annað augað sem ég hef notað til að renna yfir helstu fyrirsagnir fjölmiðla (utan eins sem ég hef ekki augum litið nema í fjarska síðan árið 2009). Við ofangreindar heimildir bæti ég síðan skvettu (dassi) af eigin reynslu og hyggjuviti, en þessir tveir þættir fleyta mér ansi langt við að ljúka þessu verki.
Ég mun hér á eftir  og í næstu færslu, taka fyrir flokkana sem bjóða fram og sé til hvort mér tekst að fjalla um þá alla, en hér er um að ræða meiri vinnu en flestir geta ímyndað sér. 
Ég tek flokkana fyrir í stafrófsröð listabókstafanna.

Hefst þá leikurinn:

Eftirfarandi listar hafa verið boðnir fram í öllum kjördæmum:

A-listi: Björt framtíð

Þú kýst Bjarta framtíð ef:
- þú elur í brjósti vonina um bjarta framtíð þessarar þjóðar.
- þú hefur sömu skoðun á helstu þjóðþrifamálum og frambjóðendur þessa flokks halda á lofti.
- ef það skiptir þig máli að stjórnmálaumræða verði hófstilltari
- þú býrð á Torfastöðum.
- þér finnst sniðugt að einn frambjóðandinn heitir einmitt eins og flokkurinn.
- þú ert dálítill pönkari inn við beinið.
- þú átt erfitt með að skilgreina þig sem Vinstri græna(n).
- þú hefur orðið fyrir vonbrigðum með Samfylkinguna.
- ef þú er til í að skoða aðild að ESB.

B-listi: Framsóknarflokkur

Þú kýst Framsóknarflokkinn ef:
- þú ert bóndi sem kýst ekki Sjálfstæðisflokkinn.
- þú er andstæðingur ESB aðildar.
- þú ert Skagfirðingur.
- þú býrð í Hrunamannahreppi.
- þú átt(ir) digran sjóð á aflandseyju.
- þú væntir þess að nú sé gamla framsókn mætt aftur á svæðið.
- þú telur að flokkurinn hafi staðið sig vel í ríkisstjórn.
- þú hefur grætt á því persónulega að flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn.
- þú er aðdáandi mest áberandi flokksmannanna á kjörtímabilinu.
- þú ert bara framsóknarmaður í hjarta þínu og það breytir þig engu til eða frá hvað gert er í nafni hans.
- þú átt auðvelt með að gleyma. Gast t.d. aldrei lært margföldunartöfluna.
- þú ert frekar mikill tréhaus.
- þú ert ekki pólitískur, að eigin sögn.
- þú hlustar á útvarp sögu daglega.
- þú hefur notið þess umfram stuðningsmenn annarra flokka (að undanskildum sjálfstæðismönnum, að sjálfsögðu), að vera framsóknarmaður.

C-listi: Viðreisn

Þú kýst Viðreisn ef:
- þú ert kona úr Sjálfstæðisflokknum.
- þú rekur eigið fyrirtæki.
- þú trúir á frelsi einstaklingsins til orða og athafna.
- þú er jákvæður fyrir því að ganga í ESB.
- þú hefur ekki fengið að njóta þín þrátt fyrir að hafa alltaf kosið sjálfstæðisflokkinn.
- þú vilt gæta hagsmuna þeirra sem meira mega sín.
- þú ímyndar þér að flokkurinn sé tilraun til að brjótast undan valdi fjórflokksins.
- þú telur að þú munir standast freistinguna að henda krossinum á gamla flokkinn þegar þú mætir í kjörklefann.
- þú ert jafnaðarmaður sem telur víst að flokkurinn sé nær miðjunni en sjálfstæðisflokkurinn.
- þú telur forystumenn flokksins vera hugsjónafólk, sem mun berjast fyrir bættum heimi.
- þú studdir samfylkinguna þegar hún hallaði sér til hægri.
- þú studdir framsóknarflokkinn síðast, en finnst hann nú vera að færast of lang til vinstri.
- þú studdir framsóknarflokkinn síðast, en getur ekki sætt þig við brotthvarf SDG úr forystu hans.
- þú studdir framsóknarflokkinn síðast, en getur ekki sætt þig við spillinguna sem grasserar hvar sem hann kemur niður fæti.
- þú studdir sjálfstæðisflokkinn síðast, en getur ekki sætt þig við spillinguna sem grasserar hvar sem hann nær að stíga niður fæti.

D-listi: Sjálfstæðisflokkur 

Þú kýst Sjálfstæðisflokkinn ef:

- þú ert alþýðumaður þeirrar gerðar, að fyrirmenni af einhverju tagi höfða til litla þín.
- þú ert af flokksættum.
- þú átt fyrirtæki.
- þú er ópólitísk(ur).
- þú þolir í rauninni ekki eitthvað samfélags/samneyslukjaftæði, þó þú talir ekki þannig.
- þú lítur á flokkinn sem Flokkinn.
- þér tekst ekki að bakka út úr því að telja þig vera sjálfstæðismann.
- þú ert "HOT".
- þú ert miðaldra, hvítur karl í góðri stöðu.
- þú ert lögfræðingur eða með sambærilega tegund menntunar.
- þú ert bóndi sem kýst ekki framsóknarflokkinn.
- þú þráir stöðugleika samfélags þar sem hinir ríku og valdamiklu fá óáreittir að vera áfram ríkir og valdamiklir.
- þú hefur litlar tekjur en trúir því að það sé í rauninni þinn hagur að auðmenn og fyrirtæki verið sem öflugust. Þú trúir því að þá komi að því að þessir aðila geta ekki notað allan gróðann sinn og það sem afgangs verður muni koma þér til góða. (brauðmolakenningin).
 - þú hefur notið þess umfram stuðningsmenn annarra flokka (að undanskildum framsóknarmönnum að sjálfsögðu), að vera sjálfstæðismaður.
- þú trúir á íslenska drauminn, þar sem þú rétt skrimtir af örorkubótunum þínum eða ellilífeyrinum.
- þú átt auðvelt með að gleyma. Gast t.d. aldrei lært stafrófið.

F-listi: Flokkur fólksins

Þú kýst Flokk fólksins ef:
- þig langar að segja "fokk" við fjórflokkinn.
- þú ert heilluð/heillaður af formanninum.
- þú ímyndar þér að þessi flokkur muni komast í aðstöðu til að gera eitthvað.
- þú vilt refsa öllum flokkum á Alþingi nema Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
- þú ert Sæland. Þér rennur blóðið til skyldunnar.
- þú ruglast. Ætlaðir að kjósa Dögun, en blandaðir þessum flokkum óvart saman.
- þú vilt senda fjórflokknum skýr skilaboð um óánægju þína.
- þú ert eitilhörð baráttumanneskja fyrir bættum kjörum þeirra sem minnst mega sín.
- þér finnst að flokkurinn berjist fyrir öllu sem bæta mun hag þjóðarinnar.
- þú vilt ekki skila auðu og ekki gera ógilt.
- þú ert þessi nörd sem gaumgæfir stefnur allra flokka og finnur hjá þessum flokki nákvæmlega það sem þú vilt sjá gerast í samfélaginu.

----------------------------
Þá leyfi ég ykkur, lesendur góðir, að athuga hvort þið finnið ykkur sjálf í stuðningsliði einhverra þeirra flokka sem ég er búinn að gera grein fyrir. Ef ekki, þá er bara að bíða eftir síðari skammtinum, en hann kemur vonandi með kvöldinu.
Ef einhver ykkar verða fyrir því að hitna í hamsi við lesturinn, bendi ég á þessar aðferðir til slökunar:
1. Beittu þindaröndun.
2. Núvitundarsession er góð hugmynd.
3. Slakaðu á vöðvum líkamans með því að spenna þá og slaka á þeim á víxl.
4. Farðu út að ganga eða skokka. Því æstari sem þú ert, því hraðar skaltu hlaupa.
5. Gældu við gæludýrið þitt. Ef þú átt ekkert slíkt, er mögulegt að strjúka bara húsdýrunum. Það róar, sannaðu til.
6. Borðaðu gulrót eða drekktu eitt glas af rauðrófusafa (minnkar blóðþrýsting)
7. Forðastu fyrir alla muni að fá þér kaffi, sígarettu, bjór eða vodka.
8. Dreifðu huganum með því að fara út að taka myndir af haustlaufum.
9. Hringdu í flokksfélaga.
10. Teldu upp að 2016.
11. Skrifaðu þig frá þessu.
12. Taktu ákvörðun um að vera jákvæð(ur)
13. Kynntu þér hugræna atferlismeðferð.
14. Fáðu þér eina róandi.

Vonandi duga þessi ráð fram að seini hluta þessara leiðbeininga um hvernig þú ættir að kjósa laugardaginn 29. október, næstkomandi.


11 október, 2016

Ég, hálfvitinn

"Ertu þá hálfviti?" spurði einn starfsfélaginn mig í dag. Að sjálfsögðu játti ég því til þess að komast hjá því að svara spurningum um mál sem ég vissi ekkert sérstaklega mikið um.

Gegnum tíðina hafa orðið til ótal, ágæt, íslensk orð yfir ýmiss konar ástand á fólki; orð sem voru bara ágæt til síns brúks þegar þau urðu til. Þessi orð eiga það sameiginlegt að hafa síðan umbreyst smám saman og orðið að örgustu skammaryrðum og horfið út úr orðaforða siðaðs fólks.

Ég er nú í þeirri stöðu að vera að stíga, hægt og hægt út úr starfi sem ég hef gegnt lengi, þar sem ég hef safnað í höfuðið heilmiklu viti um flest það sem lýtur að stofnuninni sem ég vinn við. Með þessari breytingu gerist það smám saman að ég veit æ minna um það sem gerist nýtt og hef því meiri tíma til að velta mér upp úr því sem var. Það sem var myndar síðan grunninn sem ég byggi á hæfileika mína til ráðgjafar af ýmsu tagi, eftir því sem eftir er leitað og þörf er fyrir. Mér kemur alltaf í huga þegar gamla tíma ber á góma, þegar Hreinn heitinn Ragnarsson hóf mál sitt á kennarafundum með þessum orðum: "Í Héraðsskólanum........". Samstundis skynjaði maður það í hópnum að fólkið var ekkert sérstaklega tilbúið að leggja við hlustir, eða taka mark á einhverju sem gert hafði verið í Héraðsskólanum fyrir áratugum.  Allt á sinn tíma og nútíminn er ekkert sérstaklega ginnkeyptur fyrir því að gapa við vísdómsorðum, sem geta jafnvel einfaldað mörg mál og stuðlað að farsælli niðurstöðu. Menn telja sig oft vita betur.

Ég held að ég sé ekki kominn á sama stað og Hreinn að þessu leyti, ekki enn. Enn finn ég augu samstarfsmanna beinast að mér þegar spurning liggur í loftinu og bíður svars. Nú er ég stundum farinn að segja: "Ég veit það ekki!" og nýt þess jafnvel stundum. Ef ég veit svörin, svara ég auðvitað og ég vona að þeim skiptum fari ekki mjög hratt fjölgandi þegar ég veit ekki. Við sjáum til með það.

Hvað um það. Hér er ég búinn að finna ágæta leið, að eigin mati til að endurnýta gömul orð sem hafa hlotið þau örlög að verða ónothæf.
Þetta virkar einfaldlega þannig, að þegar starfsmaður stofnunar eða fyrirtækis er byrjaður að draga saman seglin og veit jafnvel ekki lengur nema helming þess sem hann vissi þegar hann var upp á sitt besta, myndi samkvæmt þessu teljast vera hálfviti.  Þegar lengra líður síðan gæti hann orðið kvartviti, með um það bil fjórðung hámarks vits á innviðunum, þá örviti, sem veit örlítð, sem væri svona um það bil sem hann er endanlega að kveðja vinnustaðinn og loks óviti, sem myndi gerast við það að hann hætti störfum.

Eftir á að hyggja er ég ekki orðinn hálfviti ennþá, ef miðað er við ofangreinda skilgreiningu. Ætli ég sé ekki nær því að teljast vera ofviti, sem stefnir í að verða bara viti, áður en ég verð trekvartviti og síðan hálfviti og svo fram eftir götunum.

Já, þetta er aldeilis ekki búið enn.

24 september, 2016

Var Macbeth framsóknarmaður?

Um þessa mynd: sjá neðst.
Það getur verið gaman að samsæriskenningum, þó sannarlega séu þær oftast bara kenningar.  Nýjustu vendingar innan framsóknarflokksins kölluðu fram í huganum ákveðið samhengi milli þess sem átti sér stað í leikritinu hans Shakespeares, Macbeth og tilrauna núverandi formanns framsóknarflokksins til að halda völdum. Þarna er auðvitað ekki um algera samsvörun að ræða, en samt að mörgu leyti keimlíka atburðarás. Hér reyni ég að koma þessu heim og saman,

Leikritið hefst á því að Macbeth, sem ber titilinn Thane of Glamis, er á leið yfir heiði í Skotlandi, eftir frækinn sigur í orrustu, ásamt vini sínum Banquo. Þar verða á vegi þeirra 3 nornir eða seiðkonur, sem spá honum glæstri framtíð. Annarsvegar að hann hann hljóti titilinn Thane of Cawdor, sem er talsvert merkilegri en sá sem hann þegar ber og hinsvegar að hann verði konungur Skotlands.  Þeir félagar halda síðan áfram för sinni og mæta þá konungsmönnum sem segja Macbeth að hann sé orðinn Thane of Cawdor. Nornirnar höfðu sagt rétt fyrir um þá upphefð. Þetta kveikir í Macbeth. Banquo varar hann þó við:
BANQUO
                                   But 'tis strange:
And oftentimes, to win us to our harm,
The instruments of darkness tell us truths,
Win us with honest trifles, to betray's
In deepest consequence.
Lauslega segir hann hér, að til þess að skaða okkur, lofi myrkraöflin okkur einhverju smáræði, sem gengur eftir, en svíki okkur síðan þegar mest á ríður.

Í stuttu máli þá drepur Macbeth Duncan Skotakonung og nær þannig krúnunni. Í framhaldinu hefst síðan blóðugur ferill hans í hásæti og hann sér óvin í hverju horni. Hann lætur meðal annars drepa Banquo vin sinn, þar sem nornirnar sögðu að hann yrði faðir konunga. 

Loks stendur hann frammi fyrir því að nornirnar höfðu verið að plata hann með orðaleikjum. Sem dæmi um það má nefna, að þær sögðu honum að enginn sá sem kona hefði fætt myndi geta sigrað hann.  Það fór hinsvegar svo að Malcolm, eldri sonur Duncan's, drap hann, eftir að hafa tjáð Macbeth að hann hefði verið tekinn úr kviði móður sinnar, fyrir tímann.

Mér hefur fundist að hjá framsóknarmönnum sé skiplögð atburðarrás í gangi, sem nær síðan hámarki á flokksþingi. Formaðurinn átti leið um heiðina sína Norðanlands þar sem hann hlaut afgerandi kosningu í fyrsta sæti framboðslistans (hann er, sem sagt, Thane of Cawdor).  Nornirnar sem spáðu honum æðstu metorðum tel ég vera þau VH, SM og GBS.
Hver vinur hans er, sem síðan er fórnað þar sem í honum á að felast ógn, veit ég ekki hver er, en hann gæti vel líkamnast í HÞÞ, með góðum vilja. Ekki veit ég heldur hvernig varaformaðurinn, sem nú hefur skorað hann á hólm, er annar en formaðurinn hafði búist við. Kannski varð það faðmlagið og loforðið sem reynist þýða annað en formaðurinn taldi.

-------------------------
MYNDIN
Myndin sem fylgir er jólagjöf sem ég gaf föður mínum árið 2009. Þar hafði ég búið til viðtal við hann um Framsóknarflokkinn í fortíð og nútíð, sem byggði að miklu leyti að því sem hafði komið fram í samræðum okkar um þann flokk.
Honum fannst jólagjöfin bara nokkuð fyndin. 
Ég hyl andlit systkina minna þar sem ég hef ekki beðið þau leyfis að fá að birta þau í samhengi við svona texta. 




11 september, 2016

Þessir kjósendur!

Dröfn Þorvaldsdóttir: (ónefnd fuglategund) 2016
Ég vil nú bara breyta því hvernig fólk velst á Alþingi. Ég veit að það vilja margir, en á ólíkum forsendum. Mig langar að hafa meiri bein áhrif á það hvaða fólk á mínum lista hlýtur kosningu.
Aðferðirnar sem eru notaðar við þetta núna, einkennast  af því að einhver fámennur hópur velur einhver frambjóðendapakka sem ég verð síðan að samþykkja, vilji ég kjósa einhvern flokk.
Þessar aðferðir stjórnmálaflokka til að velja fólk á lista fyrir kosningar eru gallaðar og stuðla hreint ekki endilega að því að kjósendur hafi nægileg áhrif á niðurstöðuna.

Prófkjör/flokksval
Sumir stjórnmálaflokkar halda prófkjör fyrir Alþingiskosningar. Þau fara eftir einhverjum reglum sem hver flokkur fyrir sig setur. Tilgangur þeirra er að velja fólk á lista fyrir kosningar. Prófkjörum er einnig ætlað að raða fólki á listana þannig, að sá sem flest atkvæði hlýtur í einhver tiltekin sæti fái það sæti. Þannig verður til pakki frambjóðenda, sem kjósendur geta síðan valið í kosningum. Þetta hljómar allt tiltölulega einfalt og lýðræðislegt. Við þurfum bara að ganga í einhvern flokk og þar með getum við haft áhrif á hvaða fólk fer í framboð og í hvaða röð í okkar kjördæmi.

Þetta er hinsvegar ekki aldeilis svona einfalt og þar kemur ýmislegt til.
1. Aðstöðumunur
Sitjandi þingmenn geta lagt verk sín í dóm samflokksmanna.
Sumir eru þekktari en aðrir.
Sumir eru snoppufríðari en aðrir (sigurvegari í prófkjöri í Suðurkjördæmi sagði aðspurður, að listinn hefði orðið "álitlegri" með konur ofar en reyndin varð :))
Sumir eru ríkari af veraldlegum auð en aðrir. Allir vita að peningar eru afl þess sem gera skal, líka í prófkjörum.
Kjósendur sumra flokka dást frekar að ákveðnum týpum af fólki (t.d. lögfræðingum eða körlum sem geta staðið í lappirnar, eins og það er kallað) og þar með getur listinn orðið ansi einhliða.

2. Smölun
Þeir sem hafa færi á því, vegna aðstöðu sinnar, að safna í flokkinn fólki beinlínis til þessa að þeir kjósi með tilteknum hætti og þá jafnvel gegn loforðum um eitthvað í staðinn.

3. Kynjakvótar
Þessir kvótar eiga að tryggja það að karla og konur skipist á lista í sem jöfnustum hlutföllum, sem getur þýtt að niðurstöðu prófkjörs verður breytt og þar með gengið gegn vilja kjósenda í prófkjörinu.
Mér finnst að aðall góðs eða öflugs þingmanns eigi að birtast í öðrum eiginleikum en kyni. Bæði kyn geta verið góðir og öflugir þingmenn.
Mér finnst reyndar margt fleira um þetta, en læt það bara ekki uppi.

4. Annað 
Fyrir utan þetta má örugglega tína til ótal flækjur í tengslum við þessi prófkjör.

Flokkurinn raðar
Einhver fámennur hópur flokksmanna raðar frambjóðendum á lista, sem er síðan samþykktur á einhverjum flokksfundi.  Fín aðferð fyrir svokallaða "flokksgæðinga", en síðri fyrir kjósendur.
--------
Ég vil hafa kosningar þannig, að ég þurfi fyrst að velja flokkinn minn og síðan þann sem ég vil sjá frá honum á Alþingi. Þetta myndi auðvitað gera ýmsum kjósendum erfitt fyrir þar sem þeir þyrftu að kjósa í tveim skrefum í stað eins: Fyrst að velja flokkinn og síðan þingmannsefnið. Sé þetta þeim ofviða, hafa þeir hreint ekkert að gera á kjörstað yfirleitt. 
Ég er kannski tregur, en ég átta mig ekki á hvaða vandkvæði myndu fylgja þessu fyrirkomulagi, enda myndi vilji kjósenda endurspeglast í því fólki sem fengi sæti á þingi. Þessi aðferð tel ég að myndi henta mjög vel í rafrænum kosningum: fyrst kæmi gluggi þar sem maður merkti við sinn flokk. Síðan kæmi gluggi þar sem maður merkti við sitt þingmannsefni. Loks kæmi gluggi sem tilkynnti þér, að atkvæðið væri komið til skila og þér þökkuð þátttakan.
Þetta myndi ég kalla lýðræðislegar kosningar.




02 september, 2016

Úrið

Þó frá og með nýliðnum mánaðamótum beri ég hinn virðulega titil  "ráðgjafi" þýðir það ekki að ég sé fær um að gefa ráð varðandi hvað sem er. Ráð mín varðandi nýja námskrá fyrir framhaldsskóla geta orðið óteljandi og viturleg að stærstum hluta, en þau munu sennilega ekki alltaf falla í kramið, þar sem þau litast óhjákvæmilega á skoðun minni á því fyrirbæri.
Ég hef skoðun á flestu og um margt get ég veitt fólki ráð kjósi ég svo. Þó eru til þau svið þar sem ráð mín, ef ég á annað borð er tilbúinn að gefa þau, munu verða gagnslaus og byggð á mikilli vanþekkingu og áhugaleysi. Þetta á t.d. við um nýja úrið sem fD fékk að gjöf frá afkomendum í tilefni stórafmælis fyrir nokkru.
"Hvernig virkar þetta?"
"Afhverju kemur þetta?
"Hvað á ég að gera núna?"
"Hvernig losna ég við þetta "auto"?"
"Hvað gerist svo þegar ég kem heim?"
"Á svo bara að smella hér?"
"Hvernig stillir maður þetta?"
Þessar spurningar eiga það sameiginlegt, að við þeim hef ég ekki haft nein svör og get þar af leiðandi ekki gefið nein ráð, utan hið eina sem ég gef ávallt þegar þær spretta fram: "Þú verður bara að spyrja..." svo nefni ég tiltekinn höfuðborgarbúa, sem er nær því að tilheyra græjukynslóð en við.
Að öðru leyti hljóma svör mín t.d. svona:
"ÉG veit það ekki."
"Ég hef ekki hugmynd um það."
"Hvernig á ég að vita það?"
"Þú bara syncar það við símann."
"Hef ekki grun um það."

Það er alveg sama þótt ráð mín varðandi úrið séu algerlega gagnslaus, spurningarnar spretta fram, þó vissulega fari þeim fækkandi og nú er orðið hægt að merkja meiri sjálbærni í samskiptum fD og úrsins.

Til nánari útskýringar á úrinu má geta þess, að um er að ræða svolkallað GPS-úr sem maður getur látið mæla nánast alla hreyfingar sem eiga sér stað í líkamanum, með mikilli nákvæmni, jafnt í vöku og svefni. Síðan er hægt að láta það senda upplýsingar í viðeigandi APP í símanum, þar sem síðan er hægt að njósna um líkamsstafsemi sína niður í smæstu einingar.  Svona græja hentar ekki síst fólki sem stundar líkamsrækt af einhverju tagi, til að mæla vegalengdir, skrefafjölda, hjartslátt og kalóríubrennslu, svo eitthvað sé nefnt.
Nú skellir fD úrinu á sig fyrir hverja gönguferð og tekst á endanum að láta það synca við símann að gönguferð lokinni. Fagnar glæstum kalóríubruna og spyr síðan hvernig hægt er að skoða þetta eða hitt, annað.
Það nýjasta snýst um þetta "AUTO", en þannig er á í gönguferðir fer hún með bæði úrið á úlnliðnum og símann í vasanum, hvorttveggja stillt il að mæla vegalengdir og kalóríubrennslu. Þegar hver ganga stendur síðan sem hæst byrjar úrið að láta ófriðlega á úlnliðnum, sýnir "auto" á skjánum og í sama mund hefst tónlistarflutningur í símanum. Það fór nánast heil ganga hjá henni fyrir nokkru í að finna út úr hvernig ætti á fá þessa "ömurlegu" tónlist til að hætta.  Það tókst hjá henni að lokum, en eftir stóð spurningin um tilganginn með látunum í úrinu og tónlistinni í símanum. Þessa spurningu fékk ég, ráðgjafinn. Þar sem ég, eðlilega, hef ekki hugmynd um þetta, svaraði svaraðí ég í þá veru.
"Ég fer þá með símann með mér í bæinn í dag."

Ég set spurningamerki við þetta úr, ekki síst þar sem talsvert oft hittist svo á, að ég slæst í för á gönguferðunum um Þorpið í skóginum og nágrenni. Það er nefnilega þannig, að með tilkomu úrsins hefur sprottið fram ófyrirsjáanleg samkeppni fD við sjálfa sig, með þeim afleiðingum að göngurnar verða æ lengri. Með sama áframhaldi verður spurning um hvort hún nær háttum (kvöldfréttum, á nútímamáli).


29 júlí, 2016

Líklega betra að koma ekki heim

Fyrrverandi forsætisráðherra steig inn í ljós fjölmiðlanna fyrir nokkrum dögum og tilkynnti endurkomu sína. Hvaða endurkoma er það? Hann situr á Alþingi sem fyrr. Er það þá endurkoma í forsætisráðuneytið?
Endurkomu sína tilkynnti hann þannig, að hann væri kominn heim, með tilvísum í lag og texta sem tengist aðallega glæstum árangri íslenskra landsliða í íþróttum þessi misserin.  Ég leyfi mér hér, aðallega, auðvitað að gamni mínu, að heimfæra texta Jóns Sigurðssonar upp á þessa meintu endurkomu fyrrverandi forsætisráðherra.

------------------------------



Er völlur grær og vetur flýr,
og vermir sólin grund.
Kem ég heim og hitti þig,
verð hjá þér alla stund.


Í þessari vísu er augljóslega verið að fjalla um að heimkoman verði næsta vor og það  skýrir sannarlega hversvegna sá sem segist vera kominn heim, hefur tjáð sig á öðrum vettvangi um að það skuli kosið í vor. 
Annarrar persónu fornafnið vísar augljóslega til þjóðarinnar og ber með sér að hann telji ástæðu til þess að hún hlakki til. Hann gerir einnig ráð fyrir því, að þegar kann kemur, verði það til frambúðar.


Við byggjum saman bæ í sveit,
sem brosir móti sól.
Þar ungu lífi landið mitt
mun ljá og veita skjól.


Hér er talað um bæ í sveit, sem bendir þá til þess, að um verði að ræða bæinn Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð, sem einmitt má sjá á meðfylgjandi mynd.
Hrafnabjörg í Jökulsárhlíð
Þar er þá líklega meiningin að sitja á pallinum og brosa með bænum mót austfirskri sólinni. 
Það er áhugavert, að samkvæmt þessu gerir sá sem segist vera kominn heim, ekki ráð fyrir að búa í Skrúðási 7 í Garðabæ, eins og gera hefði mátt ráð fyrir, enda verður það hús seint talið til sveitabæja. 
Að öðru leyti má lesa út úr þessari vísu, að við heimkomuna muni nýjum samflokksmönnum fjölga og þeir muni njóta þess að sá sem segist vera kominn heim, verði kominn heim. Sú framtíðarsýn kann að höfða til einhverra. Þá er þarna talað um "landið mitt" og þar með það slegið út af borðinu, að um land einhverra annarra sé að ræða, nema
Skrúðaás 7, Garðabæ
auðvitað um sé að ræða jörðina Hrafnabjörg út af fyrir sig.

Sól slær silfri á voga,
sjáðu jökulinn loga.
Allt er bjart yfir okkur tveim
því ég er kominn heim.

Hér er sleginn nokkuð rómatískur strengur og þar með þess freistað að höfða til tilfinninga lesandans. Vissulega má segja að Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð standi ekki fjarri Héraðsflóa (kort) og þar megi mögulega líta dans sólageislanna, en þá þarf auðvitað að hafa það í huga að Héraðsflói er flói en ekki vogur. Með því að kalla hann vog, er verið að gera lítið úr honum, en einmitt sú yfirlýsing gæti bent til þess að sá sem segist vera að koma heim, sé talsvert hrokafullur í eðli sínu.  
Tilvísunin í jökulinn sem logar í geislum kvöldsólarinnar er dálítið dularfull, enda engir jöklar á Norð-Austurlandi. Þarna er sá sem segist vera kominn heim að öllum líkindum að freista þess að höfða til víðari hóps, ekki síst á þeim landsvæðum þar sem einhverjir jöklar sjást, þar með höfuðborgarsvæðinu, þar með í Garðabæ, sem síðan má túlka sem tilboð til þeirra sem hallast frekar til hægri í stjórnmálum.

Sá sem segist vera kominn heim telur að allt verði bjart yfir honum og þjóðinni þegar hann kemur heim, en fjallar ekkert frekar um hvað það er, sem gefur tilefni til þeirrar yfirlýsingar. Birta getur verið svo margt: 
- birtan sem stafar frá sólinni og er grundvöllur lífs á jörðinni, 
- birtan sem verður til innra með fólki vegna einskærrar lífshamingju, 
- birtan sem verður til þegar frelsarinn snýr aftur frá himni (money heaven, ef til vill) 
- birtan sem leggst yfir þjóð sem hefur kosið réttan stjórnmálaflokk til valda, 
- birtan sem lýsir frá öflugum stjórnmálaleiðtoga. 
Það er mörg birtan, en ekki verður ráðið af vísunni hverskonar birtu sá sem segist vera kominn heim er að tala um.

Að ferðalokum finn eg þig,
sem mér fagnar höndum tveim.
Ég er kominn heim,
já ég er kominn heim.

Ekki er ljóst af samhenginu, úr hvaða ferð sá sem segist vera kominn heim, er að koma. Hvert var tilefni ferðar rhans? Hvert fór hann? Hvað gerði hann á þeim tíma sem hann var í ferðinni?  
Hér kemur auðvitað ótalmargt til greina. Það sem telja verður líklegustu skýringuna, svona í heildarsamhenginu er, að sá sem segist vera kominn heim, hafi flúið út úr ofbeldissambandi, þar sem hann var helsti gerandinn og farið í ferðalag þar sem hann tókst á við sjálfan sig, leitaði skýringa á því hvernig fór sem fór og lausna á því hvernig bætt yrði úr.  Margt bendir til þess að hann hafi komist að þeirri niðurstöðu og það sem gerðist í aðdraganda ferðarinnar hafi með engu móti mátt rekja til þess að hann hafi gert eitthvað rangt, þvert á móti.  Hann er þess því fullviss að honum verði tekið opnum örmum þegar hann snýr til baka. Hann telur sig hafa verið fórnarlamb þess sem hann ávarpar í textanum, en hefur fyrirgefið af stórmennsku sinni. Hann er þess fullviss, að endurkomu hans verði fagnað.

Sá sem segist vera kominn heim, sendi textann á undan sér, fullur bjartsýni á að óbreytt nálgun hans að heimilislífinu muni vera hið eina rétta til að endurnýja sambandið.  

Það er ekki óvarlegt að ætla, að hann geti hafa metið stöðuna rangt.

ÉG ER KOMINN HEIM (FERÐALOK) - ÓÐINN VALDIMARSSON
Erlent lag en textinn eftir Jón Sigurðsson

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...