Sýnir færslur með efnisorðinu Skóli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Skóli. Sýna allar færslur

25 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (1?)


... er ekki víst að þau hefðu farið með.

Til er mikið ágætis félag, sem burðast með skammstöfunina KML (eða jafnvel, og enn flottara: KEMEL) sem styttingu á heiti sínu, sem er hvorki meira né minna en: Kennarafélag Menntaskólans að Laugarvatni.
Það kemur fyrir, þegar lítilsháttar peningur hefur safnast í sjóð, að stjórn KML kemst að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að skella sér í menningarferð.

Það var nákvæmlega það sem gerðist fyrir nokkru.
Stjórnin hélt fund og í stað þess að ákveða að halda í menningarferð í Laugarás, eins og ég hafði boðið, ákvað hún að stefna í þveröfuga átt: í Borgarnes. Ég tel rétt að það komi fram hér, að ég á ekki sæti í stjórn KML.

Það voru ekki til of miklir peningar, svo ákveðið var að leita hagstæðasta tilboðs í akstur hópsins. Valið stóð milli hópferðabifreiðar sem kostaði nánast kr. 80.000 með bílstjóra og að fá leigða bílstjóralausa fólksflutningabifreið á kr. 35.000. Það þarf ekki að taka það fram, að seinni kosturinn var valinn og ákveðið að taka séns á að redda bifreiðarstjóra, en einn slíkur, alræmur allsherjarreddari starfar við stofnunina. Formaður stjórnar lagði fyrir hann snörurnar og niðurstaðan varð jákvæð.
Allt klárt. Engir lausir endar, eins og vera ber þegar hópferð er annars vegar.

Það er hins vegar þannig, að ekki er er klárt fyrr en fullklárt er.

Bílstjórinn "beilaði" - eins og skjólstæðingar félaga KML myndu segja; lét sem sagt vita af því, að af óviðráðanlegum ástæðum gæti hann ekki tekið að sér umrædda fólksflutninga.

Nú voru góð ráð dýr hjá stjórninni, en stór hluti félaga hafði skráð sig til þessarar ferðar og hafði til hennar miklar væntingar, ekki síst vegna þess, að vegna góðra kjara á flutningi, var von til að greiðsla fyrir mat og leikhúsmiða yrði í lágmarki.

Stjórnin var í vanda.

Þá datt allt í einu einu þeirra í hug, að eldra fólk hefði ökuskírteini sem veitti réttindi til aksturs fólksflutningaifreiða upp að tilteknu marki, ef ekki væri um að ræða að greiðsla kæmi fyrir aksturinn.
Það næsta sem gerðist fól í sér, að stjórnin fór á hausaveiðar, sem beindust fyrst og fremst að þeim sem eru miðaldra og eldri í hópnum.
Í hönd fór ótrúleg atburðarás, með opinberum fyrirspurnum á kennarastofu, einkafundum (sem falla nánast undir bankaleynd) og leitun á samþykki bifreiðareigandans við því, að einhver úr hópnum tæki að sér aksturinn.

Þetta var rafmagnaður tími, en smátt og smátt þrengdist hringurinn. Sumir voru útilokðir vegna ungs aldurs, en aðrir, ég þar með talinn, töldust nægilega vel útbúnir að réttindum, til að þeir kæmu til greina.

Ég kýs að fjölyrða ekki um allt það sem átti sér stað áður en til endanlegrar ákvörðunar kom, en í sem stystu máli varð niðurstaðan eftirfarandi:

ÉG SKYLDI VERA BIFREIÐARSTJÓRI Í FERÐINNI - ENGINN ANNAR!

Vissulega fólst í þessu ákveðin traustsyfirlýsing, sem ýtti nokkuð undir sjálfstraustið, en jafnframt helltist yfir mig talsverður kvíði yfir því sem framundan var.

Það sem ég hygg að hafi gert útslagið við valið var, að ég glutraði því út úr mér á einhverjum tímapunkti, að árið 1976 hefði ég fengið að afla tekna á sendibifreið tengdaföður míns á höfuðborgarsvæðinu um mánaðartíma, meðan þau hjón skelltu sér í árlega ferð til Kanarí. Það, í sjálfu sér var afar eftirminnileg lífsreynsla, sem ekki er hér vettvangur til að fjalla um, en sendibíllinn var sömu gerðar og sá sem nú beið mín. Munurinn fyrst og fremst sá, (fyrir utan, að sjálfsögðu, þá staðreynd að þessi bifreið er 35 árum yngri en sú sem ég ók fyrr) að nú skyldi farangurinn vera 12 sprelllifandi manneskjur, en ekki áfengi í veitingahús.

Ferðadagurinn rann upp, dökkur og ófagur.

Framhald þessarar æsispennandi frásagnar kemur, þótt síðar verði.
Hvatning er vel þegin :)

28 ágúst, 2009

Busabusabus



Þetta gerist á hverju ári og að stærstum hluta fremur óyndislegt, að mínu mati. Það eina sem eftir er af upprunalegu seremóníunni í kringum inntöku nýrra nemenda í samfélag nemenda í ML, er skírnin sjálf í vatninu, en meira að segja hún hefur farið í gegnum umtalsverða breytingu. Þessi breyting felst aðallega í tvennu: Í fyrsta lagi nenna eldri nemendur ekki lengur að elta busana uppi til að koma þeim út í vatn. Í staðinn reka þeir þá þangað og busar, sem ekki vita betur, hlaupa allt hvað af tekur beint út í vatn. Í annan stað grunar mig sterklega að lítið fari fyrir hinum latneska yfirlestri sem á að eiga sér stað um leið og vatni er ausið yfir skírnarþega úr skólabjöllu, áður en þeir eru látnir falla í vatnið.

Í minu minni var þessi þula svohljóðandi: IN AQUA SANITAS, IN VINO VERITAS, IN XXXXX CARITAS.Annað það sem þessir dagar fela í sér og sem kallað hefur veið busavika er aðallega fengið að láni frá uppáfinningasömum nemendum annarra skóla, en nú umgengist eins og áratuga hefð.
Mínar skoðanir á busastandinu hafa nú ekki náð miklum hljómgrunni hingað til og ég á ekkert von á að það gerist úr þessu.

21 ágúst, 2009

Sálfræðidýrkun (sakleysisaumingjaskapsdýrkun)

Tvennt varð til þess að ég ákvað að freista þess að tjá mig (enn eina ferðina) um málefni sem hefur verið mér nokkuð hugleikið um langa hríð.
Annarsvegar stóð það upp úr miðaldra fólkinu á Laugaráshátíðinni góðu, að það gæti ekki hugsað sér sín eigin börn við sambærilega iðju og það ástundaði hér í Laugarási í sínu ungdæmi (eggjastuldur, hænustuldur, kapphjólreiðar niður brekkuna, sem enduðu í botnlausum drulluskurði, pappavafningsreykingar, svo dæmi séu nefnd).
Hinsvegar er það svo, að þessa dagana er gamli unglingurinn afar upptekinn af því að fjalla um agamál í skólum, þar sem ég er annars vegar, með tilvísun til eigin skólagöngu á 5. áratug síðustu aldar. Þegar ég lýsi fyrir honum nálgun skólakerfisins að unglingunum nú til dags, kallar hann það sálfræðidýrkun.

Auðvitað viðurkenni ég, að það getur verið gagnlegt að vita skýringar á hinu og þessu í mannlegu eðli, en þegar þekkingin er notuð í þeim tilgangi að ala upp börn sem eru stöðugt umvafin hinni hnausþykku dúnsæng Storgaardismans, þá tel ég það jaðra við misnotkun á fræðunum. Börn sem aldrei fá að reka sig á eru líkleg til að ímynda sér að það sé ekki til neitt vont nema einhversstaðar inni í tölvunni eða sjónvarpstækinu. Þau hneigjast væntanlega til að trúa því að þegar eitthvað vont eða erfitt er framundan þá eigi þau að hlaupa burt. Heimurinn sem þau alast upp í er að hluta til heimur apanna þriggja, sem ekki máttu heyra, sjá eða segja neitt vont.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá tel ég að börn þurfi að fá að upplifa sjálf erfiðleika, áhættu, mótlæti eða sársauka upp að einhverju marki. Slíkt umhverfi býr til manneskju sem er tilbúin fyrir þá veröld sem þeir fullorðnu þurfa að takast á við.

Er ekki líklegt að drengjakórinn bindis- og jakkaklæddi, sem þóttist geta gert Ísland að ríkasta landi í heimi af efnislegum gæðum, hefði haldið öðruvísi á málum, ef hann hefði einhverntíma á lífsleiðinni komist í kast við verulegt mótlæti af einhverju tagi. Hann hefði hugsanlega lært, að lífið snýst miklu fremur um aðra og manneskjulegri hluti en öll þó ókjör hugtaka um efnahags- og peningamál sem við erum búin að læra á undanförnum árum, bera vitni um.

Nú blasir við afsprengjum sálfræðidýrkunarinnar veruleiki þar sem ekki er lengur sagt 'já, elskan' þegar hugurinn kallar á nýja græju.
Við höfum sennilega ekki lengur efni á því að klæða leikvelli landsins með gúmmíteppum.

23 júní, 2009

Komst ekki í skólann sinn - æ, æ.

Metnaður er góður. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk að stefna að einhverju markmiði, því ef maður veit hvert maður ætlar, þá leggur maður nægilega mikið á sig til að komast þangað. Ef maður, hinsvegar veit ekkert hvað maður vill, er hættan sú að maður sjái ekki tilgang í því að standa sig vel.

Hvað um það.

Fréttin um móðurina sem á dótturina sem komst ekki í draumaskólann sinn, eftir að hafa líklega stefnt þangað frá frumbernsku (væntanlega með vænum skammti af einhverskonar hvatningu frá foreldrunum), kemur mér harla lítið á óvart, ef tekið er mið af öðru því sem þessi þjóð hefur haft í forgrunni undanfarin ár.

Ég held að það verði ekki vel þolanlegt hlutskipti að vera í sporum grunnskólakennaranna í 10. bekk á næstu árum. Þeir munu verða fyrir gífurlegri pressu um að gefa nemendum háar einkunnir, nú þegar búið er að leggja samræmd próf af.
Mér segir svo hugur um, að þess sé ekki langt að bíða, að tekin verði upp inntökupróf í framhaldsskóla landsins - ekkert mark verði takandi á vitnisburði úr grunnskóla.

Það má auðvitað segja, að það sé eftirsóknarvert hlutskipti skóla, að geta vísað frá umsóknum nemenda sem eru með lægri einkunnir en 8.5 upp úr grunnskóla, en það er líka hættulegt.
Að mínu mati væri eðlilegt, þegar framhaldsskólar eru metnir, að mæla virðisaukann sem verður til. Þá er skoðað hvernig nemendur koma inn og síðan hvernig þeir fara út og munurinn segir síðan til um gæði skólans.

Nei, stúlkan sótti ekki um á Laugarvatni. :)


08 maí, 2009

Dimmision (nei) - Dimmission (nei) - Dimissio (já)


-hægt að stækka með því að smella (held ég) -


Enn á ný fagnar sá hópur fólks í stofnuninni þar sem ég vinn, því, að kennslu er lokið og ekkert eftir af skólagöngunni á Laugarvatni nema prófatími. Sem betur fer eiga flestir inni fyrir fagninu; eru vel að því komnir. Því miður eru einnig þeir sem eflaust hugsa nú sem svo, að betur hefði nú verið hægt að vinna í málunum. Hvernig þessu lýkur öllu saman, kemur í ljós í lok mánaðarins þegar endanlega liggur fyrir hver uppskeran verður. Vonandi bjargast þetta nú allt saman.
Ástæða þessarar færslu er ekki síst sú að nú hyggst sá yngsti afgreiða þennan kafla lífsins.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af þessum ágæta hópi á góðri stund.



31 mars, 2009

Mýs í Skálholtsdómkirkju

Nei, það er engin dulin merking í fyrirsögninni.

Á þessum nístandi kalda síðasta marsdegi átti ég því láni að fagna, að vera leiðsögumaður 17 menntaskólanema frá HCAGymnasium í Þýskalandi, um hluta uppsveita Árnessýslu. Þarna voru skoðaðir og/eða sóttir heim, staðir eins og Geysir og Gullfoss (varla undarlegt), Jörfi á Flúðum og Hlemmiskeið í Skeið og Gnúp.


Eftir að hafa ekið tignarlega, undir leiðsögn minni um Laugarás var ekkert eftir nema Skálholt, en þar sagði sr. Egill fólkinu ágætlega frá staðnum og sögunni.


Það sem var hinsvegar ekki eins og mér fannst það ætti að vera, var, að þegar útidyrnar voru opnaðar, trítlaði mús í rólegheitum um anddyrið og kom sér síðan fyrir á bakvið ruslafötu. Fólkið var svo sem ekkert að láta þetta á sig fá og gekk inn í kirkjuna, þar sem það hlustaði fyrst á mig, eðlilega, og síðan á sr. Egil, eins og áður segir.


Meðan prestur talaði fór skyndilega kliður um hópinn, en ekkert meira. Ástæðan reyndist vera önnur mús sem trítlaði í rólegheitum fram og aftur í kórnum, stoppaði við og við og hnusaði af gólfinu og/eða maulaði á einhverjum molum sem þar var að finna. Sr. Egill lét sér í engu bregða við þessa stöðu mála, blessaði músina, og hélt erindi sínu áfram. Svo fór, að þegar músin gerði sig líklega til að fara að spígspora milli fóta áheyrenda, tók Pálmi (Hilmarsson, bílstjóri og samleiðsögumaður í ferðinni) á það ráð að stjaka henni frá og kom hún sér þá uppi undir ofni í kórnum.

Þetta var bara allt ágætt. Þarna eru kirkjumýsnar sjálfsagt enn og verða þar til einhverjir kirkjugestir sætta sig ekki við þá stöðu mála.











12 febrúar, 2008

Skóli í öðru sæti...eða því þriðja?


Það er rík tilhneiging hjá tilteknum hópi nemenda og foreldra þeirra að líta svo á að það að sækja skóla sem fyrsta kost, sé hreint ekki sjálfsagður hlutur. Ég er ekki frá því að skólar landsins séu farnir að dansa með og láti þetta þar með yfir sig ganga. Mér finnst það alvarlegt ef svo er. Og mér finnst það alvarlegt ef kennarar eru farnir að líta starf sitt með þeim hætti að láta það ganga yfir sig að nemendur sé burtu frá skóla ítrekað.

Væntanlega er þetta hluti af því agaleysi sem ríkir meðal þessarar ágætu þjóðar. Þetta agaleysi hefst hjá okkur foreldrunum því það er frá okkur sem börnin fá þau skilaboð að skólinn megi víkja fyrir utanlandsferð fjölskyldunnar, eða vinnu, eða tannlæknaferð, eða klippingu, eða nánast hverju sem er.

Síðan dansar skólinn með, með því að gefa eftir og sætta sig við stöðu mála. Þessu þarf að breyta, og hana nú!

Þetta er svona dagur - þegar maður losar frústrasjónirnar á einhverja bloggsíðu sem maður treystir að enginn finni, og lesi. :)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...