25 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (1?)


... er ekki víst að þau hefðu farið með.

Til er mikið ágætis félag, sem burðast með skammstöfunina KML (eða jafnvel, og enn flottara: KEMEL) sem styttingu á heiti sínu, sem er hvorki meira né minna en: Kennarafélag Menntaskólans að Laugarvatni.
Það kemur fyrir, þegar lítilsháttar peningur hefur safnast í sjóð, að stjórn KML kemst að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að skella sér í menningarferð.

Það var nákvæmlega það sem gerðist fyrir nokkru.
Stjórnin hélt fund og í stað þess að ákveða að halda í menningarferð í Laugarás, eins og ég hafði boðið, ákvað hún að stefna í þveröfuga átt: í Borgarnes. Ég tel rétt að það komi fram hér, að ég á ekki sæti í stjórn KML.

Það voru ekki til of miklir peningar, svo ákveðið var að leita hagstæðasta tilboðs í akstur hópsins. Valið stóð milli hópferðabifreiðar sem kostaði nánast kr. 80.000 með bílstjóra og að fá leigða bílstjóralausa fólksflutningabifreið á kr. 35.000. Það þarf ekki að taka það fram, að seinni kosturinn var valinn og ákveðið að taka séns á að redda bifreiðarstjóra, en einn slíkur, alræmur allsherjarreddari starfar við stofnunina. Formaður stjórnar lagði fyrir hann snörurnar og niðurstaðan varð jákvæð.
Allt klárt. Engir lausir endar, eins og vera ber þegar hópferð er annars vegar.

Það er hins vegar þannig, að ekki er er klárt fyrr en fullklárt er.

Bílstjórinn "beilaði" - eins og skjólstæðingar félaga KML myndu segja; lét sem sagt vita af því, að af óviðráðanlegum ástæðum gæti hann ekki tekið að sér umrædda fólksflutninga.

Nú voru góð ráð dýr hjá stjórninni, en stór hluti félaga hafði skráð sig til þessarar ferðar og hafði til hennar miklar væntingar, ekki síst vegna þess, að vegna góðra kjara á flutningi, var von til að greiðsla fyrir mat og leikhúsmiða yrði í lágmarki.

Stjórnin var í vanda.

Þá datt allt í einu einu þeirra í hug, að eldra fólk hefði ökuskírteini sem veitti réttindi til aksturs fólksflutningaifreiða upp að tilteknu marki, ef ekki væri um að ræða að greiðsla kæmi fyrir aksturinn.
Það næsta sem gerðist fól í sér, að stjórnin fór á hausaveiðar, sem beindust fyrst og fremst að þeim sem eru miðaldra og eldri í hópnum.
Í hönd fór ótrúleg atburðarás, með opinberum fyrirspurnum á kennarastofu, einkafundum (sem falla nánast undir bankaleynd) og leitun á samþykki bifreiðareigandans við því, að einhver úr hópnum tæki að sér aksturinn.

Þetta var rafmagnaður tími, en smátt og smátt þrengdist hringurinn. Sumir voru útilokðir vegna ungs aldurs, en aðrir, ég þar með talinn, töldust nægilega vel útbúnir að réttindum, til að þeir kæmu til greina.

Ég kýs að fjölyrða ekki um allt það sem átti sér stað áður en til endanlegrar ákvörðunar kom, en í sem stystu máli varð niðurstaðan eftirfarandi:

ÉG SKYLDI VERA BIFREIÐARSTJÓRI Í FERÐINNI - ENGINN ANNAR!

Vissulega fólst í þessu ákveðin traustsyfirlýsing, sem ýtti nokkuð undir sjálfstraustið, en jafnframt helltist yfir mig talsverður kvíði yfir því sem framundan var.

Það sem ég hygg að hafi gert útslagið við valið var, að ég glutraði því út úr mér á einhverjum tímapunkti, að árið 1976 hefði ég fengið að afla tekna á sendibifreið tengdaföður míns á höfuðborgarsvæðinu um mánaðartíma, meðan þau hjón skelltu sér í árlega ferð til Kanarí. Það, í sjálfu sér var afar eftirminnileg lífsreynsla, sem ekki er hér vettvangur til að fjalla um, en sendibíllinn var sömu gerðar og sá sem nú beið mín. Munurinn fyrst og fremst sá, (fyrir utan, að sjálfsögðu, þá staðreynd að þessi bifreið er 35 árum yngri en sú sem ég ók fyrr) að nú skyldi farangurinn vera 12 sprelllifandi manneskjur, en ekki áfengi í veitingahús.

Ferðadagurinn rann upp, dökkur og ófagur.

Framhald þessarar æsispennandi frásagnar kemur, þótt síðar verði.
Hvatning er vel þegin :)

1 ummæli:

  1. KEMEL sátt með hvað það hljómar líkt öðru félagi við ML -> KVEMEL vúhú :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...