26 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (2)

Þrátt fyrir fremur önugt veðurfar til ferðalaga, var sól í hjarta, ef frá er talinn lítilsháttar herpingur vegna þeirrar óhemju ábyrgðar sem hafði verið lögð mér á herðar. Vissulega hafði ég gengið frá því þegar samið var um málið að formaður KEMEL skyldi vera vélstjóri, en hann er einnig efnafræðingur og þrautreyndur fararstjóri, sem þýddi að ég þurfti í raun ekki að hafa áhyggjur af nema stjórntækjum. Vélstjórinn reyndist, meira að segja, vera búinn að læra að skipta um dekk. Auk þess að taka á sig ábyrgð vélstjórans var hann fararstjóri, sem þýddi auðvitað að ég þurfti ekki að velta fyrir mér hvert haldið skyldi hverju sinni, bara halda um stýrið og stíga hóflega á olíugjöfina (já, þetta var dísiltryllitæki), auk þess að vera tilbúinn að stíga létt á bremsuna eftir því sem þörf var á og setja þurrkurnar á og slá þær af eftir þörfum (þessi er með einar 5 harðastillingar á þurrkum, sem voru allar eins), gefa stefnuljós þegar við átti og hafa uppi hæfilegan ljósabúnað hverju sinni.

Að vanda var það hlutskipti okkar Kvisthyltinga að koma okkur á þann stað sem ferðin skyldi hefjast. Það er vegna þess, að Laugvetningar líta til Laugarvatns sem upphaf og endi alls. Ef maður kemur ekki þangað þá fer maður ekki með - sorrí.
Við lögðum í hann frá staðnum eina, sem auðvitað er Laugarás í okkar tilviki, tímanlega, til að mér tækist að átta mig á grundvallaratriðum þess, sem til þurfti til að koma fólksflutningabifreiðinni þangað sem ferðinni var heitið.

Vélstjórinn hafði tækið tilbúið til brottfarar, en ekki er laust við að mér hafi litist fremur illa á að þessi ferð færi vel, þegar ég leit gripinn. Mér þótti sýnt, að vegna þess hve mjög hann var upphækkaður (fagmál) væri þyngdarpunkturinn talsvert ofarlega, sem þýddi að lítið mátti út af bera til að hann ylti út í skurð.

Ég tek það fram hér, að gagnvart ferðalöngun kom ég ávallt fram eins og sá sem veit hvað hann er að gera, þó svo hið innra ólgaði efinn um að þetta myndi fara vel.

Það kom að því að klifra upp í farartækið, en eftir talsvert klifur tókst mér að setjast í bílstjórasætið. Það varð samkomulag um það að vélfararstjórinn settist í sætið við hlið mér, þar sem fD er vön að sitja og segja mér til. Hún var hinsvegar ekki af baki dottin og fann sér sæti beint fyrir aftan mig og hafði þar úrvals útsýni yfir stjórntækin, auk þess að með því fyrirkomulagi gafst henni engu síðra færi á að benda á það sem betur mætti fara, en með hefðbundnu fyrirkomulagi.

Það var kominn tími til að fara að tína upp farþegana, sem átti að gerast á tilteknum stað á Laugarvatni, nema hvað? Ég setti í gang - kunni að setja dísilbíl í gang eftir að hafa eki á slíku tæki um nokkurra ára skeið - vélin tók glæsilega við sér. Þessu næst færði ég skaftið í stýrinu þar til vísirinn lenti á R - sem sagt, ég þurfti að byrja á því að bakka! Það gerðist ekkert við þessa aðgerð - þó svo ég stigi létt á olíugjöfina. Það var ekki fyrr en ég steig fastar, að vart varð hreyfingar á ferlíkinu. Auðvitað endaði það á að hreyfast afturábak, eins og til stóð. Það var einstök lagni mín sem kom í veg fyrir að ég lenti utan í einkabifreið vélfararstjórnans - svitnaði bara inni í mér - lét á engu bera.
Eftir bakkið ssetti ég í D og kagginn skaust fram á við - ferðin var hafin hjá mér sem bílstjóra, en annað kom í ljós þegar kom að því að tína upp farþegana.

---------------------------------------------------------
Ég hafði ætlað mér að ljúka þessari spennusögu með þessum hluta, en undirbyggingin hefur reynst umfangsmeiri en til stóð. Ég hafði ímyndað mér að það gæti gerst og það var þessvegna sem ég óskaði hvatningar að fyrsta hluta loknum. Mér sýnist að ég gæti haldið áfram upp í 5 hluta, með þessu áframhaldi, en tel jafnframt, að ákveðnar líkur séu til þess, að þó svo framhaldið sé gegnsýrt óvæntum viðburðum og hættum, þá muni mér takast, með góðum vilja, að ljúka þessu í 3ja hluta. Hvenær það gerist á eftir að koma í ljós.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...