27 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (3)

Eins og menn muna þá var komið að því að tína upp farþegana, þegar síðasta hluta lauk. Þar var ennfremur gefið í skyn, svo ekki verður misskilið, að það hefði ekki gengið eftir eins of til stóð. Þar var ekki of mikið sagt.

Það biðu tveir farþegar á tilteknum uppítökustað þegar til kom, en 3, misstressaðir, þ.m.t. fD, sem stóð með sínum og vélfararstjórinn, sem auðvitað gat ekki verið þekktur fyrir annað en sýna æðruleysi, voru þegar komnir í fólksflutningabifreiðina. Vélfararstjóranum varð ekki rótt við þetta og seildist inn á sig til að finna símanúmer þeirra sem ekki voru mættir eins og fyrir hafði verið lagt. Mér var rótt á yfirborðinu, en illur grunur var farinn að grafa um sig hið innra. Sá fyrsti sem hringt var í, kvaðst skyndilega hafa lagst veikur með kvef og hálsbólgu og höfuðverk (svona svipaðar afsakinir og maður þekkir svo vel úr aðalstarfinu). Sá næsti taldi sig vera kominn með svínaflensu, en áður en sú afsökun var borin fram, kvaðst hann alveg vera búinn að gleyma því, að ferðin væri þennan dag. Sá þriðji var ekki nægilega fljótur að finna sér sjúkdóm, þannig að ákveðið var að ná í hann heim til sín. Virkaði fremur órótt þegar í bílinn kom.

Þar með var haldið á örmjóan Gjábakkaveg með næsta viðkomustað að Gljúfrasteini. Gjábakkavegur var svona:

Það kom sér bara vel að vegurinn skyldi vera í þessu ástandi, því mér gafst þar færi á að kynnast hinum upphækkaða Ford Econoline, dísil, nokkuð - átta mig á elstu eiginleikum og stjórntækjum, fyrir utan það að nægur tími var til stefnu. Vélfararstjórinn hafði nefnilega gert ráð fyrir því í ferðaáætlun, að eitthvað gæti komið upp á - t.d. bílvelta eða árekstur. Hann hafði svo sem ekki sagt neitt um það, en mér fannst það augljóst.
Í gegnum þjóðgarðinn ók ég nokkuð yfir leyfðum hámarkshraða, enda er sá hraði bara ætlaður ökumönnum með 1 pro mill í blóðinu. Síðan tók við tiltölulega beinn og mjór vegur alla leið að Gljúfrasteini. Á þeirri leið gerðist þrennt, fyrir utan auðvitað hið augljósa: svalt, ytra öryggi mitt og innri ólgu og efasemdir.
1. Farþegarnir létu sig hafa það að kvarta yfir kulda. Voru reyndar orðnir krókloppnir, en höfðu ekki lagt í að biðja um að miðstöðin yrði sett í gang, væntanlega af ótta við að ég höndlaði það ekki, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Höfðu ekki áttað sig á hlutverki vélfararstjórans sem hafði svona hlutverk með hendi. Hann setti miðstöðina á blúss með þeim afleiðingum að þegar komið vara áfangastað voru allir í móki.
2. Vélfararstjórinn hringdi í námsráðgjafann (í námsleyfi) til að greina frá ferðatilhögun, en hún ásamt 3 öðrum áttu að koma til móts við okkur að Gljúfrasteini. Það fór nokkuð um mig þegar ég heyrði háværan hrossahláturinn í henni í gegnum símann þegar vélfararstjórinn greindi henni frá því hver væri ökumaður.
3. Stýrið á kagganum var þannig stillt, að ég sá ekki á hraðamælinn, en freistaði þess að aka alltaf á hóflegum og löglegum hraða (nema í gegnum þjóðgarðinn). Við og við kíkti ég þó yfir stýrið til að fylgjast með. Það gerði ég líka nokkru eftir hrossahláturssamtalið og uppgötvaði þá að tækið var komið á 120 km hraða.

Það var rennt í hlað að Gljúfrasteini, en þar sem þessi frásögn er ekki um þann stað, fjölyrði ég ekki um hann. Það er þó allt ágætt um heimsóknina að segja. Mér gafst þarna færi á að ná lítillega áttum fyrir næsta legg ferðarinnar, ekki síst þann hluta sem fól í sér að koma hátimbraðri bifreiðinni í gegnum Hvaðfjarðargöngin.

Síðustu farþegarnir voru teknir upp í á bílastæði undir Esjurótum, sem á eftir að koma nokkuð við sögu, en síðan lá leið þráðbeint að Hvalfjarðargöngunum. Ég fann fyrir stöðugt vaxandi svitaútstreymi og fannst farþegarnir vera grunsamlega hljóðir aftur í. Ég lét sannarlega ekki á neinu bera. Ávallt svalur.
Mig grunar að það hafi verið vegna þess að miðstöðin var enn á fullu, að einhverjir ferðalanganna tóku upp á því að leita að opnanlegum gluggum í afturhluta bílsins. Þeir fundu glugga og opnuðu hann upp á gátt, í þann mund er göngin birtust framundan. Skelfing var gangamunninn nú lítill.
Á tímabili var ég að því kominn að beygja inn Hvalfjörðinn, en hafnaði þeim kosti jafnharðan, þar sem þá myndi hópurinn verða af leiksýningu og kvöldveði, meira að segja þó enn hefði vélfararstjórinn áætlað feikilega rúman tíma til að komast frá Gljúfrasteint í Borgarnes.

Ég lét vaða í göngin.
Torfærufólksflutningabifreiði rakst ekki upp undir, en það var rétt með naumindum að mér tókst að mæta þeim sem á móti komu - átti allt eins von á því að strauja hægri hliðina. Ekki leist mér á blikuna þegar lengra var komið niður í göngin þegar mikil ólykt af útblæstri ótal ferðalanga sem þarna höfðu átt leið um, gerði vart við sig. Glugganum, sem opnaður hafði verið, var lokað í snarhasti, en það virtist engu breyta. Vélfararstjórinn leitaði leiða til að stöðva inntöku á óloftinu í gegnum mistöðina, en fann enga. Þegar ofan í botn ganganna var komið þótti mér sýnt orðið að þaðan kæmumst við aldrei upp vegna þess, að mér var orðið ómótt og taldi að næst myndi ég missa meðvitund vegna CO2 mengunar.
Ég tórði, og að því kom að mér fannst að ferðin upp á yfirborðið væri hafin aftur. Þetta fann ég þannig, að tryllitækið fór að erfiða æ meir. Mér var reyndar ekki farið að litast á blikuna í mesta brattanum, þegar sjálfskiptingin neitaði að skipta í lægri gír; bíllinn fór stöðugt hægar og hljóði benti til þess að það væri að drepast á honum sökum ofáreynslu. Ég prófaði loksins að sleppa olíugjöfinni og stíga síðan aftur á hana - viti menn: það var skipt í lægri gír og vélin æpti af létti, en mikið óskaplega gekk uppferðin hægt. Það koma loks að því að glæta sást í fjarska og ekki þarf að fjölyrða um léttinn.
Það er alltaf auðvelt að borga, þannig var það líka þessu sinni og eftir þetta gekk ferðalagið áfallalaust í ljómandi veðri hinumegin Hvalfjarðar. Eina sem ég þurfti að muna eftir á þeirri leið var hraðamyndavélin. Það gerði ég.
Í Borgarnes kom ég hópnum og ég sá ekki betur en talsverðum, kvíðablandnum létti lýsti af andlitunum. Léttirinn fólst í því að vera kominn í Borgarnes, kvíðinn orsakaðist af heimferðinni, sem var óhjákvæmileg.

Leiksýningin Brák var skemmtileg og maturinn sem fylgdi í kjölfarið slapp til.

Eftir að hafa treint dvölina í Landnámssetrinu eins lengi og unnt var, varð ekki hjá því komist að tygja sig heim á leið.

Það var þá sem..........

---------------------------------
Mér sýnist að með einum hluta enn muni þetta takast, svo fremi að mér takist að tjá með orðum það sem í hönd fór, rétt áður en heimferðin hófst og á meðan á henni stóð.




2 ummæli:

  1. Spennandi, spennandi...

    SvaraEyða
  2. Hlakka til að lesa restina.

    Ég sé fyrir mér fD að veita þér góð ráð yfir öxlina:-)
    Kv. Aðalheiður

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...