28 september, 2009

Ef þau hefðu vitað...... (4) - ferðarlok

Já, það var þá, undir lok borðhalds í Landnámssetrinu, að við, sem kusum hlaðborðið fórum að verða við einhvern óróa á súpuborðinu. Nafn var nefnt og það fylgdi með að viðkomandi hafi þurft að fara út. Meira heyrði ég ekki af þessu máli þar sem ég spurði ekki, vegna þess að ég er ekki forvitinn maður að eðlisfari.
Það var ekki fyrr en ég þurfti að skreppa út fyrir eftir að hafa troðið í mig af hlaðborðinu, í ótilgreindum erindagjörðum, að ég áttaði mig á hvað gerst hafði.
Undir klettasnös bograði manneskja og það varð fljótt ljóst að ekki gekk hún heil til skógar. Þarna fór góð súpa í grös undir klettasnös. Eftir stóð spurningin um hvað gæti hafa valdið þessum ósköpum. Ég var óðara kominn með 4 tilgátur í hugann og læt lesendur um að meta hver þeirra er nú líklegust:
a. Svæsin bardagaatriðin í Brák settu meltingarkerfið úr skorðum. Það var hugsanlegt á þeirri forsendu á hér væri um að ræða einu manneskjuna í hópnum sem var nægilega saklaus til að eiga erfitt með að takast á við Egil Skallagrímsson höggva mann í herðar niður.
b. Súpan var einnig mögulegur sökudólgur. Var þetta mögulega gömul Súpa Seiðkonunnar sem þarna hafði verið borin á borð. Það sem styður þessa kenningu, ef eitthvað er, er að hugsanlega hafi meltingarkerfi viðkomandi verið viðkvæmara en annarra súpumanna.
c. Eitthvað sem hefði gerst hvar sem viðkomandi manneskja var stödd þar sem eitthvað, sem ekki er rétt að nefna til sögunnar hér, þar sem þá myndi ég ganga of nærri farþegum mínum. Læt lesendur um að láta hugann reika og velta fyrir sér - þetta var nægilega óljóst.
d. Heimferðin sem framundan var. Ég var nokkuð fljótur að líta á hana sem líklegasta orsakavaldinn.

Hvað um það, það bráði lítillega af manneskjunni, svo það var ákveðið að leggja í hann. Ekki leist mér á blikuna þegar vélfararstjórinn komst að þeirri niðurstöðu, að best væri að manneskjan sæti frammí við hlið mér. Þannig gat ég átt von á hverju sem var, en það var nokkur huggun, að einhver hafði látið sér detta í hug, að láta hana fá stóran plastpoka, ef allt skyldi nú fara af stað áður en minnst varði.

Það var komið myrkur, það var hvasst og það haugrigndi í Borgarfjarðarhéraði og á Hvalfjarðarströnd. Áfram ók ég varlega til að eiga ekki á hættu að hljóðar athugasemdir bærust yfir öxl mér. Þetta hafði það í för með sér, að ég safnaði bílalest og leist ekki gæfulega á þann möguleika að þurfa í snarhasti að víkja út í kant með skömmum fyrirvara. Bílljós á móti blinduðu mig á meðan óþolinmóð bílljósin á eftir mér leituðu stöðugt leiða til að komast framúr. Ég var fastur í einhverju ferli sem ég gat með engu móti komið mér úr - að mér fannst. Ég varð stöðugt að hafa augun á mjóum veginum á sama tíma og ég þurfti að fylgjast með ljósunum fyrir aftan í baksýnisspeglinum veinstra megin, og ég þurfti að fylgjast með hvernig sjúklingnum hægra megin leið og reyna þannig að meta hvenær eða hvort ástand hans væri þannig, að ég gæti þurft að stansa úti í kanti í snarhasti. Á meðan sátu farþegarnir aftur í og gott ef vélfararstjórinn var ekki bara kominn aftast þar sem tilteknum kassa með tilteknu innihaldi hafði verið komið fyrir og sem hann nú nýtti sér nú ásamt öðrum sem þarna þurftu að auka sér kjark og kæruleysi.

Göngin voru framundan, öðru sinni. Ekki yrði það gæfulegt ef sjúklingurinn þyrfti að losna við meiri súpu þar niðri. Það varð því úr, þegar mjög nálgaðist göngin, að ég spurði:
"Heldurðu að þú hafir það af í gegn, eða á ég að stoppa einhversstaðar hérna?"
"Umm, umm, ööö - nei, ég held að þetta veri í lagi - oh oh æ"
Ég varð nokkuð feginn við þetta svar, því í myrkrinu, hvassviðrinu og rigningunni, með 10 bíla lest á eftir, leist mér ekkert á að reyna að leggja úti í kanti.

Aftur var auðvelt að borga og spennuþrungin ferðin niður í göngin hófst. Lesendum til mikillar undrunar, sjálfsagt, gekk sú ferð sérlega vel. Það æmti ekki í sjúklingnum og engin vafasöm tilvik litu þar ganganna ljós.

Uppúr komumst við og sjúklingurinn virtist vera hálfsofnaður þarna í framsætinu. Framundan var einn þáttur ferðarinar, sem þurfti að leysa og sem ég bar töluverðan kvíðboga fyrir: Ég þurfti að beygja til vinstri inn á bílastæði undir Esjurótum. Meða bílalestina á eftir og bílalest á móti og lélegar merkingar til að gefa til kynna hvar skyldi beygt í áðurnefndu veðri, var þetta fjarri því að vera tilhlökkunarefni. Ég vissi að bílastæðið nálgaðist, og nálgaðist. Myrkrið varð svartara, rigningin jókst og hvassviðrið færðist í aukana - ég pírði augun inn í sortann framundan í leit að vísbendinum um að bílastæðið nálgaðist.
Þarna birtist skilti sem tilkynnti að 200 m væru í beygjuna, allt í lagi, nema 50 m seinna birtist annað sem benti inn að stæðinu - það var þar sem átti að beygja. Nú varð ég að hugsa fljótt. Ég bremsaði nokkuð hraustlega svo kassainnihaldsnjótandi farþegarnir kipptust lítillega framávið án þess að þeir gerðu mikið veður úr því, um leið og ég skellti á stefnuljósi svo hálf vitifirrtir bílstjórarnir, sem ég hafði haldið fyrir aftan mig frá Borgarnesi, tækju ekki á það ráð að fara fram úr nákvæmlega þarna. Sem betur fer voru engir bílar að koma á móti svo ég snarbeygði inn á bílastæðissvæðið - nánast á tveim hjólum, því eins og ég hef áður greint frá, var þessi bifreið rækilega upphækkuð og því með þyngdarpunktinn mjög ofarlega. Við þetta köstuðust áðurnefndir aftursætameðreiðarmenn út í hægri hlið og síðan aftur til baka í þann mund er ég rétti kaggann af og stöðvaði síðan inni á planinu....................
Hjartað barðist við rifin, en svalinn og sjálfsöryggið geislaði af yfirborðinu.
Hér þustu 3 farþegar frá borði og áfram var haldið að Gljúfrasteini þar sem tveir til viðbótar kvöddu í flýti, en annar þeirra hafði ákveðið að ekki væri hættandi á þetta frekar - hann ætlaði að aka á eftir okkur að Laugarvatni. Lokaleggurinn hófst og ekkert það var í kortunum sem talið var að gæti orðið til trafala. en auðvitað varð það ekki svo.
Á Mosfellsheiði var svartaþoka, sem bættist ofan á myrkrið og rigniguna. Ég treysti því að ég myndi ekki grilla (borið fram eins og VILLA, sem er borið fram eins og TSJILLA) rollur sem hugsanlega væru að þvælast á veginum. Þegar nálgaðist Þingvelli létti þokunni. Nú var þetta örugglega komið, hugsaði ég um leið og ég tók eftir bílljósum í baksýnisspeglunum þrem: vinstra megin, hægra megin og í miðju. Þessi ljós nálguðust og ég reiknaði með, að brátt myndi bílstjórinn skella á lágu ljósunum svona til að auðvelda mér lífið, en það gerði hann sannarlega ekki og færðist nær og nær. Þar kom, að ég var eiginlega hættur að sjá hvað framundan var, vegna skjannabirtunnar úr speglunum þrem. (Þetta var orðið nánast eins og sviðsljósin í Seðlabankanum, ef einhver man eftir þeim). Ég tók á það ráð til að forða útafakstri, að hægja ferðina og við það versnaði ástandið svo, að ekki varð búið við lengur. Einhvers staðar í gegnum skjannabirtuna sem kom í veg fyrir að ég greindi veginn fram á við, sá ég skyndilega glitta í skilti sem benti að að við værum komin að þjónustumiðstöðinni. Ég tók áhættuna og beygði þar sem ég taldi að innkeyrslan væri og var heppinn. Ég átti von á að viðkomandi ökumaður héldi bara áfram með sín háu ljós, en af því varð ekki. Hann ók að hlið okkar og þá kom í ljós, að hér var kominn sá farþeganna, sem hafði farið úr fólkflutningabifreiðinni við Gljúfrastein. Í ljós kom, að hann hafði aldrei ekið þessa leið og vildi þessvegna koma í kjölfar okkar hinna.
Í sem skemmstu máli benti ég honum á að ef til vill væri rétt að aka með lágu ljósin það sem eftir var. Hann tók tilmælunum vinsamlega og áfram var haldið.

Eftir þetta bar ekkert til tíðinda, utan að vegna hratt vaxandi öryggis míns við aksturinn, ók ég heldur hraðar um holurnar á Gjábakkavegi en þegar lagt var af stað um morguninn. Við þetta hristist trukkurinn nokkuð og vélfararstjórinn, sem sat í aftasta sæti varpaði fram þeirri spurningu hvort ég ætlaði að hrista bílainn hans Gunna í sundur - sem auðvitað var aldrei ætlunin, enda gerðist það ekki.

Af fádæma öryggi renndi ég loks í hlað og skilaði þar af mér þeim farþegum sem eftir voru, alsælum eftir vel heppnaða ferð. Meira að segja sjúklingurinn æmti hvorki né skræmti alla leiðina, sem ég gat ekki skilið öðruvísi en svo, að aksturinn hefði verið óaðfinnanlegur.

Ef þau hefðu vitað...... já, ef þau hefðu vitað.

-----------------------------------------
Hér lýkur þessari frásögn.
Hún er byggð á ferð KEMEL og langflestar þeirra staðreynda sem til eru tíndar, eru réttar. Ég tók mér hinsvegar það bessaleyfi að túlka með mínum hætti það sem gerðist og bæta inn ýmsum viðhorfum og tilfinningum sem eiga, eða eiga ekki rétt á sér.

Í upphafi ætlaði ég að afgreiða þessa ferð snarlega, með einni færslu, en það fór eins og það fór,

Ég þakka þeim (ef einhverjir eru), sem hafa enst til að lesa þetta - ég hafði gaman af að skrifa það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...