Sýnir færslur með efnisorðinu vísur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu vísur. Sýna allar færslur

31 desember, 2009

Annus irae

Eins og annað fólk leyfi ég mér að hugleiða lítillega þann veg sem við höfum gengið á þessu ári og einnig hvernig vegurinn framundan lítur út. Ég held að ég hafi ímyndað mér, í upphafi árs, að við lok þess yrðum við farin að ná áttum og að umræða í þjóðfélaginu hefði ná einhverju jafnvægi. Reyndin er sú, að við erum líklegast enn jafn reið og í upphafi ársins. Ég reikna með að það sé varla til sá einstaklingur sem ekki er reiður að einhverju marki. Af þessum sökmu gef ég árinu nafnið sem fyrirsögnin segir til um (þetta virkar svo flott á latínu :)): Ár reiði, skal það heita.

Við þessi áramót eru harla litlar líkur á að framundan séu bara rólegheit í þjóðlífinu. Það er fátt sem bendir til að við stígum út úr reiðinni og reynum á halda göngunni áfram sem ein þjóð. Við munum líklegast halda áfram að öskra hvert á annað og slengja ásökunum í állar áttir. Við munum líklega síður setjast niður í rólegheitum og velta fyrir okkur stöðu okkar sem þjóðar. Það er leitt.

Mér hafa nánast fallist hendur við yfirlestur á þeim óhroða sem fullorðið fólk er búið að senda frá sér á vettvangi sem þessum nú á síðasta sólarhring. Það sem mér finnst enn sorglegra er, hvernig þeir einstaklingar sem við höfum kjörið til setu á Alþingi haga orðum sínum. Ástæður þess skil ég ekki - og fyrst svo er, þá dreg ég þá ályktun, að það sé eitthvað annað sem býr þar að baki en hugsjónaeldurinn einn.

--------------------

Við lok þessa dags ætla ég að setjast að veisluborði með mínu heimafólki og hugsa til þeirra sem fjarri eru. Að því loknu er nauðsynlegt að kíkja á brennu, sem hefur verið auglýst, en ég veit ekki hvort eða hvernig verður í raun. Þá er ekki úr vegi að fylgjast með, væntanlega ekki mjög glaðlegum, annál þess sem gerst hefur á innlendum vettvangi áður en áramótaskaupið setur allt saman í skoplegt samhengi. Þá tekur við að afgreiða gamla árið endanlega með ofurbombum okkar Kvisthyltinga í samkeppni við næstu nágranna. Þetta verður eflaust allt saman einstaklega skemmtilegt, enda standa ekki vonir til neins annars.
Hvað síðan gerist verður samhengi hlutanna að leiða í ljós.

Lesendum þeirrar speki, sem ég hef borið á borð fyrir þá á árinu, þakka ég samfylgdina og óska þeim og þeirra fólki öllu, þess, að nýja árið verði þeim eins áfallalítið og uppbyggilegt og efni standa til. Þó horfur séu ekkert sérlega bjartar, ef marka má orð allra þeirra spöku og spekilausu karla og kvenna sem hafa tjáð sig þar um, þá er það nú svo, sem betur fer, að orð þeirra eru bara orð.


Nú árið er liðið og ekkert ég veit
um allt það sem næsta ár gefur.
Vér bíðum þess glaðir í Bláskógasveit
að brátt lifni jörðin, sem sefur.



20 desember, 2009

Tvær sortir (2)

Það kom mér talsvert á óvart, að við það að bæta 'þurrefnunum' í blönduna var hún ekki algerlega þurr, heldur bara nánast. Hún var það meðfærileg enn, að mér tókst að blanda saman við hana súkkulaðibitum í stórum stíl, ásamt muldum hnetum. Þar með var þetta klárt til að skella á plötuna með teskeið og hæfilegu millibili. Eðlilega gerði ég ráð fyrir tilteknu bili á milli kakanna svo þeim gæfist færi á því, við bökunina, að dreifa lítillega úr sér. Þessi aðgerð gekk sérlega vel, eins og við mátti búast. Þegar ég mat það svo að hæfilegur fjöldi af deigkúlum væri kominn á plötuna - eins og sjá má á seinni myndinni frá síðustu færslu - skellti ég plötunni í ofninn, sem ég hafði þá þegar stillt á viðeigandi hitastig. Síðan fylgdist ég náið með því þegar deigkúlutopparnir lækkuðu hratt og dreifðu úr sér. Þessari lækkun lauk ekki fyrr en það var sem ein kaka væri á plötunni og því ljóst, að á næstu plötu yrði ég að stækka svæðið sem hver kaka hefði til útbreiðslu.


Þar kom, ég ég taldi kökurnar (eða kökuna) tilbúnar og tók úr ofninum, skar með hníf á milli þeirra, þar sem ég taldi að samskeytin hefðu verið og leyfði þessu síðan að kólna meðan ég undirbjó næstu plötu til innsetningar - nú með tvöföldu bili á milli deigkúlnanna (svona fer maður að því að læra af reynslunni).
Þó svo kökurnar væru nokkuð óhefðbundnar í útliti, brögðuðust þær með ólíkindum vel. Þvílíkt hnossgæti!


Skammtur nr. 2 í ofninum gaf af sér eðlilegri afurð, en engu síðri á bragðið.
----------------------
Seinni uppskriftin sem varð fyrir valinu bar hið virðulega nafn: Kókostoppar, of var miklu einfaldari í framkvæmd. Enn þurfti á ákvarða hvenær hræriblandan væri 'létt og ljós', en þessu sinni reyndist það talsvert einfaldara.
Þegar þurrefnum hafði verið blandað í, kom í ljós, að blandan var það þunnfljótandi, að ekki virtust líkur á að úr því gætu orðið toppar. Eftir samráð við sérfræðinga, varð úr, að lítilsháttar viðbótarþurrefni var sett í, sem ekki hafði verið getið um í uppskriftinni. Þetta reyndist breyta öllu, og þar með ljóst að hér yrði allt í lagi.


Afraksturinn var náttúrulega ekki amalegur - út úr ofninum komu dýrindis toppar.

Eftir aðgerð þá sem hér um ræðir tel ég mig færan í flestan sjó í þessum efnum, en hef þar að auki sett ákveðið fordæmi fyrir aðra svipaðarar gerðar.

Á aðventunni ákvað ég að baka
eðalkökur.
Útlitið mér ekki þótti saka
ekkert kjökur.
:)


30 ágúst, 2009

Enn af geitungadrápi - ásamt aukaafurð þess

Ég hef ekki látið af þessu og skal nú lítillega greint frá nýjasta afreki mínu á þessu sviði.

Lagt var upp í heimsókn til nýbakaðra Borgnesinga með fulltingi gamla unglingsins og akandi í grænu þrumunni hans. Ferðalagið sjálft gekk vel - svo vel reyndar, að mér þótti með fádæmum. Í upphafi ferðar var mér gert að segja til um hvenær áfangastað yrði náð og til að segja eitthvað nefndi ég 12.15 og var þá klukkan kl 10.15 - þegar ferðin hófst.
Eftir akstur um Grafnning, Kjósarskarð, Hvalfjarðarbotn, Dragháls og Skorradal ásamt viðkomu í Hreppslaug (áhugavert staðarheiti) var rennt í hlað við tiltekið hús í Borgarnesi, nákvæmlega þegar sekúnduvísirinn small og klukkan varð 12.15.00 eins og ég hafði auðvitað sagt. Ég var svo sem ekkert hissa á þessari einstöku rýmisvitund minni, en fannst nokkuð miður hve hrós fyrir þetta afrek reyndist takmarkað úr munni samferðafólks.

Ferðin sjálf átti nú aldrei að vera í einhverju aðalhlutvereki hér, heldur þeir atburðir sem gerðust þegar dýrindismáltíð hafði verið borin á borð fyrir okkur ferðalangana. Þannig var að drykkjarglösin voru sérlega fín, e.k. hvítvínsglös með grænunm fæti og úr þeim var drukkið lítilsháttar öl.

Þegar merihluti máltíðarinnar var liðinn birtist í borðstofunni stór og verklegur geitungur, sem renndi sér fimlega milli matargesta, sem auðvitað brugðust misvel við heimsókninni. Hófust umræður árasargjarna geitunga á þessum árstíma og drottningar sem væru farnar úr búunum og væru skaðræðiskvikindi. Allir töluðu með hálfkrepptum vörum og gættu þess að hreyfa hvorki legg né lið. Meðal hugmynda sem fram komu um að losna við kykvendið var að ná í ryksugu, opna út á svalir eða leita að töfraefninu því sem nýtist vel í Kvistholti (það var reyndar ekki til á þessum bæ).

Það er vel þekkt, að geitungum finnst ölið gott, og það kom loks í ljós þegar þessi renndi sér að einu hinna fínu ölglasa og settist á glasbrúnina. Þaðan hóf hann síðan göngu sína ofan í glasið til að dreypa á vökvanum. Það var þá sem snilldin tók völdin. Munnþurrka var sett yfir glasið og haldið fast. Með þessu var bara hálfur sigur unninn - enn lifði hann. Hinn góði maður, húsbóndinn á umræddu heimili, tók glasið og hugðist fara með það, með geitunginn innbyrðis, út á svalir og sleppa honum þar. Þetta töldu Kvisthyltingar (alræmdir geitungabanarnir) hreint ekki við hæfi. Svona kvikindi átti ekki að sleppa lifandi frá aðstæðum sem þessum.
Það varð úr, að ég fékk glasið í hendur; ofan í því grimmilegur geitungurinn og munnþurrkan lokaði fyrir möguleika hans á að sleppa. Hugmyndin hljóðaði einfaldlega upp á að ég þrýsti munnþurrkunni ofan í glasið þar til líf væri farið úr kvikindinu. Auðvitað, eins og mér er einum lagið, skoðaði ég verkferilinn allan, fram og til baka áður en ég hófst handa. Þegar ég taldi alla möguleika á að vinurinn slyppi, útilokaða, hóf ég að þrýsta munnþurrkunni ofan í glasið. Varlega og yfirvegað fyllti munnþurrkan smám saman kúlulaga glasið og stöðugt þrengdi að geitungnum. Hann gerðist órólegur og freistaði útgöngu, en ég gaf engin grið - þrýsti áfram - hann skyldi sko drepinn sá djöfull!
Ég þrýsti enn og nú gat félaginn sig hvergi hreyft lengur. Ég þrýsti áfram og hann var orðinn hálf klesstur upp við glasvegginn, en hreyfðist enn. Einn lokaþrýstingur skyldi nú enda þá óláns lífsgöngu sem þarna hafði verið um að ræða.
Skyndilega heyrði ég smell og leit á glasið, en ég hafði, sem sagt, litið upp á borðfélagana svona rétt áður en verkið skyldi fullkomnað. Hliðin var úr glasinu, en sannarlega var geitungurinn kraminn til ólífis. Í hálfa sekúndu velti ég því fyrir mér hvort ég kæmist upp með þetta þannig að húsbændur vissu ekki af, en varð auðvitað jafnskjótt ljóst, að um það væri ekki að ræða.
Þau brugðust auðvitað ljúfmannlega við þessu 'óhappi' - en ég veit ekki enn hvort hér var um að ræða ódýrt bónusglas eða ómetanlegan ættargrip og mun sennnilega aldrei fá neitt um það að vita.
Geitungurinn var allur - og það er mest um vert.

Geitunginn leit ég í glasi,
grimmur hann virtist og stór.
Með firna rólegu fasi
ég fargaði honum í bjór.


- ég tek fram að myndirnar eru ekki eftir mig - þó þær gætu vissulega verið það.

23 ágúst, 2009

Hvað skal með hvítt borð?

Eins og fólk á mínum aldri veit af langri reynslu, þá er lífið stöðugt að taka breytingum. Eitthvert tiltekið ástand sem var, er ekki lengur. Breytt ástand kallar að ýmsu leyti á breytingar, sem hjálpa til við aðlögun að hinu nýja ástandi, oftast í þá átt að maður þarf að bæta við, frekar en draga úr, eða jafnvel losna við eitthvað það sem hentaði ástandi mála á einhverju tímaskeiði, en gerir það ekki lengur.

Það er þannig með málið sem hér um ræðir - málið með hvíta eldhúsborðið.
Það voru tímar sem kölluðu á þetta hvíta borð: fjölskyldan var orðin 6 manns. Þegar varla var orðið sætt í eldhúsinu við morgunverðinn lengur, sökum þrengsla við lánsborðið, sem lengi var notað, ákváðu Kvisthyltingar á fjárfesta í þessu fína, hvíta eldhúsborði, sem var meira að segja stækkanlegt. Lánsborðinu var skilað, reyndar ekki fyrr en áratugum seinna (ef það hefur þá verið gert - hvað veit ég? Það getur vel verið að það gegni enn einhverju burðarhlutverki í þvottahúsinu).
Hvíta borðið naut þess að vera umvafið Kvisthyltingum þar til þeir fóru að tínast burtu, einn af öðrum. Þegar þeir voru orðnir eftir þrír, kom fram sú hugsun, að það væri hreinlega orðið of stórt, ekki síst þar sem æskilegt þótti að fá meira athafnarými í ekki allt of stóru eldhúsinu.
Það vildi svo vel til, að á þessum sama tíma fór að bera á myndlistaráhuga fD og þar með fannst nýtt hlutverk fyrir hvíta borðið og jafnframt afsökun fyrir því að kaupa nýtt og betur passandi eldhúsborð. Hvíta eldhúsborðið varð, sem sagt að hvíta myndlistarborðinu. Þarna fékk það að gegna sínu hlutverki í tiltölulega stuttan tíma, eða þar til sú stund kom, sem þegar hefur verið greint frá hér, að fD taldi sínum málum vera betur fyrir komið á skrifstofu heimilisins, ekki síst þar sem þar var að finna afar stórt og veglegt borð, sem hentaði betur. Myndlistin var flutt niður á skrifstofuna og skrifstofan, eða það sem eftir var af henni, í fyrrverandi myndlistarherbergi, sem nú skyldi fyrst og fremst hýsa tölvubúnað af ýmsu tagi. Hvíta borðið hentaði einfaldlega ekki þeirri starfsemi sem þar skyldi fara fram, heldur var keypt viðeigandi plata með viðeigandi festingum, sem nú prýðir tölvuherbergið, nákvæmlega í réttum hlutföllum.
Hvíta borðið fór hinsvegar fram á gang og þar stendur það enn, engum til gagns og fremur til óþurftar, enda þarf að komast framhjá því mörgum sinnum á dag og það hefði sannarlega ekki verið mál fyrir 30 árum.

Vissulega hefur verið rætt hver örlög hvíta borðsins skulu vera og það sem liggur beinast við er að keyra það út í timburgám, í þeirri von að það verði þannig til einhvers framhaldsgagns (sem verður þó að draga í efa). Þetta er hinsvegar ekki eitthvað sem mér hugnast, enda sérlega ágætt hvítt borð hér á ferðinni.
Ég hef hugsað mikið um hvert mögulegt gagn borðið gæti gert hér, en hef ekki komst að viðunandi niðurstöðu þar um. Hér er frekar þörf á að fækka húsgögnum en viðhalda eða bæta við. Hvað myndi gerast ef einhver teldi sig husanlega hafa not fyrir borðið? Það er spurning sem ekki hefur verið svarað - og hún hefur ekki einu sinni verið borin upp við fD.
Það er hinsvegar nokkuð klárt, að hvíta borðið verður ekki á þeim stað sem það er nú mikið lengur. meira að segja ég myndi ekki láta það gerast.

Allt um kring mig eðalmenni sátu
og árbít sinn og kaffibrauðið átu.
Hver örlög verða mín ég ekki veit
en ágæt var hér dvöl, í skógarreit.

08 júlí, 2009

Annar blær (2)

Með því að setja 2 í sviga er ég að vísa til færslu með sama nafni frá 20. apríl á síðasta ári. Þessa færslu skildu lesendur ekki, eins og sjá má af þeim athugasemdum sem skráðar voru. Of djúpt, enda ætlaðist ég til þess að það þyrfti töluvert innsæi til að skilja hvað um var að ræða.

Ástæða þess að ég vísa til þessarar færslu, sem er ríflega ársgömul er, að nú mun vera samskonar staða uppi og þá var. Munurinn er sá að nú hafa birst á opinberum vettvangi upplýsingar um hver staðan er, en það var ekki þá og því þörf á að vera dulúðugur í orðavali.

Nú eins og þá hefjast vangaveltur um hvernig þetta fari nú allt saman þó svo mestar líkur séu á að allt fari eins og best verður á kosið. Áhyggjurnar beinast væntanlega fyrst og fremst að gerendunum, sem nú sjá fram á að lífið breytist umtalsvert, sbr. 'It's the end of the world as we know it...'.

Jamm - lífið breytist í grundvallaratriðum, dýptin eykst og litunum fjölgar. Það gefst færi á að gleðjast yfir öðrum hlutum með allt öðrum hætti. Það þarf að fórna, en fórnirnar þær gefa margfaldan arð. Það þarf að forgangsraða með öðrum hætti, en samt er í rauninni rúm fyrir allt.

Þetta er það sem allt snýst í rauninni um, er það ekki?

--------------------------
--------------------------

Heimsókn til gamla unglingsins í dag fór í að ræða kveðskap. Ég þóttist þekkja stuðla, höfuðstafi og rím, ásamt hákveðum og lágkveðum og öllu þessu sem til heyrir. Jafnframt gat ég þess, að ég treysti mér vel til að sjá hvaða vísa væri rétt kveðin. Hinsvegar sagði ég sem satt er (eins og segja má um Jóhönnu og Steingrím þessa mánuðina): Það er auðveldara um að tala en í að komast.
Hvað um það. Ég er nokkuð lélegur til gangs þessa mánuðina og er yfirleitt hálf haltrandi þegar ég kem í heimsóknirnar. Þessari lauk þannig að sá gamli sagði mér að klára þessa fyrstu línu fyrir morgundaginn:

Illt er að ganga' á einni löpp..................

Eins og vant er, kostaði þessi áskorun mikil heilabrot og þótti mér það ekki góð tilhugsun, að standast hana ekki.
Ég endaði á þessu og er ekki fyllilega ánægður:

Illt er að ganga' á einni löpp,
allt er skakkt og bogið.
Verkir hrjá mig, von er slöpp,
ég vildi' ég gæti flogið.

07 júlí, 2009

Eftir heimsókn til gamla unglingsins

Rætt var hvað einkennir íbúa hinna ýmsu landshluta, svona eins og gengur. Í tengslum við þetta stóð eftirfarandi upp úr þeim gamla:

Sunnlendingar segja mest
og svíkja flest.
Vestfirðingar vita mest
og vilja verst.
Norðlendingar ríða mest
og raupa flest.
Austfirðingar eiga mest
og una verst.

(veit einhver eftir hvern þetta er?)

Umræðan snérist einnig, eins og svo oft áður, um stöðu mála á okkar góða landi og ekki var það allt á bjartsýnustu nótunum.
Sá gamli á fyrstu línuna:

Allt fer nú til andskotans
engu' er hægt að bjarga.
Hrollvekjandi Hrunadans
hræðir bankavarga.



28 júní, 2009

H R I N G R O K

Ef þetta orð væri til í íslenskri orðabók, væri því gerð skil með eftirfarandi hætti:

hringrok, -s, - h 1. það að eitthvað rýkur eða fýkur í hringi. 2. stormur eða stórviðri sem fer í hringi. 3. sjór, ýfður af roki sem fer í hringi og fýkur því smám saman í hringi af þeim sökum. 4. vindsveipir sem myndast sólbaðsmegin húsa eða í kjölfar farartækja á ferð. 5. dansleikur, þar sem dansandi fólkið sveiflast hratt í hringi undir dynjandi tónlist.

"Það er bölvað hringrok þarna úti", varð fD að orði þegar hún kom inn eftir sólbaðstilraun í gær. Með þessari athugasemd varð til þetta líka fína orð, sem síðan reynist vel nothæft um ýmislegt annað. Það var t.d. þannig í gærkvöld (og reyndar fram á nótt) vorum við viðstödd hörku hringrok með Bleki og byttum í Úthlíð. Núna áðan nálgaðist ég uG, sem skellti sér í austurveg. Þá varð mér að orði: "Það var ekki einu sinni hægt að greina hringrok á þeim hraða sem bílalestin til höfuðborgarinnar silaðist".
Loks liggur það fyrir að Kvisthyltingar hafa lagt drög að því að mynda hringrok á leið til Keflavíkur í síðari hluta næsta mánaðar, hvaðan myndað verður hringstólparok í átt til Norðurlanda í beinu framhaldi.

Eins og sjá má af framansögðu, er um að ræða nýyrði sem er sérlega þjált og sveigjanlegt og til margskonar tjáningar nytsamlegt.

Sumarið líður, sól er í heiði
senn eru júnílok.
Allt er í blóma, yfir þó breiði,
einstaka hring(a)rok.



17 júní, 2009

Dagur hástemmdra ræðuhalda


Það þarf líka að halda ræður.
Það þarf að reyna að hjálpa týndri þjóð til að finna sig aftur.
Það þarf að búa til falleg orð og raða þeim svo saman með smekklegum hætti.
Það þarf að hvetja þjóðina til að gefast ekki upp.
Það þarf að efla með þjóðinni baráttuanda.
Það þarf að hvetja þjóðina til sáttfýsi.
Það þarf að rifja upp gömul og góð gildi.
Það þarf að lesa og syngja baráttusöngva þjóðskáldanna.
Það þarf að fjalla um fegurð landsins.
Það þarf að minna á fuglana og blómin.
Það þarf að sannfæra þjóðina um að sólin birtist innan skamms.
Það þarf að fara með málsháttinn sem segir að öll él stytti upp um síðir.
Það þarf.

Það þarf líka að hugsa öðruvísi.
Það þarf líka að vera reiður.
Það þarf líka að leita réttlætis.
Það þarf líka mótmæla.
Það þarf líka að vera raunsær.
Það þarf líka að takast á við raunveruleikann.
Það þarf líka að koma lögum yfir vitleysinga.
Það þarf líka að.......................................já.

Megi þjóðin þora að verja
það sem hennar fjöregg er.
Ofurstóra eiða að sverja
aldrei missa það frá sér.

Njótið dagsins, gott fólk.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...