Eins og annað fólk leyfi ég mér að hugleiða lítillega þann veg sem við höfum gengið á þessu ári og einnig hvernig vegurinn framundan lítur út. Ég held að ég hafi ímyndað mér, í upphafi árs, að við lok þess yrðum við farin að ná áttum og að umræða í þjóðfélaginu hefði ná einhverju jafnvægi. Reyndin er sú, að við erum líklegast enn jafn reið og í upphafi ársins. Ég reikna með að það sé varla til sá einstaklingur sem ekki er reiður að einhverju marki. Af þessum sökmu gef ég árinu nafnið sem fyrirsögnin segir til um (þetta virkar svo flott á latínu :)): Ár reiði, skal það heita.
Við þessi áramót eru harla litlar líkur á að framundan séu bara rólegheit í þjóðlífinu. Það er fátt sem bendir til að við stígum út úr reiðinni og reynum á halda göngunni áfram sem ein þjóð. Við munum líklegast halda áfram að öskra hvert á annað og slengja ásökunum í állar áttir. Við munum líklega síður setjast niður í rólegheitum og velta fyrir okkur stöðu okkar sem þjóðar. Það er leitt.
Mér hafa nánast fallist hendur við yfirlestur á þeim óhroða sem fullorðið fólk er búið að senda frá sér á vettvangi sem þessum nú á síðasta sólarhring. Það sem mér finnst enn sorglegra er, hvernig þeir einstaklingar sem við höfum kjörið til setu á Alþingi haga orðum sínum. Ástæður þess skil ég ekki - og fyrst svo er, þá dreg ég þá ályktun, að það sé eitthvað annað sem býr þar að baki en hugsjónaeldurinn einn.
--------------------
Við lok þessa dags ætla ég að setjast að veisluborði með mínu heimafólki og hugsa til þeirra sem fjarri eru. Að því loknu er nauðsynlegt að kíkja á brennu, sem hefur verið auglýst, en ég veit ekki hvort eða hvernig verður í raun. Þá er ekki úr vegi að fylgjast með, væntanlega ekki mjög glaðlegum, annál þess sem gerst hefur á innlendum vettvangi áður en áramótaskaupið setur allt saman í skoplegt samhengi. Þá tekur við að afgreiða gamla árið endanlega með ofurbombum okkar Kvisthyltinga í samkeppni við næstu nágranna. Þetta verður eflaust allt saman einstaklega skemmtilegt, enda standa ekki vonir til neins annars.
Hvað síðan gerist verður samhengi hlutanna að leiða í ljós.
Lesendum þeirrar speki, sem ég hef borið á borð fyrir þá á árinu, þakka ég samfylgdina og óska þeim og þeirra fólki öllu, þess, að nýja árið verði þeim eins áfallalítið og uppbyggilegt og efni standa til. Þó horfur séu ekkert sérlega bjartar, ef marka má orð allra þeirra spöku og spekilausu karla og kvenna sem hafa tjáð sig þar um, þá er það nú svo, sem betur fer, að orð þeirra eru bara orð.
Nú árið er liðið og ekkert ég veit
um allt það sem næsta ár gefur.
Vér bíðum þess glaðir í Bláskógasveit
að brátt lifni jörðin, sem sefur.
Gledilegt ár og vid sjáumst í sumar.
SvaraEyðaBkv.
Ása
Hafðu hartans þakkir fyrir ánægjulega og áhugaverða pistala á gamla árinu. Megi nýja árið færa þér og þínum gæfu og gengi.
SvaraEyðaKv. Aðalheiður
Takk fyrir það og lesturinn :)
SvaraEyða