30 desember, 2009

Yfirborðslíf



Það vita allir að grunnir lækir sem falla niður fjallshlíð fara mikinn, en það

afl sem í þeim býr, þegar á reynir er harla lítilvægt. "Still waters run deep", segir málshátturinn.
Yfirborðsmennskan birtist okkur á hverjum einasta degi í gegnum gaspur þeirra sem telja sig hafa höndlað sannleikann eina, í gegnum fjölmiðla af ýmsu tagi, ekki síst á síðum eins og þessari. Oftar en ekki er fjallað um menn og málefni af afskaplega mikilli vanþekkingu og grunnhyggni. Því meiri sem lætin eru, því meira er froðusnakkið. Því meiri sem dómharkan er, því minna er mark takandi á málflutningnum.
Það sama má segja um ýmsa vöru og þjónustu sem okkur standa til boða, ekki síst þegar halda skal hátíð.
Þá er ég loksins kominn að efninu, eða dæmisögunni sem ég ætla að nota til að undirbyggja það sem að framan er sagt.

Eins og margir aðrir, tók ég þátt í jólahlaðborði í byrjun desember. Þar voru gestir beðnir að koma með gjöf með sér, eina á mann. Síðan fékk hver og einn sína gjöf. Þetta var nú bara skemmtilegt. Gjöfin sem ég fékk, var nú ekki af lakara taginu; 6 rauð kerti í glæsilegum kassa. Kertin voru sérlega fögur í fína kassanum sínum - mótuð í formi rauðrar rósar - ávísun á rómantíska kvöldstund, sem auðvitað hentar mér sérlega vel. Þar fyrir utan sá ég fyrir mér, að þetta hlytu að vera ilmkerti og að rósailmurinn myndi fylla herbergið og auka þannig enn á fegurð rósaljóssins. Fullkomið loforð um fullkomna stund.

Ég ákvað nú að prófa eitt kertanna þegar leið að jólum. Myndir segja meira en þúsund orð (reyndar alræmd klisja) og því læt ég þær sjá um lýsingu á því sem gerðist. Og ég læt ykkur, góðir lesendur um að tengja saman það sem ég sagði í upphafi og kertið "góða".


Þau ilmuðu ekki einu sinni.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...