19 júní, 2011

"Ðer is nó kar for jú" (3)

Þarna stóð ég og upplifði það versta sem hefði getað gerst, með þrjá tilvonandi og grunlausa farþegana í hægindum fyrir framan. Afgreiðslumaðurinn gerði sig ekki líklegan til að segja neitt frekar um málið, hvað þá reyna að gera eitthvað í því.

Þá hófust EN-in hjá mér:
En ég er með blað sem sýnir að ég sé búinn að taka frá bíl.
En það stóð að bíllinn biði mín.
En ég pantaði bílinn fyrir 6 vikum.
En mér var sagt að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa þó ég fengi ekki staðfestingu frá ykkur.
Hér laumaði ég inn þeirri staðreynd að einn helsti leigutaki bíla frá SIXT í Þýskalandi væri sonur minn, og að hann hefði ekkert nema gott eitt um þjónustuna að segja. Þá greindi ég lítilsháttar sprungu í þvergirðing þessa hjálpsemislausa afgreiðslumanns. Hann tók til við að segja mér hversvegna ég fengi ekki bíl, en fyrir því voru tvær ástæður:

1. Mér var sendur tölvupóstur þann 25. maí (daginn sem við fórum frá Íslandi) þess efnis að ég mundi ekki geta fengið bíl.

Non availability of rental car
Sehr geehrter Herr SKULASON,
anbei erhalten Sie das bei Ihrer Sixt Autovermietungangeforderte Dokument.Weiterhin Gute Fahrt wünscht Ihnen

Unfortunately we are unable to confirm  the request at the required time.


Ihr Sixt-Team.

2. Ég hefði átt að mæta í síðasta lagi kl 11 á þessum degi (ef ég hefði á annað borð fengið bíl), þar sem ég hafði sagst ætla að ná í hann kl. 10, en þegar hér var komið var klukkan um þrjú. Þetta átti ég að hafa getað lesið einhvers staðar, en sú hafði ekki verið raunin.

Þarna var s.s. nokkuð þrátefli komið upp. Ég hafði auðvitað ekki grun um hvað til bragðs skyldi taka, en þar sem það var komin sprunga í þvergirðinginn, fór ég að reyna að meitla í hana: höfða til göfugra tilfinninga og freista þess að fá mannræksnið í það minnsta til að sýna lítilsháttar skilning á stöðunni. Það lengsta sem ég komst með hann í þeim efnum var, að hann sagði að það væri fjarlægur möguleiki að ég gæti fengið bíl eftir kl. 5, tveim tímum seinna. Að öðru leyti var hann bara farinn að dunda sér í tölvunni. Þá, allt í einu, upp úr þurru gerðist lítið kraftaverk:

"Jú kom from Æsland?"

Þessu játti ég auðvitað. Þessi staðreynd dugði til að breyta durtinum í dánumann.

Þarna kom sem sagt fram, að hann var innan örfárra daga að skella sér í siglingu um N-Atlantshafið og einn viðkomustaðurinn var Ísland. Þessi tenging varð til þess að hann sagði mér, þessum nýja, besta vini sínum, að hann væri með bíl fyrir utan, en það væri ekki búið að þrífa hann.
Finnst einhverjum líklegt að ég hafi farið að setja það fyrir mig?!?

Þarna var um að ræða splunkunýjan VW Passat, sem ég gat ekki séð að væri eitthvað óþrifalegur.


Þegar hér var komið fór ég að freista þess að leysa hitt vandamálið með vini mínum: GPS-tækið sem fann ekki gervihnött. Ég reyndi í miðbænum í Amberg og aftur þarna í bílahúsinu hans Péturs, en án árangurs.
Vinur minn gat sagt mér, að það væri bara eðlilegt: strax og ég kæmi út fyrir húsið, myndi tækið ná sambandi. Sú varð auðvitað raunin.

Allt leystist þetta farsællega, og ég átti vona að vini mínum frá Amberg í kaffi þann 8. júní, en þá ætlaði hann að vera á Íslandi og koma í hemsókn (Æ hef jor adress) , sem ég af örlæti mínu, tók undir af heilum hug, enda var þessi bíll 30 evrum ódýrari en sá sem ég hafði pantað.

Ég skellti mér í sturtu bak við glerið þegar komið var á hótelið - ekki veitti víst af.

Vinur minn kom ekki í kaffi. Landið hefur kannski reynst vera stærra en hann hafði ímyndað sér.


18 júní, 2011

...og þá fer hún að mala

Ég hef áður skráð á þessum síðum vísur sem gamli unglingurinn fer með, eftir því sem honum þóknast. Oft nefnir hann hvað honum finnst gott þegar er komin kona í eldhúsið, en hefur jafnframt takmarkað álit á því þegar ég er að bardúsa þar, enda telur hann slík verk ekki vera við hæfi karlmanna.

Þessi vísa spratt fram þegar fD kom til að hafa til kaffið:


Komir þú á bæ þar sem kaffi er ekki á borðum
og kunnir ekki við að biðja um það með orðum.
Stattu þá hjá frúnni' um stund án þess að tala,
strjúktu henni um bakið og þá fer hún að mala.


Á vefnum skagafjörður.is er vísan, en þar er hún svona:

Komir þú á bæ þar sem kaffi er ekki á borðum
og kunnir ekki við að biðja um það með orðum.
Stattu við hjá frúnni og stilt þig um að tala
strjúktu henni um bakið og þá fer hún að mala.

Höfundur:
Guttormur J. Guttormsson skáld í Vesturheimi f.1878 - d.1966

Fleiri eru vísurnar sem hafa verði skráðar eftir þeim gamla í minnisbók sem liggur frammi.

Ekki fann ég höfund þessarar:

Austur í sveitum býr ágætis fólk,
með úttroðinn maga af skyri og mjólk.
Þar er mörg jómfrúin, þjóðleg og spræk
og þaðan er Einar frá Geldingalæk.

Þessi vísa Þórðar Kárasonar kemur alloft fyrir:

Margt er skrítið mannheimi í
margur fær að kenna á því.
Ýmsir konur eiga tvær,
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð
en öðrum kær.

Þarna mun Þórður hafa verið að yrkja um einhverja sveitunga. 
Ég fann ekki staðfestingu á að vísan væri eftir Þórð.

Þessi er eftir einhvern gárunga á S.-Reykjum, á þeim tíma sem sá gamli var þar við störf:

Lúter og Jensen líða þraut,
þau lífsins börn.
Elta báðir, eins og naut,
Ernu á Tjörn.
(Lúter hét Marteinn Lúther (Sk.M.) og Jensen var aldrei kallaður annað en Jensen í mín eyru. Erna er náttúrulega Erna Jensdóttir, húsfreyja á Tjörn í Biskupstungum)

Loks er vísa sem ég hef ekki fundið höfund að, og því ekki upplýsingar um hver Ingibjörg var:

Ingibjörg er aftandigur,
en örmjó að framan.
Skyld'ekki mega skera'na sundur
og skeyta'na saman?

17 júní, 2011

Þjóðhátíðarávarp til klofinnar þjóðar

Það var fyrsta verk fD á þessum morgni að grípa þjóðartáknið og koma því fyrir í blómakassanum. Síðan tók ég við og smellti mynd af því þar sem það blakti af innblásnu öryggi í rakamettuðum austnorðaustan kaldanum.

Þá var það búið og næst á dagskrá að velta fyrir sér einhverju til að skrifa, sem hæfir þessum degi. Þá vandaðist málið nokkuð. Það er enfnilega auðvelt að framkvæma eitthvað í hinu ytra, en að ná tökum á hugsunum sínum í tengslum við það sem innra er.
Á sama tíma og biskupinn yfir Íslandi flytur innblásna (væntanlega) predíkun sína um sóma Íslands í samhengi við kristilegan kærleiksboðskap, kallar talsverður hluti landsmanna eftir því að hann og allt hans fólk hverfi af vettvangi sem fyrst vegna ófyrirgefanlegra mistaka í opinberu embætti.
Á sama tíma og forsætisráðherrann flytur þjóðhátíðarræðu sína, sem var að stærstum hluta um sóma Íslands (harla ófrumleg lofræða um sómann, sverðið og skjöldinn), kallar afar stór hluti landsmanna eftir afsögn ráðherrans og alls hans föruneytis.

Þjóðin, sem stjórnmálamennirnir (að minnsta kosti þeir sem komu henni á kaldan klaka) segjast vera að vinna fyrir, er enn klofin í herðar niður eftir það þriggja ára vegferð frá því sem gerðist. Það bendir ekkert  til að á því sé að verða breyting: enn hefur enginn axlað ábyrgð, enn hefur enginn verið dæmdur, enn blakta þeir sömu og áður, eins og ekkert hafi gerst.

Ég veit ekki um þjóðina. 
Ég hef kallað hana ýmsum nöfnum og það viðhorf mitt hefur nú lítið breyst. 
Þjóðin sveiflast enn í takt við þá sem eiga pening til að fjármagna áróður í fjölmiðlum. Þeir vita, að með því að höfða til tilfinninganna er auðvelt að hafa áhrif á þjóðina, sem virðist ekki fær um að horfa hlutlægt á málin, velta fyrir sér, skoða í sögulegu samhengi, eða muna yfirleitt hvernig sagan var.

Við tilheyrum þjóð í kreppu, ekki aðallega svona hið ytra, því við getum dregið upp fánann og sungið "skundum á Þingvöll og treystum vor heit". Við getum hinsvegar ekki náð þeirri lendingu í þjóðmálum sem er nauðsynleg til að við getum, sátt, haldið áfram að vera þjóð.

Ég held að við getum ekki orðið sátt fyrr en allt er upp gert; maklegum málagjöldum hefur verið úthlutað. Við vorum nefnilega svikin. Það var framinn á okkur glæpur.

Skelfing er leiðinlegt að geta ekki vegsamað bæði land og þjóð á svona degi.  Ég get vegsamað landið, því það er enn tilverustaður okkar á jörðu, og við vitum að hverju við göngum þegar það er annars vegar, og við það getum við verið sátt. Það sama er ekki hægt að segja um þjóðina.

Njótum dagsins og nýtum hann til að hugsa fortíð og framtíð í samhengi.

"Ðer is nó kar for jú" (2)

Einn þeirra sem nærri mér standa hefur þá kenningu, að maður eigi alltaf að búast við hinu versta til að koma í veg fyrir vonbrigði. Ég neita því ekki, að frá því ég pantaði bílaleigubílinn blundaði sú hugsun í kollinum á mér að þegar ég kæmi til að nálgast bílinn, sæti þar manneskja sem segði:
"Ðer is nó kar for jú"
Ég var búinn að fara í gegnum allskyns möguleg viðbrögð mín við aðstæðum af þessu tagi. Í þessum vangaveltum mínum varð niðurstaðan ávallt sú, að bíllinn biði mín, eins og sagði í  SIXT Online-Check-In: Rapid pickup:


Sixt Online-Check-In: Rapid pickup

Sixt Online-Check-In: Pick up your hire car in no time!
  • Collection at the dedicated Online-Check-In desk *
  • No queues and no paperwork
  • Your hire car will be waiting for you













"Your car will be waiting for you" sögðu þeir. Hversvegna átti ég svo sem að draga það í efa?

Svona var hugsanagangur minn þar sem við fjögur (ég, fD, fG og hH) sátum í leigubíl sem flutti okkur til Autohaus Peter, An den Franzosenaeckern 1, í Amberg.


Þegar þangað var komið gerðum við upp leigubílinn og ég tók forystuna þegar hópurinn gekk inn um dyrnar á bílahúsinu hans Péturs.


Þarna voru bílar af ýmsum gerðum, nýir og notaðir. Ég var búinn að kynna mér, að Pétur var þarna með sölu á nýjum og notuðum bílum, svo þetta kom ekki á óvart.

Ég skimaði um salinn í leit að merki bílaleigunnar, en fann til lítilsháttar óöryggis þegar það blasti hvergi við. Afgreiðslumann fann ég, sem gat vísað mér að bílaleiguna. Fullir trausts á mér, fengu farþegarnir sér sæti í hægindum bílahússins, en ég gekk eins ákveðið og mér var unnt, í átt til afgreiðslu bílaleigunnar. Það stóð heima, þarna var hún, inni í miðju bílahússins.

Fyrir innan afgreiðsluborðið sat maður á fimmtugsaldri, fyrir framan tölvu (hvar annarsstaðar?), líklegast í tölvuleik, því það var enginn annar kúnni á staðnum. Við skiptumst á kveðjum og ég bar upp erindið og framvísaði þeim gögnum sem ég hafði prentað eftir að hafa bókað bílinn (tekið hann frá) á sínum tíma.
Maðurinn virtist harla fjarri því að vera ánægður með að sjá mig, kúnnann, og sagði helst ekkert. Hann tóka blöðin mín og slö tölur inn í tölvuna. Ég vonaði, heitt og innilega, að fyrsta setningin sem hann segði eftir innsláttinn yrði ekki:  "Ðer is nó kar for jú".


Mér varð að ósk minni.

Þegar maðurinn hafði, þegjandi í talsverðan tíma, kynnt sér hvað tölvan hafði fram að færa, kvað hann upp úrskurðinn:

"Zehrrs nó kar for jú".
- með öðrum orðum:
"Kompjúter ses nó"

Framundan voru mínútur sem ekki verður lýst hér og nú - heldur síðar.

13 júní, 2011

"Ðer is nó kar for jú" (1)

Ég er nú þeirrar gerðar, að mér er fremur illa við óvissu og því var það, að 5-6 vikum áður en við héldum í Evrópuferð vorsins skellti ég mér í að panta bílaleigubíl vegna seinni hluta ferðarinnar. Þá lá fyrir, að á síðasta degi starfsmannaferðarinnar, (sem hófst þann 24. maí), þann 30. maí, myndi verða farið til Amberg, sem er 45000 manna bær í tæpra 20 km fjarlægð frá Sulzbach-Rosenberg. Það lá hinsvegar ekki fyrir hvenær dags það yrði.

Nú, þarna fann ég bílaleigu með útibú í Amberg sem ber nafnið SIXT og þar fann ég viðeigandi bifreið og festi mér hana, eftir því sem ég taldi og gerði ráð fyrir að ná í hana kl 10 að morgni. Það eina sem olli mér lítilsháttar áhyggjum í þessu sambandi var, að ég fékk engin viðbrögð eða staðfestingu frá bílaleigunni um að þetta yrði allt í lagi, en þær hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar reyndur maður í viðskiptum við þessa bílaleigu, fullvissaði mig um að ég fengi bílinn; það væri engin spurning.

Svo rann dagurinn upp. Hópurinn fór til Amberg eins og ferðaskipulagið gerði ráð fyrir og sinnti því sem þar þurfti að sinna. Eins og flesta daga ferðarinnar var þarna glampandi sólskin og molluhiti (28-30°C). Eftir skipulagða viðburði dagsins vorum við stödd í miðbæ Amberg og mér datt í huga að taka fram GPS tækið góða sem skyldi leiða okkur um þjóðvegakerfi Þýskalands. Þegar ég kveikti á því tilkynnti það mér, að Evrópukortið væri úrelt og ég þyrfti að uppfæra það, og síðan birtist tilkynning um að það fyndi ekki gervihnött. 

Ekki leist mér á blikuna þegar hér var komið. Hætti að njóta þess að vera þarna í þessari ágætu borg og hugsaði fátt annað en hvernig við færum að, ef tækið fengist ekki til að virka. Taldi þó að það myndi allt reddast þegar ég fengi SIXT menn með mér í að leysa úr því - þeir hlytu að vita allt um GPS tæki.

Þegar hér var komið var klukkan orðin um 14.30 og fátt sem ég hafði hug á að sinna frekar í miðborg Amberg, ekki síst í ljósi áhyggna minna af virkni GPS tækisins. Ég komst einnig að því, að fD var orðin tilbúin til að fara að sinna bílamálinu, enda búin að fara í C&A. Þá var staðan einnig orðin sú að hún var búin að nefna það við núverandi og verðandi ellilífeyrisþega, þau hH og fG, hvort þau vildu bara ekki koma með okkur í bílaleigubílnum til S-R, í staðinn fyrir að taka leigubíl þangað. Þarna bar ég, sem sagt, orðið ábyrgð á því að koma mér og þrem farþegum frá Amberg til S-R í bílaleigubíl sem ég var ekki viss um hvort ég fengi með GPS tæki sem ekki virkaði.

Væntanlegur farþegahópur hélt gangandi úr miðbæ Amberg á járnbrautarsöðina þar sem síðan var tekinn leigubíll að útibúi SIXT í úthverfi bæjarins.

Það sem þar gerðist bíður um stund.

12 júní, 2011

Fyrir innan glerið

Á innlits-útlits tímanum voru gerðar ýmsar lúxustilraunir að því er varðaði híbýli manna eins og flestir vita. Það voru gerðar tilraunir með ný efni í innréttingum og nýja stíla (eðlilega, með hratt vaxandi stétt stílista). Ein þessara tilrauna fólst í því að sameina hjónaherbergi og baðherbergi í eitt alrými með því að setja upp glervegg milli þessara tveggja rýma og þar með tryggja það að ekkert sem fram fór í öðru rýminu fór framhjá þeim sem voru staddir í hinu.

Einhverjum kann að finnast að ég sé nú bara gamaldags, að skilja ekki mikilvægi þess að tveir aðilar sem deila sama herbergi, eigi ekki að þurfa að framkvæma hluti sem þeir vilja helst gera einir með sjálfum sér. Þá er ég bara gamaldags.

Þetta herbergi með glerveggnum inn á salernið rifjaðist upp fyrir mér, þegar við fD gengum inn á herbergið okkar á hótelinu í Sulzbach-Rosenberg. Byggingin sjálf er frá árinu 1791, en hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun innanstokks. Ein slík virðist hafa átt sér stað á einhverjum herbergjanna fyrir örfáum árum, á blómatíma stílistanna. Þannig var það með herbergið sem við fengum og við fréttum af nokkrum öðrum, slíkum. Í þeim voru, í sumum tilvikum óskyldir/ótengdir aðilar, sama kyns.

Myndin er ekki frá Sperber
Ég ætla ekki að fara út í neinar nákvæmar lýsingar á því sem þarna var um að ræða, né þær vangaveltur og hugsanir sem bærðu á sér við þessar aðstæður, en læt huga hvers og eins lesanda um að fara á það flug.










Hótelið var, á heildina litið, mjög snyrtilegt og hlýlegt; nokkurs konar sambland af hóteli og brugghúsi. Á góðu kvöldi fengum við leiðsögn um brugghúshluta hússins, og auðvitað var enginn annar bjór drukkinn, enda hreint ágætur.

11 júní, 2011

Fjör og massar

Langt er nú síðan ég hef látið til mín taka á þessum vettvangi, en það á sér gildar skýringar. Mér er það auðvitað fullljóst að þeir eru margir sem af þessum sökum hafa ekki getað sótt sér andlega næringu sem skyldi á þessum tíma og ég biðst auðvitað velvirðingar á því.

Ráðhúsið í Sulzbach-Rosenberg
Þegar búið var að afgreiða það sem afgreiða þurfti að því er varðaði vinnuna, skelltum við fD okkur í hópi 32 manna samstarfsmanna í ógurlega skemmtilega náms- og kynnisferð til smábæjar í S-Þýskalandi sem Sulzbach-Rosenberg kallast. Til nánari útlistunar á hvar bær þessi er þá er þess að geta að hann er um 50 km suðaustur af Nurnberg.




Þetta var löng skrúðganga með
amk 2 lúðrasveitum
Íslenskir þátttakendur í skrúðgöngu

Það er skemmst frá því að segja að þarna fengum við aldeilis ágætar móttökur og fengum stöðu heiðursgesta í bænum um stund. Daginn eftir komu okkar í bæinn skartaði bæjarblaðið risastórri mynd af hópnum ásamt umfjöllun um heimsóknina. Hámarki náði meðferðin á okkur þegar bæjarstjórinn margítrekaði tilveru okkar í opnunarræðu sinni á vorhátíð bæjarins. Þar skipaði hann okkur á stað í skrúðgöngu næst á eftir lúðrasveitinni. Göngufólk var að öðru leyti heimamenn sem skörtuðu ótrúlega litríkum þjóðbúningum (eða þorpsbúningum) - Ég rétt sé fyrir mér samskonar hátíð í Bláskógabyggð þar sem Þingvellingar, Laugdælingar og Tungnamenn kæmu saman til skrúðgöngu. Hvar eru okkar búningar?

Massar, massar, massar
Skrúðgöngunni lauk á hátíðarsvæði bæjarins, í risastóru tjaldi, þar sem okkur var auðvitað vísað til sætis og í okkur borinn bjórinn í líterskrúsum (mass). Það fór ekki hjá því að margur í hópnum yrði afar kátur við þessar aðstæður.

Á hátíðarsvæðinu var heilmikið Tívolí þar sem mest bar á feiknastóru Parísarhjóli, sem fD var ófáanleg til að reyna, en sem ég gerði hinsvegar auðvitað, enda mikill ævintýramaður.




Það var ekkert mjög leiðinlegt þarna.
Þarna var mössum stútað fram eftir kvöldi. Þeir sem eldri eru og virðulegri í hópnum, kunnu sér hóf og héldu til hvílu á skikkanlegum tíma á meðan þeir sem ekki hafa enn fengið fylli sína af gleðskaparlátum lentu á flandri fram eftir nóttu og áttu loks í nokkru braski með að koma sér til hvílu, en um það er ekki rétt að fjölyrða hér.





Það kann að vera, að ég varpi upp fleiri myndum úr ferð þessari síðar, en hún myndaði fyrrihluta Evrópuferðar okkar fD, því þegar flestir samstarfsmannanna héldu heim á leið, brunuðum við í bílaleigubíl 400 km í norðaustur átt til Görlitz þar sem við nutum lífsins hjá tenórnum okkar og fjölskyldu hans.

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...