Það var fyrsta verk fD á þessum morgni að grípa þjóðartáknið og koma því fyrir í blómakassanum. Síðan tók ég við og smellti mynd af því þar sem það blakti af innblásnu öryggi í rakamettuðum austnorðaustan kaldanum.
Þá var það búið og næst á dagskrá að velta fyrir sér einhverju til að skrifa, sem hæfir þessum degi. Þá vandaðist málið nokkuð. Það er enfnilega auðvelt að framkvæma eitthvað í hinu ytra, en að ná tökum á hugsunum sínum í tengslum við það sem innra er.
Á sama tíma og biskupinn yfir Íslandi flytur innblásna (væntanlega) predíkun sína um sóma Íslands í samhengi við kristilegan kærleiksboðskap, kallar talsverður hluti landsmanna eftir því að hann og allt hans fólk hverfi af vettvangi sem fyrst vegna ófyrirgefanlegra mistaka í opinberu embætti.
Á sama tíma og forsætisráðherrann flytur þjóðhátíðarræðu sína, sem var að stærstum hluta um sóma Íslands (harla ófrumleg lofræða um sómann, sverðið og skjöldinn), kallar afar stór hluti landsmanna eftir afsögn ráðherrans og alls hans föruneytis.
Þjóðin, sem stjórnmálamennirnir (að minnsta kosti þeir sem komu henni á kaldan klaka) segjast vera að vinna fyrir, er enn klofin í herðar niður eftir það þriggja ára vegferð frá því sem gerðist. Það bendir ekkert til að á því sé að verða breyting: enn hefur enginn axlað ábyrgð, enn hefur enginn verið dæmdur, enn blakta þeir sömu og áður, eins og ekkert hafi gerst.
Ég veit ekki um þjóðina.
Ég hef kallað hana ýmsum nöfnum og það viðhorf mitt hefur nú lítið breyst.
Þjóðin sveiflast enn í takt við þá sem eiga pening til að fjármagna áróður í fjölmiðlum. Þeir vita, að með því að höfða til tilfinninganna er auðvelt að hafa áhrif á þjóðina, sem virðist ekki fær um að horfa hlutlægt á málin, velta fyrir sér, skoða í sögulegu samhengi, eða muna yfirleitt hvernig sagan var.
Við tilheyrum þjóð í kreppu, ekki aðallega svona hið ytra, því við getum dregið upp fánann og sungið "skundum á Þingvöll og treystum vor heit". Við getum hinsvegar ekki náð þeirri lendingu í þjóðmálum sem er nauðsynleg til að við getum, sátt, haldið áfram að vera þjóð.
Ég held að við getum ekki orðið sátt fyrr en allt er upp gert; maklegum málagjöldum hefur verið úthlutað. Við vorum nefnilega svikin. Það var framinn á okkur glæpur.
Skelfing er leiðinlegt að geta ekki vegsamað bæði land og þjóð á svona degi. Ég get vegsamað landið, því það er enn tilverustaður okkar á jörðu, og við vitum að hverju við göngum þegar það er annars vegar, og við það getum við verið sátt. Það sama er ekki hægt að segja um þjóðina.
Njótum dagsins og nýtum hann til að hugsa fortíð og framtíð í samhengi.
Við nútíð og fortíð ég föndra í hug
SvaraEyðaog finnst alltaf hreinlega skrítið:
hve auðtrúa', fávís og örsnauð af dug
við örkum hér - hugsandi lítið.
Hirðkveðill tjáir sig um andlega stöðu þjóðarinnar þann hinn 17. júní 2011 -
í framhaldi af ávarpi Kvistholtsbónda.