13 júní, 2011

"Ðer is nó kar for jú" (1)

Ég er nú þeirrar gerðar, að mér er fremur illa við óvissu og því var það, að 5-6 vikum áður en við héldum í Evrópuferð vorsins skellti ég mér í að panta bílaleigubíl vegna seinni hluta ferðarinnar. Þá lá fyrir, að á síðasta degi starfsmannaferðarinnar, (sem hófst þann 24. maí), þann 30. maí, myndi verða farið til Amberg, sem er 45000 manna bær í tæpra 20 km fjarlægð frá Sulzbach-Rosenberg. Það lá hinsvegar ekki fyrir hvenær dags það yrði.

Nú, þarna fann ég bílaleigu með útibú í Amberg sem ber nafnið SIXT og þar fann ég viðeigandi bifreið og festi mér hana, eftir því sem ég taldi og gerði ráð fyrir að ná í hana kl 10 að morgni. Það eina sem olli mér lítilsháttar áhyggjum í þessu sambandi var, að ég fékk engin viðbrögð eða staðfestingu frá bílaleigunni um að þetta yrði allt í lagi, en þær hurfu eins og dögg fyrir sólu þegar reyndur maður í viðskiptum við þessa bílaleigu, fullvissaði mig um að ég fengi bílinn; það væri engin spurning.

Svo rann dagurinn upp. Hópurinn fór til Amberg eins og ferðaskipulagið gerði ráð fyrir og sinnti því sem þar þurfti að sinna. Eins og flesta daga ferðarinnar var þarna glampandi sólskin og molluhiti (28-30°C). Eftir skipulagða viðburði dagsins vorum við stödd í miðbæ Amberg og mér datt í huga að taka fram GPS tækið góða sem skyldi leiða okkur um þjóðvegakerfi Þýskalands. Þegar ég kveikti á því tilkynnti það mér, að Evrópukortið væri úrelt og ég þyrfti að uppfæra það, og síðan birtist tilkynning um að það fyndi ekki gervihnött. 

Ekki leist mér á blikuna þegar hér var komið. Hætti að njóta þess að vera þarna í þessari ágætu borg og hugsaði fátt annað en hvernig við færum að, ef tækið fengist ekki til að virka. Taldi þó að það myndi allt reddast þegar ég fengi SIXT menn með mér í að leysa úr því - þeir hlytu að vita allt um GPS tæki.

Þegar hér var komið var klukkan orðin um 14.30 og fátt sem ég hafði hug á að sinna frekar í miðborg Amberg, ekki síst í ljósi áhyggna minna af virkni GPS tækisins. Ég komst einnig að því, að fD var orðin tilbúin til að fara að sinna bílamálinu, enda búin að fara í C&A. Þá var staðan einnig orðin sú að hún var búin að nefna það við núverandi og verðandi ellilífeyrisþega, þau hH og fG, hvort þau vildu bara ekki koma með okkur í bílaleigubílnum til S-R, í staðinn fyrir að taka leigubíl þangað. Þarna bar ég, sem sagt, orðið ábyrgð á því að koma mér og þrem farþegum frá Amberg til S-R í bílaleigubíl sem ég var ekki viss um hvort ég fengi með GPS tæki sem ekki virkaði.

Væntanlegur farþegahópur hélt gangandi úr miðbæ Amberg á járnbrautarsöðina þar sem síðan var tekinn leigubíll að útibúi SIXT í úthverfi bæjarins.

Það sem þar gerðist bíður um stund.

1 ummæli:

  1. Öryggisleysi og alls konar kvíða
    einn fék þar Páll minn að reyna og líða
    en frúin hún fyllti hvert bil
    í farskjót'
    En var hann þá til?

    Hirðkveðill yrkir um bílaleigumál hP - með kvíða í brjósti;)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...