12 júní, 2011

Fyrir innan glerið

Á innlits-útlits tímanum voru gerðar ýmsar lúxustilraunir að því er varðaði híbýli manna eins og flestir vita. Það voru gerðar tilraunir með ný efni í innréttingum og nýja stíla (eðlilega, með hratt vaxandi stétt stílista). Ein þessara tilrauna fólst í því að sameina hjónaherbergi og baðherbergi í eitt alrými með því að setja upp glervegg milli þessara tveggja rýma og þar með tryggja það að ekkert sem fram fór í öðru rýminu fór framhjá þeim sem voru staddir í hinu.

Einhverjum kann að finnast að ég sé nú bara gamaldags, að skilja ekki mikilvægi þess að tveir aðilar sem deila sama herbergi, eigi ekki að þurfa að framkvæma hluti sem þeir vilja helst gera einir með sjálfum sér. Þá er ég bara gamaldags.

Þetta herbergi með glerveggnum inn á salernið rifjaðist upp fyrir mér, þegar við fD gengum inn á herbergið okkar á hótelinu í Sulzbach-Rosenberg. Byggingin sjálf er frá árinu 1791, en hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun innanstokks. Ein slík virðist hafa átt sér stað á einhverjum herbergjanna fyrir örfáum árum, á blómatíma stílistanna. Þannig var það með herbergið sem við fengum og við fréttum af nokkrum öðrum, slíkum. Í þeim voru, í sumum tilvikum óskyldir/ótengdir aðilar, sama kyns.

Myndin er ekki frá Sperber
Ég ætla ekki að fara út í neinar nákvæmar lýsingar á því sem þarna var um að ræða, né þær vangaveltur og hugsanir sem bærðu á sér við þessar aðstæður, en læt huga hvers og eins lesanda um að fara á það flug.










Hótelið var, á heildina litið, mjög snyrtilegt og hlýlegt; nokkurs konar sambland af hóteli og brugghúsi. Á góðu kvöldi fengum við leiðsögn um brugghúshluta hússins, og auðvitað var enginn annar bjór drukkinn, enda hreint ágætur.

1 ummæli:

  1. Yfir sig ógnar varð hissa
    er ætlað' að fara að pissa
    og frúna þá sá
    sitja við skjá
    sjáandi - og hástöfum flissa;).

    Hirðkveðill sér í hugljóman þessa aðstöðu alla... ja bittinú!
    ++++++++


    (hér má ekki gleymast að gluggi var jú skjár, hér áður og fyrr meir...).

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...