19 júní, 2011

"Ðer is nó kar for jú" (3)

Þarna stóð ég og upplifði það versta sem hefði getað gerst, með þrjá tilvonandi og grunlausa farþegana í hægindum fyrir framan. Afgreiðslumaðurinn gerði sig ekki líklegan til að segja neitt frekar um málið, hvað þá reyna að gera eitthvað í því.

Þá hófust EN-in hjá mér:
En ég er með blað sem sýnir að ég sé búinn að taka frá bíl.
En það stóð að bíllinn biði mín.
En ég pantaði bílinn fyrir 6 vikum.
En mér var sagt að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa þó ég fengi ekki staðfestingu frá ykkur.
Hér laumaði ég inn þeirri staðreynd að einn helsti leigutaki bíla frá SIXT í Þýskalandi væri sonur minn, og að hann hefði ekkert nema gott eitt um þjónustuna að segja. Þá greindi ég lítilsháttar sprungu í þvergirðing þessa hjálpsemislausa afgreiðslumanns. Hann tók til við að segja mér hversvegna ég fengi ekki bíl, en fyrir því voru tvær ástæður:

1. Mér var sendur tölvupóstur þann 25. maí (daginn sem við fórum frá Íslandi) þess efnis að ég mundi ekki geta fengið bíl.

Non availability of rental car
Sehr geehrter Herr SKULASON,
anbei erhalten Sie das bei Ihrer Sixt Autovermietungangeforderte Dokument.Weiterhin Gute Fahrt wünscht Ihnen

Unfortunately we are unable to confirm  the request at the required time.


Ihr Sixt-Team.

2. Ég hefði átt að mæta í síðasta lagi kl 11 á þessum degi (ef ég hefði á annað borð fengið bíl), þar sem ég hafði sagst ætla að ná í hann kl. 10, en þegar hér var komið var klukkan um þrjú. Þetta átti ég að hafa getað lesið einhvers staðar, en sú hafði ekki verið raunin.

Þarna var s.s. nokkuð þrátefli komið upp. Ég hafði auðvitað ekki grun um hvað til bragðs skyldi taka, en þar sem það var komin sprunga í þvergirðinginn, fór ég að reyna að meitla í hana: höfða til göfugra tilfinninga og freista þess að fá mannræksnið í það minnsta til að sýna lítilsháttar skilning á stöðunni. Það lengsta sem ég komst með hann í þeim efnum var, að hann sagði að það væri fjarlægur möguleiki að ég gæti fengið bíl eftir kl. 5, tveim tímum seinna. Að öðru leyti var hann bara farinn að dunda sér í tölvunni. Þá, allt í einu, upp úr þurru gerðist lítið kraftaverk:

"Jú kom from Æsland?"

Þessu játti ég auðvitað. Þessi staðreynd dugði til að breyta durtinum í dánumann.

Þarna kom sem sagt fram, að hann var innan örfárra daga að skella sér í siglingu um N-Atlantshafið og einn viðkomustaðurinn var Ísland. Þessi tenging varð til þess að hann sagði mér, þessum nýja, besta vini sínum, að hann væri með bíl fyrir utan, en það væri ekki búið að þrífa hann.
Finnst einhverjum líklegt að ég hafi farið að setja það fyrir mig?!?

Þarna var um að ræða splunkunýjan VW Passat, sem ég gat ekki séð að væri eitthvað óþrifalegur.


Þegar hér var komið fór ég að freista þess að leysa hitt vandamálið með vini mínum: GPS-tækið sem fann ekki gervihnött. Ég reyndi í miðbænum í Amberg og aftur þarna í bílahúsinu hans Péturs, en án árangurs.
Vinur minn gat sagt mér, að það væri bara eðlilegt: strax og ég kæmi út fyrir húsið, myndi tækið ná sambandi. Sú varð auðvitað raunin.

Allt leystist þetta farsællega, og ég átti vona að vini mínum frá Amberg í kaffi þann 8. júní, en þá ætlaði hann að vera á Íslandi og koma í hemsókn (Æ hef jor adress) , sem ég af örlæti mínu, tók undir af heilum hug, enda var þessi bíll 30 evrum ódýrari en sá sem ég hafði pantað.

Ég skellti mér í sturtu bak við glerið þegar komið var á hótelið - ekki veitti víst af.

Vinur minn kom ekki í kaffi. Landið hefur kannski reynst vera stærra en hann hafði ímyndað sér.


1 ummæli:

  1. Víða eignast vini hann
    veraldar á randi.
    Dró upp "svoltinn" dándimann
    úr dóna í Þýskalandi.

    Hirðkveðill er alltaf jafn feginn þegar hlutir leysast!

    SvaraEyða

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...