04 febrúar, 2009

Uppheimalíf á flæðiskeri?


Með hverjum deginum sem líður birtist landslýð meira af uppheimum (sem ég nota hér sem andstæðu uð undirheimana, þar sem ótrúlegustu glæpir þrífast og eru huldir miðheimi okkar, þessa venjega fólks). Uppheimar eru engu síður huldir okkur en undirheimarnir. Þar virðist eiga sér stað ýmislegt það, sem engu okkar var nokkurntíma ætlað að komast að. Við áttum hinsvegar alltaf, og eigum væntanlega áfram að standa straum af kostnaði við þá velsæld sem þar hefur ríkt. Í þeim heimum gilda önnur lögmál, svakalegri og umfangsmeiri en nokkurntíma undirheimarnir geta boðið upp á. Við munum væntanlega fá meiri innsýn í þessa mögnuðu veröld á næstu mánuðum og árum, en það fullyrði ég, að ekki munum fá allt að vita og engan vegin mun okkur hlotnast hlutdeild í þeirri veröld.

Það blasir við að einhvernveginn mun verða reynt að toga í þá spotta sem duga til, til að fjarlægja tappana úr botni uppheima til að freista þess að fá nasasjón af því sem þar er og hefur verið að ganga á. Þegar hákarlarnir í uppheimum fara að sogast í gegnum götin, reikna ég alveg eins með að fallið verið svo hátt að þeir eigi einungis stutta viðdvöl í miðheimum áður en þeir falla, nánast viðstöðulaust niður í undirheimana.

Við höfum myndað þær stoðir í barnaskap okkar, sem hafa haldið upp skrímslunum sem nú eru að byrja að æmta. Við verðum bara að vona að þau kremji okkur ekki þegar þau fara að hrynja niður úr hásölunum.

Þetta tel ég hafi verið nægilega skýra mynd af því sem ég er að tala um og læt því staðar numið.


Í uppheimum er ekkert dýrt,
en öfga blóðug stríð
sem löngum hafa líf vort rýrt
en leynt, í erg og gríð.
:)




01 febrúar, 2009

Þorramorgunn og stjórnarskipta


Á þessum þorramorgni svífa snjókornin kæruleysislega ofan úr himninum og klæða Laugarás í enn hvítari búning. Þorrablót Tungnamanna var haldið í gærkvöldi, en ég hef fátt af því að segja, en reikna með að þeir sem þangað lögðu leið sína hafi skemmt sér hið besta að öðru leyti en því að mín var eflaust sárt saknað, eða þannig. Þangað þyrptust sveitungarnir með trogin sín, pökkuð inn í dúk og hnýtt að ofan, eins og vera ber. Trogin munu hafa geymt gnægð af nýjum og skemmdum mat, sem síðan var skolað niður með viðeigandi drykkjarföngum. Að matarveislunni lokinni munu gestirnir hafa skemmt sér konunglega undir skemmtidagskrá í boði Haukadalssóknar áður en dansinn var stiginn og ölið kneyfað fram á rauða nótt. Eftir að dansað hafði verið og sungið eins og hver fann sig knúinn til, var haldið heim á leið, með þeim aðferðum sem tiltækar voru og sem vonandi fólu ekki í sér að lög væru brotin. Þá tók við svefn hinna réttlátu, eða annað það sem menn kusu að taka sér fyrir hendur.

Síðan kom morgunninn - og segir fátt af honum.

Lífið heldur áfram - þetta var gott þorrablót, reikna ég með.

Þessa stundina erum við, hin hrausta þorraþjóð, að ganga í gegnum ríkisstjórnarskipti. Ég held að ég ætti ekki að segja margt um þessi mál á þessum vettvangi. Megi takast að koma málum þannig fyrir að þessi þorrakreppuþjóð verði ekki alltof ósátt við lífið og tilveruna þegar upp er staðið. Verst er þetta líklega fyrir bankabólukynslóðina, sem hefur aldrei upplifað hömlur. Hún þarf að venjast nýjum og vondum veruleika, sem væntanlega verður til góðs þegar upp er staðið.

Það eina sem ég óttast við þetta allt saman er, að bóluþjóðin okkar verði of fljót að gleyma; að mjúkmálum stjórnmálamönnum takist alltof fljótt og hvítþvo tiltekna valdaklíkustjórnmálaflokka. Ég ætla að vona að nú teljist þeir hafa gengið of langt og að þeir fái það kjörfylgi sem þeim hæfir.

Ég ætla líka að vona að kverúlantarnir nái ekki að koma málum þannig fyrir, með heimskulegum pælingum sínum, að kjósendur eigi fáa eða enga góða kosti.

Jæja

Oft hylur mjöllin úldið ket
undan það kemur er hlánar.
Upp rísa aftur með ekkert vit, (flámæli)
algerir, bölvaðir kjánar

30 janúar, 2009

Vörubíll springur - Blóðugur upp á axlir

Ætli það sé ekki tvennt, aðallega, sem hefur orðið til þess undanfarna daga, að ómeðvitað hefur hugurinn leitað til baka og upp hafa rifjast atburðir og minningar sem tengjast lífinu í Laugarási undanfarin 50+ ár. 
Annarsvegar setti fyrrverandi heimasæta í Heiðmörk upp sérstaka síðu á hinni alræmdu fésbók, sem tileinkuð er Laugarásbúum fyrr og nú, hinsvegar birtist sparisjóðsbankastjórinn á Selfossi inn á téða fésbók með látum, en við áttum okkur nokkuð langa og mikilvæga sögu saman hér í Laugarási.

Svo margir áratugir sem hér um ræðir, hljóta, eðli málsins samkvæmt, að skilja eftir sitthvað í hugum þess fólks sem fæddist hér og ólst upp. Minn hugur er búinn að fljúga yfir sviðið; elsta minningin líklegast frá því um 5 ára aldurinn og sú yngsta til atburða síðustu ára. Hér má sjá, á þessu stigi, nokkrar  fyrirsagnir, í æsifréttastíl frá þessum tíma. Engu lofa ég um að framhald verði á  og ekki mun ég skýra hverju fyrirsagnirnar lýsa, en vonast til að einhverjir með svipaða reynslu geti fundið út hvað um er að ræða.

Horfði ofan í bullandi hverinn
Barni rænt
Farið mannavillt á versta tíma
Óhefðbundin ræktun í kjallaranum
Grýla með kerti á kræklóttu nefi.
Kusa gerir árás.
Fékk botnlangakast messu.
Of miklu eytt í messuvín
Skotinn niður þrisvar
Ástin Gypsí eða Landróver?
'Nú skal ég skal drepa þig, helvítið þitt!'
Pikkólína tekin í notkun
Hestur í búri
Tankurinn var ekki tómur
Hent út úr skólabílnum
Talað við ókunnugt fólk
Truntan bakkaði bara
Halinn slitnaði af
Vikan á loftinu
Að skjóta hænur
Göngustígur klýfur
VAT69 úr kaupstaðarferð
Charger tekinn til kostanna
'Ætlarðu að leyfa barninu að keyra?!!?'
Grillaði rollu á Skeiðunum
Og annar hundur til
Heppin að lifa

Ég er búinn að komast að því að ég gæti haldið lengi áfram svona, en það gengur hreint ekki. Þessi Laugarásár, með 10 ára hléi frá fæðingu, hafa greinilega verið þrungin æsilegum atburðum og minnisstæðum.

Laugarás er ljúfur staður 
löngum hef ég vitað það.
Því neitar ekki nokkur maður,
nem'ann búi á öðrum stað.





28 janúar, 2009

Það er ekki Davíð

Meðal þess fólks sem ég umgengst daglega er manneskja (ég læt liggja milli hluta hvort um er að ræða karl eða konu, enda álíka vitlaust og að gera mál úr kynhneigð verðandi mögulegs forsætisráðherra), sem tekur það mjög nærri sér hvað fólk talar illa um Davíð. Hún (manneskjan, til að halda því til haga) heldur því statt og stöðugt fram að það sé með engu móti hægt að kenna Davíð um allt sem aflaga hefur farið í þessu þjóðfélagi. Davíð sé bara klár og duglegur maður sem fólk hefur fylkt sér um og treyst til að leiða þessa þjóð inn í eitt mesta góðæri (gróðæri) sem hún hefur fengið að njóta.

Auðvitað er þetta rétt hjá manneskjunni.

Davíð væri ekkert og hefði ekki orðið neitt nema vegna þess að honum var veitt til þess brautargengi í lýðræðislegum kosningum. Hann sem persóna, er sjálfsagt hinn ágætasti maður á margan hátt. Ég treysti mér ekki til að meta hann á þeim grundvelli.

Það eru kannski frekar þeir sem leiddu hann þessa leið með stuðningi sínum (um 40% þjóðarinnar sem léðu Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt + ca. þeirra 15% sem síðan studdu þann flokk annan sem verið hefur í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn undanfarin 18 ár). Það er þetta fólk sem ber ábyrgðina, meira en helmingur þjóðarinnar. Þetta fólk þarf að skoða hug sinn vel.

Davíð hefur hinsvegar orðið táknmynd fyrir allt sem aflaga hefur farið á Íslandi undanfarin ár. Þessi táknmynd lýsir valdagræðgi, spillingu, hroka, dómgreindaraleysi, flokksþjónkun og almennum hálfvitagangi, svo eitthvað neikvætt sé nefnt.

Meðan Davíð er þessi táknmynd, jafnvel þó hann hafi ekki til þess unnið (sem ég leyfi mér hér að taka ekki afstöðu til) er alveg ljóst að hann verður að víkja af sviðinu til að von sé til að þessi þjóð geti farið að taka af sér hauspokann og horfa bjartsýn fram á veginn.

Táknið það verður að víkja
svo vonin ei bresti.
Land vort ei láttu það svíkja,
vor lausnarinn besti.

25 janúar, 2009

Tími samsæriskenninga og kverúlanta

"Líst þér ekki vel á að Framsóknarflokkurinn mælist með 17% fylgi núna?" spurði mig gamli unglingurinn á þessum sunnudegi, en hann hefur verið óþreytandi (með glott á vör) við að fjalla um pólitískar hræringar - nánast undantekningalaust með þennan gamla flokk samvinnumanna og bænda í bakgrunni eða forgrunni þeirrar umræðu. "Jú, jú", segi ég auðvitað alltaf til að byrja með, eins og hann talandi þvert um hug mér þar sem við vitum í raun að þessar samræður er nokkurskonar leikrit af okkar hálfu. Ég er svo sem búinn að afgreiða nýja forystu þeirra framsóknarmanna hér fyrir nokkru síðan og bæti engu við það.

"Mennirnir eru að reyna að gera eins vel og þeir geta. Af hverju á ekki að leyfa þeim að bjarga landinu í friði fyrir einhverjum skríl sem kastar eggjum og grjóti?" er önnur mikilvæg umræða sem á sér stað á svipuðum nótum. Spurning hans lögð fram í þeim sama tilgangi og aðrar af þessum toga, til þess að fá fram andstæð viðbrögð.

Það þarf að spyrja til að fá svör.

Það sem mun gerast næst í pólitíkinni er líklegast, að Sjálfstæðismenn slíti stjórnarsamstarfinu til þess eins að þurfa ekki að reka lögfræðinginn í Seðlabankanum. Það geta þeir nefnilega ekki vegna þess að sá maður veit ýmislegt um ýmsa, sem illa þolir dagsins ljós.
Það er reyndar ömurlegra en orð ná að tjá, ef sú er raunin, en önnur skýring liggur ekki á lausu.

Nú er daginn að lengja og það verður stöðugt erfiðara að halda ljósinu burtu.


Það sem ég er að gera hér, er að skella mér í hlutverk kverúlantsins, mér þvert um geð, en nú eru tímar kverúlantanna sannarlega runnir upp. Þeir spretta nú sem óðast fram með einfaldar lausnir og samsæriskenningar sínar. Kverúlantarnir eru ein stærsta ástæða þess að ný stjórnmálaöfl eiga erfitt uppdráttar á þessu landi. Um leið og nýtt stjórnmálaafl lætur á sér kræla stökkva þeir til og leggja það umsvifalauat undir sig svo fremi að grundvöllurinn sé ekki því traustari. Ég held að því miður séu þeir það margir sem telja sig vita best um hvernig málum verði best borgið á þessu landi, að umbreytingin muni reynast torveld. Þetta mun áfram lullast áfram á grundvelli gömlu flokkanna með einhverjum andliltslyftingum, án þess að neitt breytist til langs tíma litið.

Það er einn flokkur kverúlanta starfandi á Íslandi núna. Þar virðast þeir eiga nokkuð gott skjól hjá Guðjóni Arnari.


Kverúlantinn kann ekki' á að
kveikja von í landans hjarta.
Nú er bara best að þrá að
bráðum komi vorið bjarta.

Einstæð þverstæða í samstæðunni

Sem ég velti fyrir mér tilverunni sendir morgunsólin geisla sína inn um stofugluggann (aðgerð sem er ekki alltaf velkomin) og sýnir mér fram á að dagur lengist stöðugt. Geislarnir munu eflast á næstu vikum og mánuðum og væntanlega flytja með sér von um einhverja bót í kjölfar þriggja mánaða svartnættis. Það er ekki laust við að afsagnir dagsins fram til þessa (hvað veit maður hvað gerist það sem eftir lifir þessa sunnudags) séu ákveðin vísbending um að þeirra breytinga sé að vænta, að við getum farið að líta aftur framan í aðrar þjóðir skömmustulaust. 
Auðvitað getur maður ekki verið viss um neitt, en svo mikið veit ég, að það mun hafa mjög jákvæð áhrif á allt okkar umhverfi ef ákveðnir stjórnmálaleiðtogar, seðlabankastjórar og fyrrverandi forætisráðherrar hverfa á braut. Það mun fækka aðhlátursefnunum.

Það felst dálítið sérstök þverstæða í þessu öllu saman sem ég er ekki viss um að ég geti orðað svo ég skiljist (hef orðið var við að töluvert er um að fólk skilji ekki pælingar mínar á þessum vettvangi). 
Mér finnst þessi þverstæða í rauninni vera þannig að þegar á heildina er litið sé hún engin þverstæða, heldur eitthvað það sem mun leiða þessa þó nokkuð þjökuðu þjóð í áttina að einhverju betra en verið hefur.

Hækkandi sól felur væntanlega í sér von, jafnframt því sem hún felur í sér kvíða á óvissutímum.
Afsagnir ráðherra og brottvikning ónýtra stuttbuxnagæja fela í sér von, jafnframt því sem þær fela í sér kvíða fyrir því sem næst kann að gerast. (enginn þeirra stjórnmálamanna sem í raun bera ábyrgðina á stöðunni, hefur enn axlað neina ábyrgð).

Sennilega er það aldrei svo, að hægt sé að vænta einhvers sem er bara gott eða bara vont. Má kannski líka halda því fram, að það sé einmitt eins og það á að vera. Öldurótið eflir okkur jafnframt því sem það getur valdið okkur óbætanlegum skaða.

Þetta land vort er sérkennileg samstæða
og sannlega undarleg þverstæða.
Ég ætla það kallast verði hin einstæða
og ótrúlega vitlausa afstæða.

Bestu kveðjur til ykkar sem skildu þetta :)
Til hinna: Það gengur betur næst.

23 janúar, 2009

Svona er þá súrrealismi


Staða mála síðan síðast, að því er varðar ástand þjóðmála á Íslandi, er að verða með þeim hætti, að ég treysti mér ekki til að fjalla um þau án þess að eiga á hættu að þurfa að fara að leita uppi vasaklútinn sem hún amma mín gaf mér til að nota við matrósafötin.  Ég nenni ekki að leita að vasaklútnum og þar að auki  er eins gott að láta engin stór orð falla í dag, því þau munu koma í bakið á mér á morgun.

Í næst síðustu færslu lét ég að því liggja að spurningaþátturinn Útsvar væri leiðinlegur og þreyttur þáttur. Ég dreg það hér með til baka.
Í kvöld voru tvö skemmtileg lið á ferð, þar sem m.a. var að finna góðan  Laugarásmann og allsherjargoða. Þessi þáttur var, án efa, hugsaður fyrir fólk eins og þarna var á ferð.
Það var verst að allsherjargoðinn skyldi ekki klára setninguna sem hann byrjaði í lok þáttar, en hún hefði verið svona í fullri lengd: Í Kópavogsliðinu eru eintómir /atvinnumenn/. Megi Álftnesingar sigra í næstu viku. Sigur skemmtilegs fólks yfir misskildum metnaði.

Sjónvarp allra landsmanna er þessa stundina að ganga svo fram af yfirvegun minni, að það liggur við að ég láti orð falla, sem.... já - munu koma í bakið á mér á morgun. Á skjánum er að finna þessa stundina mikla kvikmynd um bjarndýr, sem stofna hljómsveit og skemmta fólki (og bjarndýrum) með íðilfagurri sveitatónlist og tala þess á millli um hvað þau elska hvert annað mikið og hvað vondi bankakallinn er vondur.  

Ekki fleiri orð - þá segi ég of mikið.

Misskildur er metnaður bjarndýra
hvort sem þau sigra í spurningakeppnum
eða leika sveitatónlist fyrir ameríska rauðhnakka.
Þessu má nánast líkja  við ýsulandið góða
sem engist í fæðingarhríðum einhvers - 
kannski bjarndýrs.




Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...