03 mars, 2009

Betur sér auga en auga

Eftir því sem árin færast yfir fólk, verður það að reikna með að ýmislegt fari að gefa sig, svona eins og gengur. Heyrnin verður ekki lengur samkeppnisfær við það sem hún var á þrítugsaldrinum og sjónin á það til daprast nokkuð, af ýmsum ástæðum.
Við þessu er að búast og við því er væntanlega fátt að gera - þetta er hluti af því sem lífsskeið mannsins felur í sér.

Eða er það kannski ekki svo?

Ég er ekki með þessum inngangi að undirbúa pistil um sjálfan mig, ef einhverjir skyldu láta sér detta annað eins í hug! Til ítrekunar tek ég það fram, að að mér amar ekkert sérstakt svo ég viti þangað til annað kemur í ljós og þá mun ég væntanlega ekki fjalla um það hér.

Tilefni pistilsins er auga, eða kannski jafnvel augu, sem voru farin að daprast allnokkuð og sem tilheyra einstaklingi sem tengist mér verulega og sem hefur nokkuð oft komið við sögu í þessum pistlum.
Fyrir nokkrum árum, eftir heimsókn hjá augnlækni, var honum bent á, að það mætti líklega lagfæra sjónina töluvert með því að láta skipta um augasteina, en þeir sem fyrir voru, voru orðnir töluvert skýjaðir. Þá var sjónin orðin talsvert daprari á öðru auganu en hinu, af öðrum orsökum, sem ekki mun vera unnt að bæta úr.
Það varð úr, eftir talsverðar vangaveltur, að láta framkvæma þess aðgerð á lélegra auganu. það gekk eftir, en ekki reyndist verða um þá bót að ræða sem vonast var eftir. Þessi aðgerð var sem sagt ekki beinlínis hvati til þes að ráðast til atlögu við betra augað líka, en þó var möguleikanum var samt haldið opnum, en ekkert frekara frumkvæði var af hendu augnaeigandans í málinu.

Það var síðan í byrjun þessa árs, að hringt var frá augnstöðinni og eigandi augnanna boðaður í viðtal vegna möguleika á að ráðast til atlögu við hitt augað - það betra. Allt í lagi með það - farið var í skoðunina og þar var rætt fram og aftur um hvað hugsanlega þessi aðgerð gæti haft í för með sér. Ekki reyndist læknirinn tilbúinn að segja eigandanum að hann ætti að fara í aðgerðina, þó ítrekað væri eftir því leitað, heldur benti hann á mögulega kosti við aðgerðina, en vildi ekki lofa því með afgerandi hætti, að bót væri algerlega örugg af þessu.

Þegar heim var komið og eigandinn hafði verið töluvert hljóður á leiðinni, kvað hann upp úr um að ekkert skyldi verða af aðgerð þessari. Betra væri að hafa þá sjón sem hann þó hefði, en að taka áhættu á að missa betra augað.
Nú fór í hönd tími umræðna og vangaveltna sem lauk í stuttu máli á þann veg að ákveðið var að taka áhættuna, sem átti helst að felast í mögulegri ígerð í kjölfarið.

Aðgerðin var síðan framkvæmd í gær og gekk vel. Eigandinn bara hress, en kvaðst sjá allt í móðu og bara útlínur á fólki. Það hefur verið tryggt með góðu fólki að engin áhætta skuli tekin á sýkingu og síðan er framundan skoðun hjá lækninum á fimmtudag.

Ég heimsótti eiganda augnanna áðan. Þá var hann búinn að taka upp þann nýja sið, að setja gleraugun upp á enni og kvaðst sjá fólk í alveg nýju ljósi - lék við hvurn sinn fingur, eins og sagt er.

Ánægjulegt.

Af augum er allt gott að frétta
og engu er við það að bæta.
Valdi hann veginn þann, rétta,
við blasir dásemdar glæta.

01 mars, 2009

Jibbbííí´- það tókst!

Það hefur löngum verið sagt að svo lengi læri sem lifi og síðan  einnig að símenntun og viðbótarmenntun sé 
nauðsynleg hverjum nútímamanni. Því er haldið að fólki, að það sé hverjum manni nauðsynlegt að fylgjast með þeim stefnum og straumum sem ráða ferðinni hverju sinni.

Ég var síðast í alvöru formlegu námi veturinn 1991-92 og þar áður 1975-79. (Þetta er hrikalega langt í burtu orðið) Það nám skilaði mér réttindum til að sinna því starfi sem ég sinni í dag. 
Eftir því sem árin liðu, varð mér meira og meira hugsað til þess, að ef til vill væri tími til kominn að bæta einhverju við sig. (Svona lagað gengur nú yfirleitt ekki hratt fyrir sig á þessum bæ).  

Það var svo vorið 2006 að ég ákvað að láta til skarar skríða og skráði mig til diplómanáms í opinberri stjórnsýslu við HÍ. 
Diplómanám þetta telst vera hluti af námi á meistarastigi, en bara miklu minna að umfangi, en nýtist þó að öllu leyti ákveði maður í framhaldinu að fara í meistaranám. 
Þar sem ekki var um annað að ræða en taka þetta nám með vinnu, var ekki um annað að ræða en mjatla þetta smám saman, en um var að ræða 5, 6 eininga námskeið. 



Síðasta námskeiðinu lauk ég í desember síðastliðnum og það var síðan í gær sem ég var formlega afgreiddur frá HÍ með þessari diplómu. 

Námskeiðin sem mér tókst að klára mig af voru þessi:
Opinber stjórnsýsla 
Mannauðsstjórnum ríkis og sveitarfélaga
Starfsumhverfi og stjórnun sveitarfélaga
Stjórnsýsluréttur fyrir stjórnendur og starfsmenn opinberra stofnana
Almannatengsl

- Ég varð að leyfa mér smávegis sjálfhverfu, svona einu sinni.

Það var engu líkara en ég hefði himin höndum tekið
og að allir heimar hefðu opinberað mér leyndardóma sína.
Það var þó áður en varði örugglega oní mig rekið
og ekkert reyndist vera eins og í var þar látið skína.

- frjáls aðferð

Eftirfarandi barst mér frá Frú Helgu Ágústsdóttur með beini um að það skyldi fært hér inn. Svo hefur nú verið gert, enda geri ég oftast það sem mér er sagt.
Henni er jafnframt þakkað framlagið og kveðjuna sem í því felst.

Skírteinið hið fagra skína sé
skírteinið, sem beygja nær mín kné
lít ég nú í ljóma þennan mann:
Líkast til að menntur vel sé hann.
Skortir orð og skarta öfund nú,
skelfing sem ég vildi -eðli trú-
geta flaggað grip af téðri sort:
greinilegar - trauðla verður ort.

Andað getur aðeins léttar nú
undur mikinn dugnað sýndir þú
harkan líka' – hanga á skólabekk:
Hundrað fyrir árum, burt ég gekk.
Knýr nú dyra björt og betri tíð
blikar skírteinið um ár og síð
takmark náðist töluvert, nú má:
Tralla og syngja – Ligga LiggaLá!

(Bloggskapur til samglaðnings
við útskrift úr H.Í.)
Hirðkveðillinn

Hugsað fram í júní.....

Eins og öllum ætti að vera ljós sem kíkja hingað inn við og við, er framundan utanlandsför kórs nokkurs. Ferðinni er heitið til Berlínar í byrjun júní.  
Smám saman hefur verið að skýrast hvernig ferðinni verður háttað, en einn meginþáttur hennar, sem fyrir liggur, er samsöngur okkar með 110 manna kór á tveim messum: Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar og Berlínarmessu Arvo Pärt. Flutningurinn fer fram í einni merkustu kirkju Berlínar, Gethsemanekirche, sem er í fyrrverandi austur Berlín. Þessi kirkja er einna þekktust í tengslum við átökin sem áttu sér stað í lok níunda áratugar síðustu aldar. 
  • Í kirkjunni, sem var byggð um miðja 19. öld, safnaðist fólk víða að saman árið 1989 til að taka þátt í friðarvökum sem voru haldnar á hverju kvöldi og sem presturinn í kirkjunni stjórnaði. Þessar vökur reyndust eiga mikilvægan þátt í því að Þýskaland var sameinað.

Gethsemanekirche Stargarder Straße 77, Berlin  10437 • +49-(0)-30-4471-5567







28 febrúar, 2009

Öðruvísi

Mannskepnan aðlagast umhverfinu eða menningunni sem hún lifir og hrærist í og eftir því sem hún staldrar við lengur nálgast hún það æ meir að verða hluti af umhverfinu. Hápunkti nær manneskja síðan með því að verða umhverfið sjálft. 
Manni verður þetta auðvitað fullljóst við að heimsækja aðrar þjóðir og uppgötvar hvernig þær haga lífi sínu að mörgu leyti með öðrum hætti en við. Það getur meira að sesgja gengið svo langt að maður áttar sig ekki á hvernig húsbúnaður, eisn og bara klósettskálar virka.

Það þarf ekki að fara til útlanda til að upplifa menningarmun. Hann er fyrir hendi, jafnvel milli tveggja nágranna, sem hafa búið hlið við hlið árum saman.

Hér kann einhver að velta fyrir sér hvert í ósköpunum ég er að fara með þessu. Það skal nú skýrt.
Ég tók þátt í starfi Skálholtskórsins, sáluga nánast svo telja megi í áratugum. Ég lít svo á, að þar sem þátttaka mín náði yfir svo langt tímabil, þá hafi ég í það minnsta haft áhrif á þá menningu sem þar þróaðist. Ég vil ekki ganga svo langt að halda því fram, að ég hafi beinlínis verið menningin, þó ég gæti það alveg ef ég væri þannig innréttaður. Í öllu falli hrærðist ég þarna í umhverfi sem ég þekkti orðið vel og sem mér leið bara nokkuð vel í.

Nú er enginn Skálholtskór lengur, en það er önnur umræða.
Í sama sveitarfélagi starfar annar kór af svipuðum toga og Skálholtskórinn. Þetta er Söngkór Miðdalskirkju. Ég hef líklega þrisvar áður kíkt í heimsókn til þessa kórs við sérstök tækifæri og í dag er framundan fjórða skiptið. 

Það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég kom til æfinga hjá þessum kór, var að þar var menningin önnur. Hvorki betri né verri, bara önnur. Hér var kannski um að ræða annarskonar samskipti milli radda, eða innan hverrar raddar fyrir sig. Þeirra menning hefur þróast í gegnum áratugi, alveg eins og menning Skálholtskórsins. 
Lítið dæmi um þennan menningarmun er, að Laugdælir hafa kaffi og með því í æfingahléum. Í gærkvöld voru t.d. 4 sortir.
Allt er þetta sjálfsagt hið ágætasta mál.

Kórar tveir starfa með konum
og köllum.
Þeir djamma með dætrum og sonum
og öllum.

- ég veit, ég veit.

27 febrúar, 2009

Leiðarlok Tungnamanns

Maður er alltaf minntur á það við og við, að leiðin liggur hinn sama veg hjá okkur öllum. Æviköflunum fjölgar, eitt tekur við af öðru og við vitum það eitt fyrir víst að það kemur að því fyrr eða síðar, að dagar okkar verða ekki taldir frekar. 
Þetta er ekki eitthvað sem menn velta endilega mikið fyrir sér í önn dagsins og ekki eyða menn tímanum mikið í að hlakka til eða kvíða. Allt hefur sinn gang óháð öllum pælingum um spurningar sem byrja á hvenær eða hversvegna.

Einn þeirra einstaklinga sem hafa verið mér samtíða hér í sveit svo lengi sem ég man eftir mér og sem hefur verið áberandi í lífi okkar Tungnamanna áratugum saman, lést s.l. miðvikudag, 25. febrúar.
Arnór Karlsson, sem áður fyrr var alltaf kallaður Arnór á Bóli, en síðar Arnór í Arnarholti var mikill félagsmálamaður og ég held hann hafi komið að flestu því, félagslegs eðlis, sem fólk hefur ástundað allt frá því hann fyrst hafði skyn til eða tækifæri, fram á síðasta dag. Hann var einn af þessum Erkitungnamönnum; þeim sem maður hlýtur alltaf að tengja við Biskupstungur. Hann hefur líklega haft mikil áhrif á þá menningu sem hér hefur þróast, og sem aðgreinir Tungnamenn frá fólki í nágrannasveitum. Þegar ég tala um menningu þá á ég við eitthvað það sem maður sér og skynjar, en kann ekki að orða.

Ég veit að Arnór var kennari við Reykholtsskóla þegar ég var þar nemandi fyrir ekki svo mörgum árum, eða þannig. Hann var líka kennari þar á sama tíma og ég fyrir enn færri árum. 
Það var á þeim tíma sem Arnór átti stutt samtal við nýjan kennara og hafði hug á að kynna sér hverra manna hún væri, eins og hans var von og vísa.  Þetta var samtalið:
   Arnór: Og hvaðan kemur þú?
   Kennari: Ja, ég kem nú úr Reykjavík.
   Arnór: Nú, jæja. Ættlaus aumingi.
   Samtalið varð ekki lengra.

Arnór stundaði ýmiskonar fræðastörf, var sauðfjárbóndi og sat í allskyns stjórnum og nefndum, m.a. lengi í hreppsnefnd. Eflaust má telja lengi ef tiltaka á allt sem hann hefur lagt lið.

Ætli megi ekki segja um þennan ágæta mann, að hann hafi haldið í heiðri þeirri hugsun, að það er fortíðin sem við hljótum alltaf að byggja á. Hann bar með sér keim af því sem liðið er um leið og hann var ávallt tilbúinn að tileinka sér nýungar og prófa nýja hluti.

Hvíli Arnór í friði.


23 febrúar, 2009

Kemur hreint ekki á óvart

Það eru þau öfl í þessu ólíkindalandi sem ekki þola ljós dagsins. Þau er að finna víða, ekki síst í þeim kimum sem kallast Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. 
Það er ekki nóg að hvítþvo andlitið með sjónvarpsstjörnu og skilja allt sem undir er eftir með gamla skítnum.
Mér segir svo hugur um, að nú sé komið á samband milli íhalds og framsóknar  - sem felur í sér loforð um samvinnu og helmingaskipti á næsta kjörtímabili. Ég þykist viss um að framsóknarmenn séu  í þessu samkomulagi búnir að lofa að tryggja að ekki verði gerðar breytingar á lögum um Seðlabankann.

Til að þetta sé ekki of áberandi gagnvart stjórnarflokkunum ákváðu framsóknarfélagarnir að greiða atkvæði með og á móti og sjónvarpsandlitið slær svo úr og í. Gamla framsókn enn og aftur. 
Verður nokkuð nýtt Ísland??

Þingmenn eru furðulostnir vegna andstöðu Höskuldar Þórhallssonar þingmanns við að afgreiða frumvarp ríkisstjórnarinnar um Seðlabanka Íslands úr viðskiptanefnd. Hermt er að Höskuldur sé með þessu í andstöðu við þingflokk Framsóknar en varaformaðurinn, Birkir Jón Jónsson, greiddi atkvæði með stjórninni. Sjálfur segist Höskuldur njóta stuðnings Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í afstöðunni. Innan stjórnarliðsins er þannig litið á að þingmaðurinn sé með þessu að hlaupa í vörn fyrir Davíð af dularfullum ástæðum. 
Einhverjir telja að glitti í Finn Ingólfsson, einn helsta hugmyndafræðing Framsóknar til fjölmargra ára. - DV

Hvað var ég búinn að segja?

22 febrúar, 2009

VOCES KREPPORUM


Sumt segir maður á vettvangi sem þessum, en annað ekki. 
Sumar myndir er rétt að birta, en aðrar ekki. 
Sum tiltæki eru við hæfi, en önnur ekki.
Þegar ég velti fyrir mér hvernig við hæfi er að fjalla um ágætis helgarútilegu, sem lauk síðari hluta dags í gær, koma þessi atriði sífellt til athugunar.

Eins og fram hefur komið áður hér, stendur fyrir dyrum hjá hópi fólks, sem undanfarin mismunandi mörg ár, hefur átt það sameiginlegt að syngja í kór þeim sem kallaðist Skálholtskórinn, að leggja land undir fót í byrjun júní og fljúga sem leið liggur til höfuðborgar Þýskalands. Til þess að svo megi verða, mun nauðsynlegt að hafa eitthvað í farteskinu sem líkja má við það þegar gestir koma í heimsókn og bera með sér gjöf til gestgjafanna.

Ekki mun ég nota mikið fleiri orð um þessa fyrirhuguðu heimsókn hér, heldur einbeita mér að því að færa í orð nokkurskonar frásögn af helgarsamkomu þess hóps sem hér er um að ræða. Henni skipti ég í 3 kafla: Umgjörðina, félagslegt samneyti og tónlistariðkun.

1. UMGJÖRÐIN
Nesbúð á Nesjavöllum var staðurinn þar sem fólk renndi í hlað þegar leið að kvöldi föstudags. Þá komu flestir, en aðrir ekki. Hér er um að ræða sérlega hentugan stað til að sinna starfsemi, sem felur bæði í sér upplyftingu andans og útrás fyrir félagslega samfagnaðarþörf. 
Ég kom viðeigandi farangri fyrir í úthutuðu herbergi, fór síðan fram á ganginn og lokaði herbergisdyrunum. Við smellinn sem heyrist þegar læstar dyr lokast, uppgötvaði ég að lykillinn sem mér hafði verið trúað fyrir, lá fyrir innan. Sú atburðarás sem fór þá í gang er of löng fyrir þennan pistil, en eftir leit starfsmanna að varalykli, um allt Nesjavallasvæðið í upp undir klukkutíma, lauk þeirri kreppu sem mistökin höfðu haft í för með sér.

2. FÉLAGSLEGT SAMNEYTI
Kannski er þetta kaflaheiti fullhátíðlegt fyrir samveruna sem þarna átti sér stað. Að lokinni ástundun tónlistar langt fram eftir föstudagskvöldi, upphófst einhverskonar leikur þar sem þátttakendur sátu í hring með gula miða límda á enni sín. Ekki meira um það, en þessi gleði entist nokkuð lengi og þegar fór að sjást fyrir endann á henni var farið að bregða fyrir fólki sem var fáklæddara en gengur og gerist - fáklæddara en siðasamt getur talist svona almennt séð, en auðvitað var rökrétt skýring á þessu, eins og öllu sem fram fór á þessu kvöldi. Við Nesbúð eru nefnilega hinir ágætustu heitu pottar utandyra og þangað lá nú leið þeirra sem kusu að verða sér úti um hlýju í kroppinn til að öðlast jafnvægi í hita milli hans og þess andans hita og hlýju sem þeir höfðu öðlast með tónlistariðkuninni fyrr um kvöldið. 
Það sem þessi pottaferð fól í sér á ekki, að mínu mati, erindi inn í þessi skrif, samanber það sem lesa má í efstu þrem setningum þessa pistils. Þá verður ekki heldur fjallað um afleiðingar þessarar pottstundar, hvorki þær sem upplifa mátti í fasi fólks þegar dagur reis, né heldur þær sem nú má finna í formi rafræns útfrymis á veraldarvefnum. Allt átti sinn stað og tíma eins og gengur og gerist.
Svo því sé haldið til haga þá tók ég ekki beinan þátt í þessum hluta helgardvalarinnar utan að kíkja á pottverja við og við.

3. TÓNLISTARIÐKUN
Fyrrverandi stjórnandi hins fyrrverandi Skálholtskórs, Hilmar Örn, vinnur með hópnum að því að undirbúa Berlínarförina. 
Það þarf varla að taka það fram að tenórinn glansaði auðvitað allan tímann.

Í Berlín verður flutt Brynjólfsmessa eftir Gunnar Þórðarson og Berliner messe eftir Arvo Pärt. Brynjólfsmessu þekkjum við vel, en hin messan, sem er dálítið sérstök nútímamessa, þarf dálítinn tíma í viðbót til að meltast. Þau orð eins félagans að þar væri um að ræða: "Langt og leiðinlegt lag", munu eflaust taka á sig aðra mynd áður en langt um líður.
Messurnar tvær munum við flytja með 110 manna kór frá Berlín á tónleikum laugardaginn 6. júní. 
Við verðum einnig með eigin tónleika þar sem verða líklegast aðallega veraldlegir, með íslenskri tónlist, en hvað veit ég svo sem um það - maður veit aldrei þegar Hilmar er annars vegar. Við höfum góða þjálfun í að takast við það sem að höndum ber.

4. SAMANTEKT
Vel heppnuð og vinnuþrungin helgi með góðu fólki.








Ekkert verður ennþá, bara
uppgefið um nafn á kór.
Vil ég hérna varla svara,
en Voces Nostrae virkar stór




Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...