22 febrúar, 2009

VOCES KREPPORUM


Sumt segir maður á vettvangi sem þessum, en annað ekki. 
Sumar myndir er rétt að birta, en aðrar ekki. 
Sum tiltæki eru við hæfi, en önnur ekki.
Þegar ég velti fyrir mér hvernig við hæfi er að fjalla um ágætis helgarútilegu, sem lauk síðari hluta dags í gær, koma þessi atriði sífellt til athugunar.

Eins og fram hefur komið áður hér, stendur fyrir dyrum hjá hópi fólks, sem undanfarin mismunandi mörg ár, hefur átt það sameiginlegt að syngja í kór þeim sem kallaðist Skálholtskórinn, að leggja land undir fót í byrjun júní og fljúga sem leið liggur til höfuðborgar Þýskalands. Til þess að svo megi verða, mun nauðsynlegt að hafa eitthvað í farteskinu sem líkja má við það þegar gestir koma í heimsókn og bera með sér gjöf til gestgjafanna.

Ekki mun ég nota mikið fleiri orð um þessa fyrirhuguðu heimsókn hér, heldur einbeita mér að því að færa í orð nokkurskonar frásögn af helgarsamkomu þess hóps sem hér er um að ræða. Henni skipti ég í 3 kafla: Umgjörðina, félagslegt samneyti og tónlistariðkun.

1. UMGJÖRÐIN
Nesbúð á Nesjavöllum var staðurinn þar sem fólk renndi í hlað þegar leið að kvöldi föstudags. Þá komu flestir, en aðrir ekki. Hér er um að ræða sérlega hentugan stað til að sinna starfsemi, sem felur bæði í sér upplyftingu andans og útrás fyrir félagslega samfagnaðarþörf. 
Ég kom viðeigandi farangri fyrir í úthutuðu herbergi, fór síðan fram á ganginn og lokaði herbergisdyrunum. Við smellinn sem heyrist þegar læstar dyr lokast, uppgötvaði ég að lykillinn sem mér hafði verið trúað fyrir, lá fyrir innan. Sú atburðarás sem fór þá í gang er of löng fyrir þennan pistil, en eftir leit starfsmanna að varalykli, um allt Nesjavallasvæðið í upp undir klukkutíma, lauk þeirri kreppu sem mistökin höfðu haft í för með sér.

2. FÉLAGSLEGT SAMNEYTI
Kannski er þetta kaflaheiti fullhátíðlegt fyrir samveruna sem þarna átti sér stað. Að lokinni ástundun tónlistar langt fram eftir föstudagskvöldi, upphófst einhverskonar leikur þar sem þátttakendur sátu í hring með gula miða límda á enni sín. Ekki meira um það, en þessi gleði entist nokkuð lengi og þegar fór að sjást fyrir endann á henni var farið að bregða fyrir fólki sem var fáklæddara en gengur og gerist - fáklæddara en siðasamt getur talist svona almennt séð, en auðvitað var rökrétt skýring á þessu, eins og öllu sem fram fór á þessu kvöldi. Við Nesbúð eru nefnilega hinir ágætustu heitu pottar utandyra og þangað lá nú leið þeirra sem kusu að verða sér úti um hlýju í kroppinn til að öðlast jafnvægi í hita milli hans og þess andans hita og hlýju sem þeir höfðu öðlast með tónlistariðkuninni fyrr um kvöldið. 
Það sem þessi pottaferð fól í sér á ekki, að mínu mati, erindi inn í þessi skrif, samanber það sem lesa má í efstu þrem setningum þessa pistils. Þá verður ekki heldur fjallað um afleiðingar þessarar pottstundar, hvorki þær sem upplifa mátti í fasi fólks þegar dagur reis, né heldur þær sem nú má finna í formi rafræns útfrymis á veraldarvefnum. Allt átti sinn stað og tíma eins og gengur og gerist.
Svo því sé haldið til haga þá tók ég ekki beinan þátt í þessum hluta helgardvalarinnar utan að kíkja á pottverja við og við.

3. TÓNLISTARIÐKUN
Fyrrverandi stjórnandi hins fyrrverandi Skálholtskórs, Hilmar Örn, vinnur með hópnum að því að undirbúa Berlínarförina. 
Það þarf varla að taka það fram að tenórinn glansaði auðvitað allan tímann.

Í Berlín verður flutt Brynjólfsmessa eftir Gunnar Þórðarson og Berliner messe eftir Arvo Pärt. Brynjólfsmessu þekkjum við vel, en hin messan, sem er dálítið sérstök nútímamessa, þarf dálítinn tíma í viðbót til að meltast. Þau orð eins félagans að þar væri um að ræða: "Langt og leiðinlegt lag", munu eflaust taka á sig aðra mynd áður en langt um líður.
Messurnar tvær munum við flytja með 110 manna kór frá Berlín á tónleikum laugardaginn 6. júní. 
Við verðum einnig með eigin tónleika þar sem verða líklegast aðallega veraldlegir, með íslenskri tónlist, en hvað veit ég svo sem um það - maður veit aldrei þegar Hilmar er annars vegar. Við höfum góða þjálfun í að takast við það sem að höndum ber.

4. SAMANTEKT
Vel heppnuð og vinnuþrungin helgi með góðu fólki.








Ekkert verður ennþá, bara
uppgefið um nafn á kór.
Vil ég hérna varla svara,
en Voces Nostrae virkar stór




3 ummæli:

  1. Tenórinn af táp'og fjöri
    talsvert þandi brjóst og stél
    ótrúlegt að aldrei gjöri
    alveg hreint sko nógu vel.
    Bassinn hafði Hauk með sér
    Henrietta sópran ber
    Altinn -sem og á og ber-
    allur hvein af prýði
    fagurt syngur flokkur sá hinn þýði.

    (Bloggskapur um sönginn í æfingabúðunum að Nesjavöllum)
    Hirðkveðillinn

    SvaraEyða
  2. Voces Krepp(or)um krunka enn
    karlar fagrir svo og menn
    kvenna af stofni kurteisir
    kvenfrjálsir en blíðlyndir.

    Leikir marrgir litu kvöld
    langt fram eftir, gul með spjöld-
    pottverjar svo prýddu stað
    prís sé Drottni fyrir það.

    Mikla rekju mæra vil
    mjög svo hana þekk' og skil
    allir komu aftur þó
    enginn sál til himna fló,..

    ...bla, bla, bla bla, búið spil
    bla,bla en mátti til
    skemmtan minnar skammar er:
    að skrifa bull í dálkinn hér.

    (Bloggskapur um leiki, busl og bla...)
    Hriðkveðillinn

    SvaraEyða
  3. Undur og skelfing sem þessi hirðkveðill fær bullað...
    nú er best hann færi sig á vit barnanna og gerist:
    Ættarfylgjan ógurlega

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...