26 maí, 2008

Í vesturveg


Viðbrögð við útrásinni sem ég þurfti í síðustu færslu hafa verið fremur hófstillt, mér til nokkurrar undrunar. Annarsvegar er um að ræða pistil sem ég get ekki túlkað með öðrum hætti en sem stuðning við málflutninginn, og hinsvegar er færsla frá einum aðdáenda þessarar síðu, sem virðist líta svo á að þær skoðanir sem ég setti fram, séu bara eintómt grín. Ég hlýt að líta svo á, að viðkomandi aðhyllist þessar nýju uppeldisfræðikenningar svo mjög, að hann líti á framlag mitt sem afar fjarstæðukennt og vart svaravert. En það er bara allt í lagi.


Það er, sem sagt, ekki vegna harkalegra viðbragða við bloggfærslum mínum sem ég mun brátt yfirgefa landið græna og góða skamma stund.


Þá verður haldið í vesturátt með áfangastaðinn, Minneapolis, fyrir trjónu. Þaðan liggur leið víðsvegar um Íslendingabyggðir um stund. Þar sem um er að ræða námsferð verða að sjálfsögðu nokkrir vesturheimskir framhaldsskólar sóttir heim. Auðvitað rennir veikara (hér verður kannski sprenging) kynið hýru auga til heimsþekktrar verslunarmiðstöðvar sem er þarna einhversstaðar.



Þessi fjarvera mín hefur nokkuð sjálfkrafa í för með sér að ég fæ enga útrás á þessum stað fyrr en að henni lokinni - örfáum dögum seinna


Veriði bara margblessuð í bili.


Í mollinu´er megrunin fjarri.

23 maí, 2008

Útrás

Það er nokkuð sama hvert við höldum þegar við endanlega skríðum út úr skólakerfinu, við stöndum frammi fyrir því að spjara okkur í kapítalísku þjóðfélagi, eða er það ekki? Við eigum að vera búin að tileinka okkur ýmsa færni og þekkingu, sem síðan á að gera okkur fær um að sjá okkur og okkar farborða. Við getum ekki öll orðið bankastjórar eða eigendur alþjóðlegra verslanakeðja. Flest okkar þurfa að framfleyta sér á launavinnu af einhverju tagi.
Helsti draumur barna og unglinga þessa lands hefur verið sá undanfarin ár, að eignast mikið af peningum, til að geta keypt fullt af hlutum og til að geta gert það sem maður vill.
Í skólakerfinu er allt kapp lagt á (allavega í umræðunni) að nemendur eigi að hafa endalaust val um hvað þeir telja sjálfir að þeim sé fyrir bestu, sem oftast felst í því að fara auðveldustu leiðina í gegnum námið, þar sem það er svo margt annað skemmtilegt sem er í boði: Nágrannar, Grand Theft Auto, Manchester United, MSN...........æ, ég nenni ekki að tejla þetta allt upp. Afþreyingin er endalaus.
Í skólakerfinu er ofuráhersla á að hver einstaklingur eigi að fá námsefni við hæfi og á þeim hraða sem hentar. Þetta er eitt af því sem hljómar svo fallega, en mig grunar að, í flestum skólum, sé þetta ekki reyndin.
Í skólakerfinu er búið að fjarlægja flest tæki kennara til að aga nemendur og búa þá þannig undir að takast á við lífið í öllum sínum fjölbreyttu myndum. Tækið sem kennarar fá í staðinn frá uppeldisfræðilegum kenningasmiðum er að gera námið 'skemmtilegt' - og keppa þannig við alþjóðlegan afþreyingariðnað. Þegar skemmtunin gengur ekki nægilega vel - kemur upp hugmyndin um að námið eigi að vera skapandi. Bara orðið 'skapandi' hljómar bara nokkuð vel. Í mínum huga er orðið, í því samhengi sem hér er um að ræða, sérlega innantómt. Sköpun verður að eiga sér stað á einhverjum þekkingar- eða skilningsgrunni.
Mér er spurn: Hvar á lífsleiðinni eiga börnin okkar að reka sig á? Þegar þau eru orðin fulltíða fólk sem er búið að kaupa allt sem hugurinin girnist og situr í botnlausri skuldasúpu? Þegar þau eru búin að eignast barn og lenda í því að komast ekki á djammið fyrir krakkagrísnum? Það er kannski þá sem hin skapandi hugsun kemur til skjalanna?
Eitt er hið skapandi líf, en annað er hið raunverulega.

Aumingjavæðingin elur af sér börn.

20 maí, 2008

Þriggja helga helgi (3)



Þegar ferðalangarnir höfðu lokið við að njóta andlegrar næringar í Gerðarsafni, var enn haldið af stað og nú var það maginn.

Hér er líklegast rétt að ég hafa á lítilsháttar formála, en þannig háttar til, að í upp úr miðjum janúarmánuði afhentu þau sem þá voru að hverfa af landi brott og sem nú gista land kengúrunnar, foreldrunum sem hér er um að ræða, gjafabréf fyrir því sem kallaðist 'Domo Surprise'. Þetta tengdu foreldrarnir auðvitað við æfingaplanið sem afhent var nokkru fyrr, en það fól í sér titeknar líkamsæfingar í þreksal, þrisvar í viku út í hið óendanlega. Tengingin þarna á milli var augljóslega sú, að þegar viðunandi árangri væri náð skyldi gjafabréfið nýtt. Skemmst er frá því að segja að það hefur jaðrað við guðlast að láta sér svo mikið sem detta í hug að víkja frá ofannefndu æfingaplani síðan, og árangur hefur náðst, hreint ágætur.

Nú var, sem sagt komið að því að kanna hvað 'Domo surprise' fæli í sér.

Auðvitað gæti ég haf mörg orð um allan aðdragandann að sjálfu út-að-borða-inu, en mér til undrunar hef ég ákveðið að gera það ekki, heldur geri ég þess í stað stuttlega grein fyrir hinum domoska kvöldverði. Samkvæmt matseðlinum er 'Domo surprise' svona:


hmmmm...?
Matreiðslu- og framreiðslumenn DOMO bjóða gestumí óvissuferð sem felur í sér allt það besta í mat og þjónustu staðarins.

Athugið að þessi matseðill er eingöngu afgreiddur fyrir alla við borðið!

Við mælum með því að fela vínþjóni okkar að velja þær veigar sem falla best að DOMO-ferðinni

Svo mörg voru þau orð.

Áður en lengra er haldið er rétt að gera lítillega grein fyrir nafni þessa veitingastaðar, en eftir töluverðar rannsóknir hef ég komist að því að hann heitir svo mikið sem 'TAKK' upp á japönsku. Ég hafði áður verið búinn að tengja nafnið við latneska orðið DOMUS, sem þýðir hús, og þá þannig, að um væri að ræða sögn sem mynduð væri af því orði, sem væri þá DOMO í 1. persónu, eintölu nútíð, með merkinguna 'ÉG HÝSI'. Mér fannst þetta fremur lógísk niðurstaða þegar um nafn á veitingastað var að ræða, en raunin er sem sagt önnur. TAKK skal það vera.

Áfram með máltíðina. Það þurfti að velja drykki við hæfi með þessari óvissuferð, en þar sem ekki lá ljóst fyrir hvaða matur væri þarna á ferðinni, var ákveðið að fara að þeim ráðum sem gefin voru á matseðlinum:

Við mælum með því að fela vínþjóni okkar að velja þær veigar sem falla best að DOMO-ferðinni

Kallað var á vínþjóninn, virðulegan mann á besta aldri, með hvítan klút á framhandleggnum. Erindið var borið upp: Hvaða veigar falla best að Domo ferðinni? Þess ber að geta að þarna settum við upp það sem við teljum vera þann svip sem maður setur upp þegar maður er að fara að fjalla um vín af kunnáttusemi. Vínþjónninn benti umsviflaust á nokkur vín - fyrst hvítvín með forréttinum og síðan rauðvín meða aðalréttinum. Fjallaði hann um hvert vín af mikilli speki, þrúgurnar, keiminn, léttleikann, jarðveginn, hitastigið, rakastigið, stígvél bóndans o.s. frv. Við freistuðum þess að halda svip, en smám saman fóru að renna á okkur tveir svipir þar til sá fyrri hvarf alveg. Hin óhjákvæmilega spurning kom: Við viljum gjarnan fá glas af hvítvíni með forréttinum. Með hverju mælirðu? Ég hef ekki fyrr séð þjón sem jafnhratt missti áhugann á viðskiptavinunum. Náunginn fór hreinlega að horfa fram í eldhús og leið ekki við fyrr en ég hálf kallaði: Halló! Hann lét sig hafa það að ljúka við að taka pöntunina, en allt líf var farið úr augum hans og andlitsdráttum.

Jæja, þá var það máltíðin sjálf. Hún er efni í langa sögu, og það eina sem kemur í veg fyrir að ég skrái hana hér, er að ég myndi þurfa að muna nöfnin á öllum réttunum, sem ég geri ekki. 7 sinnum kom þjónn með nýja rétti, hvern einasta framsettan af einstöku listfengi og bragðið eins og best er hægt að hugsa sér. Svo ég nefni eitthvað þá hófst þetta allt á fjórföldum forrétti þar sem t.d. var að finna skötusel, tígrisrækjur, smálúðu, súshi vafninga, tvo aðalrétti (þegar njótendurnir voru orðnir pakksaddir) þar sem finna mátti t.d. blakkaðan þorskhnakka, nautavöðva og andabringu. Svo rétt í lokin fylgdi auðvitað gómsætur, dísætur eftirrétturinn.

Þetta var þegar upp er staðið alveg einstök máltíð, bæði að því er varðar matinn og þjónustuna.

Bestu þakkir sendum vér um langan veg til lands kengúrunnar.

Eftirmálinn var hinsvegar ekki jafn ánægjulegur fyrir alla, en ætli ég láti ekki frú Dröfn um að lýsa því nánar, maður á mann, eftir því sem eftir er leitað.

Tróðu menn í sig á Takk.

19 maí, 2008

Þriggja helga helgi (2)


Fyrir utan það að koma sumarstarfs-krafti Málningar hf í höfuðstaðinn, blasti við að fara á opnum listsýningar í Gerðarsafni í Kópavogi. Þar sýnir nú ein æskuvinkonan, Ólöf Einarsdóttir, ásamt tveim öðrum listakonum, og sendi hún boðskort af því tilefni. Það er nú svo, að ég, í það minnsta er ekki daglegur gestur á listsýningum, hvað þá að ég hafi áður verið viðstaddur opnun slíkra viðburða. Það var því við hæfi að mig skorti vitneskju um það hverskonar siðir og venjur fylgja slíku að öllu jöfnu. Hvernig var við hæfi að klæðast (ég var uppdressaður, svona til að vera viss), hvort maður færir listamanninum blóm (við komum færandi hendi með blóm), hvort maður kyssir og kjassar listamanninn (það gerðum við með sóma og sann), hve mikið maður drekkur af drykkjunum sem fram eru bornir (við gættum fyllstu hófsemi, að sjálfsögðu, en þótti samt rétt að ganga spekingslega um salina, með glas í hönd, eins og aðrir gestir, sem betur kunnu á etikettuna), hversu langt maður gengur í að lofa verkin (við höfum líklega farið millileið í því), hve lengi maður gengur um salinn og virðir fyrir sér listaverkin (ég tel ekki að við hefðum getað skoðað verkin betur eða nákvæmar), og hvenær og þá hvernig maður hverfur aftur á braut (við vorum nokkuð lengi og kvöddum listamanninn með virktum og þökkuðum fyrir ánægjulega sýningu). Á heildina litið tel ég að við öll þrjú, Kvisthyltingarnir, höfum komist bara ágætlega frá okkar hlut í þessari opnun. Sýningin var skemmtileg og aðdáunavert hve mikil vinna og alúð hafði greinilega verið lögð í munina sem allir voru búnir til úr hör, hrosshári og sísal (hvað sem það nú er)


Að þessu búnu tók við næsti hluti þessarar margföldu helgi.


Það verður ekki logið á listina.

18 maí, 2008

Þriggja helga helgi (1)


Ég veit nú eiginlega ekki hvernig ég á að komast hjá því að skrifa 5000 orða langloku um helgina sem nú er að verða að baki. Annirnar voru slíkar, að betur hefði hentað að dreifa þeim á þrjár helgar. Svona bara æxlast þetta stundum. Það getur meira að segja vel verið að ég freisti þess að dreifa umfjöllun um þessa ágætu helgi undir nokkrar fyrirsagnir til að auka líkur á að einhver telji sér fært að lesa sig í gegn, ekki það að ég ætlist til þess, sérstaklega.



Laugardagsmorgunninn hófst afar ánægjulega með því að VW sendibíll Sólveigarstaðahjóna var fenginn að láni, þar sem upp var runninn nýr fardagur. Nú skyldi horfið úr Hvarfi. Það var þannig, að um var að ræða eina mögulega tímann til að klára þetta verkefni, þar sem þessa helgina hverfur menntaskólaneminn á bænum í höfuðborgina til að afla sér skotsilfurs fyrir lokaátök næsta vetrar.

Hvarfið úr Hvarfi fól ekki bara í sér að fjarlægja þaðan eitthvert lítilræði, heldur stærstan hluta búslóðar þess hluta fjölskyldunnar sem um þessar mundir gistir höfuðstað Þýskalands. Búslóðin var flutt í Hvarf úr höfðuðstað Íslands, þegar forsendur voru nokkuð aðrar en nú eru uppi og sem kalla á að Kvistholt hýsi allt saman.

Það má í stuttu máli segja, að allt þetta hafi gengið ljúflega fyrir sig. Sérstaklega var rúmdýna nokkur mikil, skemmtileg viðureignar. Sendibíllinn stóð fyrir sínu og einnig gekk losunin einstaklega vel, en málið tók nokkuð að vandast þegar í Kvistholtskjallarann kom. Það er reyndar enn mikið til óleyst mál hvernig búslóðinni verður þar fyrir komið svo vel sé. Það er hinsvegar áhyggjuefni seinni tíma.


Að loknum flutningum blasti við að drífa sig með menntaskólanemann í höfuðstaðinn, en það var sannarlega ekki eina erindið þangað.......

Það er ekkert Hvarf í Kvistholti.

14 maí, 2008

"Og hjólar maður þá bara í hringi?"

Þessari spurningu varpaði sá sem átti fyrirsögnina í síðustu færslu fram þegar heim var komið og farið vara að spjalla um heima og geima. Umræðan snerti á ýmsu, en þar kom að hún fór að snúast um það hve mikilvægt það væri nútímamanninum, sem oftar en ekki situr kyrr við vinnu sína eða dundur. Þá gaf sá gamli þá yfirlýsingu að hann væri hugsa sig um á fá sér hjól. Þetta greip frú Dröfn á lofti: "Já, það er mjög sniðugt, þú getur bara haft það inni í stofu og hjólað þegar þú ert að horfa á fréttirnar."

Fréttir eru fjári góðar.

"Varstu að reyna að komast hjá því að keyra á flugu?"

heyrðist úr aftursætinu á Subaru Impreza. Sá sem mælti var aldni unglingurinn. Tími ummælanna var seinnipartinn í dag. Staðurinn Skeiðavegamót á leið heim frá Selfossi. Þegar bílstjóranum, mér, varð litið í baksýnisspegilinn blasti við stríðnissvipurinn velþekkti. Tilefni ummælanna voru þau, að þegar við vorum að koma að Skeiðavegamótunum, reyndist ég vera fremur annars hugar og ætlaði, eins og mér er tamt, að skipta niður. Þar sem Imprezan er sjálfskipt fór þetta á nokkuð annan veg. En flugunni hlýt ég að hafa bjargað með þessari aðgerð.

Hart er ei gott á hemil að stíga.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...