Ég veit nú eiginlega ekki hvernig ég á að komast hjá því að skrifa 5000 orða langloku um helgina sem nú er að verða að baki. Annirnar voru slíkar, að betur hefði hentað að dreifa þeim á þrjár helgar. Svona bara æxlast þetta stundum. Það getur meira að segja vel verið að ég freisti þess að dreifa umfjöllun um þessa ágætu helgi undir nokkrar fyrirsagnir til að auka líkur á að einhver telji sér fært að lesa sig í gegn, ekki það að ég ætlist til þess, sérstaklega.
Laugardagsmorgunninn hófst afar ánægjulega með því að VW sendibíll Sólveigarstaðahjóna var fenginn að láni, þar sem upp var runninn nýr fardagur. Nú skyldi horfið úr Hvarfi. Það var þannig, að um var að ræða eina mögulega tímann til að klára þetta verkefni, þar sem þessa helgina hverfur menntaskólaneminn á bænum í höfuðborgina til að afla sér skotsilfurs fyrir lokaátök næsta vetrar.
Hvarfið úr Hvarfi fól ekki bara í sér að fjarlægja þaðan eitthvert lítilræði, heldur stærstan hluta búslóðar þess hluta fjölskyldunnar sem um þessar mundir gistir höfuðstað Þýskalands. Búslóðin var flutt í Hvarf úr höfðuðstað Íslands, þegar forsendur voru nokkuð aðrar en nú eru uppi og sem kalla á að Kvistholt hýsi allt saman.
Það má í stuttu máli segja, að allt þetta hafi gengið ljúflega fyrir sig. Sérstaklega var rúmdýna nokkur mikil, skemmtileg viðureignar. Sendibíllinn stóð fyrir sínu og einnig gekk losunin einstaklega vel, en málið tók nokkuð að vandast þegar í Kvistholtskjallarann kom. Það er reyndar enn mikið til óleyst mál hvernig búslóðinni verður þar fyrir komið svo vel sé. Það er hinsvegar áhyggjuefni seinni tíma.
Að loknum flutningum blasti við að drífa sig með menntaskólanemann í höfuðstaðinn, en það var sannarlega ekki eina erindið þangað.......
Það er ekkert Hvarf í Kvistholti.
Það er ekki laust við að maður hálfskammist sín fyrir að vera ekki á staðnum til að hjálpa til við þetta. Hvað getur maður sagt.... Ég biðst bara afsökunar á því hvað þetta er allt of mikið af dóti.
SvaraEyðaHér er nú heldur fátt til að skammast sín fyrir. Það er uppi ákveðin staða, á henni er tekið og allir una glaðir við sitt.
SvaraEyðaÞetta var ekkert mál. :)