19 maí, 2008

Þriggja helga helgi (2)


Fyrir utan það að koma sumarstarfs-krafti Málningar hf í höfuðstaðinn, blasti við að fara á opnum listsýningar í Gerðarsafni í Kópavogi. Þar sýnir nú ein æskuvinkonan, Ólöf Einarsdóttir, ásamt tveim öðrum listakonum, og sendi hún boðskort af því tilefni. Það er nú svo, að ég, í það minnsta er ekki daglegur gestur á listsýningum, hvað þá að ég hafi áður verið viðstaddur opnun slíkra viðburða. Það var því við hæfi að mig skorti vitneskju um það hverskonar siðir og venjur fylgja slíku að öllu jöfnu. Hvernig var við hæfi að klæðast (ég var uppdressaður, svona til að vera viss), hvort maður færir listamanninum blóm (við komum færandi hendi með blóm), hvort maður kyssir og kjassar listamanninn (það gerðum við með sóma og sann), hve mikið maður drekkur af drykkjunum sem fram eru bornir (við gættum fyllstu hófsemi, að sjálfsögðu, en þótti samt rétt að ganga spekingslega um salina, með glas í hönd, eins og aðrir gestir, sem betur kunnu á etikettuna), hversu langt maður gengur í að lofa verkin (við höfum líklega farið millileið í því), hve lengi maður gengur um salinn og virðir fyrir sér listaverkin (ég tel ekki að við hefðum getað skoðað verkin betur eða nákvæmar), og hvenær og þá hvernig maður hverfur aftur á braut (við vorum nokkuð lengi og kvöddum listamanninn með virktum og þökkuðum fyrir ánægjulega sýningu). Á heildina litið tel ég að við öll þrjú, Kvisthyltingarnir, höfum komist bara ágætlega frá okkar hlut í þessari opnun. Sýningin var skemmtileg og aðdáunavert hve mikil vinna og alúð hafði greinilega verið lögð í munina sem allir voru búnir til úr hör, hrosshári og sísal (hvað sem það nú er)


Að þessu búnu tók við næsti hluti þessarar margföldu helgi.


Það verður ekki logið á listina.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...