20 maí, 2008

Þriggja helga helgi (3)



Þegar ferðalangarnir höfðu lokið við að njóta andlegrar næringar í Gerðarsafni, var enn haldið af stað og nú var það maginn.

Hér er líklegast rétt að ég hafa á lítilsháttar formála, en þannig háttar til, að í upp úr miðjum janúarmánuði afhentu þau sem þá voru að hverfa af landi brott og sem nú gista land kengúrunnar, foreldrunum sem hér er um að ræða, gjafabréf fyrir því sem kallaðist 'Domo Surprise'. Þetta tengdu foreldrarnir auðvitað við æfingaplanið sem afhent var nokkru fyrr, en það fól í sér titeknar líkamsæfingar í þreksal, þrisvar í viku út í hið óendanlega. Tengingin þarna á milli var augljóslega sú, að þegar viðunandi árangri væri náð skyldi gjafabréfið nýtt. Skemmst er frá því að segja að það hefur jaðrað við guðlast að láta sér svo mikið sem detta í hug að víkja frá ofannefndu æfingaplani síðan, og árangur hefur náðst, hreint ágætur.

Nú var, sem sagt komið að því að kanna hvað 'Domo surprise' fæli í sér.

Auðvitað gæti ég haf mörg orð um allan aðdragandann að sjálfu út-að-borða-inu, en mér til undrunar hef ég ákveðið að gera það ekki, heldur geri ég þess í stað stuttlega grein fyrir hinum domoska kvöldverði. Samkvæmt matseðlinum er 'Domo surprise' svona:


hmmmm...?
Matreiðslu- og framreiðslumenn DOMO bjóða gestumí óvissuferð sem felur í sér allt það besta í mat og þjónustu staðarins.

Athugið að þessi matseðill er eingöngu afgreiddur fyrir alla við borðið!

Við mælum með því að fela vínþjóni okkar að velja þær veigar sem falla best að DOMO-ferðinni

Svo mörg voru þau orð.

Áður en lengra er haldið er rétt að gera lítillega grein fyrir nafni þessa veitingastaðar, en eftir töluverðar rannsóknir hef ég komist að því að hann heitir svo mikið sem 'TAKK' upp á japönsku. Ég hafði áður verið búinn að tengja nafnið við latneska orðið DOMUS, sem þýðir hús, og þá þannig, að um væri að ræða sögn sem mynduð væri af því orði, sem væri þá DOMO í 1. persónu, eintölu nútíð, með merkinguna 'ÉG HÝSI'. Mér fannst þetta fremur lógísk niðurstaða þegar um nafn á veitingastað var að ræða, en raunin er sem sagt önnur. TAKK skal það vera.

Áfram með máltíðina. Það þurfti að velja drykki við hæfi með þessari óvissuferð, en þar sem ekki lá ljóst fyrir hvaða matur væri þarna á ferðinni, var ákveðið að fara að þeim ráðum sem gefin voru á matseðlinum:

Við mælum með því að fela vínþjóni okkar að velja þær veigar sem falla best að DOMO-ferðinni

Kallað var á vínþjóninn, virðulegan mann á besta aldri, með hvítan klút á framhandleggnum. Erindið var borið upp: Hvaða veigar falla best að Domo ferðinni? Þess ber að geta að þarna settum við upp það sem við teljum vera þann svip sem maður setur upp þegar maður er að fara að fjalla um vín af kunnáttusemi. Vínþjónninn benti umsviflaust á nokkur vín - fyrst hvítvín með forréttinum og síðan rauðvín meða aðalréttinum. Fjallaði hann um hvert vín af mikilli speki, þrúgurnar, keiminn, léttleikann, jarðveginn, hitastigið, rakastigið, stígvél bóndans o.s. frv. Við freistuðum þess að halda svip, en smám saman fóru að renna á okkur tveir svipir þar til sá fyrri hvarf alveg. Hin óhjákvæmilega spurning kom: Við viljum gjarnan fá glas af hvítvíni með forréttinum. Með hverju mælirðu? Ég hef ekki fyrr séð þjón sem jafnhratt missti áhugann á viðskiptavinunum. Náunginn fór hreinlega að horfa fram í eldhús og leið ekki við fyrr en ég hálf kallaði: Halló! Hann lét sig hafa það að ljúka við að taka pöntunina, en allt líf var farið úr augum hans og andlitsdráttum.

Jæja, þá var það máltíðin sjálf. Hún er efni í langa sögu, og það eina sem kemur í veg fyrir að ég skrái hana hér, er að ég myndi þurfa að muna nöfnin á öllum réttunum, sem ég geri ekki. 7 sinnum kom þjónn með nýja rétti, hvern einasta framsettan af einstöku listfengi og bragðið eins og best er hægt að hugsa sér. Svo ég nefni eitthvað þá hófst þetta allt á fjórföldum forrétti þar sem t.d. var að finna skötusel, tígrisrækjur, smálúðu, súshi vafninga, tvo aðalrétti (þegar njótendurnir voru orðnir pakksaddir) þar sem finna mátti t.d. blakkaðan þorskhnakka, nautavöðva og andabringu. Svo rétt í lokin fylgdi auðvitað gómsætur, dísætur eftirrétturinn.

Þetta var þegar upp er staðið alveg einstök máltíð, bæði að því er varðar matinn og þjónustuna.

Bestu þakkir sendum vér um langan veg til lands kengúrunnar.

Eftirmálinn var hinsvegar ekki jafn ánægjulegur fyrir alla, en ætli ég láti ekki frú Dröfn um að lýsa því nánar, maður á mann, eftir því sem eftir er leitað.

Tróðu menn í sig á Takk.

2 ummæli:

  1. Frá landi kengúrunnar sendi ég öfundarkveðjur.....og það það var nú það allra minnsta eftir allt og allt

    SvaraEyða
  2. Já ekki laust við öfund hér.

    Domo arigato fyrir að segja frá þessu, hér í landi snitzels með salt og pipar, fær maður ekkert svona gott......og reyndar ekki svona dýrt heldur :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...