10 júní, 2008

Ungt fólk um Íslendingabyggðir?

Það er allavega nær lagi en að tala um eldri borgara og sjúklinga.
Gimli hefur einhvernveginn alltaf verið það nafn í Vesturheimi sem hefur í mínum huga verið táknmynd fyrir flutninga landans til þessa heimshluta, aðallega á síðustu 30 árum 19. aldar, en einnig að nokkru á fyrsta áratug þeirrar tuttugustu.
Í þessum bæ byrjaði þessi hópur - skólamanna, að þó nokkrum hluta - á því að heimsækja Gimli High School. Afar vel tekið á móti auðvitað, og við vorum leidd um króka og kima. Áfram var haldið eftir hádegi og ekið til Arborg, sem auðvitað er Árborg upp á íslensku, ef það skyldi hafa farið fram hjá einhverjum. Þar var heimsóttur annar framhaldsskóli: Arborg Collegiate. Að þessu loknu man ég ekki betur en leiðin hafi legið á hótelið áður en haldið var í skemmtilegt kvöldboð hjá Íslendingafélaginu, með viðkomu á vísum stað.
Daginn eftir var heilmikil dagskrá, í stórum dráttum svona:
-Kíkt á minnismerki um Vilhjálm Stefánsson,
-Komið við í Riverton (merkilegt að þessi bær er í eða við Arborg - og heitin merkja það sama - ef einhver skilur hvað ég á við) þar sem er að finna garð með ýmsum minnismerkjum um landann, m.a. Guttorm J. Guttormsson.
-Að því búnu lá leiðin svo út í Mikley (Hecla Island), en þar virðast eingöngu hafa búið Íslendingar. Þarna er m.a. að finna skildi með ágröfnum heitum bæjanna sem þarna voru (öll á íslensku) og nöfnum íbúanna (eintómir Íslendingar). Og þarna tók náttúrulega hann Binni á móti okkur og leiddi hreint um allt. Að sjálfsögðu talar Binni afar vandaða íslensku, enda á áttræðisaldri.
-Eftir Hecla lá leið í átt til Winnipeg aftur, en á leiðinni var komið við hjá miklum ágætis Íslendingum, hjónunum Rósalind og Einari Vigfússon í Drangey. Hún stjórnar merkum barnakór sem kemur til Íslands í kringum verslunarmannahelgi, hann (altso Einar) er alræmdur, margverðlaunaður útskurðarmeistari (myndir af sumum fuglunum eru á myndasíðunni).
Þá var ekkert eftir nema aksturinn til Winnipeg á þessum ágæta degi, en þar var gist næstu tvær nætur á sama hótelinu. Daginn á milli náttanna tveggja nýtti fólk með ýmsu móti, en ég tel að flestir hafi lagt leið sína niður í "The Forks". Heitið dregur þetta svæði af því að þar koma saman tvær ár, áðurnefnd Rauðá og Assiniboine áin.
Eftir síðari gistinguna var haldið af stað suður á bóginn til Íslendingabyggðar í Norður Dakota.
Það bíður þar til næst.
Þetta hefur stundum verið kallað: Cliffhanger.

09 júní, 2008

Eldri borgarar og sjúklingar í vesturveg?

Ekki aldeilis, því hafna ég, ungur maðurinn.
Ekki er það svo að ég ætli mér að fara að segja sögu þessarar eftirminnilegu og skemmtilegu ferðar, til þess hefur verið ráðið ákaflega hæft fólk. Ég ætla hér að bregða upp lítilsháttar mynd af ferðinni í tvennu lagi, fyrst lítilsháttar lýsingu á áfangastöðum og hinum jákvæðu þáttum, en síðan bregða upp lítilsháttar annarri mynd og ekki eins jákvæðri, þó ég vilji alltaf vera jákvæður.
27. maí var sem sagt flogið til Minneapolis (Bloomington) í Bandaríkjunum. Ekki var þar gerður langur stans, heldur var í býtið morguninn eftir lagt í hann í norð-vesturátt með viðkomu á klukkutíma fresti til að teygja úr sér og snæða. M.a. komum við til Alexandríu þar sem er að finna safn sem geymir hinn víðfræga Kensington stein Loks var gist í Grand Forks (hótel) á fylkismörkum Minnesota og N-Dakota. Þarna koma saman tvær ár: Red River og Red Lake River, en það var einmitt meðfram Rauðá sem við ókum mikinn hluta ferðarinnar, enda er Rauðárdalur feikilegt flæmi.
Nú, daginn eftir var haldið sem leið lá að Kanadísku landamærunum á áfram til Winnipeg í Kanada. Þar var byrjað á því að snæða á Round Table veitingahúsinu, en síðan haldið í Winnipegháskóla þar sem við fengum upplýsingar um íslenskudeildina hjá forstöðumanninum og síðan leiðsögn um íslenska bókasafnið sem þarna er að finna. Sérstaklega verð einn ferðalanganna glaður og stoltur þegar hann komst að því að nýja bókin hans um silfur hafsins var til á safninu.
Að þessu loknu kíktum við á styttuna af Jóni Sigurðssyni sem stendur við Löggjafarsamkunduhúsið þeirra Manitobamanna, og þá var loks haldið til hótels í miðborginni.
Og þá kom morgunninn eftir, leiðin lá til Gimli.


Þegar hér er komið sögu sé ég ekki fram á að þetta verði tvær færslur. Mér sýnist þær verða fleiri en tvær. Þið eigið ekki von á góðu.

Gott er að eiga á góðu von

07 júní, 2008

Myndir úr Vesturheimi

Þetta er bara til að benda á að ég er búinn að skella inn handahófsvöldum myndum úr Vesturheimsferðinni. Vonast til að geta skrifað sitthvað með þeim bráðlega.

06 júní, 2008

Þekkt stjórnunaraðferð

Það er ekki markmið mitt með því að skrifa hitt og þetta hér, að fjalla um það sem mér finnst neikvætt í veröldinni, en ég held að það sé fullmikil bjartsýni af minni hálfu að ímynda mér að hér muni ég bara fjalla um eitthvað jákvætt og skemmtilegt. Það er vissulega góður eiginleiki að leita hins jákvæða í öllum hlutum, því sagt er að jákvæðni í hugsunum og gjörðum geri menn hamingjusamari. Það bara er ekki alltaf hægt.

Nú liggur það fyrir að Hilmar Örn Agnarsson hefur sagt lausu starfi sínu sem organisti við Skálholtskirkju og hefur gert starfslokasamning við þá Skálholtsmenn sem um þessi mál véla. Auðvitað er ég ánægður fyrir Hilmars hönd að hafa tekið þessa ákvörðun, enda held ég að afturkoma hans til starfa í Skálholti hefði ekki verið honum til góðs við þær aðstæður sem þar eru uppi. Starfslokasamningurinn mun vera með þeim hætti, að Hilmar er ánægður með sinn hlut, sem er ekkert nema jákvætt.
Nú eru þá ekki allir bara yfir sig ánægðir? Það hefur mér heyrst og sýnst að svo miklu leyti sem ég hef heyrt eða lesið fólk tjá sig um.

Ég er hinsvegar ekki ánægður sem félagi í Skálholtskórnum á 3ja áratug. Ég hef haft þó nokkra ánægju af að starfa með skemmtilegum og samheldnum hópi þennan tíma. Þessi kór hefur verið ein helsta kjölfestan í bæði kirkjulegu og menningarlegu starfi í Biskupstungum frá því Skálholtskirkja var vígð 1963. Nú hefur hann verið lagður niður og verður ekki annað séð, en það sé þeim Skálholtsmönnum sem þar um véla, að meinalausu. Úr þeirri átt finnst mér Skálholtskórinn ekki hafa notið sannmælis, þvert á móti hafi verið litið á hann sem eitthvað sem þyrfti að vera fyrir hendi, en ekki væri ástæða til að hampa með nokkrum hætti. Aðstaða kórsins í Skálholti og sinnuleysi forystumannanna um velferð hans var síður en svo til fyrirmyndar og lítið gert til að láta það fólk sem þar hefur lagt fram krafta sína finna að starfið væri mikilvægt eða þakkarvert.

Aðdragandi að þessum starfslokasamningi hefur ekki verið sársaukalaus fyrir þá sem að koma eins og flestir þekkja. Ekki hefur margt fallegt verið sagt eða hugsað um forystumenn á Skálholtsstað þann tíma sem þetta hefur staðið yfir. Það, að þeir koma nú og gera sómasamlegan starfslokasamning við organistann sem þeir sögðu upp störfum, finnst mér í engu bæta þeirra hlut í þessu máli.

Kirkjan gengur sködduð frá þessu borði og það verð ég að segja, að það er skoðun mín, að sú framganga sem þarna hefur verið sýnd hefur lítið með kristna trú eða siðgæði að gera.

05 júní, 2008

.... og síðan austur aftur

Nú erum við sem sagt snúin aftur úr afar merkilegri ferð um slóðir Íslendinga í Norður Dakóta og Manitóba. Enn sem komið er er ekki um að ræða að ég fari að fara mörgum orðum um ferð þessa þar sem flugþreyta og fleiri kvillar gera vart við sig þessa stundina, en skelfing var þetta gaman um leið og það var að mörgu leyti ekki auðvelt. Ég skil bandaríska þjóðarsál betur en áður, og einnig mollin.
Þá er ég betur tengdur við sögu þeirra landa sem tóku á það ráð að skella sér vestur um haf á síðari hluta 19. aldar og fyrstu árum þeirrar 20. Af einhverjum ástæðum er ég búinn að komast að þeirri niðurstöðu, að þeir hafi verið fremur grunnhyggnir, blessaðir.
Ég reikna með, að frekar verði fjallað um þessi mál öll á næstunni og efast ekki um að því verður vel tekið. Vonast ennfremur til að skella nokkrum þeirra hundraða Canon ljósmynda sem teknar voru, inn á myndasíðuna.
Nú er best að hvíla sig.

No jokin' about jet lag

26 maí, 2008

Í vesturveg


Viðbrögð við útrásinni sem ég þurfti í síðustu færslu hafa verið fremur hófstillt, mér til nokkurrar undrunar. Annarsvegar er um að ræða pistil sem ég get ekki túlkað með öðrum hætti en sem stuðning við málflutninginn, og hinsvegar er færsla frá einum aðdáenda þessarar síðu, sem virðist líta svo á að þær skoðanir sem ég setti fram, séu bara eintómt grín. Ég hlýt að líta svo á, að viðkomandi aðhyllist þessar nýju uppeldisfræðikenningar svo mjög, að hann líti á framlag mitt sem afar fjarstæðukennt og vart svaravert. En það er bara allt í lagi.


Það er, sem sagt, ekki vegna harkalegra viðbragða við bloggfærslum mínum sem ég mun brátt yfirgefa landið græna og góða skamma stund.


Þá verður haldið í vesturátt með áfangastaðinn, Minneapolis, fyrir trjónu. Þaðan liggur leið víðsvegar um Íslendingabyggðir um stund. Þar sem um er að ræða námsferð verða að sjálfsögðu nokkrir vesturheimskir framhaldsskólar sóttir heim. Auðvitað rennir veikara (hér verður kannski sprenging) kynið hýru auga til heimsþekktrar verslunarmiðstöðvar sem er þarna einhversstaðar.



Þessi fjarvera mín hefur nokkuð sjálfkrafa í för með sér að ég fæ enga útrás á þessum stað fyrr en að henni lokinni - örfáum dögum seinna


Veriði bara margblessuð í bili.


Í mollinu´er megrunin fjarri.

23 maí, 2008

Útrás

Það er nokkuð sama hvert við höldum þegar við endanlega skríðum út úr skólakerfinu, við stöndum frammi fyrir því að spjara okkur í kapítalísku þjóðfélagi, eða er það ekki? Við eigum að vera búin að tileinka okkur ýmsa færni og þekkingu, sem síðan á að gera okkur fær um að sjá okkur og okkar farborða. Við getum ekki öll orðið bankastjórar eða eigendur alþjóðlegra verslanakeðja. Flest okkar þurfa að framfleyta sér á launavinnu af einhverju tagi.
Helsti draumur barna og unglinga þessa lands hefur verið sá undanfarin ár, að eignast mikið af peningum, til að geta keypt fullt af hlutum og til að geta gert það sem maður vill.
Í skólakerfinu er allt kapp lagt á (allavega í umræðunni) að nemendur eigi að hafa endalaust val um hvað þeir telja sjálfir að þeim sé fyrir bestu, sem oftast felst í því að fara auðveldustu leiðina í gegnum námið, þar sem það er svo margt annað skemmtilegt sem er í boði: Nágrannar, Grand Theft Auto, Manchester United, MSN...........æ, ég nenni ekki að tejla þetta allt upp. Afþreyingin er endalaus.
Í skólakerfinu er ofuráhersla á að hver einstaklingur eigi að fá námsefni við hæfi og á þeim hraða sem hentar. Þetta er eitt af því sem hljómar svo fallega, en mig grunar að, í flestum skólum, sé þetta ekki reyndin.
Í skólakerfinu er búið að fjarlægja flest tæki kennara til að aga nemendur og búa þá þannig undir að takast á við lífið í öllum sínum fjölbreyttu myndum. Tækið sem kennarar fá í staðinn frá uppeldisfræðilegum kenningasmiðum er að gera námið 'skemmtilegt' - og keppa þannig við alþjóðlegan afþreyingariðnað. Þegar skemmtunin gengur ekki nægilega vel - kemur upp hugmyndin um að námið eigi að vera skapandi. Bara orðið 'skapandi' hljómar bara nokkuð vel. Í mínum huga er orðið, í því samhengi sem hér er um að ræða, sérlega innantómt. Sköpun verður að eiga sér stað á einhverjum þekkingar- eða skilningsgrunni.
Mér er spurn: Hvar á lífsleiðinni eiga börnin okkar að reka sig á? Þegar þau eru orðin fulltíða fólk sem er búið að kaupa allt sem hugurinin girnist og situr í botnlausri skuldasúpu? Þegar þau eru búin að eignast barn og lenda í því að komast ekki á djammið fyrir krakkagrísnum? Það er kannski þá sem hin skapandi hugsun kemur til skjalanna?
Eitt er hið skapandi líf, en annað er hið raunverulega.

Aumingjavæðingin elur af sér börn.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...