06 júní, 2008

Þekkt stjórnunaraðferð

Það er ekki markmið mitt með því að skrifa hitt og þetta hér, að fjalla um það sem mér finnst neikvætt í veröldinni, en ég held að það sé fullmikil bjartsýni af minni hálfu að ímynda mér að hér muni ég bara fjalla um eitthvað jákvætt og skemmtilegt. Það er vissulega góður eiginleiki að leita hins jákvæða í öllum hlutum, því sagt er að jákvæðni í hugsunum og gjörðum geri menn hamingjusamari. Það bara er ekki alltaf hægt.

Nú liggur það fyrir að Hilmar Örn Agnarsson hefur sagt lausu starfi sínu sem organisti við Skálholtskirkju og hefur gert starfslokasamning við þá Skálholtsmenn sem um þessi mál véla. Auðvitað er ég ánægður fyrir Hilmars hönd að hafa tekið þessa ákvörðun, enda held ég að afturkoma hans til starfa í Skálholti hefði ekki verið honum til góðs við þær aðstæður sem þar eru uppi. Starfslokasamningurinn mun vera með þeim hætti, að Hilmar er ánægður með sinn hlut, sem er ekkert nema jákvætt.
Nú eru þá ekki allir bara yfir sig ánægðir? Það hefur mér heyrst og sýnst að svo miklu leyti sem ég hef heyrt eða lesið fólk tjá sig um.

Ég er hinsvegar ekki ánægður sem félagi í Skálholtskórnum á 3ja áratug. Ég hef haft þó nokkra ánægju af að starfa með skemmtilegum og samheldnum hópi þennan tíma. Þessi kór hefur verið ein helsta kjölfestan í bæði kirkjulegu og menningarlegu starfi í Biskupstungum frá því Skálholtskirkja var vígð 1963. Nú hefur hann verið lagður niður og verður ekki annað séð, en það sé þeim Skálholtsmönnum sem þar um véla, að meinalausu. Úr þeirri átt finnst mér Skálholtskórinn ekki hafa notið sannmælis, þvert á móti hafi verið litið á hann sem eitthvað sem þyrfti að vera fyrir hendi, en ekki væri ástæða til að hampa með nokkrum hætti. Aðstaða kórsins í Skálholti og sinnuleysi forystumannanna um velferð hans var síður en svo til fyrirmyndar og lítið gert til að láta það fólk sem þar hefur lagt fram krafta sína finna að starfið væri mikilvægt eða þakkarvert.

Aðdragandi að þessum starfslokasamningi hefur ekki verið sársaukalaus fyrir þá sem að koma eins og flestir þekkja. Ekki hefur margt fallegt verið sagt eða hugsað um forystumenn á Skálholtsstað þann tíma sem þetta hefur staðið yfir. Það, að þeir koma nú og gera sómasamlegan starfslokasamning við organistann sem þeir sögðu upp störfum, finnst mér í engu bæta þeirra hlut í þessu máli.

Kirkjan gengur sködduð frá þessu borði og það verð ég að segja, að það er skoðun mín, að sú framganga sem þarna hefur verið sýnd hefur lítið með kristna trú eða siðgæði að gera.

3 ummæli:

  1. hvar segir maður sig úr þjóðkirkjunni segiru?

    SvaraEyða
  2. Bloggskapur dagsins:

    Djókar fáttum djetlagið
    djúpa þraír hvíld og frið
    kominn heim úr kanans rann:
    karl til ógnarsyfju fann

    Lagðist því á laufgan beð
    langþreytt hugðist hvíla geð
    betra eigi bar þar við:
    bara dreymdi Skálholtið.
    H.Ág.

    SvaraEyða
  3. Með Skálholtsskórinn:
    Það er algerlega grínlaust að að syngja árum og jafnvel áratugum saman við þessa eina höfuðkirkju landsins og hafa um langt skeið ekki fundið framréttar hendur til kórisns, sem virðist frá flestum öðrum stöðum hafa hlotið lof. Þetta er nánast óskiljanlegt. Ætli það sé fyrir nokkun nema hann Guð sjálfan, sem þekkir hjörtun og nýrun, að gera sér grein fyrir þvílíkri naumhyggju? Naumhyggju (eða naumhirnti) má gjarnan kalla það, er menn eru naumir í hjartanu og geta lítilli sem engri hlýju og jákvæðni komið úr þeim stað.
    Svo er hið sígilda viðhorf: þeim sem er hrósað eða gert á einhvern veg hátt undir höfði, er gert það á minn kostnað.
    Vart á kórinn sem slíkur, sem sönghópur stðarins átt neitt sökótt við staðinn, nema ef vera skyldi beiðni um betri aðstöðu. Allavega væri áhugavert að vita í hverju slíkt liggur ef því er til að dreifa.
    Við skulum þó ekki gleyma matarboði Kristins, sem vissulega sýndi ákveðinn hug (hans?) til Skálholtskórsins.

    Að segja sig úr þjóðkirkjunni? Ég held að á þeim bæ séu menn orðnir "vanir" - og teldu slíkt frá okkar hálfu einungis merki um barnaskap þeirra sem ekkert skilja - og eru kannski kverúlantar ofan í kaupið... því einhverjar AFAR veigamiklar ástæður hljóta að liggja að baki alls þess brölts sem við höfum horft á um all nokkurt skeið.
    Helga Ág.

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...