16 júlí, 2008

Af gefnu tilefni

Þetta bloggstand mitt hófst með afar laumulegum hætti einhverntíma í febrúar s.l. Ef það átti að hafa einhvern tilgang þá var hann líklegast sá helstur, að varpa myndum eða fregnum að heiman yfir heimsins höf til bræðra sem voru þá nýfluttir utan með konunum sínum. Ég hafði um það miklar efasemdir, að þetta myndi eiga sér eitthvert framhald.
Reyndin hefur orðið sú, að þetta hefur verið að vinda upp á sig frekar en hitt og ég tel mig meira en hafa staðið við það sem segir hér efst á síðunni. Í gegnum þetta ferli hef ég komist að ýmsu um það sem gengur í lesendur: sveitarstjórnarmál eru ekki inni, heimspekilegar pælingar um lífið og tilveruna ekki heldur. Það sem virðist vera að gera sig eru frásagnir af smávægilegum og ómerkilegum atvikum í lífi okkar Kvistholtshjóna - með smávægilegum tilbrigðum.
Það hefur eðlilega verið heilmikil hvatning til að halda þessu áfram, að fólk hefur skotið inn við og við smá athugasemdum við skriftirnar og það ber að þakka. Einn lesandinn hefur gengið svo langt (hefur víst ekkert annað að gera, að eigin sögn, en að sitja og þýða) að skella inn viðbrögðum í bundnu máli við nánast hverja færslu, sem hefur auðvitað veið sérlega gaman.
Ekki verður því neitað, að það er ánægjulegt þegar nýtt fólk bætist í hóp viðbragðenda, m.a. nú nýlega frá því merka landi Danmörku, ásamt nýjum Íslendingum.
Svona lagað getur aldrei orðið daglegt brauð frá minni hendi, enda hefur mér gengið illa að fá kostunaraðila til að greiða mér fyrir viðvikið. Hér hefur hinn sanni ungmennafélagsandi ráðið för og það er á þeirri forsendu sem ég hef ekki talið nauðsynlegt að fara t.d. að greina frá því þegar stjúpurnar úti í garði fóru að tína tölunni ein af annarri (keyptar í Blómavali. Bölvað, endemis innflutt drasl. VELJUM ÍSLENSKT). Ég hef kosið að setja eitthvað hér fram þegar andinn hefur blásið mér í brjóst, þegar mér hefur fundist að ég hefði eitthvað að segja og það er það sem ég ætla að reyna að halda áfram að gera enn um sinn, ef mér finnst ég hafa tilefni til, eða ekki tilefni, þörf eða ekki þörf.
ps. Hátíð hinna svörtu stakka verður að vera án höfundar þetta árið.
Tilefnið var gefið og gaman er að
geta við brugðist í snatri.

11 júlí, 2008

Frekari trjáfórnir og eldstreyktar kartöflur

"Ég veit nú ekki hvort er óhætt að hleypa þér í þetta" hljóðuðu viðbrögðin þegar ég nefndi það að það gæti verið gaman að lagfæra innganginn í Sigrúnarlund, þannig að það fagra svæði gæti nýst sem viðbót við garðinn. "Og hvað ætlarðu svosem að gera þar?" Ég sagði að væri sniðugt að setja bekk þar inn, sem síðan gæti verið skemmtilegt að setjast á í kvöldhúminu (allavega eitthvað í þá veru). Þar sem ekki komu fram frekari eða ákafari mótmæli við fyrirhuguðum aðgerðum, greip ég nýju, fínu greinaklippurnar (sem ég keypti reyndar í einhverju stuði í fyrra, en hef ekki fundið mér tíma til að nota fyrr en af þessu tilefni), og stefndi á innganginn að Sigrúnarlundi.


Til útskýringar er rétt að geta þess hver uppruni þessa lundar er og hvernig hann er skipulagður. Þannig var að gamli maðurinn var heilmikill frumkvöðull í skógrækt hér í Laugarási og það var í því samhengi sem hann sendi okkur systkinin hér út í "holt", eins og Kvistholts- og Kirkjuholtslóðirnar voru kallaðar í þá daga. Með í för var heill hellingur af furuplöntum og birki, sem plantað skyldi í kraga neðarlega í "holtinu". Þetta hefur líklega verið fyrir ríflega 40 árum. Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um áhugasemi trjáplöntunarfólksins, en þá var auðvitað ekki um neitt annað að ræða en hlýða. Nú, á hluta útplöntunarsvæðisins var dæld sem var ca 15 metrar á kant. Það varð að ráði, að frumkvæði Sigrúnar (sem er elskuleg eldri systir mín, fyrir þá sem ekki vitaog þá væntanlega á táningsaldri og orðin mikill sóldýrkandi), að planta furutrjám í útjaðri dældarinnar. Þarna hugsaði hún sér að verða sér úti um góðan stað til að liggja í sólbaði þegar trén hefðu náð nokkrum vexti.


Þennan bakgrunn lundarins virðist ekkert systkinanna kannast við nema ég, sem er harla undarlegt. Sérstaklega finnst mér merkilegt að frú Sigrún þykist ekkert kannast við málið.


Þarna var trjánum plantað og síðan liðu árin, eins og gerist. Furan náði sér afar vel á strik og nú standa furutré, sem eru 7-8 m há, umhverfis dældina og langur tími liðinn frá því frú Sigrún hafði síðast tækifæri til að liggja þarna í sólbaði. Þá var það auðvitað svo, að á þeim tíma sem trjánum var plantað tíðkaðist að planta þeim þétt, til að tryggja, að minnsta kosti einhver hluti þeirra næði þroska. Nú er svo komið að einmitt vegna þessa þéttleika eru greinar farnar að drepast neðst á trjánum og því engan veginn nema til fegurðarauka að fjarlægja þær og fá með þeim hætti miklu betri nýtingu út úr garðinum umhverfis Kvistholt (þó svo varla fari nokkur maður nokkurntíma út af pallinum stóra og fína nema til að klessa geitungabú).


Það var með allt sem að ofan er nefnt, í huga, sem ég tók á mig rögg og stefndi á Sigrúnarlund, vopnaður fyrrgreindum greinaklippum. Til þess að verkið gæti orðið fullkomnað reyndist nauðsynlegt að fjarlægja ræfilslegar trjáplöntur sem stóðu fyrir innganginum í lundinn (ég hafði ekki hátt um það við frú Dröfn, en hún gat nú alveg sagt sér það sjálf að það yrði alltaf lítilsháttar fórnarkostnaður). Þessar plöntur áttu sér hvort sem er ekki viðreisnar von þar sem þær stóðu í skugga allan sólríkan daginn í Laugarási. Að því búnu tók ég mig til og klippti og klippti (dásamandi í huganum hve góð kaup ég hefði gert þegar ég keypti kllippurnar). Þegar upp var staðið blasti við ægifagur skógarlundur, sem bíður þess að barnabörnin skottist þar um í feluleik, eltingaleik eða annars þess sem framtíðarbörn kunna að taka upp á. Hver veit líka nema þarna verði settur glæsilegur bekkur sem hægt er að sitja á í kvöldhúminu og velta fyrir sér lífinu og tilverunni.


Það er að vísu svo, að ekki treysti ég mér til að fjarlægja stóra furugrein, sem er græn í endann, frá innganginum í lundinn þar sem það hefði etv ruggað bátnum lítillega, en sá tími kemur væntanlega von bráðar, að hún hverfur(ussssh).



Það segir sig sjálft, að við aðgerðina varð til stór haugur af greinum sem nauðsynlegt var að losa sig við með einhverjum hætti. Ekki er núorðið leyfilegt að kveikja bál utandyra nema með leyfi sýslumanns, þannig að nú voru góð ráð dýr. Ég dó hinsvegar ekki ráðalaus frekar en fyrri daginn. Börnin okkar, blessuð, gáfu móður sinni forláta útiofn í fyrra, eftir að hafa setið síðsumarkvöld eitt fremur svalt, á síðasta ári, á pallinum nýja og fína. Ekki fannst tilefni til hagnýtrar notkunar ofnsins í fyrra (þó svo hann hefði verið tilkeyrður til að tryggja að hann spryngi ekki). Þarna blasti nú ofninn við mér og lausnin fundin. Í ofninn skyldu greinarnar. Þær bar ég að ofninum , hóf að klippa þær í hæfilegar lengdir og tendraði bál. Þetta gekk auðvitað afar vel og brátt skíðlogaði í ofninum. Hann var grænn að lit áður en atöfnin hófst, en fór nú smám saman að taka á sig brúnan lit. Ég velti því fyrir mér (mjög stuttlega reyndar) hvort brúni liturinn ætti að gefa til kynna að ofninn væri heitur og síðan myndi hann fá fyrri lit aftur þegar hann kólnaði. Niðurstaða mín, eftir þá örskömmu pælingu, var, að það gæti ekki verið, enda varð raunin sú að ofninn er enn brúnn.



Það var kominn feikna góður eldur í ofninn og það nálgaðist einnig kvöldmatartíma.


Þá gerðist það að frú Dröfn taldi að það gæti verið viturlegt að nýta hitaorkuna sem þarna varð til, til að baka kartöflur. Ég, í ljósi þess að hún hafði sýnt ákveðna víðsýni varðandi greinaklippingar mínar, ákvað að sýna víðsýni líka og gefa þessu séns, eins og sagt er. Það birtust því fljótlega kartöflur á álpappír á gamalli grillgrind, sem skellt var ofan á strompinn, Philippo Berio hellt yfir og hvítlauk stráð með. Það skal tekið fram, að það var skilið eftir op, þannig að strompurinn var ekki lokaður (hvað heldurðu að við séum?)


Ég varð auðvitað að halda áfram þarfaverkinu og bætti stöðugt í ofninn, sem augljóslega varð til þess að loginn varð svo mikill að hann stóð upp úr strompinum og lék um kartöflurnar. Það stefndi því í að þær yrðu eldsteiktar fremur en bakaðar. Ekki leist mér alveg á það, þannig að ég gerði stutt hlé á áfyllingunni og brátt hófu kartöflurnar að bakast á ný. Þá taldi frú Dröfn að það gæti verið sniðugt að skella lifandi greinum af loðvíði í ofninn til að það kæmi jurtakeimur af þeim (ég var nú dálítið hissa á að hún skyldi ekki gera athugasemd við, að þessar lifandi greinar skyldu hafa verið í haugnum yfirleitt, en gætti þess að hafha ekki orð á því). Greinunum var skellt í og það var eins og við manninn mælt: upp gaus mikill reykur úr strompinum þannig að nú stefndi í að kartöflurnar yrðu bakaðar, eldristaðar OG reyktar. "Nú hringir einhver í slökkviliðið!" Ég gat ekki annað en verið sammála þessari athugsemd og varð hugsað til fyrrverandi slökkviliðsstjórans, bróður míns í næsta húsi. Ekkert sírenuvæl heyrðist, reykurinn minnkaði smám saman, kartöflurnar fengu þann úrskurð, að þær væru tilbúnar.


Það var kominn kvöldmatur.

Girnilegar kartöflurnar reyndust afar gómsætar.

Kartöflur eru konungleg fæða

09 júlí, 2008

Ekkert mál ef maður hefur samhengið

Í gær fórum við í ökuferð til að viðhalda þekkingunni á nánasta umhverfi. Leiðin lá meðal annars upp að Bræðratungu og þar verð mér ljóst, sem ég reyndar vissi áður, að framundan er feikileg vegalagning yfir mýrar og móa áður en komið er að fyrirhugaðri brú yfir Hvítá. Þá hefur það lengi verið ljóst í mínum huga að, ef tilgangurinn með þessari brú er að sameina sveitarfélög þá er þetta fjarri því að vera besti staðurinn. Það kemur að því að öll sveitarfélögin í uppsveitunum verða sameinuð, en ég er þeirrar skoðunar að staðsetning brúarinnar þarna flýtir engan veginn fyrir þeirri þróun. Það var í tengslum við þetta sem ég setti þessar skrýtnu myndir hér inn. Punktarnir 7 eru að sjálfsögðu þéttbýlisstaðir í uppsveitunum.
Ég held að flestir skilji nú hvað ég er að fara - ekki fleiri orð um það.


Ef brúin nú kæmi á besta stað

08 júlí, 2008

Er hægt að finna út úr þessu?

Með þessu er það tilgangur minn að ganga nokkuð nærri þeim sem á annað borð nenna að velta þessu fyrir sér. Hér fylgja sem sagt 4 myndir og er hver um sig með 7 rauðum hringjum, en það sem greinir þá að eru mismunandi tengingar milli þeirra.
Hver er miðpunkturinn í þessu öllu saman?
Ég mun gera grein fyrir þessu innan skamms, þegar þið eruð búin að reyna að fá botn í þetta, ágætu og tryggu lesendur.




05 júlí, 2008

Sólardagur á pallinum

Dagurinn hefst upp úr 9 að morgni.
Bzzzzzzz Bzzzzzzz Bzzzzzzzzzz z z z z
Tssss TssssSSSSSssss Tssss Tsssssss

Einstaka skýhnoðri á himni. Hitinn hækkar stöðugt. Sólstólarnir bornir út. Geitungamorðið virðist ekki hafa tekist eins og stefnt var að.

Bzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz Bzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz BZZZZzzzzZZZZzzz
Tssssssssssssssssssssssssssssssss Tss Tss Tss Tss

"Nú eru þeir farnir að senda þessa litlu, eða þá að allir þessir stóru eru dauðir" segir FD þar sem hún stendur með Banabrúsann tilbúinn fyrir næstu atlögu.

Maríuerlan ber stanslaust fæðu í ungana sína að hlaðinu fyrir framan hús. Auðnutittlingar skríkja í furunni og fylla maga af lúsum. Köngulærnar spinna stöðugt nýjan vef. Líffræðingurinn fer á fætur og bætist við pallverjana sem fyrir eru. Kobbi byrjar að slá hjá nágrannanum og heldur því áfram látlaust fram eftir degi. "Maður ætti að kæra hann fyrir hávaðamengun!" Fáninn er dreginn að húni áður en næsta staða er er tekin á sólbaðsstólnum. Út er borið brauð og álegg í sólina. Snætt. Spjallað um tábrot, barneignir, kafanir á suðurhveli og eldamennsku í Flétturima. Þar sem það eru bara til tveir sólstólar þarf að bæta við einni dýnu.

Bzzzzzzzzzzzzzzzz BBxxxxxxxxxxxxx BZZZZZZZZZZZZZ
TSJH TTSSSSSSSSS Tsssssssssssssssssss #$""!)/#
"Hvert fór helvítis kvikindið?"

"Hvítflugan er víst ekki lengur bara í gróðurhúsum" Myndir teknar af maríuerlu og nokkrum blómum. Rás2 í botni til að yfirgnæfa Kobba.

Það eiga víst að vera síðdegisskúrir í uppsveitum. Den tid, den sorg. Nú skín sólin. Búið að redda hverabrauði og silungi frá kvenfélaginu til að hafa í kaffinu. Allt klárt.

Sólardagur í sveitinni eftir misheppnað geitungadráp.

Bzzzzzzzzzz Bzzzzzzzzzzzzz Bzz Bzz Bzzzzzzzzzzzzzzzzzzz
TSSSSSSSS TSSSSSSSSSSS Tsssssssssss Tsssssssssssss Ts Ts Ts Tssssss Tððððð Tðððð Piff Pifffffffffff

01 júlí, 2008

Fjöldamorð!

Mér hitnaði nokkuð í hamsi við ritun síðustu færslu og ákvað að láta slag standa; fá útrás með því að enda æviskeið ótilgreinds fjölda lífvera. Það má auðvitað deila um hvort það sem ég tók mér fyrir hendur var æskileg leið til þess arna, enda fól það í sér að ég tók töluverða áhættu.


Aðgerðin á töluvert langan aðdraganda, eða allt frá því að lífverurnar sem um ræðir hófu að valda ónæði á pallinum stóra og fína á ljúfum sólardögum fyrr í vor. Það var síðan þegar híbýli þeirra fundust uppi undir mæni, að hugsunin fór að snúast æ meir um hvaða leiðir væru færar til að binda endi á þann búskap sem þarna var á ferðinni. Ég var búinn að finna borð sem var nægilega langt til að ná alla leið upp, en vildi síður taka áhættuna af því að hitta ekki í mark með mjóum borðsendanum og eyddi því löngum tíma við að velta fyrir mér hvað ég hefði við höndina sem gæti breikkað hann og þannig tryggt það að markmiðið: að klessa heila klabbið, næðist. Það var svo í gær, þegar ég var að sinna rennuviðgerðum í um 5 metra fjarlægð, að einn íbúinn í þessum óvelkomnu híbýlum settist á öxlina á mér og lét mig vita, svo ekki varð misskilið, að nær skyldi ég ekki voga mér. Það var nákvæmlega þá sem endanlega varð ljóst hvert stefndi með líf viðkomandi.

Þegar saman komu, heitstrengingin frá í gær og skriftirnar í dag, var ekkert eftir sem gat breytt fyrirliggjandi ákvörðun. Snarlega hófst ég handa, með því að fara niður í kjallara í leit að flugnaneti, sem var fylgibúnaður golfiðkunar fyrri ára. Það fann ég auðvitað ekki enda golfsettið rækilega grafið bak við ótilgreinda búslóð. Við svo búið gafst ég ekki upp, heldur leitaði áfram og fann bráðlega rauðan poka sem notaður hafði verið undir gulrætur, meðan þær voru enn ræktaðar hér á bæ. Nú, því næst tók ég til öfluga fingravettlinga og vetrarúlpu. Þá var fatnaðurinn kominn.

Þá var næst að finna eitthvað það sem breikkað gæti borðendann, eins og áður er getið. Loks fann ég nákvæmlega það sem mig vantaði: gataplötu sem gekk af þegar sperrurnar sem halda upp þakinu á bænum voru reknar saman. Ég tók þessu næst til þrjá 1 1/2 tommu nagla ásamt hamri. Þar með var allur búnaðurinn kominn og ekkert eftir annað en festa gataplötuna á borðsendann og kenna frú Dröfn á Canon 400D, sem reyndist ekki flókið.

Þegar ég hafði fest gataplötuna á, alveg nákvæmlega eins og ég hafði hugsað mér, skellti ég mér í þann búnað sem ég hafði tekið til.


Þegar hér var komið gekk ég ákveðnum skrefum að borðinu, svona eins og lyftingamaður sem er búa undir að lyfta mestu þyngd. Borðið greip ég þessu næst báðum höndum og svipti því upp, gekk hiklaust suður fyrir hús með borðið reitt, miðaði gataplötunni á kúluna og lét vaða án þess að hugsa frekar. Það heyrðist frekar ræfilslegt brak þegar kúlan flattist út og það sitraði enginn safi í gegnum götin á plötunni, en til öryggis hélt ég spennunni all lengi og juðaði plötunni til að tryggja sem best að markmiðinu væri náð.

Þess ber að geta, að meðan á þessu stóð átti frú Dröfn að taka myndir í gríð og erg, en sökum þess hve hreint ég gekk til verks varð myndskráning þessa atburðar ekki jafn ríkuleg og maður á að venjast með nútíma myndatöku.

Það kom að því að ég létti spennunni á gataplötuna og lét loks borðið síga. það sem við blasti var klesst geitungabú, sem ekki varð betur séð en væri tómt.

Nú er bara að vona að íbúarnir, hafi þeir allir verið að heiman, hefji ekki, ævareiðir, leit að sökudólgi þegar þeir koma heim í kvöld.

MYNDIR



Óvinur er gataplata geitunga

"Það verður ljóta návælið!"

Oragnistanum var gert að tæma skrifstofuaðstöðu sína í kjallara biskupshússins fyrir lok júni. Þar sem hann hefur verið órjúfanlegur hluti af starfsemi Skálholtskórsins var ekki svo auðvelt að greina á milli hvað væri hvurs. Það varð því að ráði, að tæma kórkjallarann alfarið, þannig að nýir herrar gætu hafið störf á nýjum grunni. Hópur fyrrverandi félaga úr Skálholtskórnum sáluga, ásamt hjálparkokkum, kom þarna saman og flutti öll gögn og búnað í eigu þessara aðila upp í Aratungu, til bráðabirgða.

Hvað síðan verður veit enginn á þessari stundu, en mér fannst þetta ansi endalengur viðskilnaður, í það minnsta af minni hálfu. Mér er ekki ljóst hvernig Skálholtsmenn hyggjast fylla það skarð sem Skálholtskórinn skilur eftir sig og ég á erfitt með að ímynda mér að einhverjir þeirra sem mynduðu kjarna kórsins, snúi til baka í nýjan kór eftir allt það sem á undan er gengið.

Ég reikna með að þeir séu búnir að biðja Guð almáttugan um leiðsögn í þeim efnum.

Maður verður að reyna að sjá alla þessa hluti í víðara samhengi; hér eru menn að véla með vald sem þeim hefur verið fengið með einhverjum hætti. Það sem mennirnir gera stendur sjaldnast að eilífu. Þó við getum ekki haft áhrif á gerðir þeirra þá mun tíminn líklegast gera það.

Ég tók auðvitað myndir, etv. færri en vera skyldi vegna anna við flutningana, en þó þetta.

Gamli maðurinn minntist þess þegar hann fór til kirkju í hér í sveit (á Torfastöðum) á 4. áratug síðustu aldar um það bil, og söfnuðurinn sá um sönginn. Í því samhengi sér hann fyrir sér söng í Skálholti við brotthvarf Skálholtskórsins með þeim hætti sem fyrirsögnin segir.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...