16 júlí, 2008

Af gefnu tilefni

Þetta bloggstand mitt hófst með afar laumulegum hætti einhverntíma í febrúar s.l. Ef það átti að hafa einhvern tilgang þá var hann líklegast sá helstur, að varpa myndum eða fregnum að heiman yfir heimsins höf til bræðra sem voru þá nýfluttir utan með konunum sínum. Ég hafði um það miklar efasemdir, að þetta myndi eiga sér eitthvert framhald.
Reyndin hefur orðið sú, að þetta hefur verið að vinda upp á sig frekar en hitt og ég tel mig meira en hafa staðið við það sem segir hér efst á síðunni. Í gegnum þetta ferli hef ég komist að ýmsu um það sem gengur í lesendur: sveitarstjórnarmál eru ekki inni, heimspekilegar pælingar um lífið og tilveruna ekki heldur. Það sem virðist vera að gera sig eru frásagnir af smávægilegum og ómerkilegum atvikum í lífi okkar Kvistholtshjóna - með smávægilegum tilbrigðum.
Það hefur eðlilega verið heilmikil hvatning til að halda þessu áfram, að fólk hefur skotið inn við og við smá athugasemdum við skriftirnar og það ber að þakka. Einn lesandinn hefur gengið svo langt (hefur víst ekkert annað að gera, að eigin sögn, en að sitja og þýða) að skella inn viðbrögðum í bundnu máli við nánast hverja færslu, sem hefur auðvitað veið sérlega gaman.
Ekki verður því neitað, að það er ánægjulegt þegar nýtt fólk bætist í hóp viðbragðenda, m.a. nú nýlega frá því merka landi Danmörku, ásamt nýjum Íslendingum.
Svona lagað getur aldrei orðið daglegt brauð frá minni hendi, enda hefur mér gengið illa að fá kostunaraðila til að greiða mér fyrir viðvikið. Hér hefur hinn sanni ungmennafélagsandi ráðið för og það er á þeirri forsendu sem ég hef ekki talið nauðsynlegt að fara t.d. að greina frá því þegar stjúpurnar úti í garði fóru að tína tölunni ein af annarri (keyptar í Blómavali. Bölvað, endemis innflutt drasl. VELJUM ÍSLENSKT). Ég hef kosið að setja eitthvað hér fram þegar andinn hefur blásið mér í brjóst, þegar mér hefur fundist að ég hefði eitthvað að segja og það er það sem ég ætla að reyna að halda áfram að gera enn um sinn, ef mér finnst ég hafa tilefni til, eða ekki tilefni, þörf eða ekki þörf.
ps. Hátíð hinna svörtu stakka verður að vera án höfundar þetta árið.
Tilefnið var gefið og gaman er að
geta við brugðist í snatri.

2 ummæli:

  1. Ertu ss að hætta að blogga Hr E.A Poe? :)

    SvaraEyða
  2. "Misfeitt er oss um andann"
    Lauslega snarað úr "Homemade Theories of Personality" bls 749. útg. Bullshit Pulishers, 801 Tounges, 2008.
    ---
    Þótt bloggir þú "bara í ganni"
    ég býst við því samt að ég kanni
    skrif þín og skraf
    því skemmtun þar af
    ég margslungna fæ, þú manni!

    Um heimspeki: haltu þar striki
    og hugsað' ei um þó menn hiki...
    og skilji' ekki baun
    -það skal þeirra raun!-
    ...
    ort hér
    - í andlegu spiki.

    Híhí...

    H.Ág.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...