17 júlí, 2008

Metamorphosis


Það virðist svo sem aðra smiði betri sé ekki að finna í fjölskyldu sem kennir sig við Hveratún. Í það minnsta gerðist það öðru sinni á um það bil 20 árum að gamli unglingurinn fór þess á leit við mig að skella upp sólpalli fyrir sig. Hann hefur á því hug, í hinu sólríka þorpi, Laugarási, ÞORPINU Í SKÓGINUM, að hefja sólböð af krafti, en pallurinn hinn fyrri var orðinn frekar feyskinn or erfitt að treysta því að hann héldi (h)eldri mönnun við sólbaðsiðkanir.
Þetta gekk þannig fyrir sig, að þrýstingur þess gamla smá jókst og það varð því úr, að leiðin lá með hann í byggingavöruverslun á Selfossi til að útvega efni í pallgólf (ekki var talin þörf á að endurnýja undirstöðurnar, því eins og nærri má geta voru þær mikil eðal smíði á sinni tíð og hafa lítt látið á sjá). Í versluninni kom það í ljós að kaupandinn var ekki til í tölvukerfinu og varð af því umtalsverð móðgun, en timbrið var keypt og flutningur tryggður.
Það næsta sem gerðist var að ég (á eina rigningardegi sumarsins í Laugarási) snaraði gamla gólfinu af.


Það var síðan örskömmu síðar, eftir að hafa verið ítrekað inntur eftir því hvort ég væri ekki farinn að taka til verkfærin, að við frú Dröfn hófumst handa við að skella nýja gólfinu á pallinn undir sólríkum himni Laugaráss. Verkinu lauk á skömmum tíma og síðan hefur sá gamli setið í sólbaði. Í gær bættist við sóldýrkandinn Sigrún (en Sigrúnarlundur, áðurnefndur, er einmitt nefndur eftir henni) og við hennar komu tvöfaldaðist nýtingarstuðull pallsins umsvifalaust.

Nú sitja þau og njóta sólarinnar á listavel smíðuðum sólpalli og ég á mínum nýja fína. Allir bara kátir.

Fyrir þá sem eru sérlega áhugasamir um hvernig pallgólf eru tekin af og ný sett í staðinn, og síðan hvernig nýja pallsins er notið, þá eru myndir hér.

Þar er einnig að finna nokkrar myndir af skemmtilegum gesti í Kvistholti.


Eigi vefjast pallar fyrir Páli

3 ummæli:

  1. Sómi sýndur herramanni,
    smiðir snjallir breyta
    sæmdarpalli með sanni.
    Sómi skal hann heita.

    SvaraEyða
  2. Mikið asskodi leynir þú á þér Palli.
    Unglingurinn sýnist ánægður með pallinn. Mikið er gaman þegar unglingar á hans aldri vilja byggja upp og bæta hjá sér á meðan margir jafnaldrar eru löngu búnir að gefa allt slíkt frá sér og bara bíða.
    Kv. Aðalheiður, réttlætisforkólfur

    SvaraEyða
  3. Eigi vefjast pallar fyrir Páli
    -og prýðilega er hann farinn máli -
    Gleður líka gamla gamla sinn að vanda
    Guð, hve hann er fær til munns og handa!!!

    Bloggskapur aðdáandans
    H.Ág.

    núnú... þýða meira.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...