19 júlí, 2008

Sá rauðnösótti fékk ekki að fara með

en sá litförótti fékk sannarlega að njóta sín í hinni miklu hestaferð þar sem segja má að Benedikt og Kristín, og Ásta Rut og Sveinn mynduðu með einhverjum hætti höfuð hópsins. Að öðru leyti voru þarna með í för börn ofangreindra og gott ef ekki tilvonandi tengdabarn, amk eitt, þó svo ekki hafi ég nú séð alla nákvæmlega fyrir flugnanetum.


Hér var, sem sagt, um að ræða árlega hestaferð þessa hóps, en ekki varð annað skilið en hún hefði gengið mikið út á grillveislur og dekkuð borð á flestum áningarstöðum. Ég ætla ekki að reyna að gera grein fyrir ferðasögunni, því ég þykist viss um að Benedikt muni skella henni inn, innan skamms.


Ég var hinsvegar í hópi fólks sem fór til móts, í grennd við Steingrímsstöð í Grafningi. Ekki reyndist ferðaáætlunin fullkomin, en þar kom samt að sást til hópsins í fjarska og kennsl voru borin á trússinn. Upp úr því leið ekki á löngu áður en mótið átti sér stað í ólýsanlegu flugnageri. Ég tók mér það hlutverk að smella myndum af moldarbrúnni Bergþóru ásamt öðrum þátttakendum, ásamt að sjálfsögðu hrossum í baráttu við flugur. Megin tilgangur minn með þessari ferð var að sjálfsögðu að ná loks mynd að þeim rauðnösótta, en svo fór um það sem fór. Sá litförótti naut þess af þeim sökum að falla ekki í skuggann.


Myndir eru hér.


Hot, hot á hesti

2 ummæli:

  1. Lagboði: Sólskríkja mín situr...

    Hefur myndað hesta, menn
    og hulduvætti
    flugur, net
    og frúna' að vanda
    föðurinn - með sínum anda.

    Bloggskapur um hestaferðamyndatöku
    H.Ág.

    Epilogus:
    (Frúin dátt við flugum hló
    og fannst þær sætar.
    Strauk þeim blítt
    um bak og maga
    blessar hún þær alla daga)

    SvaraEyða
  2. Sæll Páll.

    Þetta eru mjög fínar myndir hjá þér, verst með helvítis fluguna.

    Hér kemur ferðasagan:

    Undirbúningur ferðarinnar hófst á því að járnaðir voru 25 hestar og lagt af stað frá Laugarási þann 18. júlí sl., með 29 hesta, 10 manns og 2 trússbíla. Riðið var að Votumýri á Skeiðum til Kollu frá Skálholti og Gunnars. Þaðan lá ferð okkar í gegnum Selfoss að Hjarðarbóli í Ölfusi. Til gamans má geta þess að hópurinn fékk aðstoð lögreglu við að komast yfir Ölfursárbrú. Frá Hjarðarbóli var riðið í Hveragerði þar sem Gylfi múrari kom á móti okkur. Síðan voru farnir gömlu Kambarnir upp á Hellisheiði og riðið með Hengladalsá og með Henglinum. Komum við þar að fólki sem var að "bjarga" Íslandi í tjöldum (Saving Iceland). Komum við síðan að gerspilltri náttúru með spúandi broholum. Var þetta ekki vinsælt hjá ferfætlingunum. Geymdum við hrossin í Hveradölum í góðum kofa og mannfólkið fór í höfuðborgina. Haldið var áfram daginn eftir til höfuðborgarinnar og fengum okkur pulsu í Litlu-Kaffistofunni, frekar spes. Fengum svo að geyma hrossin í gerði í Víðidalnum í Rvk hjá Hirti Bergstað. Daginn eftir lóðsaði heimamaðurinn Erlendur Óli okkur síðan yfir í Mosfellssveitina að bæ sem heitir Hrísbrú, þar geymdum við hrossin yfir nóttina og enn héltu menn til höfuðborgarinnar til hvílu. Daginn eftir var haldið heim á leið og riðið að Fellsenda, þaðan yfir Mosfellsheiði (þar hringdir þú í mig) að Jórutind og niður Jórukleif og að Nesjavöllum þar sem við gistum og fórum í frekar slepjulega heita potta. Næsta morgun var lagt af stað og riðið að Villingavatni og þaðan beint að Steingrímsstöð, þar sem við hittum ykkur. Síðan var farið beint upp fyrir Kaldárhöfða og flugan flúin og Driftin riðin að Kringlumýri þar sem við gistum. Ákveðið var að reka af stað síðasta daginn (þá teyma menn ekki) og rekið niður að Þóroddsstöðum. Þar var allt sett í taum og riðin skógræktin að Mosfelli, framhjá Seli og í Laugarás. Þar með var lokið enn einni frábærri Systraferð Vatnsleysusystra.

    Kveðja, BS

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...