20 júlí, 2008

Drepa meira

Það gætu einhverjir haldið að lífið hér í Kvistholti gangi út á að drepa lífverur í umhverfinu. Í sumar hafa það verið tré, geitungar, húsflugur og kóngulær, svo eitthvað sé nefnt. Það er hinsvegar alls ekki svo, að þetta hafi verið megin verkefni okkar, þvert á móti heyrir það til undantekninga ef slíkt gerist og er þessvegna til þess fallið að fjallað sé um það; má segja að sé nokkurs konar 'sensasjón'. Út á það ganga fréttir í nútímanum. Það nenna fáir að lesa fréttir af einhverju sem ekki felur í sér dauða, slys, gjaldþrot, skilnaði, móðganir, og því um líkt.


Þá er það efni þessa pistils: RANABJALLA(Curculionidae). Mágur minn á Sólveigarstöðum benti mér á að viðjan, sem áður hefur komið nokkuð við sögu á þessu svæði (þar sem fólk hefur orðið miður sín), væri orðin undirlögð af ranabjöllu, sem mun vera orðin landlæg hér, og sem finnst blöð viðjunnar sérstaklega lystug. Hann bætti um betur og kvaðst eiga efni sem byndi enda á líf þessara miður velkomnu gesta.

Nú kann einhver að spyrja hvort ég hafi ekki verið búinn að drepa viðjuna. Því er til að svara, að viðja er þess eðlis að hana er nánast ekki hægt að drepa og óðar en búið var að skera af henni allt laufskrúðið og stytta hana um allnokkra metra, þá fara að brjótast angar út úr henni hér og þar. Það eru sem sagt þeir angar sem eru orðnir undirlagðir af ranabjöllu.

Það var síðan í dag, að ég tók mig til og fyllti úðadæluna mína, gömlu og góðu, fyllti hana af vatni og setti síðan hæfilegt magn af viðeigandi lyfi út í. Þessu næst úðaði ég viðjuna í bak og fyrir, með eftirfarandi hugsun: 'Já, þarna hafið þið það, bölvuð kvikindin ykkar "%$!/)=&###!'


Nú bíð ég og vona að aðgerðin hafi haft tilætluð áhrif.




Ranabjalla er rúin trausti

Ranabjalla (Curculionidae)Fullorðna dýrið er svart til brúnsvart og étur blöð plantnanna. Einkennin eru þau að hún étur einungis af blaðjöðrunum á sama tíma og sniglar éta bæði innan úr blöðum og af jöðrunum. Lirfan er ofan í moldinni, kremhvít, hærð og fótalaus með ljósbrúnt höfuð. Hún étur rætur og yfirhúð af rótarhálsi. Lifir úti hér á landi.

heimild: bondi.is

4 ummæli:

  1. Ranabjöllur ræðst nú á
    reffilega pundar sá
    eitri' á Guðs dýr undarleg
    öll þau fóru' á ´himnaveg

    Bölvaði og braust um fast,
    beindi dælu, hvein og brast
    flugum í, sem fundu þar
    friðinn Guðs - til eilífðar.

    Raular tenór ljúflingslag
    lokið drápunum í dag
    hefur þessi hetjan stolt
    við heimilið, um kvist og holt.

    Þegar svefninn sígur á
    (svakalega þreytta brá)
    draumum í hann drepur enn
    dúfur, skordýr, tré - og menn?

    Bloggskapur lífhræðslunnar

    SvaraEyða
  2. Ranabjalla er rúin trausti
    við ranabjöllur fram að hausti
    berjast mun með brúsa' í hönd
    Sigurinn nær sæll er fenginn
    sjá, þá verður hérna engin
    mína að styggja mildu önd.

    Sigurbloggskapur
    (sem gleymdist í gær)

    SvaraEyða
  3. Það er greinilegt að lífræna ræktunin heyrir sögunni til

    SvaraEyða
  4. Það er nú ár og dagur þangað til viðju verður pakkað í neytendaumbúðir til sölu í Bónus. :)

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...