23 júlí, 2008

Til fortíðar

Gamli unglingurinn er búinn að hafa á því orð, nokkuð ítrekað, í sumar að það væri nú gaman að kíkja á Fljótshlíðina og það var nákvæmlega það sem gerðist í gær. Svæðið sem um ræðir er auðvitað fyrst og fremst þekkt fyrir þátttöku sína í Njáls sögu og vísa flest örnefnin á þeim slóðum með einhverjum hætti í þá sögu eins og kunnugt er. Þar söfnuðust menn einnig saman sumarkvöldin fögur í Hlíðarendakoti. Í mínum huga birtast aðallega tvær myndir þegar svæði þetta ber á góma: heimsókn að Efra-Hvoli til Ingu og Páls og trjákaupaferð að Tumastöðum.

Ferðirnar að Efra-Hvoli voru þó nokkrar, þar sem mamma og Inga (Ingunn Ósk Sigurðardóttir) voru miklar vinkonur, ólust báðar upp í Flóanum, en Inga er frá Tóftum, sem ég hef líklegast aldrei séð. Þær voru síðan saman í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað, en þar var pabbi auðvitað líka og allir vita hvernig það endaði allt saman, allavega er æviskeið húsfreyjunnar fyrrverandi á Efra-Hvoli allnokkuð samofið lífshlaupi Hveratúnshjónanna. Sá gamli hefur alltaf haldið sambandinu við Ingu, en hún er nú til heimilis í dvalarheimilinu Lundi á Hellu. Þangað var hún heimsótt í gær. Ég hafði ekki séð hana áratugum saman, en merkilegt nokk, fannst mér hún lítið hafa breyst, fyrir utan það, auðvitað að árin hafa merkt hana eins og eðlilegt má teljast.



Það má segja að gamli unglingurinn hafi verið einn helsti frumkvöðull að því að planta trjám í Laugarási. Trjáplönturnar voru að stórum hluta keyptar hjá Skógrækt ríkisins á Tumastöðum í Fljótshlíð. Umhverfið var því nokkuð kunnuglegt og Lýðveldislundurinn á sínum stað.



Nú, jæja, ferðin til fortíðar var farin í gær. Það átti að vera hálfskýjað skv spánni og því kýlt á að kikja í austurveg. Þegar fD og sá gamli voru hætt að slást um hver hvort þeirra skyldi fá að sitja aftur í, lá leiðin inn Þjórsárdal og upp undir Sultartanga, en þar er að finna brúna þá, yfir Þjórsá, sem við Benedikt dunduðum okkur við að smíða sumar eitt í byrjun 8. áratugs síðustu aldar. Voðalega fannst mér brúin nú orðin gömul, þó svo ekki hafi ég elst hætishót.

Leiðin lá síðan með Heklurótum í suðurátt, ekki í hálfskýjuðu blíðuveðri, heldur í útsýnislausri suddarigningu. Það voru uppi kenningar um að sólin hefði farið í mat og myndi birtast þegar lengra liði - sem þó gerðist ekki. Hefur líklega lagt sig eftir matinn.


Fín ferð - þrátt fyrir veðurfarið. Steikin í Árhúsum á Hellu í lok ferðar, var undragóð og þar að auki á eðlilegu verði.

Að fortíð skal hyggja er framtíð er byggð,
að fenginni reynslu kynslóða
.

2 ummæli:

  1. ...já brúarvinnan segirðu :) Maður kannast nú við það :)

    SvaraEyða
  2. '1. Ósköp var indælt að unglingurinn skyldi "vera þar líka" þ.e. á húsmæðraskólanum!
    2.Auðvitað hefur höfundur ekki elst í anda né útliti. Auðvitað ekki.
    3... að rífast um hvort fengi að sitja í aftursætinu. Samtalið glumdi í höfði mér um leið og vitneskjan um það barst mér
    4. skv. ályktunarorðrum pistilsins er vart annað að sjá en höfundur sé að fikrar sig í humátt til ykringa.

    Ógnar mér sú andans spekt
    með yrkingum - og því er tregt
    ljóð að fremja af listum.
    Reyna mun þó ætíð enn
    eins þótt flissi heldri menn
    í koti, nálægt kvistum.

    Bloggskapur samkeppnikvíðans

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...